Hvernig stendur á því, að sjúkdómar sækja svo fast á mannkynið?
Það er álit flestra vel menntaðra lækna, að hið upprunalega heilsufar manna sé ekki vanheilsa, heldur góð heilsa og sjúkdómaleysi.
Læknisfræðin hefir losað mannkynið við marga hina skæðustu meðal næmra sjúkdóma, sem fóru um löndin eins og engill dauðans með sigð í hendi og slógu allt niður, sem fyrir varð. Menntun og lærdómur hafa aldrei staðið á hærra stigi en nú, og vita menn nú meira um heiminn en nokkru sinni áður. En samt sem áður sækja þeir sjúkdómar, sem vér nefnum hrörnunarsjúkdóma, á oss hraðar en dæmi eru til. Þótt læknar verði fleiri og betur menntaðir með hverju árinu, sem líður, hafa þeir ekki við að lækna hina sjúku, því að sjúkdómum og sjúkum mönnum fjölgar stöðugt. Og læknarnir, sem eru stoltir og hreyknir af þekkingu sinni og lærdómi, verða líka sjúkir. Þeir eru jafnvel taldir hinir þriðju í röð þeirra stétta, sem sjúkdómar sækja hvað mest á. „Læknir, læknaðu sjálfan þig,“ er ásökunarorð á lækna.
Hrörnunarsjúkdómarnir, sem eru sjúkdómar í flestum eða öllum líffærum, bera vott um dvínandi lífsafl. Hvernig stendur á aukningu þeirra? Þetta er spurning, sem krefst svars. Læknisfræðin hefir ekki svarað henni. En nokkrir læknar, sem skorizt hafa úr hópi hinnar almennu (ortodox) læknisfræði, hafa svarað henni fyrir sitt leyti. Má sem slíka nefna Kellogg í Ameríku, Bircher-Benner í Sviss, Hindhede og Kirstine Nolfi í Danmörku, Sir Arbuthnot Lane í Englandi, Brauchle í Þýzkalandi og auk þess Are Waerland í Svíþjóð. Öllum ber þeim saman um, að sjúkdómarnir stafi fyrst og fremst af því, að vér brjótum það lögmál, sem líf og heilsa eru háð. Þeir eru afleiðingar eigin athafna, og fyrir þær verðum vér að svara.
Hrörnunarsjúkdómarnir hafa farið vaxandi það sem af er þessari öld. Fyrir aldamótin voru margir þeir sjúkdómar fágætir, sem nú eru orðnir algengir. Meðal þeirra má telja skjaldkirtilsjúkdóma og meltingarsjúkdóma, svo sem botnlangabólgu og magasár, tregar hægðir, sem hafa í för með sér innvortis eitrun alls líkamans og metta hann óhreinum efnum, sem hann getur ekki losað sig við. Sykursýkin var óþekkt hér á landi fyrir 1890, en er nú orðin talsvert algengur kvilli. Tannskemmdir, sjúkdómar í hjarta og æðum, húðsjúkdómar, taugabilun og sálsýki hafa aukizt og síðast en ekki sízt krabbameinið, en það er síðasti hlekkurinn í keðju hrörnunarsjúkdómanna og verður aldrei útrýmt, fyrr en tekið er fyrir orsakir þeirra allra.
Allir þessir og fjöldi annarra sjúkdóma eru auðsæjar afleiðingar rangra lifnaðarhátta, aðallega rangrar næringar. Svo er jafnvel um berklaveikina, sem er þó næmur sjúkdómur, en eigi að síður manneldissjúkdómur, þar sem viðurkennt er, að fæðan ráði mestu um vörn hennar og lækningu.
Og svo þyrpast menn til læknanna, einkum til sérfræðinganna, sem glíma við afleiðingar sjúkdómseinkenna, en hirða ekki um orsakirnar. Menn hella í sig lyfjum, „ganga í sprautur“, fjörefna-, insúlín-, hormónasprautur og allskonar aðrar sprautur, sem að litlu eða engu gagni koma. Sjúkrahúsin eru yfirfull, sömuleiðis biðstofur læknanna, og læknarnir sitja með sveittan skallann við að skoða sjúklinga, gefa ráð og skrifa lyfseðla. En svo segir heilbrigð skynsemi oss: „Þér kaupið aldrei heilsuna í lyfjabúðum“. En þó kaupum vér Íslendingar, jafnfámenn þjóð og vér erum, lyf og læknisráð fyrir milljónir króna árlega, að mestu án árangurs. Og mest allt starf hins sístækkandi læknaskara fer í það eitt að gera við sjúkdómseinkenni. Og árangurinn verður líkur og þegar gert er við gamlan bílskrjóð. Varla er hann kominn úr augsýn viðgerðamannsins, er hann bilar á ný. Læknastarfið er því miður alltof víða aðeins starfsemi til fjáröflunar. Og starf læknanna er að nokkru leyti neikvætt, meðan ekki er vitað og ekki um það hirt, af hverju sjúkdómarnir stafa.
Mannslíkaminn er ein lifandi heild, byggð upp af lifandi frumum. Heilbrigði líkamans er fyrst og fremst undir því komin, að þessar örsmáu frumur fái rétta næringu, því aðeins geta þær afkastað eðlilegu starfi. Fái frumurnar ekki rétta næringu, getur starf þeirra ekki verið fyllilega eðlilegt, jafnvel þótt þær séu enn heilbrigðar. Og ófullkomin starfshæfni frumanna hefir í för með sér truflun á eðlilegri líðan, eða með öðrum orðum vanlíðan. Liggur þá ekkert nær en að athuga, hvort fæðunni kunni að vera eitthvað ábótavant. Þarna er komið að kjarna málsins, að undirrót vanheilsu og flestra sjúkdóma.
Einn hinn lærðasti meðal lækna, japanski prófessorinn Katase, hefir komizt svo að orði, að fæðan sé það drottins vald, sem mestu ræður um líf og heilbrigði manna. En flestum læknum er það enn eigi ljóst, hve reginmikla og örlagaþrungna þýðingu fæðan hefir fyrir líkamlega og andlega heilbrigði einstaklinga og þjóða, fyrir mannheim allan. En þó er það svo, að undir vali og samsetningu fæðunnar er það komið, hvort hún framleiðir blómskraut heilbrigðinnar, fegurð og styrk, mikið og langvarandi og nytsamt starf og vel gefna og hrausta afkomendur, eða hinsvegar sjúkdómum þyngdar mannverur, sem deyja löngu fyrir aldur fram eftir að hafa verið öðrum byrði um langa stund, og afkomendur með minnimáttarkennd og misheppnað líf.
Sannarlega eru þeir sjúkdómar, sem á oss sækja, ekki annað en ávöxtur réttkallaðrar sjúkdómaræktunar, er stendur nú í fullum blóma af völdum hinnar máttugu efnishyggju, sem gerir heilsuleysi manna að gróðafyrirtæki, þar sem fégræðgin kyndir undir. En allir dagar eiga kvöld. Og svo fer hér, þegar fólkið öðlast skilning á því, að enginn fjársjóður er dýrmætari en góð heilsa. Hún er lykillinn að öllum gæðum þessa lífs og annars, ef rétt er að farið og jafnframt lögð rækt við andlegan þroska. En sá auður verður aldrei af mönnum tekinn, þótt þeir séu öllum jarðneskum efnum sviptir.
Þess sjást víða dæmi, hvernig fæðisbreytingar, sem af flestum hafa verið taldar til bóta, hafa orðið til þess að spilla heilsu fólks, gera það að lélegri mannvöru en áður. Getum vér Íslendingar borið vitni í því máli. Á 19. öldinni, einkum fyrir og um 1880, urðu miklar breytingar á viðurværi landsmanna. Það er farið að flytja inn hefluð hrísgrjón, hvítt hveiti og hvítan sykur, og eykst neyzla þessara fæðutegunda hröðum skrefum ár frá ári. Þá má nefna sagógrjónin, sem Þingeyingar kölluðu sálarfæðu. Allt þótti þetta lostætt, og var því tekið með fögnuði. Fyrir og um aldamótin lagðist að mestu niður framleiðsla sauðamjólkur og afurðir úr henni, ennfremur að miklu leyti harðfiskur og fjallagrös.
Mér hefir verið borið það á brýn, að ég væri „Laudator temporis acti“, það er „loftunga liðins tíma“. En þetta er rangt. Hið sanna er, að það var ekki svo mjög óheppilegt fæði, sem drap dug og kjark úr þjóðinni fyrr á öldum. Það var fæðuskorturinn, sulturinn og hungursjúkdómar, og drepsóttirnar, sem sóttvarnir og hreinlæti síðari tíma hafa unnið bug á. En í harðærum áður fyrr féll búpeningurinn fyrst, og síðan féll fólkið úr bjargarskorti, en veslaðist ekki upp af vaneldissjúkdómum eins og nú.
Mjólkin, og sérstaklega sauðamjólkin, hefir verið einn helzti lífgjafi íslenzku þjóðarinnar. Eg minnist þess, að unglingar fengu bólgu eða ígerð í hálskirtla og jafnvel blóð í hráka með hita (sennilega berkla). Hyggnar og skilningsgóðar húsmæður létu unglinga þessa drekka sauðamjólk á kvíaveggnum, eins mikið og þeir vildu. Þeim batnaði alveg á 2 til 3 mánuðum, og bar ekki á neinu síðan. Eg býst við, að forstöðumenn berklahæla mættu verða glaðir, ef þeim tækist að bæta sjúklinga sína svo fljótt og auðveldlega. Sauðamjólkin, glæný og spenvolg, er vafalaust mikill heilsugjafi, ekki sízt þar sem beit er góð og hún magnast af sólarorku jurtanna.
Þessi grein birtist í 4. tbl. Heilsuverndar 1951.