„Það er innviðaskuld víða í heilbrigðiskerfinu, í húsnæði og viðhaldi þess, í mönnum og tækjabúnaði, rafrænum kerfum og í stjórnsýslu. Endurhæfing er hér ekki undanskilin,” sagði Alma Möller heilbrigðisráðherra við opnun heilbrigðisþings í morgun. Á vef Morgunblaðsins kemur fram að Alma hafi bent á að rótgrónar endurhæfingarstöðvar ættu í vanda með húsnæði vegna mikils endurnýjunar- og viðhaldsskuldar.
„Þeir sem byggðu upp þjónustu fyrir aldraða á síðustu öld án aðkomu ríkisins gátu sótt í framkvæmdasjóð aldraðra fyrir endurbótum en sama gilti ekki um endurhæfingarstofnanir. Við bætist að í lögum um heilbrigðisþjónustu er ekki fjallað með neinum hætti um hvernig skal standa að uppbyggingu á aðstöðu undir endurhæfingarstarfsemi og ekki liggja fyrir nein viðmið er varðar húsnæði slíkra stofnana.”
Á mbl.is er haft eftir Ölmu að heilbrigðiskerfið standi frammi fyrir ört stækkandi hópum sem þurfi endurhæfingu vegna öldrunar og lífstílssjúkdóma. Þess vegna sé hún að láta vinna hvítbók til að efla og skýra kaup hins opinbera á endurhæfingarþjónustu. „Það er verk að vinna við að móta skýra stefnu og framtíðarsýn um endurhæfingu á Íslandi.“
Í umræðum á Alþingi 22. september sagði Alma Möller heilbrigðisráðherra að ljóst væri að Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands hefði ekki fengið greitt eins og vera bæri. „Ég tek undir að endurhæfing er gríðarlega mikilvæg. Sjúkratryggingar hafa það hlutverk annars vegar að sjá til þess að við öll fáum þá þjónustu sem við eigum rétt á en líka að gæta hagsmuna skattgreiðenda. Eins og ég segi þá er unnið að því að fara yfir málin. Þetta er tiltölulega nýkomið upp með NLFÍ. Þeir hafa ekki fengið greitt eins og þeir ættu að fá.“
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins og 2. þingmaður Suðurkjördæmis sagði í sömu umræðu að það væri kostnaðarsamt að gera ekki neitt. Endurhæfing skilaði fólki hraðar aftur til vinnu, drægi úr veikindakostnaði og létti á bráðaþjónustu. „Sjúkratryggingar hafa bent á að greiðslur standi ekki undir raunkostnaði en samt er haldið í ástand þar sem þjónustan hangir á bláþræði. Þess vegna spyr ég ráðherra aftur: Ætlar ráðherra að axla forystu og snúa þessum ráðahag við með skýrri ákvörðun um vernd endurhæfingar og stuðnings, þar á meðal Ljóssins og Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði? Eða er afstaða ríkisstjórnarinnar sú að láta sjúklinga, fjölskyldur og vinnumarkaðinn greiða reikninginn fyrir forgangsröðun sem einfaldlega stenst enga skoðun?“