Hvers vegna?

Hvernig stóð á því að menn fundu upp á þeim skolla að svifta hveitikornið hýði sínu og framleiða hvítt brauð?
Ég hef einhvers staðar lesið sögu um það sem eflaust er sönn.
Hún er á þessa leið. Þessi saga gerist fyrir nærri 100 árum síðan. Ríkur Englendingur ákvað að halda vinum sínum dýra veizlu og átti ekkert að spara til að gera hana sem veglegasta. En áður en til þess kæmi, ráðfærði hinn ríki maður sig við matreiðslumann sinn, hann spurði hann að, hvort ekki væri unnt að framleiða hvítt brauð. Matreiðslumaðurinn var til með að prófa þetta og tókst að framleiða skjallhvítt brauð eftir nokkrar tilraunir.
Segir ekki frá því, hvernig það var gjört. Var það mjög áberandi meðal annarra fæðutegunda sem gestunum voru bornar. Þetta hvíta brauð vakti mikla eftirtekt og mikið umtal, fengu veizlugestirnir að vita, hvernig þetta var gert og hugðu frúrnar, sem sátu veizluna gott til glóðarinnar að kenna nágrannakonum sínum þetta, vegna þess að þetta var algjör nýjung í brauðgerð.
Gestir fóru heim glaðir af að sitja svo dýrðlega veizlu, og leið ekki á löngu þangað til hver fyrir sig hélt veizlu og bauð sínum nánu vinkonum þessa brauðgerð. Leið ekki á löngu að þetta fékk mikla útbreiðslu, fregnir um þetta hvíta brauð flugu með leifturhraða um landið og til næstu landa, og þótti þetta merkileg nýjung, sem vakti alls staðar mikla eftirtekt.
Þetta var meira en gróðahyggjumenn létu fara fram hjá sér án þess að gera sér peninga úr því. Fengu þeir efnafræðinga í lið með sér og fengu leiðsögn um, hvernig hægt væri að framleiða hvítt brauð. Vélamenningin hjálpaði til og sérstök mölunarvél var búin til, til þess að svipta hýðinu af hveitikorninu. Þannig er hvíta hveitið til orðið. Það er ekki hægt að sjá, hvort það er malað úr góðu eða gömlu korni. Þessi hvíti litur leyndi göllunum. Þetta var gert með því að blanda ýmsum efnum saman við, sem höfðu þessi áhrif. Sum þessi eiturefni voru meira og minna viðsjárverð. Þannig hefur hvíta hveitið ekki aðeins verið svipt sínum kostum heldur meira og minna mengað eitri.
Nú er svo komið, að þetta skaðlega mjöl er ríkjandi borðréttur og hefur náð geysilegri útbreiðslu. Þetta hvíta hveiti hefur orðið hættulegur sjúkdómaframleiðandi. Enn er ekki ljósunum að því lýst, hve miklu tjóni það hefur valdið á heilsu manna. En vaninn er sterkur máttur og enginn veit, hve lengi þetta kann að endast. En þetta er fæða sem leiðir frekar til dauða en heilbrigði.
Gerðar hafa verið tilraunir til þess að rannsaka hollustu þessa hvíta brauðs. Hindhede gerði tilraunir með hvíta hveitið á þann hátt að hann borðaði eingöngu hvítt hveiti og Madsen tilraunamaður hans með honum. Hindhede var veikur orðinn eftir átta daga, en Madsen hélt út 12 daga en var þá orðinn svo helsjúkur að óttast var um líf hans. Tók það þrjár vikur fyrir hann að ná sinni fyrri heilsu. Þetta sýnir bezt, hve óholl þessi fæðutegund er.
Tilraunamaður einn í Ameríku, gerði tilraunir á 90 mönnum, þetta var á Yale-háskólanum, 30 af þessum mönnum lét hann aðeins borða hvítt hveiti, 30 fengu aðeins vatn að drekka en enga fæðu, og 30 fengu heilhveiti. Árangurinn varð sem hér segir Þeir, sem fengu aðeins vatnið, héldu út sumir hverjir í 30 daga, þeir, sem lifðu á hvíta hveitinu, entust í 5-12 daga lengst, og voru þá orðnir fárveikir, þeir sem fengu hveitið eins og það lagði sig entust mánuðinn út þar til tilraununum var hætt og voru jafn starfhæfir sem áður.
Þetta sýnir bezt, hvílík villa það er að halda í hvíta hveitið. Það er steindauð fæða og til þess eins að framleiða sjúkdóma. Upp undir 100 ár hefur þessi baneitraða og efnasvipta fæða verið notuð sem hátíðamatur eða veizlumatur. Svo rík er vanþekkingin á því sem mestu ræður um heilbrigði yfirleitt. Vestrænar þjóðir eru hreyknar af sinni menningu, en þær kunna ekki að velja sér þá fæðu sem varðveitir lífið.
Nú er spurningin, hve lengi á að halda áfram að rækta sjúkdóma með dauðum fæðutegundum. Hér þyrftu stjórnarvöldin að taka í taumana.

Jónas Kristjánsson.

Þessi grein birtist í 4. tbl. Heilsuverndar 1957.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi