Hvort kynið er hið veikara?

Líkamsburðir og þol Sandvína, sem sýnir krafta sína í hringleikahúsi, var kvöld eitt á göngu í dýragarðinum í Berlín, þegar maður nokkur ávarpaði hana laumulega og með dónalegum tilburðum. Hún bað hann að láta af þessu, en þegar hann hélt uppteknum hætti, nam hún staðar og gaf honum svo vel útilátinn löðrung að hann þeyttist yfir gangstéttina og gegnum stóran sýningarglugga og hafnaði að lokum með andlitið niðri í rjómatertu. Eftir þvílíka meðferð mátti honum vera ljóst, að hann tilheyrði veikara kyninu.

Líklega verða konur ekki almennt jafningjar karla að vöðvaafli og líkamsburðum. En vísindamenn halda því fram, að ein af hverjum 160 konum sé jafnoki meðalmanns að kröftum, og fáeinar eru miklu sterkari, eins og t.d. Sandvína. Líkamsæfingar og skynsamlegur klæðnaður hafa áorkað miklu fyrir konur í svokallaðri kvenréttindabaráttu og gera að engu þá kenningu, að karlar séu hið æðra kyn. Karlmaður sem kemur heim frá því sem hann kallar erfiðisvinnu og segir í lítillækkandi tón: „Hvernig hefir svo litlu konunni minni gengið í dag með litlu húsverkin sín„ gerir sér ekki grein fyrir því, að venjuleg húsmóðir gengur um 20 km á dag við skyldustörf sín. Og ættu karlmenn að vinna húsverkin gerðu þeir vafalaust verkfall.

Margar villandi hugmyndir eru á kreiki um styrkleikamismun kynjanna. En staðreyndin er sú, að þau bæta hvort annað upp, hvorugt er hinu æðra. Í eina tíð var álitið, að konur væru taugaveiklaðri en karlar. En í loftárásunum í London sannaðist að svo var ekki, því karlmenn fengu 70% oftar taugaáfall en konur. Í Þýskalandi kom það í ljós á stríðsárunum, að á erfiðum örlagastundum virtust konur miklu síður missa stjórn á sér en karlar.

Karlmenn eru að meðaltali mun sterkbyggðari en konur; en þær eru betur verndaðar gegn taugaáföllum og sjúkdómum, og sem sjúklingar sýna konur ólíkt meira jafnaðargeð. Karlmenn gera ógnar veður út af lasleika sínum, og í barnæsku bíða þeir oftar lægri hlut vegna líkamlegra erfðagalla. Þriðjungi fleiri drengir en stúlkur fæðast blindir, en átta sinnum fleiri eru litblindir. Stúlkubörn fæðast að jafnaði fimm tíl tíu dögum fyrr en drengir, taka fyrr tennur, fara fyrr að ganga, og allt fram að táningsaldri eru þær sterkari, ötulli og greindari. Bein þeirra harðna fyrr, hjartslátturinn er hraðari, þær eru viðkvæmari og tilfinninganæmari og ná fyrr fullum þroska.

Konum fellur vel að liggja lengi frameftir í rúminu á morgnana; þær þurfa minna að borða, og þær þola betur kulda að vetrinum og sumarhita vegna þess að þær hafa þykkra einangrandi fitulag undir húðinni, og skjaldkirtillinn er stærri og afkastameiri en hjá körlum. Enda þótt karlar hafi stærri vöðva en konur, valdi þyngri byrði og geti greitt þyngri högg eru þeir viðkvæmari innvortis og hafa minna mótstöðuafl gegn sjúkdómum.

Það er ofurlítið af karleðli í hverri konu, og öfugt. En þegar hlutföllin raskast um of verða karlar kvenlegir, en konur grófgerðar og hryssingslegar. Enginn skyldi draga dár að slíku fólki, því að það eru innkirtlarnir sem þessu valda. Rannsóknir á „kveneðli„ tuttugu þúsund drengja í Edinborg leiddu í ljós, að hjá 900 þessara drengja fundust kvenlegar líkamsfrumur. Í sýnishornum sem tekin voru úr munnvatni þeirra og rannsökuð í smásjá, fannst svokallað „krómatín„, sem einvörðungu er að finna í líkama kvenna. Þessi rannsókn leiddi í ljós, að einn af hverjum fimm karlmönnum í Bretlandi hefir sterk kvenleg einkenni.

Það er ekki á allra vitorði, að ungbarnadauði og dánartala barna sem fæðast fyrir tímann er 25% meiri hjá sveinbörnum en stúlkubörnum. Og meðalaldur karla er fimm árum lægri en kvenna. Konur falla oftar í ómegin en karlar. Þær hafa færri rauð blóðkorn, en það eru þau sem halda líkamsþrekinu í horfinu. Þær þreytast fyrr en karlar, en eru eigi að síður þolnari við vinnu sína. Konuhjartað slær líka átta til tíu sinnum oftar á mínútu, þótt þar séu margar undantekningar.

Í Rússlandi, þar sem konur hafa sömu aðstöðu og karlar til menntunar og starfa, eru 70% lækna konur, 66% starfsmanna í samgöngumálum, 72% kennara, 73% starfsmanna í verslun og 85% heilbrigðisstarfsmanna. Og því ekki það?

Samt sem áður er það í íþróttum sem konur hafa stigið stærstu skrefin, enda þótt þær hafi ekki byrjað að stunda íþróttir fyrr en á þessari öld. Í sundi gætu þær t.d. átt eftir að ná algerum yfirburðum. Árið 1974 setti 16 ára gömul skólastúlka nýtt met í 100 metra sundi, en 14 ára stúlka synti yfir Ermarsund árið 1964. Karlamet slá konur nálega á hverju ári, í hlaupi, hástökki og ýmsum fleiri íþróttum. Árið 1964 spurði stúlkan Dale Greig þá sem stóðu fyrir maraþonhlaupunum hvort hún mætti keppa með körlum. Ritari keppninnar hló lítillækkandi hlátri og svaraði: „Já, og ef þú vilt gefum við þér fjögra mínútna forskot„. Hann gaf svo fyrirmæli um, að sjúkrabíll væri til taks ef hún gæfist upp. Öllum til undrunar hljóp hún uppi hvern hlauparann af öðrum, og þótt hún sigraði ekki í hlaupinu rann hún skeiðið á enda. Á eftir sagði hún um líðan sína, að hún væri ágæt, en hún vorkenndi mikið karlmönnunum sem hún hljóp fram úr, því að þeir hefðu verið svo kindarlegir á svipinn. Og í nýlegri keppni fyrir fatlað fólk voru það þrjár stúlkur, sem komu fyrstar í mark. Linda Goodwill vann sér inn 748 punda verðlaun. Karlar halda sig fremri konum í golfíþróttinni. En 1951 vann lið sex kvenna sex karlmanna lið í hinni ströngu Burma-Road-keppni í Wentworth. Og þannig mætti lengi telja afrek kvenna.
Þegar karlmönnum tókst loks að komast upp norðurhlið á Eigertindi, voru þeir að niðurlotum komnir er þeir sneru til baka. En þegar Daisy Voog lék þetta eftir árið 1964, sagði hún sallaróleg við heimkomuna: „Það eina sem ég þarfnast núna er svaladrykkur og hárgreiðsla.„ Dr. Ashley Montague frá Rutgers háskóla í Bandaríkjunum, sérfræðingur á þessu sviði, segir: „Konur hafa sterkari líkamsbyggingu en karlar. Á því leikur enginn efi.„
Ef til vill verður næsta öld öld konunnar. Hver veit? (Margrét Hansen þýddi úr grein eftir Harvey Day í The Vegetarian) Harvey Day.

Heilsuvernd 4. tbl. 1978, bls. 81-84

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi