Hvað segja læknavísindin um náttúrulækningastefnuna?

Erindi flutt á fundi í Náttúrulækningafélagi Reykjavíkur 5. marz 1958.

Á síðustu árum hefi ég oft verið spurður að því, hvort nám mitt í læknisfræði hafi breytt viðhorfi mínu til náttúrulækningastefnunnar.
Í kvöld ætla ég að leitast við að svara þessari spurningu að nokkru. Endanlegt svar verður þetta ekki, og það af þeirri einföldu ástæðu, að námið hefir ekki veitt mér færi á að dæma um gildi þessarar stefnu eða bera saman árangurinn af venjulegum lækningaaðferðum og aðferðum náttúrulækna.

Við skulum byrja á því að rifja upp fyrir okkur, í hverju náttúrulækningastefnan er fólgin. Kjarni hennar er þetta

1. Réttir lifnaðarhættir tryggja mönnum allt að því fullkomna heilbrigði.

2. Rangir lifnaðarhættir eru meginorsök sjúkdóma.

3. Flesta sjúkdóma má lækna, séu þeir ekki komnir á of hátt stig, án lyfja eða skurðaðgerða, með viðeigandi mataræði, hæfilegri hreyfingu, ljósi, lofti, böðum o.s.frv.

Hvað segir nú læknisfræðin um þessi boðorð?
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að læknavísindin hafa tekið stórstígum framförum á síðustu áratugum. Þekking og skilningur á hinni margbrotnu líkamsvél og störfum hennar eykst með hverju árinu sem líður.

Þrotlaus leit er gerð að eðli og orsökum sjúkdóma, því að öllum er ljóst, að þekking á þeim er eina örugga leiðin til að geta ráðið niðurlögum sjúkdómanna.

Ný sannindi koma fram í dagsljósið, kennslubækur verða úreltar og eru gefnar út á fárra ára fresti. T.d. eru þær bækur, sem nú eru kenndar í aðalgreinum læknisfræðinnar hér við háskólann, gefnar út árin 1955 og 1956, og ein þeirra kom í nýrri útgáfu á síðasta hausti.

Af þessum bókum má margt ráða um afstöðu læknavísindanna til þeirra þriggja atriða, sem nefnd voru áðan. Og við munum nú leggja nokkrar spurningar fyrir læknavísindin varðandi þessar meginsetningar náttúrulækningastefnunnar.

1. Eru réttir lifnaðarhættir trygging fyrir heilbrigðu og sjúkdómalausu lífi?
Flestir læknar mundu að lítt athuguðu máli svara þessu afdráttarlaust neitandi. Þeir mundu benda á veirur (virus), bakteríur og önnur sníkjudýr sem orsök fjölda sjúkdóma, og þeir mundu segja, að ekki hafi fundizt neitt samband milli lifnaðarhátta og sumra algengustu sjúkdóma, svo sem krabbameins í meltingarvegi og í brjósti, ýmissa meltingarkvilla, taugasjúkdóma, margskonar húðsjúkdóma, blóðþrýstingshækkunar o.s.frv.

En sé betur að gáð og blaðað í nýjum bókum um læknisfræði, dylst engum, að sífellt eru að finnast fleiri og fleiri dæmi um áður óþekkt samband milli lifnaðarhátta og sjúkdóma, og verður nánar að því vikið síðar.

Rannsóknir síðari ára hafa leitt æ betur í ljós hið margbrotna samspil þekktra næringarefna í byggingu og starfi líkamans. Það hefir sýnt sig, að einstök næringarefni koma víðar við sögu en áður var vitað. Hlutverk hvers steinefnis og fjörefnis t.d. reynist þeim mun fjölþættara, sem rannsóknartækni batnar. Áður óþekkt efni finnast. Til skamms tíma var talið, að “blóðleysi„ stafaði eingöngu af járnskorti. Nú vita menn, að mörg önnur efni eru ekki síður nauðsynleg til þess að mynda blóðrauðann og rauð blóðkorn, en það er kallað blóðleysi, ef of lítið er af rauðum blóðkornum eða blóðrauða í blóðinu. Til framleiðslu þeirra þarf, auk járns, kopar, kóbolt, C-fjörefni, ýmis fjörefni úr hinum stóra flokki B-fjörefna o.fl. Þetta er ein af ástæðunum til þess, hve læknum hefir oft orðið lítið ágengt í því að lækna blóðleysi með járnlyfjum einum saman. Svipað er að segja um sjúkdóma, sem stafa af skorti fjörefna. Í skyrbjúgi, beinkröm og beri-beri t.d. kemur fleira til greina en vöntun C-, D- eða B-fjörefna. Á frumstigi fjörefnafræðinnar héldu menn t.d., að skyrbjúgur stafaði af skorti C-fjörefnis einum saman og kæmi fljótt fram, ef vöntun væri á því efni í daglegu fæði. Þessvegna vakti það undrun Hindhedes, hins heimsfræga danska vísindamanns og læknis, að hann og Madsen, “tilraunadýr„ hans, lifðu góðu lífi mánuðum saman á byggi og smjörlíki, en þær fæðutegundir eru með öllu snauðar að C-fjörefni, en samt vottaði ekki fyrir skyrbjúgseinkennum hjá þeim. Nú hafa síðari tilraunir sýnt, að menn fá ekki skyrbjúg fyrr en eftir marga mánuði, þótt þeir lifi á fæði, sem er valið þannig, að í því er lítið sem ekkert af C-fjörefni, sé fæðið eðlilegt að öðru leyti. Reyndin er því sú, eins og sýna mætti með fleiri dæmum a) að umræddir sjúkdómar stafa ekki af skorti eins efnis, heldur margra nauðsynlegra næringarefna, b) að fjörefnaskortssjúkdómar á háu stigi, svo sem skyrbjúgur, beri-beri, eða beinkröm, sjást varla nema í tilraunadýrum, sem eru alin á fæði gjörsneyddu einhverju sérstöku fjörefni, c) að í fólki verður sjúkdómsmyndin alltaf blönduð, vegna þess að í daglegu viðurværi er jafnan skortur margra efna, d) að ekki er hætta á fjörefnaskortssjúkdómum, þó að magn einhvers fjörefnis í daglegu fæði sé í lægra lagi, svo framarlega að fæðið sé náttúrlegt og því hafi ekki verið spillt í meðferð.

Þegar fjörefnin fundust, þóttust menn hafa himin höndum tekið og héldu í fyrstu, að með því að framleiða þau og gefa þau heilbrigðum og sjúkum, mætti koma í veg fyrir og lækna fjölda sjúkdóma. Í seinni tíð hefir mjög dregið úr þessari trú á tilbúin fjörefni. Reynslan hefir sýnt, að þau bregðast oft vonum lækna og sjúklinga, og liggja til þess ýmsar ástæður Þau eru notuð í tíma og ótíma, án þess að vissa sé fyrir, að þeirra sé þörf, eins og oft vill verða um lyf; það er lítt framkvæmanlegt að ala menn á öllum þeim fjölda fjörefna, sem þegar eru þekkt og líkaminn þarfnast; slíkt lyfjaát mundi ekki bæta upp nema nokkurn hluta þeirra efna, sem líkaminn fer á mis við, ef fæðið er lélegt, þar eð fullvíst má telja, að þýðingarmikil efni séu enn ófundin; síðast en ekki sízt er nú meðal vísindamenn tekið að bóla á þeim skoðunum, sem náttúrulæknar hafa lengi haldið fram, að tilbúin fjörefni komist ekki til jafns við fjörefni í náttúrlegri fæðu, sem því sé bezta fjörefnalindin. Það er því næsta skiljanlegt, að margir reki upp stór augu, þegar þeir sjá, að tímarit NLFÍ, Heilsuvernd birtir hvað eftir annað áróðursgreinar um tilbúin fjörefni. Höfundur greinarinnar “Það er hægt að fjölga beztu árum ævinnar„, í síðasta hefti Heilsuverndar (4. h. 1957) er þekktur læknir og rithöfundur. En hann er bersýnilega af “gamla skólanum„ og gerir sig auk þess sekan um hugtakarugling, sem einnig er mjög algengur, bæði meðal lækna og leikmanna. Hann talar um, að “alhliða„ fæði þurfi að bæta upp með tilbúnum fjörefnum. Hér meinar hann venjulegt blandað fæði, og þá hefir hann nokkuð til síns máls. En slíkt fæði er langt frá því að vera alhliða, enda væri þá ekki neinnar uppbótar þörf.

Nútíma næringarfræði kennir okkur, að í daglegu fæði þurfi að vera visst lágmark hinna ýmsu næringarefna, þar á meðal ákveðið magn helztu fjörefna. Sé þessum skilyrðum fullnægt og ástand líkamans eðlilegt, þannig að efnin nýtist, þá sé öllu óhætt og óþarft að bæta þar um. Og læknavísindi nútímans eru sammála náttúrulæknum um það, að bezt sé að sækja fjörefni og önnur nauðsynleg næringarefni í fæðuna.

Ekki skal því neitað, að blöndur tilbúinna fjörefna, hvort sem um er að ræða sykraðar, fljótandi fjörefnablöndur eða lyfjabúðartöflur, geti haft hressandi áhrif á sjúklinga eða fólk, sem býr við lélegt fæði. Tilbúin og ónáttúrleg fjörefni eru gagnleg að vissu marki, en þau færa engum fullkomna heilbrigði, og þau eru beinlínis hættuleg fyrir þá sök, að þau draga úr viðleitni manna til að afla sér hollrar og alhliða fæðu. Vilji menn á annað borð bæta upp lélegt viðurværi með tilbúnum fjörefnum, skiptir minnstu, hvort það er gert með sykruðu Sanasóli eða bragðlausum fjörefnapillum, sem sumar innihalda, auk margra tegunda fjörefna, mörg steinefnasambönd, og sennilega varðveita pillurnar fjörefnin betur en fljótandi fjörefnablöndur, sérstaklega ef flöskunum er ekki lokað loftþétt í upphafi eða eftir að þær hafa einu sinni verið opnaðar. Það er engin ástæða til að amast við Sanasóli sem hverju öðru fjörefnalyfi, né heldur því, að það sé selt í verzlun Pöntunarfélags NLFR, úr því þar eru seldar ýmsar aðrar vörur, sem náttúrulækningastefnan telur óþarfar eða skaðlegar, og enda þótt í samskonar verzlunum í höfuðborgum Norðurlanda sé þessi vara ekki á boðstólum, samkvæmt upplýsingum, sem ég hefi aflað mér. En hitt er of langt gengið, þegar reynt er í málgagni NLFÍ að telja fólki trú um, að Sanasól sé einhver yfirburða fjörefnagjafi og taki jafnvel fram okkar ágæta lýsi. Þar við bætist, að samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda Sanasóls, eru í því, auk sykurs, efni, sem eiga að verja það skemmdum, en flest slík efni eru meira eða minna skaðleg.

Ég hefi orðið svona margorður um tilbúin fjörefni og Sanasól vegna þess áróðurs, sem haldið hefir verið uppi að undanförnu í Heilsuvernd af innflytjanda þess, Marteini M. Skaftfells, og af því að ýmsir hafa spurt um álit mitt á þessari vöru. Og svo sem kunnugir vita og allir þeir, er lesið hafa síðustu hefti Heilsuverndar, eru þeir læknar Jónas Kristjánsson og Úlfur Ragnarsson mér samdóma í þessum efnum.

Þess má geta, að í nýútkomnu hefti af sænsku tímariti, sem er málgagn náttúrulækningastefnunnar í Svíþjóð, er rætt um leiðir til að auka magn fjörefna í daglegu fæði, t.d. að vetrinum. Er m.a. bent á ölger, lýsi, hveitikím og rósberjaduft, en ekki minnzt á þann möguleika að taka inn tilbúin fjörefni.

Og svo komið sé aftur að spurningunni, hvort réttir lifnaðarhættir séu trygging fyrir sjúkdómalausu lífi, verður svar læknisfræðinnar þetta

Með bættum matarháttum ætti að mega komast langt í því að útrýma ýmsum hörgulsjúkdómum og stórbæta heilsufar almennings. Hreinlæti, bætt húsakynni, útivist, hæfilegar íþróttaiðkanir eiga ásamt mörgum öðrum ráðstöfunum þátt í að auka viðnámsþrótt manna og forða þeim frá sjúkdómum, er stafa af sýklum og ýmsum öðrum sýkingaröflum. Hinsvegar verður eigi séð, að heilnæmir lifnaðarhættir skapi ónæmi gegn sýklasjúkdómum yfirleitt. Og mikill fjöldi sjúkdóma á sér enn ókunnar orsakir, sem því er ekki hægt að útrýma.

Hér vil ég bæta við nokkrum athugasemdum frá sjónarhóli náttúrulækningastefnunnar.

Margar niðurstöður og ályktanir læknavísindanna eru fengnar frá næringartilraunum á dýrum og mönnum. Tilraununum er oft hagað þannig, að fæðan er svipt eða í hana bætt einu efni; hún er t.d. gjörsneydd C-fjörefni en slíkt kemur aldrei fyrir í veruleikanum. Niðurstöður slíkra rannsókna hafa því takmarkaða þýðingu og geta verið beinlínis villandi. Sé tilraununum hinsvegar hagað á þann veg, að tilraunadýrunum er gefið fæði líkt því, sem fólk notar í mismunandi stéttum eða löndum, fást raunhæfari niðurstöður varðandi sambandið milli heilsufars og viðurværis. Slíkar rannsóknir voru gerðar á fyrsta þriðjungi þessarar aldar austur í Indlandi. Framkvæmdi þær þekktur enskur læknir og vísindamaður, Sir Robert McCarrison, og er þeim að nokkru lýst í bók hans, “Mataræði og heilsufar„, sem NLFÍ gaf út með leyfi höfundar árið 1950. Hér er ekki tími til að lýsa þessum tilraunum, en niðurstöður þeirra voru í stuttu máli þær, að á náttúrlegu fæði, líku því, sem einhver heilbrigðasti þjóðflokkur í heimi, Hunzamenn í Norður-Indlandi, lifir á, lifa tilraunadýrin fullkomlega heilbrigð og sjúkdómalaus, en á fæði áþekku því, sem vestrænar þjóðir nota, verða þau að bráð samskonar sjúkdómum og þær, að krabbameini ekki undanskildu.

Að margra dómi eru þetta einhverjar merkilegustu næringartilraunir, sem nokkru sinni hafa verið gerðar. En því miður virðast læknavísindin ekki hafa gefið þeim þann gaum sem skyldi, og á þær eða niðurstöður þeirra er ekki minnst í þeim læknisfræðibókum, sem ég hefi lesið. Þó er getið þar um McCarrison og frá því sagt, að hann hafi aldrei séð botnlangabólgu í Hunzalandi þau 9 ár, er hann starfaði þar sem læknir, enda þótt landsmenn fái þann sjúkdóm, eins og annað fólk, ef þeir dvelja erlendis og taka upp mataræði vestrænna þjóða. (Frá þessu var sagt í Heilsuvernd fyrir nokkrum árum).

Í ljósi þessara tilrauna og út frá athugunum á heilsufari ýmissa afskekktra þjóða eða þjóðarbrota, sem búið hafa við frumstæða lífshætti, virðist mér varla komizt hjá því að álykta, að einfalt, náttúrlegt mataræði, ásamt heilnæmum lífsháttum að öðru leyti, sé öruggasta ˆ og sennilega eina ˆ leiðin til þess að öðlast fullkomna heilbrigði.

2. Næsta spurning, sem við leggjum fyrir læknisfræðina, er þessi:Eru rangir lifnaðarhættir meginorsök sjúkdóma?
Kunnugt er um allmikinn fjölda sjúkdóma, sem orsakast beinlínis af skorti vissra næringarefna, af hungri, beint eða óbeint af ofáti, af neyzlu eiturlyfja, af óheilnæmum vinnuskilyrðum o.s.frv. Meðal þeirra má nefna sjúkdóma stafandi af skorti fjörefna, atvinnusjúkdóma o.fl. Ennfremur er það viðurkennt, að vanalinn líkami verður sýklum yfirleitt auðveldari bráð en vel nærður og heilbrigður líkami.

Ein höfuðorsök sjúkdóma eru sýklar og önnur sníkjudýr. En hvernig stendur á því, að menn eru svo misnæmir fyrir áhrifum sýklanna? Í hverju er þetta ónæmi fólgið? Þeirri spurningu eiga læknavísindin ósvarað. Á fullkomlega heilbrigður líkami að geta staðizt árásir sýklanna? Þeirri spurningu mundu flestir svara neitandi.

En athugum málið nánar. Það að ákveðinn sýkill finnist í líkama sjúklinga í ákveðnum sjúkdómi, t.d. í mislingum eða taugaveiki, er út af fyrir sig ekki full sönnun þess, að sýkillinn sé aðalorsök sjúkdómsins, þótt allt virðist benda til þess. Og víst er um það, að við mörgum slíkum sjúkdómum þekkjast engin lyf, svo að líkaminn verður að treysta á eigin varnir til að ráða niðurlögum sýklanna, og tekst það oftast, sé hann ekki veiklaður fyrir eða sýklarnir þeim mun magnaðri. Læknisfræðin leggur nú mikla áherzlu á, ekki sízt í þeim sýklasjúkdómum, sem engin lyf þekkjast við, að sjúklingnum sé séð fyrir fjörefnum og steinefnum í nægilegu magni, ekki síður en öðrum næringarefnum. Og að órannsökuðu máli er ekki hægt að neita því, að fullheilbrigður líkami kunni að geta varizt árásum flestra sýkla. Það skellir enginn skuldinni á regnið eða vindinn, ef rignir eða blæs inn um sprunginn vegg eða óþéttan glugga.

Kunnugt er, að í ýmsum farsóttum hýsir fjöldi heilbrigðra manna sýklana, án þess að verða meint af; svo er t.d. um mænuveiki, inflúenzu, heilasótt o.fl. Lungnabólgusýkillinn finnst oft í nefkoki heilbrigðra, en kemst ekki út í lungnablöðrurnar, ef slímhúð öndunarfæranna er óskemmd. Í nefi, nefkoki, nef- og ennisholum er þunnt lag af slími, sem sífellt er framleitt af svonefndum slímfrumum. Þær eru búnar fínum bifhárum, sem eru á stöðugri hreyfingu og ýta slímlaginu áfram í áttina út úr nef- og ennisholum inn í nefið og þaðan aftur í kok. Ryk og sýklar festast í slíminu, og berazt allt niður í maga, það sem maður ekki skyrpir út úr sér. Í maganum vinna sýrur á þeim sýklum, sem komizt hafa þangað með lífsmarki. Sýklar, sem berast kunna niður í barka eða lungnapípur, festast þar í slími og eru reknir öfugir út aftur af bifhárum, sem þar er einnig að finna.

Fái nú slímfrumurnar ekki fullnægjandi næringu sér til viðhalds, annaðhvort vegna lélegs viðurværis eða truflana á blóðstreymi, eða verði þær fyrir skemmdum af öðrum sökum, sjá sýklarnir sér leik á borði, ná fótfestu í nef- og ennisholum, nefi, nefkoki, barka eða lungnapípum eða komast alla leið út í lungnablöðrur. Þarf ef til vill aðeins væga ofkælingu til þess að valda kvefi, lungnakvefi eða lungnabólgu í fólki, sem virðist vera gallhraust.

Langt er síðan sannað var, að A-fjörefni eiga mikinn þátt í að auka varnarmátt líkamans gegn sýklum, m.a. með því að styrkja þekjuvefi líkamans, aðallega slímhúðir. Og þannig mætti nefna fleiri dæmi, sem sýna, að rétt næring er mikilvægur þáttur í sóttvörnum. Þó mundi enginn, hversu sanntrúaður náttúrulækningasinni sem hann væri, gera sér leik að því ˆ nema þá hann vildi leggja sig í hættu í tilraunaskyni ˆ, að gleypa í sig eða láta dæla í sig herskörum hættulegra sýkla, heldur telja sér skylt að viðhafa sjálfsagðar hreinlætis- og sóttvarnarráðstafanir. En meðan ekki er vitað, í hverju ónæmi gegn ýmiskonar sýklum er fólgið, væri óhyggilegt og óvísindalegt að neita því, að rétt næring og aðrar heilnæmar lífsvenjur séu veigamikill þáttur í myndun þessa ónæmis.

En hvað á þá að segja um þjóðir hitabeltislanda? Oft hefir verið á það bent, að þar sé lítið um allskonar menningar- eða hrörnunarkvilla, svo sem krabbamein, botnlangabólgu og magasár. Ef þetta er að þakka náttúrlegu mataræði, hversvegna verða þær þjóðir þá svo mjög ýmsum farsóttum að bráð?

Því er til að svara, að þarna er hreinlæti á mjög lágu stigi og sóttvarnir litlar eða engar, en hinsvegar margir skæðir sýklar eða sníkjudýr. Ennfremur er það staðreynd, að við dvöl í mjög heitu loftslagi lækka efnaskipti manna. Menn verða sljórri en ella, værukærari, daufari, allar efnabreytingar hægari; unglingar þroskast seinna, fólk nær háum aldri; en hin hægu efnaskipti veikja viðnámsþróttinn, og það færa sýklarnir sér í nyt.

Eigi að síður bendir margt til þess, að hér megi miklu fá áorkað með bættri næringu, enda þótt sjálfsagt sé að beita öllum öðrum tiltækilegum ráðum til að útrýma hitabeltissjúkdómum. Tilraunir enska vísindamannsins Alberts Howards austur í Indlandi færðu sönnur á, að hægt var að ala upp heilbrigðar jurtir, sem engin sníkjudýr unnu á, með sérstökum ræktunaraðferðum, og að dýr, sem fóðruð voru á þessum jurtum, urðu ónæm fyrir jafnskæðum sjúkdómi og gin- og klaufaveiki. Þó að ekki sé leyfilegt að heimfæra slíkar tilraunir, sem lýst hefir verið í Heilsuvernd upp á menn, án nánari rannsókna, styrkja þær skoðanir þeirra, sem telja heilnæma lifnaðarhætti meginstoð heilbrigði.

Víkjum þá nokkrum orðum að sjúkdómum þeim, sem oft hafa verið nefndir hrörnunar- eða menningarsjúkdómar, en það er meginþorri þeirra sjúkdóma, sem nú herja á hvítar menningarþjóðir. Yfirleitt eru þetta sjúkdómar, sem sýklum verður ekki um kennt og eiga sér óljósar eða með öllu ókunnar orsakir. Meðal þeirra má nefna meltingarsjúkdóma allskonar, húðsjúkdóma, taugasjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, krabbamein og önnur æxli, ofnæmissjúkdóma, gigtsjúkdóma, nýrnasjúkdóma, hjarta- og æðasjúkdóma, blóðsjúkdóma, svo að taldir séu helztu flokkarnir.

Náttúrulækningastefnan heldur því fram, að þessum sjúkdómum megi að mestu útrýma með réttum lífsháttum, enda þótt ekki sé hægt að benda á ákveðna orsök hvers sjúkdóms. Venjulega mun orsakasambandið vera fjölþættara en svo, að einstakir sjúkdómar eða sjúkdómseinkenni verði rakin til ákveðinnar orsakar. Þetta stafar í senn af því, hve fjölþættar orsakirnar eru, þegar t.d. um lélegt fæði er að ræða, svo sem vöntun margra næringarefna, eiturefni í mat og nautnalyfjum, auk ýmissa óhollra lífsvenja að öðru leyti, og hinu, að viðbrögð mannslíkamans eru háð upplagi og uppeldi og því aldrei eins hjá tveimur einstaklingum. Af því leiðir, að þótt sjúkdómum séu gefin viss heiti, eru þeir raunverulega eins margir og sjúklingarnir, og sami “sjúkdómur„ hagar sér aldrei eins hjá tveimur sjúklingum. Þótt menn lifi á svipuðu fæði og búi við svipuð skilyrði, getur vöntun nauðsynlegra næringarefna eða skaðleg efni í viðurværinu komið fram í hinum ólíkustu sjúkdómsmyndum, lýst sér t.d. sem húðsjúkdómur hjá einum, meltingarsjúkdómur hjá öðrum o.s.frv.

Séu þessi sjónarmið rétt, en til þess benda tilraunir McCarrisons mjög ákveðið, er það næsta auðskilið mál, að með því einu að færa mataræði í rétt horf, sé unnt að útrýma fjölda sjúkdóma, sem fljótt á litið virðast ekki eiga neitt sammerkt.

Þó að mikið vanti á, að læknavísindin viðurkenni sjónarmið náttúrulækningastefnunnar til fulls, hafa rannsóknir síðari ára mjókkað bilið milli þessara aðila. Sykur mun nú talinn ein aðalorsök tannskemmda. Fáir munu treysta sér til að vefengja, að tóbaksreykingar séu veigamesta orsök krabbameins í lungum. Vitað er, að mörg efni, sem notuð eru í matvælaiðnaði, geta valdið krabbameini. Við framleiðslu krabbameins í dýrum með slíkum efnum hefir það sýnt sig, að fæði tilraunadýranna hefir mikla þýðingu; mikil fita í fæðinu flýtir þannig fyrir því, að krabbameinið myndast, og sama er að segja um vissar tegundir eggjahvítuefna; og þessar tilraunir sýna, að ástæða er til að halda, að krabbamein standi í sambandi við ofát.

Sjúkdómar í æðum hjartavöðvans, kransæðunum, eru með tíðustu banameinum. Rannsóknir, sem gerðar voru á líkum amerískra hermanna, sem féllu í Kóreustyrjöldinni, sýndu að í 70-80% fundust sjúklegar breytingar, kalkanir, í kransæðunum. Þetta voru þó menn á bezta aldri og að því er virtist ímynd hreysti og heilbrigði. Rannsóknir síðari ára benda til þess, að meðal orsaka þessara skemmda megi telja efst á blaði reykingar og mikla neyzlu fitu úr dýraríkinu eða hertrar jurtafeiti. Í sambandi við æðakölkun almennt skal þess ennfremur getið, að í blóði hefir fundizt efni, svokallað fibrinolysin, sem varnar því, að storkið blóð setjist innan á æðaveggi; hæfileg hreyfing virðist auka myndun þessa efnis og vinna þannig gegn æðastíflun, en neyzla fitu verkar öfugt. Og í einni af nýjustu kennslubókum í læknisfræði er frá því skýrt, að jurtafæða og sparneytni virðist vörn gegn æðakölkun, en offita stuðli að henni.

Í sambandi við húðsjúkdóma ýmsa, svo sem kýli, graftarbólur, sem sækja á unglingspilta, er meðal orsaka, sem raunar eru að mestu óþekktar, getið um tregar hægðir og sjúkdóma í meltingarfærum.

Og í fyrri hluta þessa erindis var á það minnzt, að nútíma læknavísindi héldu því fram, sem náttúrulæknar hafa löngum lagt áherzlu á, að náttúruleg matvæli væru bezti fjörefnagjafinn, sem tæki fram samanþjöppuðum eða tilbúnum fjörefnum, þó að þau geti verið gagnleg að vissu marki. Og með því að þar var drepið á Sanasól, er rétt að geta þess, að eftir að erindið var flutt, lét stjórn NLFÍ gera efnarannsókn í Atvinnudeild Háskólans á einni flösku af Sanasóli, sem keypt var í verzlun Pöntunarfélags NLFR og geymd í kæli, unz efnagreining fór fram. Rannsóknin staðfesti, að við opnun flöskunnar var magn A- og C-fjörefna fyllilega það, sem auglýst er á umbúðunum. Sykurinnihald reyndist 54%, þ.e. að rúmlega helmingur Sanasólsins er sykur. Efnagreiningin sýnir ekki, hve mikill hluti fjörefnanna og sykursins er úr hráefnunum sjálfum, sem notuð eru við framleiðsluna, eða hve miklu er bætt í af sykri og tilbúnum fjörefnum.

Enn mætti lengi telja dæmi þess úr nýjustu ritum um læknisfræði, að böndin berast æ meir að röngum lífsháttum sem orsök sjúkdóma.

3. Síðasta spurningin, sem við leggjum fyrir læknisfræðina í kvöld, er þessi: Er hægt að lækna sjúkdóma án lyfja?
Öllum læknum er það ljóst, að mikill fjöldi sjúkdóma læknast sjálfkrafa, hvort sem sjúklingurinn fær lyf eða ekki. Og áður en fjörefnalyfin og hin nýju bakteríueyðandi lyf komu til sögunnar, var hægt að telja á fingrum sér þau lyf, sem sannað var að hefðu lækningamátt. Það er ennfremur viðurkennt, að hin nýju lyf eru notuð miklu meira en góðu hófi gegnir. En þau eru samt nú eitt sterkasta vopn lækna í baráttu þeirra gegn sýklum.

Þá telur læknisfræðin nauðsynlegt að nota lyf í viðurkenndum hörgulsjúkdómum (járn, fjörefni o.s.frv.), og í mörgum öðrum tilfellum.

Í seinni tíð leggja læknar þeir, er um þessi efni rita, mikla áherzlu á efnaríkt og alhliða fæði, ekki aðeins í hörgulsjúkdómum, heldur og í sýklasjúkdómum, húðsjúkdómum ýmsum; en þar er stundum mælt sérstaklega með mjólkur- og jurtafæði og fleiri sjúkdómum, sem þó eru ekki taldir stafa af efnavöntun. En það liggur í hlutarins eðli, að meðan læknavísindin viðurkenna ekki rangt fæði sem orsök sjúkdóms, geta þau ekki fallist á, að hægt sé að lækna hann með mataræði.

Tilraunir lækna til að lækna sjúkdóma með mataræði hafa venjulega verið fólgnar í því að bæta í lélegt viðurværi vissum næringarefnum, svo sem fjörefnum; verði enginn árangur, er ályktað sem svo, að þennan sjúkdóm sé ekki hægt að lækna með mataræði.

Og svo standa læknar ráðþrota gagnvart mörgum algengustu sjúkdómum, geta í hæsta lagi linað þrautir eða eytt sjúkdómseinkennum um stundarsakir, og þá jafnan með lyfjum, sem sjálf eru meira og minna skaðleg. Og lækna greinir á um árangur af notkun lyfja. Sem dæmi má nefna, að læknir sá, er ritar um háan blóðþrýsting í kennslubók í lyflæknisfræði, kveðst ekki þekkja neitt dæmi þess, að lyf hafi lengt líf sjúklinga með háan blóðþrýsting.

Eins og ykkur er kunnugt, leggur náttúrulækningastefnan mest upp úr mataræði við lækningu sjúkra, auk annarra ráða, sem hér verða ekki talin. Um afstöðu náttúrulækningastefnunnar til hinna nýrri bakteríueyðandi lyfja er mér ekki kunnugt.

En mál mitt er orðið lengra en svo, að tök séu á að gera spurningunni um lækningaaðferðir skil í kvöld, enda er það efni í heilt erindi. Þar við bætist, að mat á árangri af náttúrulækningaaðferðum verður að byggjast á reynslu eða tölulegum skýrslum, sem mig skortir hvorttveggja, svo að ég tel mér ekki fært að fella neinn dóm að sinni. En ég fer ekki dult með það, að mér mun ekki koma á óvart, þó að aðferðir náttúrulækningastefnunnar, í höndum góðra manna, fari sigursælar út úr samanburði við venjulegar lækningaaðferðir.

Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 1. tbl. 1958, bls. 11-17

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi