Hvert skal stefna

Hvert er höfuðtakmark mannlífsins? Ég álít það vera framþróun til vaxandi heilbrigði, andlegs sem líkamlegs jafnvægis. Því fer víðs fjarri, að þessu takmarki hafi verið náð, heldur virðist mér sífellt halla undan fæti. Sjúkdómar fara vaxandi ár frá ári og heilsu manna hrakar með vestrænum þjóðum, sem telja sig þó í fylkingarbrjósti í flestum efnum. Þrátt fyrir lærdóm og vísindi, hrakar heilsufari manna. Sjúkdómar vaxa ár frá ári og verða verri viðfangs en áður. Það er satt, að þrifnaður hefur aukizt, og það hefur leitt til útrýmingar sumra sjúkdóma, svo sem holdsveiki, sullaveiki, taugaveiki og berkla. En inflúenzan ríður húsum um mannheim allan án þess að við verði ráðið. Læknisfræðin hefur tvær leiðir til lækninga og varna. Önnur er sú að ráðast jafnan á allar ákomur og sjúkdóma og reyna að ráða niðurlögum þeirra, hvers fyrir sig. Til þess eru notuð öll ráð, sem talið er, að gefið hafi góða raun, hvort heldur lyflækningar eða skurðlækningar. Hin leiðin er sú að reyna að komast í veg fyrir frumorsakir sjúkdómanna og verjast þeim þannig. Telja má, að með fyrri aðferðinni hafi læknisfræðinni tekizt vel á ýmsan hátt, þar sem næmir sjúkdómar eiga í hlut, en svo nær það lítið lengra, og enn standa opnar dyr fyrir öllum þeim sjúkdómum, sem stafa af röngu manneldi beint eða óbeint. Um þetta er ekki skeytt, því að læknisfræðin og læknarnir sjálfir hafa verið furðu áhugalaus í þessum efnum, enda er nú svo komið, að hrörnunarsjúkdómar valda þvílíkum usla, að slíks hafa engin dæmi þekkst áður í sögu þjóðanna. Læknar eru svo önnum kafnir við að ráða bót á afleiðingum hinna mörgu hrörnunarkvilla, að helzt lítur út fyrir, að aldrei verði nóg af þeim. Flestir eru að því komnir að gleyma því, að hið eðlilega heilsufar mannsins er heilbrigði.

Orsök þess, að svona er komið, er fyrst og fremst rangt manneldi. Ekkert er skeytt um fæðið fyr en menn eru orðnir krankir eða helsjúkir og stundum jafnvel ekki þá. Menn eru andvaralausir um sína lifnaðarháttu, þeir gleyma að gá til veðurs og vita ekki fyr en hríðin skellur á og hljóta því að verða úti unnvörpum. Loksins, þegar hjartasjúkdómar, krabbamein eða önnur kröm dynur yfir, er risið upp til handa og fóta og reynt að setja himin og jörð á hreyfingu. En jörðin er föst fyrir og himinninn fjarri, svo að flestir verða að láta í minni pokann. Menn vilja ekki neita sér um neitt, þó að þeir eigi ósköpin yfir sér, kjósa þeir heldur að gana áfram án þess að gá til lofts og vita, hvað veðri líður.

Læknisfræðin hefur verið furðu skeytingarlaus um frumorsakir, en þær liggja þó nær en margan skyldi gruna, og á hér enn við hið fornkveðna, „Líttu maður þér nær„. Nú hefur læknisfræðin sett á sig rögg til þess að vinna bug á krabbameininu, en það verður aldrei læknað að gagni með þeim aðferðum, sem hún hefur notað enn sem komið er. Fyrir hvern einn, sem tekst að lækna (venjulega með aðgerðum, sem gera sjúklinginn að öryrkja ævilangt) bætast margir nýir í hópinn. Fyrir hvert höfuð, sem höggvið er af óvættinum, vaxa út sjö ný, hvert öðru ófrýnilegra. Hvar er hið vígða sverð, sem unnið getur á ófreskjunni? Enn er það svo, að athygli lækna og læknisvísinda beinist miklu fremur að sjúkdómum en heilbrigði. Starfi lækna er svo háttað, að á þá er kallað, þegar sjúkdómar steðja að, en ekki heilbrigði. Í huga þeirra verður sjúkdómurinn ástand, sem bætist við það, sem fyrir er. Sjúklingurinn fær þennan og þennan sjúkdóm, en þeim gleymist, að jafnframt og líklega miklu fremur missir hann heilsuna. Ef hann hefði ekki fyrst misst heilsuna, hefði hann aldrei tekið sjúkdóminn. „Líttu maður þér nær„.

Er ekki heilbrigði þíns eigin líkama nærtækari en þeir sjúkdómar, sem á hann herja? Séu varnir borgar þinnar í lagi, verður hún ekki unnin. Þá smýgur enginn inn í leyfisleysi, hvort sem það nú eru bakteríur, vírusar og krabbamein eða asni klyfjaður gulli. Gullklyfjaði asninn finnur víða smugu. Hann á það líka til að smjúga í garð læknanna sjálfra og breyta því, sem ætti að vera köllun, í atvinnugrein. Þá er skrattanum skemmt. Starf læknisins á að miða að því að gera sjálfan sig óþarfan; honum ber skylda til að reyna eftir getu að koma í veg fyrir sjúkdóma, en einmitt af þeim hefur hann mestar tekjur. Ef til vill væri það spor í rétta átt, ef sjúkrasamlög hættu greiðslum til lækna fyrir þá, sem veikjast, og þeir fengju launin fyrir að halda fólkinu hraustu. Skyldi þá ekki koma annað hljóð í strokkinn? Ekki þarf að efa, að skjótt sæist mikill árangur, ef allir læknar sæju sér hag í að efla heilsuvarnir mannkynsins. Það er áreiðanlegt, að hinn mikli sægur sjúkdóma, sem steðjar að hinum siðmenntuðu þjóðum, stafar fyrst og fremst af alröngu manneldi. Það er engu líkara en að hin vestræna siðmenning sé staurblind fyrir öllu öðru en því að komast yfir fjármuni, en sést yfir þá staðreynd, sem ekki verður komizt hjá, að líkami okkar lýtur því lögmáli, að fæða okkar verður að vera lifandi, gædd þeim kostum, sem hold okkar er háð. Ef við viljum halda heilsu, verðum við að neyta þeirrar fæðu, sem sköpulag okkar kveður á um. Að því leyti erum við engin rándýr. Mikill munur er á meltingarfærum okkar og þeirra. Þarmarnir eru t.d. miklu lengri, þó ekki séu þeir eins langir og í þeim dýrum, sem lifa á grasi. Af þessu og fleira, svo sem t.d. gerð tannanna, má álykta, að manninum muni vera eðlilegast að nærast á fæðu úr jurtaríkinu. Einnig þetta getur bók bókanna sagt okkur. Í fyrsta kafla Biblíunnar stendur skrifað „Og Guð sagði Sjá, ég gef ykkur allskonar sáðberandi jurtir á allri jörðunni og allskonar tré, sem bera ávöxtu með sæði í, ˆ það sé ykkur til fæðu.„

Hvort sem menn vilja sætta sig við þetta eða ekki, verða þeir að beygja sig fyrir þeirri sannreynd, að líf verður að nærast á lífi. Maðurinn er ekki að ástæðulausu heilsutæpasta lífvera jarðarinnar. Hann á sjálfur sök á þessu. Með því að sneyða fæðuna, sem jörðin gefur okkur, öllum beztu kostum sínum, höfum við breytt henni í dauða gerfifæðu, sem eyðir lífi og heilsu og greiðir veg hrörnunarinnar. Við eldumst um aldur fram og verðum margskonar sjúkdómum að bráð. Ómenningarkvillunum, sullaveiki og holdsveiki, höfum við útrýmt, nú eta „menningarkvillarnir„ krabbamein og sykursýki, hold okkar í staðinn. Hvenær rís sú menning, sem skilur, að þessir sjúkdómar eru engu betri en hinir? Þeir stafa af innri sóðaskap, sem hefur það eitt sér til ágætis, að hægara er að leyna ósómanum, þó að laun syndarinnar séu hin sömu eða verri en við ytri sóðaskap. Meðan við rómum ágæti innri sóðaskapar erum við engu betri en gömlu mennirnir, sem töldu lúsina til lífsnauðsynja. Þegar sú skoðun verður ríkjandi að manninum beri að forðast allan sóðaskap, hvort heldur líkamlegan eða andlegan, fer að verða viðlit að tala um menningu. Fyr ekki.

Þessi grein birtist í 4. tbl. Heilsuverndar 1957.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi