Lognið í miðju stormsins

Stjórnun er eitthvað sem við erum farin að taka sem sjálfsögðum hlut í lífi okkar. Við veljum okkur starfsvettvang, menntum okkur til þess að komast inn á þann vettvang, stjórnum tíma okkar, mataræði, fjölskylduhögum, barneignum, tíðarhringjum, hárlit og jafnvel augnlit. Við getum ákveðið að vera komin í aðra heimsálfu áður en sólarhringurinn er liðinn. Við getum stjórnað öðru fólki hinum megin á hnettinum í rauntíma. með hjálp tækninnar. Við virkjum ár og vinda.

Við erum orðin svo vön því að geta stjórnað nánast hverju einasta smáatriði í lífi okkar að það verður nánast að þráhyggju. Við getum ekki sleppt taumnum. Við getum ekki látið reka á reiðann og séð hvað gerist. Við þurfum að hafa völdin á öllu í lífi okkar í okkar höndum.
Þess vegna eru svona stormar eins og Sandy og systur hennar kannski nauðsynlegir. Þar okkur er skyndilega kippt úr sambandi. Þar sem flugum er aflýst, rafmangið fer af í lengri eða skemmri tíma og viðburðum er aflýst. Og það er ekkert sem við getum gert til að breyta því. Við höfum öll gott af því að gefa lausan tauminn stundum og slaka aðeins á. Njóta þess að vera í núinu, njóta þess að vera til staðar. Njóta þess sem er í stað þess sem gæti verið eða við vildum gjarnan hafa.

Nez Perce iníánarnir í Norður-Ameríku trúðu því að á ákveðnum tímapunkti í lífi sínu þurfti hver og einn að ganga einn út í auðnina. Þar átti hann að setjast á stein og bíða þar til að andi hans myndi ná honum. Þegar við stígum út úr stressinu og náum aðeins að tæma hugann sjáum við hlutina oft í skýrari ljósi. Þá er auðveldara að átta sig á því hvert maður vill stefna og hvað maður vill gera.
Þeim mun meiri sem hraðinn er, þeim mun óþolinmóðari verðum við. Við setjumst í stól og þegar við stöndum upp úr honum nokkrum klukkutímum síðar erum við komin í aðra heimsálfu. Og erum að farast úr stressi og pirringi ef við erum 15 mínútum of sein. Það tekur upp undir viku að sigla. Við pirrumst yfir því hvað tengingin í símanum er hæg en á sekúndubroti er hún búin senda gögn út í geim og tilbaka.
Í hinu hraða nútímasamfélagi hefðu allir mjög gott af því að setjast stöku sinnum niður fjarri Facebook, tölvupósti og farsímum og ná andanum. Skynja aðeins sjálfan sig og njóta þess sem maður hefur í núinu og skiptir mann raunverulegu máli. Það gæti nefnilega komið á daginn að það sem við erum allan daginn að rembast við að ná, er eitthvað sem við höfum þegar náð á öðrum sviðum í lífinu. Við bara höfum ekki gefið okkur færi á að átta okkur á því og njóta þess.
Kannski þurfum við ekki allt þetta stress sem er að ganga af okkur dauðum. Gleymum því ekki að vera til staðar í núinu og njóta þess sem mestu máli skiptir.

„Life is what happens to you when you’re busy making other plans.“ – John Lennon

Related posts

Tyggjum matinn vel

Góð heilsa alla ævi án öfga

Getum við fengið árið 1983 aftur?