Nú styttist í jólahátíðina og margir eru á fullu að undirbúa hátíð ljóss og friðar. Þessi hátíð er nú til dags aðallega orðin neysluhátíð þar sem gróðinn er mestur hjá búðareigendum, tónleikahöldurum og matsölustaðaeigendum.
Það er verið að reyna að selja jólin og jólaandann. Það koma alveg jól kl.18 á Aðfangadag, þótt allir fái ekki dýrustu gjafirnar, allt sé jólaskreytt, eldhúsið sé ekki hreint, þú farir ekki á Baggalútstónleika eða í jólahlaðborð á Sjálandi veitingahúsí.
Í spjalli við móðir mína um daginn, var hún að ræða það hvernig jólin komu á heimili hennar í Hafnarfirði þegar hún fann lyktina af rauðu jólaeplunum. Móðir min er fædd um miðja síðustu öld og ávextir voru ekki á borðum alla daga eins og nú til dags í þessu ríka samfélagi sem við búum í.
Þessi minning mömmu er að mínu mati, hinn eini sanni jólaandi. Á hennar heimili voru ekki miklir peningar en hún er með hlýja minningu af ilmandi eplum á jólnum. Jólaandinn er nefnilega í þessum litlu hlutum sem við fáum ekki keypt eða kosta sem minnst. Það er líka staðreynd að börnin manns munu ekki í framtíðinni ylja sér á hlýjum minningum um að hanga í rándýrum spjaldtölvum eða símum sem þau fengu í jólagjöf frá okkur foreldrunum.
Við höfum séð margar jólamyndir sem reyna að sýna okkur hvar jólaandann er að finna. Hann er ekki í ríkidæminu og það virðist oft frekar að þeir sem hafi allt eigi oft erfiðara með að ná að fanga jólaandann.
Því meira sem við reynum að ná þessum jólaanda þeim mun minni líkur er að við náum að upplifa hann. Jólaandinn er eins og allt annað sem skiptir einhverju raunverulegu máli í þessu lífi, hann verður ekki keyptur. Jólaandinn mun koma í upplifunum, stemmingu, lykt, samveru og nánd.
Góðar minningar eru þegar allt kemur til alls það dýrmætasta sem við náum að safna okkur og það sem mun ylja okkur þegar við eldumst.
Gleðileg jól kæru lesendur. Reynið að safna minningum en ekki munum um jólin.
Geir Gunnar Markússon
ritstjóri NLFÍ