Jólahugvekja

Nú er enn eitt árið að renna sitt skeið og jólin á næsta leyti. Jólin eru einkennilegur tími og ég held að fæstir leiði í raun hugann að því af hverju við höldum jól. Jólin eru að mestu orðin hátíð kaupmanna og það er byrjað að ota að okkur jólaauglýsingum í lok september. Stöldrum aðeins við, drögum andann og slökum á. Reynum að halda gleði og friðarjól með þeim sem okkur þykir vænst um. Jólin koma þó að það sé ekki búið að þrífa allt hátt og lágt, allir séu nýgreiddir og í nýjum fötum, gjafir hafi verið keyptar fyrir hundruð þúsunda og allar heimsins kræsingar séu á borðum. Flest okkar eigum við nóg af allskyns dóti og höfum misgaman af. Setjum græjurnar aðeins til hliðar og gefum börnum okkar tíma. Börnin okkar þurfa miklu frekar tíma og samvistir með okkur en nýjustu og flottustu heyrnartólunum eða „snjall“símunum.

Þetta ár hefur verið viðburðaríkt í sögu Náttúrulækningafélags Íslands, félagið fagnaði 80 ára afmæli sínu á árinu með mikilli afmælishátíð á Sauðárkróki í sumar.
Margt hefur breyst í íslensku samfélagi á þessum 80 árum en þörfin  fyrir félag eins og NLFÍ er meiri í dag en þegar það var stofnað. Nútímamaðurinn er að berjast við halda heilsu sinni því sjaldan eða aldrei hefur verið eins mikið framboð af óhollustu, skyndibita, skyndilausnum og afþreygingu. Við erum að drepa okkur á hreyfingarleysi með endalausri setu í bílum okkar, vinnustólnum, sjónvarps- og snjallsímaglápi. Helsta vá nútímamannsins er stressið og andlega álagið sem  dynur á honum alla daga sem fær hann til hafa litla sem enga orku til að sinna hollu mataræði eða reglulegri hreyfingu. Við þurfum að fara að forgangsraða lífi okkar og huga betur að heilsunni með því að gefa okkur tíma í hana, því það er ekki víst að hún hafi tíma fyrir okkur á morgun.

Það hafa líka orðið miklar breytingar á réttindum kynjanna á þessum 80 árum sem NLFÍ hefur verið starfandi.  Á þessu ári fór af stað #metoo byltingin þar sem barist er  gegn kynbundnu ofbeldi. Við Íslendingar höfum náð langt í bæta jafnrétti kynjanna á flestum sviðum en það er greinilega enn lagt í land þegar kemur að kynferðisofbeldi sem konur eru beyttar af hinu kyninu.
Undirirtaður telst til karlkyns og á þrjár yndislegar dætur, ástríka eiginkonu, frábæra mömmu, æðislegar systur, þrælskemmtilega ömmu, hjartarhlýjar frænkur og frábærar vinkonur. Hafandi þennan yndislega kvennahóp í kringum mig þá vill ég ekkert frekar að þessir kvenmenn sem standa mér svona nærri og allar þeirra kynsystur njóti jafnréttis í þessum heimi og geti gengið í gegnum lífið án þess að verða fyrir ofbeldi af nokkru tagi.
Við ráðum því ekkert þegar við fæðumst í þennan heim hvort við fæðumst sem kvenn- eða karlmenn og hví ætti annað kynið að þurfa verða fyrir ofbeldi eða ofríki af hendi hins kynsins? Við fæðumst öll sem menn (karl og kvenmenn) og eigum að stuðla að mannréttindum á öllum sviðum lífsins á.t.t. kyns. Þó megum við gjarnan meta og virða kosti og galla hvors kyns fyrir sig og allar útgáfur frá því sem telst kvenlegt eða karlmannlegt hjá báðum kynjum.

Undirritaður þakkar lesendum og meðlimum NLFÍ fyrir árið og óskar öllum gleðilegra og heilsusamlegra jóla.

Geir Gunnar Markússon, ritstjóri NLFÍ

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi