Hugleiðing um heilsurækt

Ræðukorn flutt á fræðslu- og skemmtifundi N.L.F.R. 27/9 1957.

Þegar ég var beðinn að segja hér nokkur orð, setti að mér svolítinn kvíða. Fólk heyrir svo mörg orð nú á tímum, að það er orðið vant því að láta orðin fara inn um annað eyrað og út um hitt. Útvarpið hefur kennt okkur betur en okkur grunar sjálf að láta talið glamra í eyrunum í stað þess að bergmála í vitundinni. Það er því ekki öfundsvert hlutverk að standa frammi fyrir fólki og ætla að hafa af því kirkjusvefninn, þennan dásamlega dúr, sem sækir á þá, sem sitja undir ræðum presta og annarra predikara. En predikarar hljóta þeir að nefnast, ég og mínir líkir, sem hreykja sér upp á predikunarstól, ræðupall eða smjörlíkiskassa til þess að kenna öðrum þá list, sem þeir kunna sjaldnast sjálfir Listina að lifa. Já, hver kann þá list? Þessi jarðneska ævi okkar hefst í myrkri og endar í myrkri. Hvernig eigum við þá að verjast myrkri vanþekkingarinnar þennan dag, sem við dveljumst á yfirborði hnattarins okkar? Eitt er víst. Ef við leitum ekki ljóssins, verðum við þess alls ekki vör. Þetta er auðvelt að sanna. Sitjið kyr í sætum ykkar og lítið á þennan lampa. Lokið svo augunum. Hvað varð um ljósið og allan hinn sýnilega heim? Já, hann hvarf ykkur, og svo fer öllum, sem leggja aftur augun. Eins fer þeim, sem loka augum skilnings síns, þeir sjá heldur ekkert ljós, aðeins kynjamyndir sjálfsblekkingarinnar dansandi á dökku tjaldi myrkursins. Hvaða orð hefðum við um sjáandi mann, sem gengi um með lokuð augu? Fífl væri vægt orð. Er ástæða til að hafa virðulegri orð um þá, sem láta augnalok sjálfselsku, óreglu eða annarrar blekkingar síga fyrir augu skilningsins?

Undirstaða listarinnar að lifa er að hafa augun opin. Þeim, sem ganga um lífið opnum augum, verður margt að undrunarefni. Þeir eru eins og barnið, sem sér snjó falla í fyrsta sinn. Þeim finnst lífið vera endalaus röð furðulegra atvika. Þeir finna marga skrítna steina á ströndinni, og þeim verður undarlega hlýtt um hjartaræturnar, þegar sólin skín eftir skúr. Ykkur finnst þetta e.t.v. koma náttúrulækningastefnunni lítið við. Svo er þó ekki. Lifandi samband við lífið er undirstaða hennar. Upp af slíku sambandi sprettur sönn virðing fyrir lífinu. Við skynjum að lífið er í okkur og við í því. Sá leyndardómur verður aldrei skilinn á rökrænan hátt fremur en margt annað svo sem réttlæti, fegurð og kærleikur eða andstæður þeirra. Þessi leyndardómur er þó haldbetri staðreynd en margt annað, sem trúað er á. Það er engin tilviljun, að hinn mikli tónsnillingur, læknir, hugsuður og mannvinur, Albert Schweitzer hefur með hinu tæra safngleri hugans dregið alla geisla hemspeki sinnar saman í einn brennipunkt. Eina geislandi setningu Virðing fyrir lífinu. Virðing fyrir lífinu hefur verið uppistaða hins fórnfúsa ævistarfs hans. Fórna, sem færðar voru með glöðu geði. Ef þið hafið ekki þegar lesið ævisögu hans, ættuð þið ekki að draga það lengur. Virðingin fyrir lífinu á einnig að vera uppistaðan starfs okkar í þessu félagi og í daglegu lífi.

Starf okkar á að vera þjónusta við lífið, viðleitni, sem beinist gegn þjáningu og dauða. Í baráttu okkar viljum við beita skynsamlegum rökum og aðferðum. Ég þori varla að segja vísindalegum aðferðum. Það hafa verið framin svo mörg afbrot í skjóli vísindanna. Einnig þau hafa stundum verið tekin í þjónustu lyginnar og dauðans. En ég fæ ekki annað séð en að meginskoðanir náttúrulækningastefnunnar standi á traustum grunni, þó að sumir einstaklingar, sem hallast að henni, kunni að hafa sérkennilegar skoðanir í ýmsum efnum. Við megum ekki láta aukaatriði villa okkur sýn. Hvað yrði t.d. um kristindóminn, ef sérvizka sumra játenda hans væri notuð honum til dómsáfellingar? Við verðum að taka tillit til þess, að stuðningsmenn stefnunnar eru ekki allir sérfróðir í heilsufræði, hvað þá læknar. Þetta er alþýðuhreyfing og hlýtur að bera keim af því. En meginkjarni hennar hvílist þó á staðreyndum, studdum ályktunum margra merkra vísindamanna, svo sem t.d. McCarrison, Hindhede og Kellogg. Í stað þess að einblína á sjúkdóma, fóru þessir menn að leita heilbrigði. Heilbrigðar þjóðir reyndust vandfundnar, en fundust þó. Með rannsóknum á lifnaðarháttum þessara þjóða reyndu vísindamennirnir að komast að því, hvers vegna þær væru öðrum þjóðum hraustari. Þeim bar saman um, að fæðið ætti þar drýgstan hlut í máli. Niðurstaða þessi ætti ekki að koma íslenzkum bændum á óvart. Þeir létu engan, jafnvel ekki sprenglærðan búnaðarráðunaut, segja sér, að fóðrun búfjárins réði litlu sem engu um heilsufar þess. Svipuðum ósannindum hefur þó verið haldið fram um mannfólkið í orði og verki áratug eftir áratug. Áður en vítamínin komu til sögunnar var því haldið fram, að maðurinn þyrfti bara fitu, eggjahvítuefni og kolvetni í hæfilegum hlutföllum. Það reyndust ósannindi. Svo var sagt, að auðvitað þyrfti vítamín, fleiri og fleiri tegundir, eftir því sem við bættist. En þetta reyndist, þegar bezt lét, aðeins hálfur sannleikur. Vissulega þurfum við á þessum efnum að halda, en við getum bara ekki fullyrt, að það sé allt, sem við þurfum.

Aftur á móti er hægt að benda á mataræði, sem þrautreynt hefur verið um aldir af heilum þjóðum, að nægir mönnum til heilbrigðs lífs. Hvað segir nú bóndinn í ykkur um þessi mál? Virðist honum ekki vænlegra að hallast að aldalangri reynslu en fárra ára fálmi?

Reynslan er fyrir hendi, hún hefur geymst vel í djúpum dölum Himalayafjalla og á öðrum afskekktum stöðum. Nú þarf að dreifa henni um heiminn, svo að allar þjóðir geti notið heilbrigði og hamingju.

Þetta er hlutverk náttúrulækningastefnunnar, sem eins mætti nefna heilsuræktarstefnuna, því að markmið hennar er fyrst og fremst að rækta heilsuna helzt frá blautu barnsbeini, þó að aðferðir hennar megi oft nota til lækninga með góðum árangri, ef ekki er í slíkt óefni komið, að öll ráð þrjóti eða annarra sé þörf. Stefnan er því alls ekki sett sjúkdómalækningunum til höfuðs, þó að misskilningur hafi valdið, að stundum hafi slegið í rimmu. Í raun og veru eiga þeir læknar, sem trúir eru köllun sinni, engan samherja betri. Og sem betur fer eru flestir læknar í þeim hópi. ˆ Þó að skuggi moldviðris og meirihlutaálits byrgi sumum þeirra sýn.

Vegna þess að náttúrulækningastefnan ber virðingu fyrir lífinu, er hún á móti öllum glannaskap, sem bitnar á því. Hún er á móti glannaskap í meðferð lyfja. Hún er á móti glannaskap í meðferð matvæla, og hún er á móti glannaskap í meðferð mannlegra sála. Það er hægt að nota lyf til góðs. Margir hefðu nú hvílt í gröf sinni, ef lyfjanna hefði ekki við notið. En það raskar ekki þeirri staðreynd að mikið tjón hefur verið unnið með vanhugsaðri lyfjanotkun.

Þó er það tjón óvera ein hjá þeim feiknaskaða sem glannaleg meðferð matvæla hefur valdið og veldur enn. Án heilbrigðrar hugsunar hafa góðar og fullgildar fæðutegundir verið sviptar sumum verðmætustu efnum sínum. Bætiefnunum fleygt, en ómetið etið. Ekki er nóg með þetta, heldur hefur einnig verið liðið mótmælalítið að fæðan hefur verið svæld með eitruðum lofttegundum. Vegna þess að sannað þótti að ein slík svælingaraðferð, sem notuð var til bleikingar á hveiti, sem ekki þótti nógu hvítt, væri hættuleg mannlegri heilsu, var hún bönnuð á þeirri vöru, sem seld er á innlendum markaði í Bandaríkjum N.-Ameríku. Samt hefur þessi aðferð verið notuð við útflutta vöru. Þannig er ábyrgðin á lífi og heilsu manna borin fyrir borð, ef fjárhagsleg ábatavon er annarsvegar.

Þetta er aðeins eitt dæmi. Ótal efni eru notuð við framleiðslu, geymslu og matreiðslu þess, sem við leggjum okkur til munns, sem enginn hefur örugga vissu fyrir að séu skaðlaus. Ýmist er þetta gert vegna fávizku eða í fjáraflaskyni, alveg óháð þeim vísindum sem leita skilnings á þörfum mannlegs líkama.

Er furða þótt illa fari? Á baráttan gegn þessum ófögnuði ekki skárra nafn skilið en sérvizka? Sú barátta, sem beinist gegn krabbameini, botnlangabólgu, magasári, berklum og öðrum mannlegum meinum. Já, en þið vitið ekki af hverju krabbamein stafar? Kann einhver að segja. Satt er það, við þekkjum ekki nærri alla hlekki þeirrar óheillakeðju, sem leiðir til krabbameins. En til eru þjóðir, sem eru lausar við þann ófögnuð, og að athuguðu máli virðist full ástæða til að ætla að það sé lifnaðarháttum að þakka.

Er þá óskynsamlegt að ætla, að krabbamein og raunar margir aðrir sjúkdómar, sem þjóðfélag okkar þjá, séu lifnaðarháttum okkar að kenna.

Já, það er mikill vandi, sem fylgir þeirri vegsemd að bera sæmdarheitið homo sapiens; hinn hugsandi maður, að þurfa að „ballanséra“vona í lóðréttu ástandi og eiga svo að hugsa með efri endanum líka. Er nokkur furða, þó ýmsir setji upp efasemda svip, ef einhverjum verður á að hugsa rökrétta hugsun? Svo ekki sé nú talað um ósköpin, ef hugsunin stangast á við rótgróna og viðurkennda ósiði mannskepnunnar. Af því að við erum flest eins og beljur á lífsins svelli, hættir okkur til að fyrtast, ef einhver gengur þar á mannbroddum. Slíkt er mannlegt eðli, segjum við, en maðurinn á fleira til en óeðlið.

Sem betur fer lifir enn innra með honum lífsandinn, sem skaparinn blés í nasir honum í árdaga. Ef við hlustum á rödd andans kynnumst við öðru eðli, eðli, sem veldur því, að orðið maður er ekki fyrir löngu orðið að versta skammaryrði tungunnar. Ef við teljum ómaksins vert, að kynnast þessu innsta eðli allra manna og alls lífs, erum við á réttri leið. Þá erum við batnandi menn, en batnandi menn eru eina hugsanlega leiðin til betri heims.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi