Í heimsókn hjá dönskum kvenlækni

Er ég hafði lokið erindum mínum í Stokkhólmi, en þau voru að kynnast hinni stórmerkilegu Waerlandshreyfingu, hélt ég til Danmerkur. Aðalerindið þangað var að heimsækja dr. Kirstine Nolfi í hinu nýja heilsuhæli hennar Humlegaarden.

Krabbamein læknað með mataræði

Einn vina minna, Björn kaupmaður Kristjánsson frá Sauðárkróki, hinn fyrsti hvatamaður að stofnun Náttúrulækningafélags Íslands, hafði fært mér, auk fleiri bóka, lítið kver eftir dr. Kirstine Nolfi um „þýðingu náttúrlegrar hráfæðu fyrir heilbrigða og sjúka“. Ég las kver þetta þegar í stað og þótti það harla merkilegt. Höfundurinn, sem er danskur kvenlæknir, segir þar frá því, að henni hafi tekizt að lækna sjálfa sig af krabbameini í brjósti með því að lifa eingöngu á náttúrlegri hráfæðu, aðallega úr jurtaríkinu, auk mjólkur og eggja. Þetta voru mikil tíðindi og algerð nýjung, því að háskólalæknisfræðin og læknar almennt þekkja engin önnur ráð við krabbameini en hnífinn, radíum og röntgengeisla, sem gefa lélegan árangur, og þeir viðurkenna ekki, eða neita því jafnvel ákveðið, að krabbamein standi í nokkru sambandi við mataræðið. Svo að segja allar rannsóknir háskólalæknisfræðinnar hafa snúizt um það að finna einhverja bakteríu eða huldusýkil (vírus), sem orsaki sjúkdóminn, rannsaka efnabreytingar í hinum sjúku vefjum, reyna að finna meðul til að eyða æxlunum o.s.frv. Við þetta hafa hundruð og þúsundir lækna og vísindamanna unnið áratugum saman og varið til þess milljónum og aftur milljónum króna, án þess að menn séu fyrir það nokkru nær um orsakir krabbameinsins, vörn gegn því eða lækningu á því. Og svo skyldi það koma upp úr kafinu, að hægt sé að lækna það með ekki flóknari ráðum en þeim að breyta um mataræði og lifnaðarhætti, og fyrirbyggja það á sama hátt.

Undirtektir lækna

Í kveri sínu segir dr. Nolfi sögu baráttu sinnar við heilsuleysi og síðast við krabbameinið. Frásögn hennar er birt í þýðingu annarsstaðar í heftinu. Sumir kynnu að vilja efast um, að um krabbameinsæxli hafi verið að ræða, en eftir allri lýsingunni að dæma tel ég það ekki geta orkað tvímælis.

Saga dr. Nolfi er ekki aðeins merkileg fyrir þann sigur, sem hún vinnur á erkióvini mannkynsins, krabbameininu, og þá allsherjar heilsubót, sem hún hlýtur jafnframt. Hún er ekki síður eftirtektarverð fyrir það, hverjar undirtektir hún fær hjá stéttarbræðrum sínum, dönsku læknunum. Þeir skella ekki einasta skollaeyrunum við sögu hennar, heldur meina þeir henni blátt áfram að skýra frá þessari lækningu á læknafundum og í málgagni lækna. Og nú síðast er hún ofsótt fyrir það, að sjúklingur með sykursýki, sem enginn læknir hugði líf en dr. Nolfi tók við nauðug fyrir þrábeiðni, andaðist í sjúkrahúsi eftir skamma dvöl í heilsuhæli hennar.

Ég hefi alltaf talið víst, að hver maður mundi gleðjast yfir því, ef einhverjum tækist að brjóta á bak aftur vald hins ægilega óvinar, krabbameinsins. Og læknar ættu manna fyrstir að fagna slíkum fréttum. Ég hefi sem læknir svo oft orðið var þeirrar skelfingar, sem grípur fólk, er það óttast eða þykist sannfært um, að krabbamein hafi tekið sér bólfestu í líkama þess.

Orsakir krabbameins

Og ég hefi fyrir löngu þótzt hafa fengið vissu fyrir því, að ónáttúrleg og dauð fæða, svo sem hvítur hveitisalli, hvítur sykur, hvíthefluð hrísgrjón, sælgæti og kökur, ásamt kaffi, tóbaki, áfengi og öðrum nautnavörum, mundu eiga mestan þátt í myndun krabbameinsins, meðal annars vegna þess, að hinar fínu og úrgangslausu fæðutegundir valda kyrrstöðu í þörmum og þar af leiðandi rotnun, sem framleiðir eiturefni, er berast inn í blóðið. Ég hefi því um tugi ára varað við neyzlu hinna ónáttúrlegu og dauðu fæðutegunda. Saga dr. Nolfi og frásögnin af því, hvernig heilsu hennar hrakaði og æxlið stækkaði á ný, er hún hvarf aftur til síns fyrra mataræðis, staðfesti þann grun minn, að röng fæða væri meginorsök eða ein aðalorsök krabbameins og annarra sjúkdóma. Má því geta nærri, að ég hafði ekki litla löngun til að heimsækja þessa dönsku stéttarsystur mína.

Nolfi-hjónin

Dr. Kirstine Nolfi hafði sagt mér til vegar, svo að ekki var um að villast. Ég fór með járnbraut frá Kaupmannahöfn til Humlebæk, þaðan norður Strandvejen 15-20 mínútna gang. Þar er hlið til hægri, rauðmálað, með áletruninni Humlegaarden.

Ég hitti herra Nolfi í húsagarðinum, og tók hann mér ástúðlega. Hann er dálítið fatlaður vegna einskonar misvaxtar í beinum frá því er hann var ungur. Þetta er gáfað göfugmenni og eins og lýsandi geisli á hinu fjölmenna heimili, þar sem hann er hvers manns hugljúfi.

Mér var þegar vísað inn í viðtalsherbergi frú Nolfi. Ég vissi, að frúin var komin á sjötugsaldur, en svo var ekki að sjá. Hún var rjóð í kinnum, kvik og létt á fæti með glampandi líf og fjör í augum og svipbrigðum. Hún bar þess engin merki, að skæðasti óvinur lífsins, krabbameinið, hefði barið þar að dyrum.

Tal okkar barst þegar að bókum hennar, er höfðu vakið forvitni mína líkt og bækur Waerlands. Hún hafði ekki látið fálæti hinna lærðu stéttarbræðra sinna draga úr sér kjarkinn. Kver hennar, sem ég gat um áðan, seldist upp á fáum dögum, og síðan ritaði hún aðra stærri bók, „Levende Föde“ (Lifandi fæða), sem nýlega er komin út í endurbættri útgáfu. Hún er þess fullviss, að hægt sé að koma í veg fyrir krabbamein og aðra menningarsjúkdóma með réttum lifnaðarháttum, og henni er það ljóst, að fyrsta sporið í þá átt er aukin þekking alþýðu manna. Hún lætur því einskis ófreistað til að útbreiða þessar skoðanir, og hefir m.a. farið fyrirlestraferðir til Svíþjóðar og Noregs.

Heilsuhæli dr. Nolfi í Humlegaarden getur tekið 35 gesti og er alltaf fullskipað. Þau hjónin keyptu þennan stað, sem líktist gömlu prestssetri. Þau endurbættu og juku húsakynnin, byggðu m.a. nokkur sólskýli, sem eru kennd við merka manneldisfræðinga og lækna, svo sem Hindhede, Arbuthnot Lane, Kellogg, Alexis Carrell, Are Waerland og Bircher-Benner, og merkt nöfnum þeirra.

Landareignin er ekki stór, landið skógi vaxið og skjólgott, ekki steinsnar út að hinu fagra og slétta Eyrarsundi. Er þar hinn ákjósanlegasti sjóbaðstaður, með lítilli bryggju. Dr. Nolfi tók það fram, að Humlegaarden væri enginn „lúxus“staður fyrir fínt fólk, sem þyrfti að hafa þjón á hverjum fingri. Reynsla væri fengin fyrir því, að í hælum yfirleitt batnaði því fólki fyrr, sem minnst væri dekrað við og þyrfti að þjóna sér sjálft, og þetta væri einnig reynsla sín.

Eflaust er þetta eitt hið ódýrasta heilsuhæli, sem til er, enda ekki stofnað í gróðaskyni. Daggjaldið er einar 8 krónur danskar fyrir fæði, húsnæði og læknishjálp. Flestir sjúklingarnir hafa fótavist, og allmargir hafa með sér rúmföt. Þeir hirða sjálfir um föt sín, búa um rúm sín og þvo jafnvel gólf hver í sínu herbergi. Þarna var þó fólk af öllum stéttum, að mér virtist, m.a. greifafrú ein, prúð og látlaus kona.

Ég var gestur þeirra hjóna vikutíma og kunni við mig hvern dag öðrum betur. Hefir mér varla liðið betur annarstaðar. Allt er svo óþvingað og blátt áfram. Húsbændur og læknir kunnu tökin á meðferð gesta og sjúklinga.

Mataræði

Máltíðir voru kl. 9-10 að morgni, kl. 1 e.h. og kl. 8 að kvöldi. Á borðum var aðeins náttúrleg og ósoðin fæða, ekkert eldborið, jafnvel ekki brauð eða soðnar kartöflur. Helztu fæðutegundir voru: Salat, kál og allskonar grænmeti, hráar kartöflur, rófur, gulrætur, rauðrófur og aðrir rótarávextir, epli o.fl. nýir ávextir, nýmalaður rúgur og heilhveiti, spíraðar baunir, spírað korn (rúgur, hveiti, bygg, hafrar), laukur, ný fjósamjólk og egg.

Ég hafði áður reynt allan þennan mat, nema hráar kartöflur, og var ekki laust við, að ég kviði fyrir þeim. En ég vandist þeim fljótt, eins og dr. Nolfi hafði spáð mér. Þegar svalt var í veðri, hefði ég heldur kosið volga mjólk og hafði orð á því við dr. Nolfi, að ef vetur væri, mundi mér þykja ónotalegt að drekka kalda mjólk að morgni og fá af því hvíta fingur. Sagði dr. Nolfi, að ekkert væri á móti því að verma mjólkina, en það yrði að gera í vatnsbaði með líkamshita en ekki við eldhita, sem mundi skemma hana.

Dægrastyttingar

Dr. Nolfi sefur undir beru lofti vetur og sumar, úti á yfirbyggðri verönd, enda er þarna skjólgott og góðviðrasamt. Fósturdóttir hjónanna, Oddný að nafni, prýðisstúlka af íslenzkum ættum, annast um hús- og hælisstjórn með fósturmóður sinni af hinum mesta skörungsskap, og hefir eftirlit með útileikfimi og sjóböðum. Flesta daga, þegar gott var veður, tóku gestir sér ferðir út um byggðina, annaðhvort gangandi eða akandi. En umhverfið er hið fegursta og vegir góðir.

Eitt kvöldið fórum við til Krónborgar, þar sem norskur leikflokkur lék harmleikinn Hamlet eftir Shakespeare undir beru lofti. Var fremur svalt þetta kvöld, en ég held, að fæstir hafi fundið til svalans, vegna þess hve vel menn fylgdust með leiknum, enda var leikið með afbrigðum vel.

Annaðhvert kvöld komu húsbændur og gestir saman í stórri gestastofu. Var þar sungið, lesið upp og ræður fluttar um ýms mál. Flutti ég þar að beiðni dr. Nolfi þrjú stutt erindi um Ísland, um háttu Íslendinga, mataræði, heilbrigði og sjúkdóma. Ég varð ekki annars var en hlýleika í garð Íslendinga þar og annarstaðar, er ég kom.

Lifandi fæða

Ég átti daglega viðræður við dr. Nolfi. Barst talið eitt sinn að því, hvort henni hefði ekki fallið illa undirtektir læknastéttarinnar dönsku. Hún kvað svo hafa verið í fyrstu, en nú stæði sér alveg á sama um títuprjónastungur þeirra. Hún kvaðst forðast harðar og fjandsamlegar deilur, að þeim væri enginn ávinningur.

Dr. Nolfi leggur alveg sérstaka áherzlu á það, að fæðan sé lifandi og engu svipt af sínum góðu og náttúrlegu kostum. Þessvegna sést þar aldrei á borðum nein munaðarvara eða tízkumatur, svo sem hvítt brauð eða hvítur sykur eða fínir og gómsætir réttir. Einu sætindin er hunang, sem notað er til smekkbætis.

Dr. Nolfi er ströng í kröfum sínum um að borða aðeins náttúrlega og lifandi fæðu. Hún telur, að maðurinn hafi lengst af verið hráæta og jurtaæta. En því meir sem menn neyti af gervifæðu og soðinni fæðu, þeim mun kvillasamari verði þeir og móttækilegri fyrir allskonar næma og ónæma sjúkdóma. Og yfirleitt séu sjúkdómar ekki annað en bein afleiðing af því að brjóta það lögmál, sem lífinu er áskapað. Eins og dr. Bircher-Benner, heldur dr. Nolfi því fram, að hitaeiningamæling fæðunnar sé rangur mælikvarði á gildi hennar. Hinn rétti mælikvarði sé sólarorka eða ljóseiningar, ef hægt væri að ákveða þær. Og það er sólarorkan eða lífgildi fæðunnar en ekki hitaeiningafjöldinn, sem ræður mestu um fæðuþörfina.

Þeir sem borða hráfæðu, komast af með miklu minni mat og færri hitaeiningar, vegna þess að hún hefir meira næringargildi. Hrá fæða meltist fljótar en soðin, öfugt við það, sem almennt er haldið. Meltingarfærunum verður síður ofboðið með of miklum og tormeltanlegum mat, blóð og vökvar líkamans verða hreinni. Suðan drepur fínustu og viðkvæmustu eiginleika fæðunnar, rýrir lífgildi hennar og sólarorku, þótt hitaeiningafjöldinn haldist óbreyttur. Lifandi fæða er lífi og heilsu hin fyrsta og veigamesta nauðsyn.

Humlegaarden er hið friðsælasta heimili, þar sem allir eru samtaka, Nolfihjónin, fósturdóttirin og gestirnir. Ég átti daglega tal við gestina. Voru þeir hinir ánægðustu með vistina. Þeim var léttara um hugsun og hreyfingar en áður. Margir sögðu við mig, að þeir væru eins og nýir menn, sælli og betur á sig komnir. En mesta ánægju hafði ég af viðræðunum við dr. Nolfi sjálfa. Skoðanir okkar um heilbrigði og sjúkdóma fóru saman í flestum atriðum.

Fagnaðarboðskapur

Are Waerland og dr. Nolfi eru afreksmenn. Þau hafa farið nýjar leiðir í rannsóknum sínum og heilsubótaraðferðum, ráðizt að orsökum sjúkdómanna í stað þess að fást við afleiðingarnar, sjúkdómseinkennin. Þannig hefir þeim tekizt að ráða bót á mörgum hinna alvarlegustu kvilla, og þau benda á einföld ráð til að útrýma þeim með öllu.

Ég lít á þetta sem hreinan fagnaðarboðskap. Og læknar eða aðrir, sem snúast gegn þessum gleðiboðskap, þeim svipar til nátttröllanna, sem urðu að steinum, er sólin kom upp. Lifandi trú og lifandi fæða hindra steinrunann. Ég óska þeim Waerland og frú Nolfi til hamingju með starf þeirra. Að baki hinna miklu sigra, sem Waerland hefir unnið í baráttu sinni við sjúkdómana og skilningsleysið á eðli þeirra, liggur 50 ára látlaust starf og strit, nám, lestur og rannsóknir. Og það að standa sjálf andspænis dauðanum hefir hert stálið í frú Nolfi. Ég kann þessum brautryðjendum þakkir fyrir starf þeirra í þágu mannkynsins og fyrir allt það, sem ég hefi af þeim lært, svo og mannkærleika þeirra, hlýleik þeirra, velvild og gestrisni í minn garð. Þótt eitthvað beri á milli í skoðunum þeirra um einstök atriði, skiptir það litlu máli, þar sem skoðanir þeirra fara saman í grundvallaratriðunum. Og þar eru þau innilega sammála um þær leiðir, sem fara ber til þess að bjarga mannkyninu úr klóm þeirrar hrörnunar, sem yfir því vofir.

Heimförin

Frá Danmörku lagði ég leið mína til Englands og kom þaðan með togara til Reykjavíkur hinn 26. júní.

Í Englandi var um mörg ár starfandi einskonar náttúrulækningafélag, „New Health Society“, sem var stofnað af hinum þekkta skurðlækni Sir Arbuthnot Lane. Hann er dáinn fyrir þremur árum í hárri elli, og virðist félagið hafa dáið út með honum. En nú er risið upp nýtt félag, sem kallar sig „British Health Freedom Society“ og starfar á sama grundvelli og að sama markmiði. Í boði þessa félags hefir Are Waerland dvalið í Englandi í vetur og flutt fyrirlestra víðsvegar um landið. Hefir honum hvarvetna verið tekið með kostum og kynjum og fyrirlestrar hans vakið geysimikla athygli og hrifningu.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi