Læknavísindin eru á öruggri framfara- og fullkomnunarleið, að dómi lækna sjálfra. En þrátt fyrir það vaxa hrörnunarsjúkdómar stöðvunarlaust einn áratuginn eftir annan. Á hverjum fjórðungi aldar þarf að tvöfalda að stærð hæli fyrir sálsjúka menn. Svipað má segja um flesta aðra hrörnunarsjúkdóma. Vér getum fullyrt þetta um magasár, botnlangabólgu, hjartasjúkdóma og krabbamein og marga aðra sjúkdóma. Að vísu fjölgar fólkinu. En hrörnunin vex hraðar, og nú er svo komið, að síðustu og fullkomnustu rannsóknir, t.d. hin svokallaða Peckham-rannsókn í Englandi, sýna, að 91% allra manna eru sjúkir eða komnir svo langt út á þá leið, að greina má hrörnunareinkenni. Svo mikið er víst, að eitt af tvennu er rangt, að um raunverulegar framfarir læknavísindanna sé að ræða, eða hitt, að sjúkdómarnir færist í vöxt. En sú staðreynd er óhagganleg, að þegar menn voru kallaðir til herskoðunar í Englandi fyrir nokkru, varð sú raunin á, að víða var ekki unnt að nota til hernaðarstarfa nema 3 af hverjum 10, eða aðeins 30%, í verksmiðjuhverfum borganna. Orsökin var heilsuleysi, sem stafar af fátækt og lélegri fæðu. Og óeðlileg og dauð fæða er meginorsök langflestra sjúkdóma. Í Bandaríkjunum reyndist aðeins helmingur manna á bezta aldri (18-45 ára) tækir í herinn.
Það er margföld staðreynd, að vestrænar þjóðir eru allra þjóða krankfelldastar, þrátt fyrir öll læknavísindi, og heilsa og táp manna í afturför. Er þetta ekki sorgleg saga fyrir alla, sem afkvæmi eiga? Ekki skil ég í þeim mönnum, sem geta látið sig þetta engu skipta, neita því, að nokkur hætta sé á ferðum, þó að heilbrigði sé auðsýnilega í hnignun og ungt fólk taki ólæknandi sjúkdóma á bezta aldri. Í gær kom til mín 21 árs piltur með greinileg einkenni sárs í skeifugörn, fallegur piltur og greindarlegur og auðsætt mannsefni. En hann er engan dag heill eða sæll, hefir þrautir daglega. Eitthvað hefir verið athugavert við lífsvenjur þessa unga pilts. Hann hefir átt heima hér í Reykjavík í nokkur ár og kennir mataræðinu um vanlíðan sína, sem rétt er. Þessi sjúkdómur gæti skánað í bili, ef uppskurður væri gerður. En árangur er ekki viss, og slíkar aðgerðir eru neyðarúrræði, eins og allar aðgerðir, sem beint er að hinum mest áberandi sjúkdómseinkennum, án tillits til þess, að líkaminn er allur sjúkur, af orsökum, sem ekkert er við gert og þeim ekki gaumur gefinn. Þær halda því áfram að valda meiri og víðtækari sjúklegum breytingum, þó að sjúkt líffæri sé numið burt.
Ég kom fyrir nokkru í geysistóra lækningastofnun erlendis. Þar var sjúklingunum vísað inn í einn almenning, þar sem þeir voru greindir í flokka eftir sjúkdómseinkennum og síðan sendir sérfræðingum til rannsóknar og þaðan í ákveðin sjúkrahús til meðferðar. Þetta minnti mig á skilarétt að haustlagi, þar sem stórir fjárhópar eru reknir inn í almenning og dregnir í dilka eftir eyrnamörkum. — Í sjúkrahúsinu er svo eitt eða annað sjúkdómseinkenni numið burt, en hinsvegar sést læknunum yfir það, að til flestra sjúkdóma liggja sameiginlegar orsakir, rangir lifnaðarhættir, enda þótt afleiðingarnar verði margvíslegar og brjótist út í ýmsum myndum. Í skjóli þessara vinnubragða halda orsakir sjúkdómanna áfram skemmdarstarfi sínu óáreittar, og æ fleiri menn verða vanheilsu að bráð.
Ég hefi nýlega séð skýrslu um aukningu nokkurra sjúkdóma vestanhafs síðustu 50 árin. Samkvæmt henni hafa nokkrir sjúkdómar aukizt sem hér segir:
Geðbilun og sálsýki 400%
Blóðsjúkdómar 300%
Hjartasjúkdómar 300%
Nýrnasjúkdómar 650%
Sykursýki 1800%
Krabbamein 300%
Þetta eru óhugnanlegar tölur. Þótt deila megi um, hvort þær séu hárnákvæmar, eru þær órækur vottur um öran vöxt þessara sjúkdóma og dvínandi lífstáp, og flestir þess eðlis, að ósýnt er um fullan bata, enda er aðgerðum beint að sjúkdómseinkennunum, en ekki orsökunum.
Fjöldi manna ganga frá einum lækni til annars án þess að fá bata. Hvernig geta menn horft á þetta stjörfum augum án þess að hefja tilraunir til lækninga með nýjum aðferðum, í samræmi við eðli sjúkdómsins og orsakir hans?
Um aukningu sjúkdómanna hefir lífeðlisfræðingurinn Alexis Carrel sagt, að reynslan sýni, að þó að tekizt hafi að útrýma næmum sjúkdómum, þá hafi hrörnunarsjúkdómar hraðvaxið, og að því fari fjarri, að heilbrigði hafi aukizt eða tekizt hafi að draga svo úr mannlegum þrautum sem af er gumað. Hann segir, að hrörnunarsjúkdómar hafi vaxið langt fram yfir það, sem dregið hefir úr næmum sjúkdómum. Þau æviár, sem tekizt hafi að bjarga frá stóru-bólu, taugaveiki og barnaveiki og öðrum drepsóttum, hafi orðið að endurgreiða með langvinnum þrautum miklu fleiri manna og oft með kvalafullum dauða, svo sem úr sykursýki, hjartasjúkdómum og krabbameini. Sjúkdómarnir hafi breytt um svip, séu orðnir annars eðlis en áður, hrörnunarsjúkdómar í stað næmra sjúkdóma.
Margir ágætir læknar hafa bent á það, að heilsu manna hafi stórhrakað á síðustu áratugum. Þetta er ekki annað en það, sem núlifandi eftirtektarsamir menn hafa borið vitni um hér á Íslandi. Fyrir 60 árum var sykursýkin óþekkt hér, botnlangabólga fágæt, svo og tannveiki fyrir 100 árum, sem sjá má á því, að þar sem kirkjugarðar hafa blásið upp, þar hafa flestar höfuðkúpur verið með heilum tönnum. Þannig tók Vilhjálmur Stefánsson um 50 höfuðkúpur úr gömlum kirkjugarði, og var þar varla skemmda tönn að finna. Hve margir skyldu grafnir nú með allar tennur heilar?
Um heilsufar manna hefir Alexis Carrel komizt svo að orði, í nóbelsverðlaunabók sinni, Man the Unknown:
„Eins og öllum má vera ljóst, er um tvennskonar heilsu að ræða, náttúrlega heilsu og gerviheilsu. Vísindaleg læknisfræði hefir gefið mönnum gerviheilsu og vernd gegn allmörgum næmum sjúkdómum, og má kalla það góðra gjalda vert. En gáfaðir og kjarkmiklir menn láta sér ekki lynda heilsu, sem er aðeins sjúkdómaleysi, eða sjúkdómar á lágu stigi, og er komin undir sérstöku dekri í mataræði, sífelldum inndælingum inn í hold manna, tilbúnum fjörefnum og stöðugum læknisrannsóknum og eftirliti. Dugandi menn gera kröfu um náttúrlega heilbrigði og algert ónæmi fyrir afsýkjandi kvillum og hrörnunarkvillum. Þessir menn vilja vera undanþegnir sjúklegum kvíða um heilsu sína. Læknisfræðin verður þá fyrst makleg óskoraðs lofs, er henni tekst að finna ráð til að gera líkama manna ónæman fyrir sjúkdómum, þreytu og nagandi kvíða um heilsuna. Vér verðum að endurskapa manninn, andlega og líkamlega, til þess að losna við hverskonar kvilla, en gefa honum í þess stað náttúrlegt öryggi, sem veitir honum lífsgleði og andlegt frelsi, en það eru skilyrðin fyrir fullkominni lífssælu manna.“
Fullkomin heilbrigði verður ekki fengin með byggingu fleiri og stærri sjúkrahúsa, og ekki með lyfjaáti, heldur með því einu að gera mönnum kleift að lifa heilbrigðu lífi og varðveita náttúrlega heilbrigði, og til þess er sterkasta vopnið og meginþátturinn náttúrleg og lifandi fæða. En mikið af þeim matvörum, sem fluttar eru landsmönnum, eru með þeim annmarka að skapa sjúkdóma, frekar en heilbrigði. Svo er um hvítt hveiti, hvítan sykur og hvít hrísgrjón, ennfremur eitraðar nautnavörur, svo sem áfengi, tóbak, kaffi, sælgætisvörur og kólavörur. Sala á þessum vörum er bein og óbein sjúkdómaræktun. Líkt má segja um gervifæðutegundir og niðursuðuvörur. Sannarlega lýsir það mikilli vanþekkingu, að ekki skuli vera meira eftirlit haft með hollustusemi þeirrar matvöru, sem börnum lands vors er fengin til neyzlu. T.d. er það á flestra vitorði, að gamalt mjöl er miklu næringarminna en nýtt mjöl, auk þess sem hættulegum eiturefnum er blandað í hið innflutta mjöl. Á hvítu eiturbleiktu hveiti einu saman — auk vatns — getur enginn maður lifað lengur en 10-12 daga, ella er honum bani búinn. Sama er um hvíta sykurinn að segja, og er hann þó enn hættulegri. Eigi að síður er hann fyrsta næring, sem nýfæddu barni er gefin. Mikil dæmalaus vanþekking felst innan vébanda hinnar vísindalegu læknisfræði, sem kallar sig svo.
Vér Íslendingar stöndum mörgum betur að vígi með að skilja, hvílík dauðans forheimskun það er að banna ekki innflutning á hvítu hveiti og hvítum sykri, svo augljóst sem það er, hvílíkt afhroð þjóðin hefir goldið á heilsu sinni af völdum þessara fæðutegunda. Í kjölfar þeirra fór hröð aukning hrörnunarkvilla, svo og berklaveiki, sem lét þá fyrst undan síga, þegar skipulagsbundin herferð var hafin gegn útbreiðslu hennar af völdum smits. En í þeirri baráttu hefir læknum yfirsézt, hér sem annarsstaðar, að berklaveikin er fyrst og fremst manneldissjúkdómur. Rétt manneldi, ásamt heilbrigðum lífsháttum í hvívetna, er eina leiðin til að útrýma ekki aðeins berklaveiki, heldur öllum hnignunar- og hrörnunarkvillum, allt frá tannveiki til krabbameins. Mun ég færa líkur, sem stappa nærri fullri sönnun, fyrir þessum fullyrðingum í næsta hefti HEILSUVERNDAR.
Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1951.