Hvað eru náttúrulækningar


Fyrir nokkru var frá því skýrt í dagblaði í Reykjavík, að danskur teppasali væri farinn að lækna fólk með óvenjulegum hætti. Hann fær sendan blóðdropa frá sjúklingum og læknar þá svo úr fjarlægð, eða þá að sjúklingarnir koma til hans eða hann til þeirra, og hann leggur hendur yfir þá; og hvorri aðferðinni sem beitt er fá sjúklingarnir skjótan bata, oftast eftir langvarandi vanheilsu og árangurslausar göngur milli lækna með tilheyrandi lyfjaáti. Í hópi þessara sjúklinga eru þegar nokkrir Íslendingar. Í dagblaðinu er læknir þessi kallaður “náttúrulæknir”, oftast innan gæsalappa.

Það skal strax tekið fram, að þessar lækningaaðferðir eiga ekkert skylt við náttúrulækningar. Miklu fremur mætti kalla þær yfirnáttúrulegar, því að ef raunverulega er um lækningar að ræða verða þær ekki skýrðar út frá þeirri þekkingu sem læknisfræðin eða aðrar vísindagreinar ráða yfir.

Náttúrulækningastefnan er mjög gömul, enda þótt þetta heiti sé tiltölulega nýtilkomið. Segja má, að faðir þessarar stefnu sé gríski læknirinn Hippókrates, en hann er talinn faðir læknisfræðinnar. Á hans dögum, á 5. öld fyrir Krists burð, var ekki um auðugan garð að gresja á sviði lyfja, varla um annað að ræða en jurtir og jurtalyf, en fornþjóðirnar höfðu aflað sér mikillar reynslu og þekkingar í sambandi við notkun jurta til inntöku eða í bakstra. Hippókrates lagði megináherslu á að koma í veg fyrir sjúkdóma með réttu mataræði og réttum lifnaðarháttum, taldi sjúkdóma stafa af röngum lífsvenjum og vildi lækna þá með því að lagfæra lífshættina og með ýmsum öðrum styrkjandi ráðum. Og þetta er inntakið í kenningum náttúrulækna enn í dag. Nú á dögum þekkjast mörg ráð, lyf, skurðaðgerðir o.fl., sem grípa verður til þegar sjúkdómur er kominn á hátt stig eða verður ekki bættur með öðrum hætti. En flesta sjúkdóma telja þeir unnt að lækna með hinum náttúrlegu aðferðum, svo sem lagfæringu á mataræði, hreyfingu og útivist, böðum og ýmsum öðrum styrkjandi ráðum sem hér verða ekki upp talin. Og aðalstarf þeirra beinist að því að kenna fólki heilnæma lifnaðarhætti í hvívetna til að koma í veg fyrir sjúkdóma. Kunnasti boðberi þessarar stefnu á Norðurlöndum, Are Waerland, kemur boðskap hennar fyrir í einni stuttri kennisetningu: “Við eigum ekki í höggi við sjúkdóma, heldur við rangar lífsvenjur. Leiðréttið hinar röngu lífsvenjur, og sjúkdómarnir munu hverfa af sjálfu sér”.

Þessi stefna hefir átt formælendur á öllum öldum, bæði meðal lærðra lækna og ekki síður meðal leikmanna, og hefir sumum þeirra orðið mikið ágengt í því að leiðbeina sjúklingum og lækna þá. Á hinn bóginn hafa svo verið til menn sem hafa beitt allskonar kukli og margvíslegum svokölluðum lyfjum, bæði útvortis og innvortis, án minnstu kunnáttu og einungis í því skyni að auðgast á því, og gert sér þannig neyð og trúgirni almennings að féþúfu. Sumir hafa aflað sér nokkurrar þekkingar í læknisfræði og náð vissum árangri í lækningatilraunum sínum. Og í sumum löndum, aðallega í Þýskalandi, var heitið náttúrulæknir um tíma notað um slíka skottulækna.

Á síðari árum er náttúrulækningastefnan orðin viðurkennd innan læknisfræðinnar, a.m.k. í sumum löndum, og í Þýskalandi hefir henni verið helgað nokkurt rúm í kennslubókum í læknisfræði. Þar í landi er fjöldi háskólamenntaðra lækna sem hafa gengið þessari stefnu á hönd, og hafa margir þeirra sett upp hæli, sem eru mikið sótt.

Jónas Kristjánsson er óumdeilanlega athafnamesti boðberi náttúrulækningastefnunnar hér á landi, vék aldrei af vegi hennar í orði eða á borði og helgaði henni síðustu 40 ár ævi sinnar. En aðrir þjóðkunnir læknar hafa tekið undir hana, sumir jafnvel á undan honum. Vil ég hér nefna þrjá þeirra.

Steingrímur Matthíasson gaf út bók um heilsufræði árið 1914, og var hún endurprentuð 1920. Í henni er að finna ráðleggingar um verndun heilsunnar svipaðar kenningum Jónasar Kristjánssonar og annarra náttúrulækna.

Guðmundur Hannesson prófessor segir í grein í Skírni árið 1913: “Sú trú hefir gengið um öll lönd, að alvarlegir sjúkdómar batni ekki af sjálfu sér aðgerðarlaust, heldur þurfi að reka þá út úr líkamanum með harðri hendi, með læknislyfjum sem við þeim eigi og ætíð séu til ef menn þekki þau. Að miklu leyti er hvortveggja staðhæfingin röng, eftir því sem menn frekast vita. Allur fjöldi sótta batnar af sjálfu sér. Náttúran læknar sjúklingana ef hún fær að ráða og mennirnir taka ekki í fávisku sinni fram fyrir hendur hennar. Aftur verða fæstir sjúkdómar reknir burtu með lyfjum sem við þeim eigi, blátt áfram af þeirri ástæðu að slík lyf þekkjast ekki og hafa aldrei þekkst. Lyfjatrúin sýnist að þessu leyti hafa verið hjátrú ein og ekkert annað”. (Leturbreytingar eru gerðar af G.H. sjálfum). Síðar í greininni kallar hann þessa hjátrú “trúna á lýgina”.

Dr. Vilmundur Jónsson ritaði í Alþýðublaðið 18. marz 1933 grein sem hann kallar “Trúin á lýgina”, og er hún lokasvar hans í blaðadeilu við Guðmund Hannesson, en Vilmundur var þá orðinn landlæknir. Þar segir svo:

“1. Læknar lækna fæsta sjúkdóma með aðgerðum sínum og lyfjum.

2. Flestir sjúkdómar batna af sjálfu sér eða læknast af náttúrunni ef menn vilja heldur orða það svo.

3. Fólk er skaðlega hjátrúarfullt um þessi efni, heldur að enginn sjúkdómur geti batnað nema hann sé læknaður og hefir af því miklar hugraunir, erfiði og óhóflegan kostnað”.

Þegar þessar greinar birtust voru súlfalyf, penísillín og önnur fúkalyf óþekkt, en þau hafa gjörbreytt batahorfum sjúklinga með ýmsar næmar sóttir og aðra sýklasjúkdóma, en að vísu hefir þar fylgt böggull skammrifi (sbr. grein um lyfjanotkun hér á undan). Á hinn bóginn hefir tekist að útrýma skæðum sóttum eins og t.d. taugaveiki án lyfja, því að við henni þekkjast engin lyf, heldur með viðeigandi varnarráðstöfunum. Við berklum hafa fundist lyf, en í viðureigninni við berklana hafa varnarráðstafanir reynst árangursríkastar.

BLJ

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 3. tbl. 1975,
bls. 63-65 og 58

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi