Heilsuspillandi spítalar?

Heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga er mikið í deiglunni þessi dægrin vegna þess hversu fjársvelt það hefur verið undanfarin ár í kjölfar hins svokallaða „hruns“.
Samkvæmt fréttaflutningi er Landspítalinn að hruni kominn, vinnuumhverfi er heilsuspillandi, skúringarkompur eru orðnar að sjúkraherbergjum, lækningartæki eru ónýt, heilbrigðisstarfsfólk er á skítalaunum og vinnuálag gríðarlegt. Vegna þessara vinnuaðstæðna, lágra launa og vinnuálags eru læknar í verkfalli og það virðist flest vera á niðurleið er snýr að heilbrigðiskerfinu og hjúkrunarfræðingar og læknar sækja í betri kjör og minna vinnuálag til annarra landa sem eru betur stæð s.s. Norðurlöndin eða Bandaríkin.

Því hefur móttó Náttúrulækningafélags Íslands sjaldan verið mikilvægara en á þessum síðustu og verstu tímum, móttóið er  „berum ábyrgð á eigin heilsu“. Því fjársveltu og niðurníddu heilbrigðiskerfi okkar er ekki treystandi fyrir því að bjarga heilsu okkar vegna fjársveltis. Má því með sanni segja að heilbrigðiskerfið sjálft sé mjög veikt og vinni aðeins á hálfum afköstum.

Við ættum þvi að nýta þetta ófremdarástand til þess að setja heilsu okkar í fyrsta sæti. Það er lífsnauðsynlegt á Íslandi í dag að við gerum allt við sem getum á hverjum einasta degi til að tryggja sem besta heilsu okkar. Hver og einn einasti Íslendingur getur gert það með því að borða hollan og  næringarríkan mat á hverjum degi, hreyfa sig, fá góðan svefn og næra sálina. Með þessu erum við líka að tryggja betra heilbrigðiskerfi því 80% af útgjöldum heilbrigðiskerfisins fer í að „lækna“ lífsstílsjúkdóma sem koma til vegna lífsstíls okkar s.s. hreyfingarleysis, óholls mataræðis, reykinga, streitu og svefnleysis.

Auðvitað getum við fengið sýkingar, vírusa, krabbamein, hjartasjúkdóma, geðsjúkdóma og önnur mein þótt við hugum að öllum þáttum heilbrigðs lífernis,en það væri þá í undantekningatilvikum. Það væru því aðeins þeir sem virkilega þyrftu læknishjálp sem leituðu til heilbrigðiskerfisins. Þetta mundi lækka rekstrarkostnað þess gríðarlega.
Einnig væri hægt að spara mikið í heilbrigðiskerfinu til langframa ef hugað væri að forvörnum í stað þess að lækna bara þegar fólk er orðið mjög veikt. Þessir niðurskurðartímar eru kannski einmitt tíminn fyrir alla landsmenn og þá sem ráða fjárlögum til að huga meira að forvörnum, það er fjárfesting til framtíðar og ávísun á hressari og glaðari þjóð.

Einnig er vert að benda á það í þessu samhengi að spítalar eru ekki alltaf bestu staðirnar til að ná heilsu aftur. Hér eru nokkir atriði sem stuðla að því að spítalar eru ekki heilsusamlegir staðir  til heilsueflingar (athugið þó að þetta er ekki algilt og meira sett fram til umhugsunar):

Léleg næring
Það segir sig sjálft að í fjársveltum spítala þá hlýtur næringin líka að verða svelt og minna um innkaup á gæðahráefnum en æskilegt væri. Framleiðsla á mat á spítölum er fjöldaframleiðsla í stórum eldhúsum og slík framleiðsla er frekar til þess að rýra næringargildi matar vegna þess að flytja þarf hann langar leiðir og því er hann  ekki eins ferskur og hann gæti verið utan spítalans.

Léleg loftræsting og lítið freskt loft
Það að vera lokaður inn á spítala með fjölda annarra veikra einstaklinga er ekki ávísun á betri heilsu. Loftræsting er oft léleg (vegna fjárskorts) og það er sjaldan að maður komi á spítala og finni ferskt loft eða yfir höfuð að gluggar séu opnir. Smithætta af öðrum sjúklingum er líka meiri þegar maður er veikur og ofnæmiskerfið jafnvel laskað. 

Ekki nóg D-vítamín –  Engin útivera
D-vítamín er lífsnauðsynlegt og skortur á því getur stuðlað að sjúkdómum og gert bata á spítölum enn erfiðari. Hægt er að fá D-vítamín frá sólarljósi en við njótum þess nú bara 3-5 mánuði á ári hér á norðurslóðum. En á þessum mánuðum er mikilvægt  að komast undir bert loft til að  fá sólarljós og D-vítamín. Þá er hægt að njóta náttúrunnar og næra líkama og sál. Á veturna á Íslandi er nauðsynlegt að fá D-vítamín úr fæðunni, helst úr lýsi, eggjarauðum eða feitum fiski.

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi