Jól án streitu

Jólin eru hátíð ljós og friðar. Tíminn til þess að slaka á og njóta góðra stunda í faðmi fjölskyldunnar. Það var allaveganna hugmyndin. Staðreyndin er hins vegar að aðventan er mesti streitutími ársins þar sem fólk er að drukkna í vinnu, jólaskemmtunum, þrifum og undirbúningi og allt er þetta svo toppað með fjárhagsáhyggjum. Enda eru hjónaskilnaðir algengastir í janúar.

Hér eru því 10 góð ráð til þess að minnka streituna um jólin og gera þau að þeim góða tíma sem þau eiga að vera.

1. Grisjaðu listann Byrjaðu á því að gera lista yfir allt sem þarf að gera – líka það sem er búið. Þó það virki kannski yfirþyrmandi að hafa þetta allt niðurskrifað fyrir framan sig, þá skapar það sem yfirsýn og yfirsýn skapar ró. Byrjaðu svo á því að strika yfir allt sem þú ert búin að gera. Strikaðu svo yfir allt nema það sem þú þarft að gera. Strikaðu svo yfir allt það sem þú þyrftir að gera en skiptir samt ekki máli fyrir neinn annan en þig. Kannski er ekki svo mikið eftir þegar þú ert búin að þessu.

2. Jólin eru ekki haldin inn í skáp. Alveg satt. Þó það væri frábært að vita til þess að búið sé að fara í gegnum alla eldhússkápana og fataskápana inn í svefnherbergi, þá er það ekki þar sem þú finnur jólaandann. Slepptu því – nema „andinn“ komi yfir þig og þá verður það hreinn bónus.

3. Einfaldaðu jólabaksturinn. Jólasmákökur eru mikilvægur hluti jólanna hjá mjög mörgum. Það þarf samt ekkert að baka 16 sortir og gera allt frá grunni. Farðu út í búð og keyptu nokkrar rúllur af tilbúnu smákökudegi og skelltu á plötu og inn í ofn. Eða keyptu þær bara tilbúnar. Afgreitt.

4. Prentaðu jólakortin með mynd og texta. Þó þú hafir fengið mikið hrós fyrir handgerðu jólakortin í gegnum tíðina, þá er það bara þannig að jólakortalistinn lengist og tíminn styttist. Prentaðu bara jólakortin og myndina og síðan geturðu bætt við persónulegri kveðju þar sem þér finnst passa.

5. Ódýrari jólagjafir þurfa ekki að vera verri jólagjafir. Fjárhagsáhyggjur eru einn stærsti streituvaldurinn í kringum jólin. Það stelur gleðinni af gjöfunum að þurfa að velja á milli þess að kaupa gjafir sem maður er ánægður með en hefur ekki efni á, eða gjafir sem maður hefur efni á en er ekki ánægður með. En það eru til virkilega góðar skemmtilegar gjafir sem kosta lítið sem ekki neitt. Gefðu barnapössun, skápaþrif (munar þig engu þar sem þú strikaðir það út af jólalistanum hjá sjálfri þér), eigið handverk, eða eitthvað sem rifjar upp minningar um ykkar bestu stundir forðum daga. Þessar gjafir kosta ekki mikið en geta verið mun skemmtilegri og persónulegri en hefðbundnar keyptar jólagjafir.

6. Slepptu jólaboðinu. Í sumum fjölskyldum er það orðið þannig að sama fólkið er að hittast í þremur jólaboðum þrjá daga í röð. Það er virkilega gaman að hitta fólkið sitt á jólunum en það þarf líka að vera tími til þess að liggja bara upp í sófa í náttfötunum með konfektið og jólabókina og fara ekki neitt. Taktu af skarið og afboðaðu þig í eitthvað af þessum jólaboðum. Eða taktu þitt eigið jólaboð og flyttu það yfir á páskana. Það er einhvern veginn ekki rökrétt að öll fjölskylduboðin séu í sömu vikunni og svo ekkert næstu 51 vikuna.

7. Hættu að nöldra. Það finnst engum það skemmtilegt. Ef einhver er ekki taka hlutina eins hátíðlega og þeir ættu að gera, eru ekki að gera hlutina eins og þú vildir hafa þá eða leggja sitt af mörkum, þá er það þeirra vandamál. Dragðu andann djúpt, láttu það eiga sig og njóttu þess að bara að vera með þitt á hreinu sama hvað hinir gera. Jólin eru Pollýönnu-tími, ekki uppeldistími.

8. Lýsingin er lykillinn. Það þarf ekki að setja upp allt jólaskrautið og þrífa allt hátt og lágt. Lykill að jólastemningunni er að slökkva bara jólaljósin og kveikja á kertum og jólaseríum. Þá sérðu hvorki draslið né skítinn og það skapast rómantísk jólastemning.

9. Undirbúðu jólamatinn fyrirfram. Margt sem tilheyrir jólamáltíðinni er hægt að undirbúa fyrir fram, s.s. að útbúa sósuna, forréttinn eða meðlætið. Þannig geturðu minnkað stressið síðustu stundirnar fyrir jól þegar þú veist að allt er tilbúið og þarf bara rétt að hita upp sósuna.

10. Dragðu andann djúpt og njóttu stundarinnar. Dekraðu aðeins við þig, fáðu þér malt og appelsín, verðlaunaðu þig með konfektmolum og farðu og hlustaðu á góða jólatónleika. Desember er til þess að njóta þannig að tökum okkur tíma til þess að gera einmitt það. Við óskum ykkur öllum gleðilegra og friðsælla jóla.

Gleðileg jól!

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi