Jákvæðir og neikvæðir menn

Til eru jákvæðir uppbyggingamenn og hins vegar neikvæðir niðurrifsmenn. Náttúrulækningastefnan er jákvæð uppbyggingastefna mannkyninu til velferlis. Hún stefnir á æðri leiðir heilbrigði og fullkomnunar. Hún er hvorttveggja í senn andlegs og efnislegs eðlis til vaxandi þroska og fullkomnunar mannkyninu. Náttúrulækningastefnan er leiðin til fullkomnari heilbrigði og batnandi. Hún er eldri en kristindómurinn og stefnir í sömu átt. Endurbótastefna til fræðslu og fullkomnunar til þess að gera mannlífið betra og sælla. Höfundur hennar hér í Evrópu var Pythagoras, hinn gríski heimspekingur, kennari Sókratesar og Platós og Hippókratesar, sem kallaður hefur verið faðir læknisfræðinnar. Lærdómsstefna hans var uppbyggingastefna. Hún miðaði að því að kenna mönnum að vera jákvæðir uppbyggingamenn í hugsun og starfi. Ef ég ætti að nefna einn nútíðarmann, sem hafi stefnt að þessu marki, mundi ég nefna mann eins og Einar Jónsson myndhöggvara, sem fyrirmynd þeirra manna, sem hafa jákvæðar lífsskoðanir. Þessi ágæti maður lifir áfram í verkum sínum, þótt hann sé horfinn bak við tjaldið. Hann var hinn sanni jákvæði uppbyggingamaður, sem kalla mætti réttu nafni guðmenni, einn þeirra manna, sem beztir og sannastir hafa verið. Stefnan í öllum listaverkum hans er „Hærra minn Guð til þín„. Slíkur maður var Einar Jónsson. Hann var sönn fyrirmynd. Ég hefi enga betri ósk þjóð minni til handa, en að hún mætti eignast marga slíka menn sem Einar Jónsson. Jákvæða menn í bezta skilningi þess orðs. Öll verk hans stefna að því marki að fegra og fullkomna mannlífið, lyfta því á hærra stig fegurðar og göfgi. Þetta kemur meðal annars greinilega fram í Kristmyndum hans. Síðasta starf hans var ný Kristmynd. Hann vann að henni allt fram undir andlátið, þótt veikur væri. Ég sá hann nokkrum dögum áður en hann dó, þar sem hann sat hugfanginn við það starf. Ég minnist Einars Jónssonar ætíð, er ég heyri góðs og göfugs manns getið.

Því miður eru til margir niðurrifsmenn, neikvæðir menn, sem draga hið góða og sanna í mannlífinu niður í sorpið. Slík neikvæð rödd kom fram í útvarpinu nýlega. Rödd manns, sem ekki hefur skilið rétt markmið Náttúrulækningafélagsins. Ég óska og vona, að slíkar raddir verði sem fæstar. Ég hef orðið þeirra manna var, sem vilja spilla fyrir, að hæli vort komist á fót. Þetta kalla ég vanhugsað verk að skemma fyrir uppbyggjandi starfi. Ég lít svo á, að okkur beri að reyna að skilja mannlífið og endurbæta það, gera það fegurra og hreinna og leggja okkur af einlægni fram til að útrýma sjúkdómum og því böli og þjáningum sem þeim er samfara. Náttúrulækningastefnan er leið að því marki. Það er leikum og lærðum að verða ljósara með hverju ári sem líður, ekki sízt manneldisfræðingum.

Sannarlega er þjóð vor á hættulegri braut með vaxandi krankleika, þar sem þeim fjölgar sem sjúkir verða, en hinum fækkar, sem segja má um, að séu andlega og líkamlega heilbrigðir. Ég hefi á minni læknisævi, sem lítið vantar á að séu 60 ár, orðið sjónarvottur að því, að upp hafi komið nýir og áður óþekktir sjúkdómar og bætzt í hóp þeirra, sem áður voru fyrir. Meðal þeirra vil ég nefna sykursýkina. Talið er, að hún hafi vaxið á síðustu hálfri öld um ekki minna en 1800%. Slíka sjúkdóma má nefna marga, er áður voru fátíðir, en rangar lífsvenjur liðinna áratuga hafa ýtt undir vöxt þeirra, svo að þeir eru orðnir daglegir viðburðir. Má sem slíka nefna tannveikina, magasárin og botnlangaveikina.

Aldrei hefur hinni íslenzku þjóð verið meiri þörf manna með jákvæða lífsstefnu og sem með endurbættum lífsvenjum lyfta þjóðinni á hærra stig heilbrigði og hamingju. Náttúrulækningastefnan er fyrst og fremst uppbyggingastarf. Hún elur upp og ræktar þá menn, sem taka virkan þátt í þeirri lífsstefnu, sem Alexis Carrel kallaði „Remaking of the man„, sem þýðir endursköpun mannlífsins til fullkominnar heilbrigði og náttúrlegrar framþróunar. Svipað og átti sér stað víðast hvar, áður en háþróuð iðnmenning kom til sögunnar. Vér verðum að gæta þess, að vaxandi sjúkdómar eru nokkurs konar S.O.S., það er að segja kall um hjálp og björgun, þegar lífsfleyið er að sökkva. Vér þurfum ekki langt að fara til þess að sjá, að vér erum á hættulegri leið. Vaxandi sjúkdómamergð og fjölgandi sjúklingar benda á, að eitthvað meira en lítið er bogið við daglegar lífsvenjur vorar. Þessu verður ekki afstýrt og fullkomin heilbrigði ekki leidd í garð, nema hver maður, karl og kona, skipi sér undir merki þeirra manna, sem leggja virkan hug og hönd á að skapa þjóð jákvæðra manna, með heilbrigða sál í heilbrigðum líkama.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing