Hjólreiðar – Hugum að heilsu og umhverfisvernd

Hjólreiðar hafa verið að ryðja sér til rúms hérlendis undanfarin ár og er það mjög gleðilegt. Sífellt sjást fleiri og fleiri hjólreiðamenn á ferðinni í hvaða veðri sem er. 
Ísland er líklega eitt erfiðast land í heimi til hjólreiða með válindum veðrum, miklum brekkum og strjábýli. En það stoppar ekki okkur Íslendingana í að hjóla enda ættum við flest að nýta okkur þennan frábæra samgöngumáta. Það eru líka komnir góðir valkostir í rafmagnshjólum til að auðvelda yfirferðina og minnka puðið. Þannig að hjólreiðar eru orðin valkostir fyrir vel flesta og þarf þá líka að gæta að því að setja nagladekkin undir á veturna.
Árlega er haldinn viðburðurinn „Hjólað í vinnuna“ sem var sett á stokk til þess að hvetja almenning sem að nota hjól sem fararskjóta til og frá vinnu.

Hér eru nokkrar mjög góðar ástæður til þess að fara að taka upp hjólreiðar:

Hjólreiðar eru heilsusamlegar – Þetta er nú einn augljósasti kostur þess að nota hjólhestinn sem samgöngu- eða skemmtitæki. Hjólreiðar eru ekki bara góðar fyrir hjarta- og æðakerfi með því að láta pumpuna ganga heldur hafa rannsóknir sýnt að hjólreiðar geti einnig verið góðar fyrir heilastarfssemina. 
Hjólreiðar leggja minna álag á fætur en hlaup eða skokk gera og geta verið ákjósanlegri kostur fyrir þá sem þjást af stoðkerfisverkjum.  Einnig stuðla hjólreiðar að heilbrigðari sál og stuðla að betri geðheilsu með því örva losun vellíðunarhormóna.

Hjólreiðar eru umhverfisvænar – Það þarf enga olíu eða bensín til að knýa hjólið áfram. Það er líka mun umhverfisvænna að framleiða hjól en bíl. Hjólin leysa ekki út koltvísýring sem geta því stuðlað að minni hlýnun Jarðar.

Hjólreiðar eru fjölskylduvænar  – Allir í fjölskyldunni geta stundað hjólreiðar og er þetta frábær leið til að njóta góðra og heilsusamlegra stunda með fjölskyldu sinni. Í stað þess að hlamma sér í sífellu fyrir framan sjónvarpið og úða í sig gotteríi ætti fjölskyldan frekar að fara út í hjólreiðatúr og taka með sér hollt nesti sem hægt væri að neyta á áfangastað, áður en haldið er aftur heim.

Hjólreiðar draga úr kostnaði samfélagsins – Kostnaður heilbrigðiskerfisins myndi stórlega minnka ef fleiri landsmenn tækju upp hjólreiðar. Því 80% af útgjöldum til heilbrigðiskerfisins okkar fer í að meðhöndla lífsstílssjúkdóma en þá tölu væri hægt að lækka verulega ef landsmenn hreyfðu sig meira. Kostnaður vegna slysa af bílaumferðinni mundi líka lækka gríðarlega. Kostnaður til viðhalds vegakerfisins mundi minnka verulega ef fleiri tækju upp bíllausan lífsstíl.

Hjólreiðar eru fjölbreyttar og fyrir alla – Hjólreiðar henta öllum og hjól eru til í öllum stærðum og gerðum s.s. götuhjól, fjallahjól, rafmagnshjól, þríhjól, racerhjól, mömmuhjól, hjólavagnar, o.fl. Í flórunni ættu allir að geta fundið hjól við sitt hæfi og sín markmið.

Þú nærð að njóta náttúrunnar og útiveru  á reiðhjóli – Það er ekki eitthvað sem þú getur gert þegar þú ert í bíl og er þetta ein af bestu ástæðum þess að eiga og nota hjól. Það er frábært að finna ilminn af gróðri og hlusta á fuglasöng um leið og maður er að hjóla og gefur það þessum samgöngumáta enn meira gildi.

Þú leysir umferðarteppur – Þú munt aldrei aftur blóta umferðarteppu á leið heim úr vinnu seinniparts föstudags. Í stað þess verður þú á fleygiferð á hjólhestinum þínum með bros á vör. Þeir bílstjórar sem eru að blóta umferðarteppum gleyma því að þeir eru sjálfir hluti af vandamálinu og eina lausinin á teppunni er að taka hjólið í vinnu sem oftast.

Það eru einnig til margar skemmtilegar staðreyndir um hjólreiðar:

  • Reiðhjólið var fundið upp árið 1817 af þýskum barón að nafni Karl von Drais. En þessi fyrsta útgáfa að reiðhjóli var án pedala, þeir komu fyrst fram árið 1840.
  • Árið 1890 voru fyrstu reiðhjólin sem vitað er um  flutt til Íslands. Þau áttu Guðbrandur Finnbogason verslunarstjóri í Fischer-versluninni og Guðmundur Sveinbjörnsson.
  • Fyrstu gerðirnar af hjólum voru knúin áfram á pedulum sem voru á framhjólinu. Til að ná meiri hraða þá varð framdekkið sífellt stærra og varð allt að 163 cm í þvermál
  • Fred A. Birchmore var fyrsti maðurinn til að hjóla hringinn í kringinn jörðina árið 1935. Ferðalagið var rúmlega 64.000 km. Hann hjólaði rúmlega 40.000 km, restina ferðast hann um á bát. Hann notaði 14 hjólreiðadekk á öllu ferðalaginu.
  • Hjólreiðahjálmar komu ekki til sögunnar að einhverju viti fyrr en seint á 20.öld eða um 1970.
  • Lengsta vegalengd sem einstaklingur hefur náð á hjóli á einu ári eru 120.805 km – eða um 331 km hvern einasta dag ársins! Þetta met á Tommy Godwin frá árinu 1939. Það hafa margir reynt að ná þessu gamla meti enginn haft erindi sem erfiði.
  • Það eru um hálfur milljaður hjóla í Kína (500.000.000). Í heiminum öllum er yfir milljaður hjóla.
  • Það eru framleidd um 100 milljónir hjóla í heiminum á hverju ári.
  • Evrópubúar eru duglegir hjólreiðamenn miðað við t.d. Bandaríkjamenn. 5% Ítala nota hjól daglega, 30% Holllendinga og 17% Dana. Bandaríkjamenn ná hins vegar ekki 1%. Ef 2% Bandaríkjamenn notuðu hjólið mundi það spara um 3.5 milljarða lítra af eldsneyti árlega.
  • Tour de France er ein frægasta og virtasta hjólreiðakeppni í heimi. Þetta er talin  ein erfiðasta keppni í heimi og eyðir hver hjólreiðamaður að meðaltali um 8000 hitaeiningum á dag (meðal maður notar um 2000-2500 hitaeiningar á dag).
  • Þú getur komið 15 reiðhjólum á sama svæði og einn bíll kemst fyrir á.
  • Með því að hjóla 30 km i hverri viku eru helmings minni líkur á því að þú  fáir hjarta- og æðasjúkdóma.
  • Miðað við bifreiðar þá sparar 16 km hjólreiðatúr þér daglega um 5000 kr, 5 kg af koltvísýringi og þú nærð að brenna um 360 hitaeingum.
  • Rekstarkostnaður venjulegs heimilisbíls með einugis 15000 km akstri á ári er um 1,2 milljónir. Rekstrakostnaður hjóls er undir 50.000 kr. ári en það fer auðvitað eftir notkun eins og með bílinn.

Nú er vorið loks komið hér á Íslandi og allir ættu að fara að setjast á hjólhestinn. Kaup á hjóli getur orðið ein besta fjárfesting þín á ævinni.

Ýtarefni
https://hjoladivinnuna.is/
http://www.hjolreidar.is/samgonguhjolreidar-greinar/mytur
http://www.lhm.is/
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=30835
http://en.wikipedia.org/wiki/History_of_the_bicycle
http://kids.nationalgeographic.com/kids/stories/morestories/ten-things-about-bikes/
https://www.spokefly.com/blog/15-fun-facts-bicycles/
http://www.chinatravel.com/facts/china-bicycle.htm
http://politiken.dk/indland/ECE1555221/danskere-cykler-145-km-om-dagen/
http://www.mensjournal.com/health-fitness/nutrition/the-tour-de-france-diet-how-to-consume-8-000-calories-a-day-20140710
http://issuu.com/fib.is/docs/rekbif_jan_2013http://islandia.is/nature/mHjolreidarIsl/hjolreidar_a_islandi.htm
http://www.mnn.com/green-tech/transportation/stories/12-reasons-to-start-using-a-bicycle-for-transportation

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi