Heilsutrúboð


Trúin á sjúkdómana í  “Heilbrigðu lífi” 1946, VI. árg., 1.-2. hefti segir svo í “ritstjóraspjalli” á bls. 32-33: “Það er ekki alltaf jafn vinsælt að halda fram réttum kenningum heilsufræðinnar, einkum gagnvart þeim mönnum, sem hafa ónóga yfirsýn til þess að samræma vísindalega þekkingu hinna ýmsu greina læknisfræðinnar, og vinsa úr, það sem máli skiptir. Sé sjóndeildarhringurinn of þröngur, verða menn einstrengingslegir í heilsufræðilegum kenningum sínum, geta orðið heilsutrúboðar, en svo nefnir landlæknir slíka menn í grein í H.L. í fyrra.”

Ritstjóri “Heilbrigðs lífs”, próf. dr. med. Gunnlaugur Claessen, bregður stundum fyrir sig þeirri list að tala undir rós og fara svo loðnum orðum um menn og málefni, að kunnugir einir átta sig á, hvað við er átt. Eldri lesendum H.L. er það vafalaust ljóst, að hinum tilvitnuðu ummælum er beint að Náttúrulækningafélagi Íslands, forseta þess og stéttarbróður ritstjórans, Jónasi Kristjánssyni, og öðrum forvígismönnum félagsins, með því að fá hefti hafa komið út af hinum sjö árgöngum þessa rits, án þess að ritstj. hafi borið á borð fyrir fróðleiksfúsa lesendur sína meira og minna augljóst nart og lítt smekklegar dylgjur í garð félagsins. Og í seinni tíð hefir honum verið sérstaklega uppsigað við sænska heilsufræðinginn Are Waerland, sem virðist fara óþægilega í taugarnar á ritstjóranum og sumum öðrum læknum hér.

Ef menn vissu ekki, að ritstjórinn er læknir af “gamla skólanum” og er hér að veitast að nýrri stefnu í heilbrigðismálum, mundu þeir hiklaust líta á hin tilfærðu orð hans sem ádeilu á læknana sjálfa, svo nákvæmlega eiga þau við lækna almennt, að einu orði undanskildu. Það er orðið “heilsutrúboðar”. Það væri synd að segja, að læknarnir gætu tekið þetta orð til sín.

Heilsutrúboð
Ritstj. H.L. og landlæknir eiga þakkir skilið fyrir þetta ágæta heiti. Það hittir naglann á höfuðið. Náttúrulækningastefnan er sannkallað “heilsutrúboð”. Hún boðar trúna á það, að allir menn geti verið heilbrigðir, ekki aðeins lausir við sjúkdóma, heldur fullkomlega starfshæfir og hraustir, vitandi ekki hvað vanlíðan er, slappleiki eða slen. Meðal “trúboðanna” eða sem höfuðpostula þessarar kenningar má nefna hina heimsfrægu lækna og vísindamenn dr. Kellogg (í Ameríku), dr. Lane (í Englandi) og dr. Hindhede (í Danmörku), sem allir eru nýlega látnir í hárri elli; dr. Bircher-Benner lækni og syni hans (í Sviss) og próf. dr. Brauchle (í Þýzkalandi); Jónas Kristjánsson lækni og Are Waerland, sem kunnir eru hér á landi af ritum sínum og fyrirlestrum.

Trúboð þessara manna er annað og meira en orðin tóm. Þeir hafa lifað að verulegu leyti eða algerlega eftir kenningum sínum og sýnt í verkinu gildi þeirra, ekki aðeins á sjálfum sér, heldur og á þúsundum eða tugþúsundum sjúklinga sinna og fylgismanna. Þetta “trúboð” styðst í senn við vísindarannsóknir og almenna reynslu. Það er sannanlegt hvenær sem er og hverjum þeim sem vill hafa augun opin. Og hverjum manni er í lófa lagið að prófa það á sjálfum sér. Það þarf enginn að trúa í blindni stundinni lengur. Hann þarf ekki annað en að láta eigin reynslu skera úr, láta verkin tala. Hreint ekki svo fráleitt trúboð!

Ritstj. H.L. ætti ekki að reynast örðugt að setja sig í spor þeirra mörgu manna, sem hafa árum eða áratugum saman barizt við vanheilsu og sjúkdóma í einni eða fleiri myndum, varið ógrynnum fjár í læknishjálp, lyf og allskonar “vísindalegar” lækningatilraunir, án þess að fá varanlega bót meina sinna. Svo heyra þeir skýrt frá því, að þeir hefðu aldrei þurft að verða veikir, og að þeir geti jafnvel orðið albata — svo framt að líffæri þeirra séu ekki því meira skemmd — án lyfja eða venjulegrar “læknishjálpar”, án verulegs tilkostnaðar eða óþæginda, með því einu að hlíta nokkrum einföldum reglum í mataræði o.fl. Og þeim er sagt, að þeir geti meira að segja á þennan hátt öðlast betri heilsu og meiri lífsþrótt en þá hefði nokkru sinni órað fyrir. Á ritstj. H.L. bágt með að skilja, að þessar kenningar láti í eyrum langþjáðra og sárþjáðra sjúklinga sem hreinasti fagnaðarboðskapur, ef þeir á annað borð taka mark á þeim. Gallinn er bara sá, að almenningur er orðinn svo blindaður og afvegaleiddur af flóknum rannsóknar- og lækningatækjum, þúsundum latínuheita á líkamshlutum, sjúkdómum og lyfjum, hinum órjúfanlega huliðshjúp, sem læknar oft varpa yfir sig og rannsóknir sínar á sjúklingum, og margvíslegum furðuverkum, sem læknisfræðin hefir látið eftir sig liggja — af öllu þessu hefir almenningur orðið svo blindaður, að menn eiga bágt með að átta sig á, að jafneinföld ráð og mataræði, böð, gott loft, hreyfing o.s.frv. geti fengið nokkru áorkað, sérstaklega þar sem hinar flóknu, torskildu, kostnaðarsömu og “hávísindalegu” lækningaaðferðir hafa brugðizt.

Þetta er þó ekki torskilið mál, þegar betur er að gáð. Náttúrulækningafrömuðir þeir, sem ég nefndi hér að ofan, hafa fengið sömu læknismenntun og aðrir læknar. Þeir styðjast því við nákvæmlega sömu undirstöðuþekkingu og almennir læknar og nota það af henni, sem þeim þykir við eiga, en hafna öðru. Og lækningaaðferðir sínar byggja þeir á grundvallarlögmáli, sem almennir læknar virðast ekki þekkja eða viðurkenna, sem sagt því, að sjúkdómar stafi af röngum og óeðlilegum lifnaðarháttum, og því sé bezta — og eina rétta — lækningaaðferðin sú að lagfæra þessar orsakir. Þeir varast eins og heitan eldinn að taka fram fyrir hendur náttúrunnar, vitandi það, að “náttúran læknar sjúklingana, ef hún fær að ráða og mennirnir taka ekki í fávizku sinni fram fyrir hendur hennar”, eins og próf. Guðmundur Hannesson hefir réttilega sagt (sjá grein Vilmundar Jónssonar, landlæknis, “Trúin á lygina”, í síðasta hefti). Þeir reyna af fremsta megni að aðstoða náttúruna við lækningu sjúkdómsins, og það gera þeir bezt með hófsemi í mat og drykk og öðru einföldu en heilnæmu líferni. Og lyfjunum hafna þeir, vegna þess að þeir vita, að “fæstir sjúkdómar verða reknir burt með lyfjum, sem við þeim eigi, blátt áfram af þeirri ástæðu, að slík lyf þekkjast ekki og hafa aldrei þekkzt” (próf. Guðm. Hannesson, sjá sömu grein). Þeir spyrja móður náttúru ráða í einu og öllu, og hennar úrskurð, og dóm hinnar ólygnu reynslu, meta þeir sízt minna en skrifstofurannsóknir, hversu hávísindalegar sem þær kunna að vera.

Eg hefi í fórum mínum fjölda frásagna af sjúklingum með allskonar sjúkdóma, eksem, skjaldkirtilbólgu, astma, meltingarkvilla, liðagigt, berkla, krabbamein o.fl., sem hafa læknazt, oft á ótrúlega skömmum tíma, eftir að öllum lyfjum var varpað fyrir borð og teknar upp einfaldar og heilnæmar lífsvenjur. Sumar eru þessar frásagnir ritaðar af læknum, aðrar af sjúklingunum sjálfum undir fullu nafni, og margir nefna auk þess þá lækna og þau sjúkrahús, sem þeir höfðu áður leitað til, þannig að auðvelt væri að hrekja frásagnir þeirra, ef þeir færu rangt með. Margir sjúklinganna voru komnir í dauðann. Sumir byrjuðu hinar náttúrulegu lækningaaðferðir með góðri von um árangur, aðrir gripu til þeirra sem hins síðasta hálmstrás, með veikri von, en án nokkurrar trúar. Og ekki verður heldur sagt, að trúin hafi bjargað sjúklingum, sem voru á óvitaaldri, smbr. sögurnar í greininni “Mataræði ungbarna” í “Nýjum leiðum II”. Ritstjóri H.L. kynni að geta lært sitthvað af því að lesa þessar frásagnir, því að hver þeirra er lærdómsríkari en margar, langar og hávísindalegar ritgerðir eða heilar bækur; þær eru lífið sjálft, hinn óbrigðuli og alvísi lærimeistari, sem allir geta lært eitthvað af, nema þeir einir, sem eru andlegir steingjörvingar, eða blindaðir af fordómum og lærdómshroka. Slíkar frásagnir hafa þegar birzt nokkrar hér í ritinu, og af þeim geta lesendur gert sér í hugarlund, hvílíkur fagnaðarboðskapur kenningarnar um hinar náttúrulegu lækningaaðferðir eru í eyrum margra þjáðra manna.

Hverjar eru “réttar kenningar heilsufræðinnar”?

Hvorir hafa réttara fyrir sér, dr. Gunnlaugur Claessen og skoðanabræður hans annarsvegar, eða Are Waerland, Jónas Kristjánsson og skoðanabræður þeirra hinsvegar? Ritstj. H.L. gerir líklega ráð fyrir því, að íslenzkir lesendur taki meira mark á orðum hans sjálfs en erlendra fræðimanna, sem fáir þekkja hér. Í augum margra mun þó vitnisburður Jónasar læknis Kristjánssonar þungur á metunum.

En svo er annað: Hve oft eru hinir “rétttrúuðu” læknar ekki ósammála innbyrðis um veigamikil atriði heilsufræðinnar og um lækningaaðferðir? Er þar ekki oft hver höndin upp á móti annarri, t.d. um mataræði ungbarna, um notkun lyfja og meðferð sjúklinga, um skaðsemi tóbaks, áfengis, kaffis o.s.frv., o.s.frv.? Eitt lítið dæmi: Nýlega ráðlagði læknir sjúklingi að drekka lítið eitt af kaffi nokkrum sinnum á dag, en samtímis harðbannaði annar læknir honum að drekka kaffi! Verðum við þess þannig ekki alltof oft áskynja, að skoðanir lækna á meðferð sjúklinga stjórnist af einhverju handahófsmati fremur en á vísindalega grundvölluðum skoðunum eða staðreyndum? Og er ekki þetta einmitt ástæðan til þess, hve mjög sundurleitar ráðleggingar lækna eru oft og einatt?

Og hverju eigum við þá að trúa, veslings fáfróðir leikmennirnir? Skyldi ekki vera kominn tími til, að við hættum að trúa orðum læknanna í blindni og förum að nota okkar eigin heilbrigðu skynsemi og hlusta á raddir þeirra manna, hvort sem það eru læknar eða ekki, sem segja okkur, að eina leiðin til að forðast sjúkdóma sé að lifa rétt? Það er hið ómengaða “heilsutrúboð”, og enn einu sinni vil ég þakka ritstjóra H.L. og landlækni fyrir orðið.

Trúin á sjúkdómana
En hvaða trú boðar þá ritstj. H.L. og aðrir “rétttrúaðir” læknar? Það skyldi þó aldrei vera “sjúkdómatrúboð”, trú á sjúkdóma? Lítum á þessi orð: “Vér eigum fyrir höndum að VEIKJAST og kveðja þennan heim” (auðkennt hér). Eftir hvaða bölsýnismann eru þessi orð? Þau standa í “Heilbrigðu lífi”, árg. II, 1.-2. hefti, bls. 125 og eru eftir ritstjórann sjálfan, dr. G.Cl. Höfundur þeirra hefir, eins og aðrir læknar, umgengizt sjúklinga og sjúkdóma alla starfsævi sína. Hann hefir, ef trúa má því, sem Vilmundur Jónsson landlæknir segir í grein sinni “Trúin á lygina”, verið “á kafi í sjúkdómum, trúað á sjúkdóma, spekúlerað í sjúkdómum, ræktað jafnvel sjúkdóma og lifað á sjúkdómum” (sjá síðasta hefti bls. 14). Hinsvegar hefir hann líklega gleymt því, hafi hann nokkurntíma vitað það, að menn geta lifað alheilbrigðir og sjúkdómalausir til hárrar elli. Læknar “þekkja varla heilbrigði nema að nafninu til”, eins og landlæknir segir í sömu grein. Ritstj. H.L. veit því ekki, að mönnum er áskapað að deyja úr elli, ekki úr hinum venjulegu hrörnunar- eða ellisjúkdómum, svo sem krabbameini, æðakölkun eða nýrnasjúkdómum, heldur að lognast út af, án nokkurra undangenginna sjúkdóma eða sjúkdómseinkenna. Slíkur ellidauði er mjög sjaldgæfur meðal menningarþjóðanna, en meðal margra annarra þjóða hefir hann verið og er enn algengur, svo og meðal dýra, og það er hinn eini eðlilegi dauðdagi.

Óaðskiljanlega samtvinnuð trúnni á sjúkdómana er trúin á lyfin, “trúin á lygina”, eins og þeir próf. Guðmundur Hannesson og Vilmundur Jónsson, landlæknir, kalla hana (sjá áðurnefnda grein landlæknis). Hún er einn aðalþátturinn í trúarjátningu hinna “rétttrúuðu” lækna. Og þeim ríður lífið á að viðhalda þessari trú meðal almennings, því að hvað yrði eftir af dýrðarljóma, starfi og atvinnu flestra lækna, ef þeir neyddust til að hætta að skrifa lyfseðla?

Ritstj. H.L. hefir ekki setið auðum höndum við sjúkdóma- og lyfjatrúboðið. Hér skulu nefnd örfá dæmi, en af nógu er að taka.

Fyrir fáum árum þýddi dr. G.Cl. bókina “Úr dagbókum skurðlæknis”, eftir enskan stéttarbróður sinn. Þar segir svo í sambandi við sykursýkina og insúlínið:

“Nýja lyfið (þ.e. insúlínið) gerir þá (þ.e. hina sykursjúku) frjálsa. Það er því líkt, sem þeir væru leystir úr fangelsi. Þeir geta lifað lífi sínu sem fólk flest. Sælkerar og bílífismenn nota sér þetta heldur en ekki. Og sykursjúkar konur þurfa ekki að neita sér um sætindi. Það er óhætt að “syndga upp á náðina” í svip og láta eftir sér í mat og drykk. En eftir á verður að bæta úr því með insúlíni” (auðkennt hér).

Það væri synd að segja, að hér væri heilsutrúboð á ferðinni. Dr. G.Cl. er hér að flytja löndum sínum ómengað sjúkdómatrúboð. Hér eru höfundur og þýðandi að gera sér leik að því að hvetja fólk til að éta sér til óbóta og gera sig veikt. Og svo stæra þeir sig af því á eftir, að hafa “sigrað” sjúkdóminn og “læknað” hann, þótt insúlíngjöfin sé engin lækning fremur en skemmd tönn er læknuð með því að draga hana út.

Ekki tekur betra við, þegar flett er upp í hinni miklu bók “Heilsurækt og mannamein”, sem ritstjóri H.L. hafði hönd í bagga með að þýða. Þar er sjúkdómum og sjúkdómseinkennum lýst rækilega og síðan brýnt fyrir fólki að fara til læknis. Um heilbrigði og heilnæma lifnaðarhætti er minna talað. Og ein af þeim heilbrigðisreglum, sem settar eru þunguðum konum, er þessi: “Það er bezt fyrir barnshafandi konur að neyta ekki áfengis og takmarka vindlinga niður í 6 á dag.” Takið eftir: niður í 6 — sex — á dag. Kaffi, sykur, áfengi, tóbak er dæmt ósaknæmt, sé þess neytt “í hófi”. Í sama streng tekur “Bókin um manninn” eftir dr. Kahn, sem gefin var út undir ritstjórn dr. G.Cl. og mikið var gumað af. Þar er okkur kennd sú speki, að vindill sé “meinlaus fyrir föðurinn, sem nýtur hans makindalega í hægindastólnum sínum” (bls. 472). “Í brenndri kaffibaun er mesti fjöldi dýrmætra efna …. Kunnast er koffeinið” (bls. 473). Á bls. 474-5 er kaffinu auk þess sungið lof í tíu liðum og fólk hvatt til að drekka kaffi 4 — fjórum — sinnum á dag! Og á bls. 473 eru sagðar sögur, sem eiga að sanna, að kaffið lengi lífið og varðveiti heilbrigði manna til hárrar elli! Á svipaðan en lævíslegan hátt er reynt að telja lesendum trú um, að “hófleg” áfengisneyzla sé með öllu ósaknæm og jafnvel nauðsynleg (bls. 483-7).

Fleiri dæmi verða ekki talin að sinni. En þeir sem hafa lesið HEILSUVERND eða bækur NLFÍ eða fletta upp í þeim, sjá þegar í stað muninn á sjúkdómatrúboði lækna og heilsutrúboði náttúrulækningastefnunnar. Heilbrigð skynsemi verður svo að segja lesandanum, hvora leiðina hann eigi að velja.

 

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd, 4. tbl. 1947, bls. 11-18

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi