Síðan ég man eftir mér hafa hlaup verið mín útrás og andlega þerapía. Ég var lítill kvíðinn gutti og fann fljótt hvað hreyfing og sérstaklega hlaup slógu á kvíðann og róuðu hugann. Það hefur líka hjálpað mér að ég fæddist með mikið keppnisskap og hef getað notað það til að skora á mig í hlaupum, en þetta keppnisskap hefur líka „stundum“ valdið vandræðum.
Hlaup mín hafa líka verið hluti af heilbrigðum lífsstíl og með hjólreiðunum sem ég stunda alla daga sem samgöngumáta hefur mér tekist að halda mér í þokkalegu líkamlegu formi. Þó mætti ég vera duglegri að rífa í lóðin, sérstaklega nú þegar árin færast yfir.
Þessi hlaup mín á götum Hafnarfjarðar á unglingsárum urðu til þess að frjálsíþróttaþjálfari hjá FH hringdi í mig og bauð mér á æfingar hjá þeim. Ég fór á eina eða tvær æfingar en leist ekkert á einhverjar „drills“ æfingar, langaði bara að hlaupa og helst sem hraðast. Þegar kemur að hlaupum hefur mér ekki tekist sérlega vel að æfa í hóp, þó eru hópanir frábærir upp á góðan félagsskap og hvatningu að betri árangri.
Mitt fyrsta almenningshlaup var 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþon árið 1993 og varð ég í 8. sæti á 40:30 mínútum í flokki 18-39 ára karlmanna (ég sjálfur 18 ára). Var meðal annars á undan „legendinu“ Torfa hjá hlaup.is. En leiðin hefur kannski legið niðurávið sem hlaupari við síðan þetta var þó hungrið í að standa sig vel í hlaupum sé alltaf til stað.
Nú nálagast ég óðfluga hálfrar aldrar afmæli mitt og hlaup verða meiri áskorun eftir því sem árin og áratugirnir færast yfir þó útrásin sé alltaf góð.
Þetta sumar er heilmikið hlaupasumar fyrir mig því ég er skráður í nokkur almenningshlaup og utanvegahlaup. Þessi hlaup eru liður í því að safna ITRA stigum til að geta tekið þátt í Laugavegsmaraþoninu á næsta ári, sem er 50 ára afmælisárið mitt. „Allt er fimmtugum fært“
Síðasta keppnishlaup mitt var 26 km Hengill Ulta og var planið að hlaupa hægt í byrjun því ég hef alltof oft verið of kappsamur í byrjun. Í byrjun maí tók ég t.d. þátt í Puffin Run 20 km í Eyjum og hafði einmitt klikkað á því þar að hlaupa of hratt fyrstu 10 km og síðari 10 km voru mikið streð.
Það er minn helsti akkilesarhæll hvað ég er kappsamur og stressaður í byrjun hvers hlaups. Þetta stress getur tengt sig yfir dagana og nóttina fyrir hlaup.
Það er líka svo merkilegt að upphafi hvers hlaups er með mjög háleitar hugmyndir um getu mína í hlaupinu. Þó ég sjái mig kannski ekki á palli, finnst mér ég ekki vera langt frá því oftast. En þegar raunveruleikinn tekur við í hlaupinu þá er það oft köld tuska í andlitið. Ég þarf líklega stífa sálfræðimeðferð til að vinna á þessu ofmati mínu á eigin getu!
Reynslusaga úr Hengill Ultra 8.júni 2024
Hengill Ultra er 26 km hlaup frá miðbæ Hveragerðis og upp Reykjadal að Ölkelduháls og aftur tilbaka með smá klifri upp Hellisheiði í millitíðinni. Einnig er Hengill Ultra með vegalengdirnar 53 km og 106 km fyrir þá sem veikari af hlaupabakteríunni en ég, (og líka í betra formi)! 5 km og 10 km eru líka í boði fyrir þá sem eru að hefja hlaupferilinn eða vilja bara eiga ljúfan dag á hlaupum.
Það blés vel í byrjun Hengilshlaupsins og frekar kalt í lofti og fór ég því í vindjakkann sem ég var með en eftir 4-5 km á hlaupum var ég að kafna úr hita og náði að fara úr jakkanum á hlaupum. Ég læri af þessu að klæða mig ekki of mikið fyrir næsta hlaup, hef reyndar klikkað á þessu áður. Held að margir klikki á þessu í hlaupum.
Ég náði að halda góðum hraða upp Reykjadalinn en þó ekki of hratt. Hélt púlsinum niðri eins og planið var hjá mér. Það reyndi þó alveg á að keyra ekki á fullum krafti og sýna hvað í mér býr!
Á toppnum og helmingur hlaupsins eftir, þegar ég var að fara niður frá Ölkelduhálsi fékk ég lamandi stig í vinstra hnéð með máttleysi (eins og ég væri að missa fótinn undan mér). Það var mikið svekkelsi að fá í hnéð, sérstaklega þar sem ég var stoltur af mér að hafa ekki keyrt hraðann of mikið upp. Sædís sjúkraþjálfarinn minn kenndum veikum quads (lærvöðvum) og sinum tengt honum um þetta, þeim hafi vantað styrk og nærinu á hlaupunum upp brekkurnar.
Þetta kennir mér það stunda fjölbreyttar styrktaræfingar fyrir læri og fætur til að ná betri árangri á hlaupum
Þessi verkur í hnénu fór þegar ég kom niður á sléttlendið úr Reykjadal. En nú hófst hin eiginlega barátta í þessu hlaupi því mér fannst hvor fótur vera 100 kg og hraðinn var nánast enginn. Það var mjög erfitt andlega að fá fólk framúr sér og að sjá planið fara út um gluggann. Því mig langaði svo mikið að vera með orku í seinni hlutanum til að gefa „flogið“ í mark. Það er svo grautfúlt að vita að það séu bara nokkrir km eftir en þér finnst þú vera að ferðast á hraða sniglsins. Þetta er svo stutt vegalengd en þegar fæturnir eru svona þungir þá eru þetta eins og að eiga 100 km eftir.
Svona eftir á þá held ég að ég hafi farið full hratt upp Reykjadalinn, en náði samt að halda púlsinum niðri. Þó ég segi sjálfur frá er ég nokkuð góður upp brekkur. Ég tek þessi risaskref sem skila mér fínum hraða. Þessi risaskref (sem ég er auðvitað ekki vanur að taka) voru kannski stór ástæða þess að vinstra hnéð fór í verkfall þegar upp var komið?
Þessir síðustu 5 km í hlaupinu voru hugarstríð og mikil pína líkamlega. Maður fer að efast um eigin getu og bara í alvöru hvers vegna maður sé að skrá sig í svona sjálfspíningu og borga fyrir það? Keppnisskapið er líklega verst þarna, það er svo fáranlega vont að fá fólk (á öllum aldri) framúr sér og hugsa um leið hvað er að gera vitlaust í mínum undirbúningi?
Þrátt fyrir þetta allt og vanmáttinn síðustu 5 km kláraði ég hlaupið á ágætis tíma 2 klst og 39 mínútum. Fyrir hlaupið var ég með markmið að vera alls ekki yfir 3 klst og 2 klst og 30 mínútur væri frábært, þannig að þetta var alveg innan þeirra marka.
Þessi tilfinning vanmáttar og efasemda er sem betur fer fljót að fara og ég er orðinn spenntur fyrir næsta hlaupi strax daginn eftir.
Ég er líka að læra eitthvað nýtt í hverju einasta hlaupi sem ég tek þátt í og safna reynslu sem gerir mig vonandi að betri hlaupara.
Næsta hlaup er t.d. Hólmsheiðarhlaupið 22 km 27.júni n.k. og þar mun ég nýta reynsluna sem ég fékk úr hinum hlaupunum.
Ég brenn fyrir bætta heilsu mína og allra landsmanna. Ég vinn við það alla daga að efla heilsu fólks og það gæti einhver sem les þetta spurt sig hvort þetta sé hollt að hlaupa fleiri tugi km og upplifa vanlíðan sem ég lýsti hér að ofan? Ég er t.d. ekki að fara á Ólympíuleika eða stefna í landsliðið í utanvegahlaupum. En þetta streð gefur mér heilmikið og ég hleyp til að sigra sjálfan mig og verða sterkari líkamlega og andleg.
Það má líka nota þessa hlaupareynslu í lífinu sjálfinu, lífið er oft ekkert auðvelt og það koma stundum miklar brekkur í lífi okkar allra. Sú vinna að yfirstíga verki og vanmátt í hlaupum (eða annarri hreyfingu) og komast í mark/ná markmiði sínu er hægt að nota til verða sterkari í að takast á við aðrar áskoranir í lífinu.
Almennt lifum við Íslendingar alltof miklu þægindalífi sem gerir okkur ekki sterk til að takast við áskoranir lífsins. Við þurfum að fara að reima á okkur skóna og taka nokkrar brekkur til að herða okkur og þá má gjarnan vera hellirignin á meðan!
Slagorð sem Krabbameinsfélagið notaði í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir nokkrum árum finnst mér frábært og segir svo margt. En það var „ÉG HLEYP, því ég get það“. Það eru nefnilega ekki allir sem hafa heilsu í að hlaupa og það eru forréttindi að geta hlaupið. Mikilvægt er þó að fara hægt af stað í byrjun, hver fari á sínum hraða og sigri sjálfan sig í hverjum hlaupatúr.
Hér má finna grein sem ég ritaði fyrir nokkrum árum um reynslu mína úr hálfmaraþoni í Reykjavíkurmaraþoni.
Í lokin langar mig að deila með ykkur ljóði sem ég samdi í fyrra um mín hlaup.
Hlaup fyrir lífið
Hleyp frá andlegum sársauka
Hleyp að líkamlegum sársauka
Hleyp til að gleyma
Hleyp til að muna
Hleyp fyrir lífið
Hleyp mig nær dauða
Hleyp af því að ég get það
Hleyp því ég get ekki annað
GGM 2023
Geir Gunnar Markússon
Miðaldra hlaupari