Hvers virði er góð heilsa

Um heilsuna hefir það löngum verið sagt, að enginn veit hvað átt hefir fyrr en misst hefir. Engin eign veitir mönnum meiri lífssælu en góð heilsa. Hún er hvers manns og hverrar þjóðar dýrmætasta eign. Menn eru oft næsta tómlátir um varðveizlu heilsunnar, meðan hún er allgóð, en þegar hún er farin að bila, vilja menn verja sínum síðasta eyri til þess að endurheimta hana.

Hvað er heilsa eða heilbrigði? Þetta hefir verið skýrt á ýmsan hátt. Vér vitum, að maðurinn er samband óteljandi lífseinda, sem vér köllum frumur. Heilbrigði er friðsamlegt samstarf allra þessara fruma. Í heilbrigðum mannslíkama hafa allar frumur sameiginlegt takmark, heill og velferð heildarinnar. Allar vinna þær óeigingjarnt starf í hennar þágu. Þegar svo er, leikur allt í lyndi. Menn eru sælir af sjálfum sér.

Sjúkdómar eru hinsvegar sundrung og truflun á þessu friðsamlega og náttúrlega samstarfi, og um leið barátta af hendi hins inngróna læknismáttar líkamans, sem er trúnaðarlæknir forsjónar lífsins.

Þegar snurða hleypur á þráðinn, flýja menn jafnan á náðir læknanna sem kunnáttumanna. Kunnátta þeirra er áunnin með langvinnum lærdómi og rannsóknum. En því undarlegra er það, að þar sem læknisþekkingin er lengst komin, þar er heilsufarið lakast, að því er hrörnunarkvilla snertir, og fer versnandi. Þannig er það meðal vestrænna menningarþjóða.

Hinar svokölluðu Peckham rannsóknir, sem gerðar voru af vísindalegri nákvæmni og þekkingu, til þess að kanna heilsufar almennings, sýndu, að 90% manna voru raunverulega vanheilir eða sjúkir. Hjá mörgum voru sjúkdómar í undirbúningi, án áberandi sjúkdómseinkenna. Varnir líkamans voru að störfum, án vitundar þeirra. Því að í hverjum manni býr innri vitund, eins og árvökull varðmaður, sem ver hann gegn aðvífandi hættum. Þetta er innri varðmaður lífsins, lífsins inngróna forsjón, sem vér verðum ekki vör við, meðan allt leikur í lyndi.

Læknisfræðinni hefir verið borið það á brýn, að hún væri efnishyggjukennd vísindi, sem ekki viti af því, að lífið er umfram allt andlegs eðlis, ósýnileg orka, sem tekur efnið í þjónustu sína, líkt og maður, sem gerir sér t.d. hreimfagurt hljóðfæri. Því hefir verið haldið fram, að þetta væri ein orsök þess, hve oft og hraparlega læknisfræðinni yfirsést og að heilsufar er lakara en efni standa til og að svo líti út, sem sjúkdómar væru ræktaðir eins og jurt í potti.

Náttúrulækningastefnan svokallaða lítur hins vegar á mannlífið sem eilífðarblóm í jurtagarði allífsins, þar sem sjálf náttúran eða forsjón lífsins er garðyrkjumaðurinn. Starf hans megum vér ekki vanmeta. Hvers eðlis er það starf, er sár grær og barn vex og þroskast? Er það andlaust eða vélrænt starf? Er það ekki öllu fremur andlegt starf, sem bendir mannlífinu upp á við til æðri vaxandi þroska og heilbrigði? Náttúrulækningastefnan lítur á heilbrigðina sem samræmt starf í þágu allífsins, hins mikla anda, sem hefir allt í hendi sér og ræður jafnvægi hnatta himingeimsins, sem snúast hver um annan, svo ekki skeikar. Vísindamönnum hefir tekizt að reikna út göngu himinhnattanna, en sem betur fer geta þeir ekki raskað göngu þeirra, eins og þeim hefir tekizt að sundra atómunum. — Náttúrulækningastefnan lítur á heilbrigðan mannslíkama sem friðarríki hinna óteljandi fruma, en sjúkdóma hins vegar sem uppreisn, sem líkaminn reynir að útrýma. Eina ráðið til sigurs er að útrýma orsökunum til ófriðarins.

Fyrir rúmum áratug var hinn heimsfrægi náttúrulæknir Bircher-Benner frá Sviss fenginn til þess að flytja fyrirlestra í London. Honum hafði tekizt að lækna fjölda sjúklinga með þekkta og óþekkta sjúkdóma, sem aðrir læknar kunnu engin ráð við. Notaði hann náttúrleg ráð, svo sem lifandi fæði og náttúrlegar lífsvenjur. Hann kom upp heilsuhæli, sem hann kallaði „Hinn lifandi kraft“. Dvaldi ég þar um tíma árið 1938, og voru þar þá rúmlega 100 sjúklingar. Sá ég þar marga merkilega hluti, sem kalla mætti lækningakraftaverk, enda náði hælið heimsfrægð. Frá dr. Bircher-Benner hefi ég sagt nánar í 2. hefti Heilsuverndar 1949. Hann telur hinn gamla mælikvarða um hitagildi fæðunnar villandi og oft rangan, hinn rétti mælikvarði sé sólarorka fæðunnar, og hann leggur mesta áherzlu á, að fæðan sé fersk og lifandi.

Í byrjun fyrirlestra Bircher-Benners í London kynnti Sir Robert McCarrison hann fyrir áheyrendum á þessa leið:

„Vér lifum á tímum hinna mestu framfara á öllum sviðum læknisfræðinnar. Samt sem áður fjölgar sjúkum mönnum stöðugt, og sjúkdómar verða fleiri, sjúkrahús eru byggð, og lyfjum fjölgar. Er nú svo komið, að menn spyrja sjálfa sig með áhyggjusvip, hvort engin leið sé út úr þessu kviksyndi sjúkdómanna. Þessi læknir, Bircher-Benner, bendir oss á þessa leið. Hann er einn hinna fáu starfandi lækna, sem hefir unnið sér heimsfrægð. Til hans leita ekki aðeins sjúkir úr hans heimkynnum, heldur hvaðanæva að.“

Hér segir McCarrison, þessi heimskunni vísindamaður, það feimnislaust, að sjúkdómar fari vaxandi meðal menningarþjóðanna, þrátt fyrir læknisvísindin. Menn rækta sjúkdóma, um leið og þeir þykjast lækna. Læknisfræðin fer í kringum sannleikann, orsakir þess, að menningarþjóðirnar eru krankfelldustu þjóðir heims. Hún vanrækir og jafnvel brýtur það lögmál, sem ræður heilbrigði og Bircher-Benner kallaði „Ordnungsgesetz des Lebens“ (grundvallarlögmál lífsins). En meginþáttur þess er náttúrleg, lifandi næring.

Maðurinn er frá upphafi hvorki hrææta né rándýr, þótt hann hafi gert sig að hvorutveggja. Hann er jurtaæta og hefir lengstaf nærzt á ósoðinni jurtafæðu. En þegar hann breytti um lifnaðarhætti, fór fyrir honum eins og segir í Biblíunni, að hann gerði sig rækan út úr Paradís — úr Paradís heilbrigðinnar, með því að brjóta lögmál náttúrlegrar næringar og heilbrigði. Þó eru enn til þjóðir, í afkimum veraldar, sem eru lausar við hina svokölluðu menningarsjúkdóma (t.d. Húnzaþjóðin í Norður-Indlandi).

Bircher-Benner, McCarrison og aðrir forvígismenn náttúrulækningastefnunnar hafa bent á leiðina út úr sjúkdómafeninu. Hún er afturhvarf til einfaldari og náttúrulegri næringar og lífshátta. Tannveiki verður ekki læknuð með smíði nýrra tanna. Þegar sár er skorið úr maga eða botnlangi tekinn, er ekki skeytt um orsakir sjúkdómsins, og sama er að segja um t.d. flesta kokeitlaskurði, sem virðist aðalatvinna margra hálslækna. Orsakirnar eru oftast ónáttúrlegar lífsvenjur og dauð næring. En næringin er það drottinsvald, sem ræður mestu um heilbrigði.

Vér læknar, sem höfum staðið í hörðustu viðureign við hverskonar sjúkdóma um hálfrar aldar skeið, gætum frá mörgu sagt. Vér höfum tekið þátt í útrýmingu ýmissa kvilla, sem áður voru landplága, svo sem barnaveiki, taugaveiki, sullaveiki, holdsveiki, sem stöfuðu aðallega af sóðaskap og að mestu eru úr sögunni. En í þeirra stað höfum vér séð aðra sjúkdóma hraðvaxa, án þess að fá nokkuð við gert. Eg sá aldrei botnlangabólgu né botnlangaskurð, meðan ég var í læknaskólanum og heldur ekki á fyrstu læknisárum mínum. Og magasár voru áreiðanlega fágæt, meðan sauðamjólk, fjallagrös, heimamalað mjöl og aðrar heilnæmar fæðutegundir voru á hvers manns borði, óskemmdar af kryddi og öðrum nýtízku aðferðum matreiðslu-„menningarinnar“, en lítið um salt, hvítan sykur, hvítt hveiti og aðrar „hvítar“ vörur, sem eru nú yfir 1/3 hluti af daglegri fæðu þjóðarinnar og hjá einstaklingum ýmsum miklu meira. Eg sá, að berklaveiki batnaði á 2 til 3 mánuðum, ef sjúklingurinn drakk mikið af nýmjólkaðri sauðamjólk, jafnvel þótt hann lægi úti með fénu í misjöfnu veðri. Hrörnunarsjúkdómarnir eru sem ber á sama kvisti, sprottnir af sömu rót. Aðalorsökin er mengun líkamans óhreinum efnum, bæði utan og innan að, og þó einkum úrgangs- og eiturefnum, sem myndast í líkamanum sjálfum vegna neyzlu ónáttúrlegrar og dauðrar fæðu. Blóðið mengast þessum efnum, sem komast ekki nógu ört út úr líkamanum, og verður þess vanmegnugt að veita hverju líffæri og hverri frumu þá hreinu lífsnæringu, sem þær eiga heimtingu á. Þá bilar fyrst það líffærið, sem viðkvæmast er.

Hér á landi ríkir miðaldafáfræði í matarhæfi meðal ráðandi manna og annarra, og engin vanþekking er hættulegri en vanþekking á þessu sviði. Hún lýsir sér m.a., hvar sem til mannfagnaðar er stofnað. Hér er um að ræða skilningsleysi á því Guðs lögmáli, sem segir frá í 1. kap. 29. versi í 1. bók Mósesar. Þeir sem ekki hafa lesið hinn fyrsta matseðil og fullkomnasta, sem skrifaður hefir verið, ættu að fletta upp á þessum stað í Biblíunni.

Vér Íslendingar erum eins og hjörð í harðindum í höndum skilningslausra hjarðsveina. Til mín hafa komið nú að undanförnu venju fleiri sjúklingar með greinilegan vott af skyrbjúgi. Þetta er ekki undarlegt, þegar bannað er að flytja inn nýtt grænmeti og ávexti á þeim tíma, þegar þess er mest þörf. Þurrkaðir ávextir eru einnig að mestu bannvara, og eru þeir þó engin munaðarvara. Rúsínur eru nauðsynlegar til að búa til krúsku, sem átt hefir mikinn þátt í að bjarga heilsu fjölda manna. En svo fást hér allskonar niðursuðuvörur, m.a. framleiddar úr grænmeti, sem leyft er að flytja til landsins til þess að eyðileggja það og margfalda í verði í stað þess að lofa fólki að kaupa það og eta nýtt og óskemmt og fyrir tiltölulega lágt verð.

Heróp vort ætti að vera: Burt með hvíta hveitið, hvíta sykurinn, sætindaátið, tóbakið og áfengið. Vér þurfum að flytja inn ómalað korn og mala það eftir hendinni. Eftir mölunina verða í því breytingar, sem stefna að því að gera það að því, sem það áður var, að moldu. Með sölu á fornmöluðu og oft eiturmenguðu mjöli eru framin hin verstu svik. Er það ekki líkt og að greiða kaup með krónum, sem eru 10-20% af verðgildi þeirra? Það bætir ekki úr skák, þótt fólkið sé svo illa að sér, að það kjósi heldur verðlágu krónuna.

Fyrsta boðorð réttrar manneldisfræði verður: Lifandi, náttúrleg og ósoðin jurtafæða, það er fyrsta skilyrðið til fullkomins þroska og varðveizlu hans. Aðeins slík næring er trygging fyrir góðri heilsu. En góð heilsa er bezta tryggingin fyrir góðri afkomu þjóðar og einstaklinga.

Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1950.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi