Hvað er ofstæki?


Orðið ofstæki er munntamt mörgum þeim, sem af ýmsum ástæðum, svo sem skorti á þekkingu eða rökum, telja vænlegra að nota sterk vígorð en málefnarök. Brautryðjendur nýrrar stefnu í heilbrigðis- og næringarmálum hafa hvarvetna fengið að kenna á þeirri bardagaaðferð, bæði af hendi lækna og leikmanna. Og formælendur náttúrulækningastefnunnar hér á landi hafa ekki farið varhluta af þessari tegund “rökræðna”, fyrr og síðar.

Hvað er ofstæki? Er það ofstæki að hirða bílinn sinn vel, svo að hann líti jafnan vel út og endist sem lengst, sjá honum fyrir réttu eldsneyti, réttri smurningu og nauðsynlegu viðhaldi? Er það ofstæki að vanda til fóðurs mjólkurkúnna og refanna eftir bezta viti og þekkingu til þess að firra þau sjúkdómum og fá sem mestan arð af þeim? Er það ofstæki að vilja ekki eitra líkama sinn með skaðlegum efnum, svo sem kókaíni, áfengi, nikótíni eða koffeíni? Er það ofstæki að forðast þau matvæli, sem eigin reynsla, reynsla annarra að fornu og nýju og margvíslegar rannsóknir og athuganir merkra lækna og fræðimanna hafa sýnt að vera skaðlegar? Eða er það máske ofstæki að geta ekki þolað öðrum að haga sér á annan veg en fjöldinn?

Fyrir nokkrum árum þótti það versta skammaryrði að vera kallaður hrossakjötsæta. Nú eru þeir menn hafðir að háði og spotti, sem geta ekki borðað hrossakjöt eins og annað kjöt. Ekki eru mörg ár síðan Jónas læknir Kristjánsson var talinn mesti öfgamaður fyrir að fordæma hvítt hveiti og sykur sem óhæfar og heilsuspillandi fæðutegundir, og hann og aðrir, sem honum fylgdu að málum, voru nefndir “grasætur” með mikilli fyrirlitningu, fyrir að leggja sér til munns hrátt grænmeti. Nú mundi sá maður þykja koma sem álfur út úr hól, er teldi hvítt hveiti og sykur fullkomnar fæðutegundir eða legði einhverjum það til lasts að borða hrátt grænmeti.

Það er ómótmælanleg staðreynd, lesendum Heilsuverndar vel kunn, að á jurtafæðu einni saman, jafnvel án mjólkur, er auðvelt að lifa góðu lífi og fullkomlega heilbrigður, hvernig svo sem vinnu eða loftslagi er háttað.

Í fyrri heimsstyrjöldinni sat á rökstólum alþjóðamatvælanefnd, skipuð þekktum vísindamönnum og næringarfræðingum. Á fundi sínum í París ræddi nefndin um skömmtun kjöts og komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri nauðsynlegt, næringarlega séð, að ákveða nokkurt lágmark, “…. vegna þess að líffræðilega séð er kjötneyzla óþörf, þar eð mjólk, ostar, egg, hnetur og ýmis jurtafæða inniheldur samskonar eggjahvítu og kjötið”.

Þá segir hinn kunni næringarfræðingur, prófessor McCollum við Johns Hopkins háskólann í Bandaríkjunum: “Stærsta skrefið í þá átt að efla heilbrigði almennings í þessu landi væri í því fólgið að draga úr kjötneyzlu flestra heimila, en auka neyzlu mjólkur og grænmetis. …. Við gætum lagt kjötneyzlu niður með öllu án þess að hafa á nokkurn hátt verra af”.

Þekktur franskur læknir, próf. Dujardin ‚beaumetz, benti á það fyrir mörgum árum, að fiskur stæði kjöti að baki sem fæðutegund, vegna þess hve fljótt hann rotnar.

Hér er að vísu ekki sagt beinum orðum, að hófleg neyzla kjöts og fisks sé skaðleg. En í Heilsuvernd og í öðrum ritum N.L.F.Í. hafa verið leidd sterk rök að því, byggð á vísindarannsóknum og margháttaðri reynslu, að manninum sé ekki eðlilegt — og beinlínis skaðlegt, að leggja sér þessar fæðutegundir til munns.

Um rökin gegn neyzlu mjólkur skal ekki rætt hér. Sjálfsagt hafa þeir menn, sem lifa án mjólkur, eitthvað til síns máls. Og sýni reynslan, að viðurværi þeirra fullnægi lífsþörfunum jafnvel og jurtafæða ásamt mjólk, á slíkt viðurværi fyllsta rétt á sér, og það er meira en lítill skortur á frjálslyndi að amast við því.

Ef læknir bannar magaveikum manni að drekka kaffi, borða sætar kökur, kjöt eða fisk, þá er það talinn sjálfsagður hlutur. En hinn sem forðast þessi matvæli til að koma í veg fyrir, að hann verði magaveikur, er kallaður sérvitringur eða ofstækismaður. Betur að slíkum “ofstækismönnum” færi fjölgandi í landinu.

Að lokum þetta: Það er því miður alltof algengt, að menn hafi ekki kjark til að fylgja sannfæringu sinni í daglegum háttum, af ótta við að vekja á sér eftirtekt eða verða að athlægi. Þannig veigra margir sér við jafnsjálfsögðum hlut og að biðja um heitt vatn í stað kaffis. Og enn óbærilegra finnst sumum að þurfa að láta á því bera, að þeir borði ekki allan venjulegan mat, svo sem kjöt eða fisk. Sami óttinn knýr margan unglinginn til að reykja fyrstu sígarettuna og drekka fyrsta vínglasið.

B.L.J.

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 3. tbl. 1952, bls. 89-91

Related posts

Tyggjum matinn vel

Góð heilsa alla ævi án öfga

Getum við fengið árið 1983 aftur?