Fyrsta Úlfarsfell ársins

Kópavogsbúar og aðrir nærsveitamenn hafa á síðustu árum áttað sig æ betur á dásemdum Úlfarsfells sem útivistarsvæðis.  Þetta þægilega fjall er mjög vel í sveit sett, aðgengi gott úr öllum áttum og útsýni til allra helstu sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins.  Hægt er að velja um fjölmargar gönguleiðir upp á fjallið, allt eftir getu og fjallfærni einstaklingsins.  Það er líka kostur að fjallið er ekki hærra en svo að þar er nánast ómögulegt að finna til lofthræðslu, ekki þarf að klöngrast um í þverhníptum klettum til að ná á toppinn og gönguferðin tekur ekki lengri tíma en svo að hægt er að skjótast á toppinn fyrir eða eftir vinnu.  Gönguferð á Úlfarsfell er fínn valkostur fyrir þá sem vilja njóta útiveru og heilsuræktar á sama tíma enda er raunin sú að stöðugur straumur fólks er á fjallið allt árið um kring.

Ég hef reyndar ekki oft farið upp á Úlfarsfell um hávetur, sennilega bara einu sinni.  Það var á gamlárskvöld fyrir mörgum árum, ég var þar ásamt hópi fólks kringum miðnættið og það var ógleymanleg upplifun að horfa yfir flugeldahlaðborð höfuðborgarsvæðisins.  Hópurinn minn skaut upp nokkrum rakettum til að komast í réttu stemninguna og mér leið eins og ég væri á toppnum á heiminum, allt þar til mér varð litið á Esjuna og sá þá ljóstýru af rauðu blysi á toppnum á Esjunni.  Alltaf þurfa einhverjir að toppa mann.

Á fallegum apríldegi var loksins komið nógu mikið vor til að mér fyndist tímabært að ganga á Úlfarsfell.  Ég fékk dóttur mína með mér og við ókum sem leið lá að fellinu.  Þar tók nokkra stund að finna bílastæði, greinilega höfðu fleiri fengið þessa góðu hugmynd enda sólríkur og bjartur dagur og hlýleg sunnangola lék um vanga.  Við fundum að lokum stæði og gengum af stað.  Einn af kostum þessarar gönguleiðar er að mínu mati sá að fjallið er ekki brattara en svo að maður getur talað við samferðafólkið án teljandi öndunarerfiðleika, nema kannski efsti hluti leiðarinnar.  Við mæðgurnar áttum því mjög skemmtilegt samtal áleiðis upp hlíðina.   Fjöldi fólks var á leið niður stíginn og hver einn og einasti bauð góðan dag þegar við mættumst.  Þetta finnst mér heimilislegur og notalegur siður.  Eftir því sem ofar dró varð þó brattara undir fótinn og smám saman hljóðnuðu samræður okkar mæðgna, aðallega vegna mæði móðurinnar, ekki skorti samtalsefnin.

Þegar þarna var komið sögu ákvað ég að einbeita mér að því að njóta útsýnisins, enda er það mjög vel hægt þótt maður glími við smávægilegan súrefnisskort.  Í gegnum blásturinn greindi ég fagran fuglasöng allt í kringum okkur enda farfuglarnir flestir komnir til landsins.  Dóttir mín blés ekki úr nös.

Örlítið ofar í brekkunni tók ég eftir því að stóðu þrjár manneskjur og horfðu í kringum sig, tvær konur og einn karl.  Greinilegt var að önnur konan var að benda hinum á helstu kennileiti höfuðborgarsvæðisins, hópurinn snerist eins og samtaka síldartorfa í allar áttir í takt við bendingar konunnar og nikkaði spekingslega.  Þríeykið hafði stillt sér upp í miðri bröttustu brekkunni, sennilega öðrum þræði til að ná andanum, mér sýndist þetta vera fólk í álíka góðu formi og ég.  Við mæðgurnar nálguðumst hópinn jafnt og þétt en hann sýndi engin fararsnið á sér, ætlaði greinilega að staldra þarna við um stund. Rétt áður en við náðum upp að þeim heyrði ég að leiðsögukonan sagði skýrt og greinlega og með töluverðri áherslu:  ,,..and this of course is Bauhaus!“ Um leið kinkaði hún ákveðið kolli, svona eins og þetta væri rúsínan í pylsuendanum, besti molinn úr konfektkassanum, girnilegasti rétturinn á hlaðborðinu.

Mér varð svo um að ég var nærri dottin, gleymdi næstum því að bjóða fólkinu góðan dag um leið og ég staulaðist fram hjá.  Í hvaða veruleika er erlendur stórmarkaður gullmolinn í íslensku landslagi? Girnilegasti bitinn á matardiskinum, þessi sem maður geymir þar til síðast? Hvað með Reykjanesið, Keili, Heiðmörk, Rauðavatn, Viðey og sundin blá og Akrafjalli, að ógleymdri sjálfri Esjunni?  Til að gæta fyllstu sanngirni þá heyrði ég hvorki það sem á undan fór né það sem á eftir kom, kannski var þessi hópur staddur á Úlfarsfelli í þeim eina tilgangi að reyna að koma auga á sem flesta erlenda stórmarkaði á höfuðborgarsvæðinu og Bauhaus síðastur í langri upptalningu.

Við mæðgurnar komumst á toppinn nokkrum mínútum síðar, dáðumst að öllu því dásamlega útsýni sem fyrir augu bar, tókum lögskipaða sjálfu við skiltið og héldum svo aftur niður fjallið.  Fyrstu göngu ársins á Úlfarsfell var lokið.

Guðríður Helgadóttir, göngugarpur og garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Að vökva lífsblómið

Hlaup fyrir lífið – Hugleiðing um hlaup