Heimur batnandi fer

Nú er mikið um neikvæðar fréttir af veiru, verkföllum og vondu veðri. Því er kominn tími til að rita jákvæðan pistil um heilsu okkar. Það er mikið ritað og rætt hvað við Íslendingar séum að borða óhollt, offita sé að aukast og notkun lyfja geigvænleg. En það er líka ýmislegt jákvætt sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi í sambandi við heilsu landsmanna.
Hér er upptalning nokkrum þeirra:

Minni reykingar – Frábær árangur í forvörum þó víðar væri leitað
Það er frábær og einstakur árangur sem við Íslendingar höfum náð í tóbaksvörnum. Árið 1970 reyktu um helmingur fullorðinna, tæp 30% árið 1991 en 8,5% árið 2019. Þessar tölur eru enn gleðilegri fyrir unglingana en árið 1998 reyktu 23% nemenda í 10. bekkjum grunnskóla en þeim hafði fækkað í 2% árið 2014.
Það er fátt sem er jafn heilsuspillandi fyrir lungun, hjarta- og æðakerfið og reykingar og þetta virkilega gleðilegt þó vissulega væri hægt að benda á að notkun annarra tóbaksvara hefði aukist eins og rafsígaretta og munntóbaks. En það er vonandi að í framtíðinni að sami árangur náist með rafsígarettur og munntóbak og við höfum náð með sígaretturnar.

Meiri grænmetis- og ávaxtaneysla – Enn langt í land en á réttri leið
Ísland er landfræðilega ekki besta ræktunarsvæði ávaxta og grænmetis hér norður í höfum, þó vissulega hjálpi jarðhitinn og gróðurhúsin okkar. Lengi vel var eina grænmetið sem fólk þekkti kartöflur og rófur og svo var ávaxtaúrvalið, epli á jólnum.
Í dag borða um borðar um þriðjungur þjóðarinnar grænmeti tvisvar sinnum á dag eða oftar og var þessi neysla 15% árið 2014. Konur eru duglegri í grænmetisneyslunni en karlar og þeir sem eru eldri (55 ára og eldri) er hvað latastir við að neyta grænmetis.
Fjórðungur Íslendag borðar ávexti tvisvar sinnar á dag eða oftar en þessi neysla var 18% árið 2014. Konur eru líka duglegri við að neyta ávaxta en karlar.
Ástæða þess að það er sífellt verið að predika fyrir okkur að vera dugleg að neyta ávaxta og grænmetis er að þetta eru matvörur sem eru ríkar af nauðsynlegum vítamínum og steinefnum og trefjum. Þó á maður ekki að neyta þessara matvara í formi “boosta” því þá minnkar hollustan í þeim.

Áhersla á svefn í heilsueflingu – Þó fyrr hefði verið
Það er vissulega neikvætt að stór hluti framhaldsskólanema á Íslandi séu ekki að ná æskilegum svefni til vaxtar og viðhalds. Hins vegar hefur orðið bylting í þjóðfélaginu með áherslu á mikilvægi svefns í almennri heilsu okkar. Það má sjá með fyrirlesturum, fræðslu, bókum greinum og námskeið um mikilvægi svefnsins. Hluti af þessari byltingu er m.a. mæling á svefni ungmenna. Svefninn er m.a. orðinn einn af grunnþáttum fólks sem stundar mikla líkamsrækt og afreksíþróttafólki
Það er ekkert svo langt síðan að það þótti töff að sofa bara 3-4 klst á nóttu. Sem betur fer höfum við áttað okkur á mikilvægi svefnsins þó vissulega séu alltof margir hér á landi sem eru vansvefta, jafnt ungir sem gamlir. Það er vonandi að þessi aukna áhersla á svefn í heilbrigði okkar skili sér þegar fram líða stundir í betri svefn landsmanna.

Umhverfisvernd – Heilsa móður jarðar er grunnurinn
Almenningur og heimurinn allur er að vakna til vitundar að við verðum að gæta að heilsu móður jarðar ef við ætlum að eiga framtíð á þessari jörð. Það er ekki hægt að ganga á öll jarðargæðin í okkar endalausa neyslusamfélagi án þess að það hafi afleiðingar fyrir lifnarhætti okkar. Það eru því mjög margir farnir að flokka rusl, kaupa umhverfisvænna, samfélagið er orðið nær plaspokalaust, bílar eru orðnir umhverfisvænni og svo mætti lengi telja.

Minni fordómar – Fólk fær að vera það sem það sjálft
Stór hluti af okkar heilsu er geðheilsan og lengi vel voru á Íslandi miklir fordómar gagnvart fólki sem skar sig úr s.s. samkynhneigðir, dökkir á hörund, andlega veikir eða skáru sig að öðru leyti úr. Þessir fordómar eru að vissu leyti skiljanlegir þar sem Ísland var mjög einangrað frá umheiminum.
Við eigum flest okkar erfitt með að skilja það að við höfum kallað hörundslitað fólk; negra, samkynhneiða; kynvillinga og andlega veikt fólk; niðursetninga.
Við höfum sem betur fer opnast mikið sem samfélag á undanförum áratugum og margt orðið betra er snýr að mannréttindum og almennri manngæsku.

Heimildir:
https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item29653/Throun_tobaksneyslu_a_Islandi-2016(2).pdf
https://www.landlaeknir.is/tolfraedi-og-rannsoknir/tolfraedi/heilsa-og-lidan/tobaksnotkun/
https://www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/heilbrigdismal/heilsufarsrannsokn-2015-avaxta-og-graenmetisneysla/
https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item22035/Neysla-avaxta-og-graenmetis-jokst-arid-2012
https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item37451/Talnabrunnur_Juni_2019.pdf
https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item37155/Nidurstodur-rannsoknar-um-svefnvenjur-medal-framhaldsskolanema-2018-kynntar-vid-afhendingu-Gulleplisins-2019/
https://www.hi.is/visindin/saga_gedsjukra_a_islandi

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing