Heilsurækt eða heilsuhrun

Höfum vér gengið til góðs götuna fram eftir veg?

J.H.

Það er næsta kynlegt, að þeir menn, sem teljast lærðastir um líf og heilsu, eru jafnframt manna krankfelldastir. Þótt þeir þykist langt hafnir yfir hinar frumstæðu þjóðir, vita þeir þó síður, hvernig þeir geta bezt borgið hinum dýrmætasta fjársjóði lífsins, sem er góð heilsa.

Í bók sinni Fullkomin heilbrigði og leiðin til hennar segir Hindhede læknir frá því, hversu siðspilltari og verri hinar vestrænu þjóðir voru hinum saklausu og hraustu frumstæðu þjóðum, er þeir komust í kynni við og kenndu síðan óhollar lífsvenjur og siði og gerðu þær þar með verri og vesælli. Þetta er saga menningarinnar, sem vestrænar þjóðir eru hreyknar af.

Um heilsuna er það sagt, að enginn veit hvað átt hefir fyrr en misst hefir. Menn eyða oft þessari dýrmætu eign í leit að auði og völdum, en sóa henni jafnframt, vegna þess að þeir hafa ekki lært að varðveita þennan fjársjóð. Þeir gleyma því, að þeim er ekki gefið lífið, þeim er fengið það að láni til þess að ávaxta það, eins og segir í Mattheusar guðspjalli í dæmisögu meistarans um talenturnar. Þeir, sem eyða heilsunni, gæta þess ekki að „ganga til góðs götuna fram eftir veg“.

Hvað er góð heilsa, spyrja menn. Það er fullkomið jafnvægi, andlegt og líkamlegt. Það er samræmi anda og efnis, fullkomin vellíðan.

Hvernig getur þú vitað, hvort þú ert heilbrigður, spyr Hindhede. „Það er einfalt mál. Ef þú ert fullkomlega heilbrigður, munt þú finna fullkomna vellíðan streyma um þig. Þú finnur þörf til þess að teygja þig og draga djúpt andann. En þetta þykir ekki fínt. Fínt fólk þarf ekki að teygja sig. Það þekkja aðeins vinnandi menn“.

Ef þú sérð skepnur í haga, sem vakna eftir að hafa bakað sig í sólskininu og tekið sér miðdagshvíld, teygja þær á öllum vöðvum, sem mest þær geta.

Hin sjúka efnishyggjumenning er blind fyrir hinum dýrmætustu auðæfum lífsins. Hún sækist eftir fjármunum, sem menn nota að vísu oft til gagns og góðs, en eins oft til þess að spilla sjálfum sér, skapa sér óhollar nautnir og til þess að stytta sitt eigið líf. Fjármunir eru á skáldamáli kallaðir Fáfnisarfur, eftir ormi, sem lá á gulli. Hinsvegar er auður fjár afl þeirra hluta, sem gera skal. Fjármunum er bezt varið til þess að gera menn betri, sælli og fullkomnari, til þess að auðga lífið og kenna mönnum að verja því öðrum til góðs, til þess að „ganga til góðs götuna fram eftir veg“, til vaxandi þroska og vellíðanar fjöldans.

Lífið á jörðinni gæti verið paradísarlíf auðnu og heilbrigði. En meðal flestra þjóða skiptast menn í flokka, sem eiga í deilum hver við annan, en finna þó með sjálfum sér, að þetta er heimska, sem gerir menn verri og vansælli.

Vér gleymum því, að vér höfum yfir oss æðri stjórn, sem vill leiða oss við hönd sér til fullkomnara og betra lífs, til aukinnar lífssælu. En vér verðum sjúkir og vansælir, af því að vér brjótum það lögmál, sem líf og heilbrigði eru háð. Vér sköpum oss sjúkdóma, af því að vér vitum ekki, og oss er ekki kennt, hvað hentar oss bezt til fullkomnari heilbrigði, andlegs og líkamlegs jafnvægis.

Læknisfræðin er fræðigrein, sem vill lækna sjúkdóma og vanlíðan. Henni hefir tekizt að ráða niðurlögum sumra sjúkdóma. En nú fer mestallt starf hennar í að gera við áorðnar sjúklegar breytingar og sjúkdómseinkenni, en henni sést yfir það að finna orsakirnar og ráð gegn þeim.

Það er auðséð, að hér á Íslandi hafa orðið straumhvörf í heilsufari manna til hins lakara við breytta matarháttu fyrir og um síðustu aldamót. M.a. lagðist niður neyzla sauðamjólkur, sem hefir verið einn helzti afl- og heilsugjafi þjóðar vorrar frá fyrstu byggð þessa lands. En í hennar stað tók við neyzla hins hvíta, eiturbleikta hveitisalla, sem sviptur er öllu hýði og þar með kíminu, sem felur í sér lífsorku, fjörefni, steinefni og hormón. Með svipuðum og verri ummerkjum þó er hvíti sykurinn, sem er gersamlega dauð og einhæf fæða. En þetta þykir ljúffeng fæða. Hún er gefin barninu sem fyrsta næring þess og veldur þó aldrei öðru en misræmi í líkama manna, sjúklegum breytingum og truflunum á vellíðan. Þannig verður sjálf læknisfræðin til þess að rækta sjúkdóma.

Fleiri en einn eldri prestur hefir bent mér á það, að á þeim heimilum, sem fyrst urðu til þess að taka upp hið nýja menningarmataræði, þar hafi fyrst komið upp tannskemmdir, berklar og krabbamein, og svo heil röð menningarsjúkdóma.

Vér þurfum vaxandi fjölda lækna og hjúkrunarliðs til þess að hjúkra og hlynna að sjúku fólki. Lærðum sérfræðingum fjölgar, og ný lyf bætast við með ári hverju. En þó fjölgar sjúkdómum og sjúklingum. Mætti því spyrja: Eru það nú viturleg og hagnýt vinnubrögð, sem beitt er við þessi störf? Mitt svar er neitandi. Vinnubrögðin eru á þá leið, að ræktaðir eru sjúkdómar og þeim haldið við í stað þess að kenna fólki ráð til þess að umflýja þá. Og sjúkdómarnir eru að verða óviðráðanlegri og vaxa oss yfir höfuð, svo að menn vita ekki sitt rjúkandi ráð, hlaupa frá einum lækni til annars, og svo segir sitt hver þessara lærðu manna.

Feikna fé er varið til allskonar vísindastarfsemi. Í Englandi var safnað fé til rannsókna á krabbameini. Rannsóknarstofa var sett á fót, lærður læknir var settur yfir hana, og þangað voru fengin tilraunadýr svo tugum og hundruðum þúsunda skipti, og reynt að smita þau með krabbameini. Og eftir þrotlaust starf um meira en tvo áratugi var árangurinn orðinn minni en enginn. Gallinn á öllu starfinu var sá, að ekki var leitað, þar sem orsakirnar var að finna, það er í óhollum og ónáttúrulegum lífsvenjum. Þetta má kalla léleg vinnubrögð, og þau má sjá víða í daglegu lífi. Þannig er mestöll mjólk gerilsneydd, en ekki lögð nægileg áherzla á að útrýma ófyrirgefanlegum sóðaskap í meðferð kúnna og mjólkurinnar. Fóðrun kúnna er stórlega ábótavant, líkt og fóðrun manna. Kýrnar verða sjúkar og detta dauðar niður á básunum, þegar minnst varir. Það er illkleift að fá heilt korn flutt til landsins, en vel séð fyrir innflutningi á hvítu hveiti og jafnvel rándýru sætabrauði. Og svo er engin furða, þótt fæstar mæður geti — vegna neyzlu dauðrar fæðu — haft börn sín á brjósti nema nokkra daga eða vikur. Og yfir þetta leggur læknisfræðin blessun sína, með allri sinni sérfræði og sérgæðum.

Náttúrulækningastefnan hefir bent á leiðina út úr þessu sjúkdómaöngþveiti. Hún vill nota sem bezt og á sem fullkomnastan hátt náttúrleg ráð, náttúrlega lifandi fæðu í stað dauðrar fæðu. En þessar kenningar sigla lítinn og lágan byr hjá fjárráðamönnum þessa lands. Það er vissulega of seint af stað farið að ætla sér að lækna sjúkdóma. Rétta ráðið er að taka fyrir rætur þeirra með því að skapa mönnum rétta lífshætti.

Ræktið fullkomna heilbrigði með náttúrlegum ráðum, og sjáið, hvernig þau vinnubrögð reynast. Útrýmið hinum hættulegustu siðvenjum og háttum. Leggið niður þann ósið að gefa börnum sælgæti. Ræktið í börnum heilbrigðar hneigðir. Bezta og nauðsynlegasta ráðið til þess að rækta heilbrigði í stað sjúkdóma er að koma upp heilsuhæli, þar sem kennt er heilbrigt og sjúkdómalaust líferni. Ég óska einskis fremur en að takast megi að sannfæra ráðandi menn um þetta og að sannfæra alla þjóðina um það, að bezta og einasta ráðið til að vinna bug á sjúkdómunum er að rækta heilbrigði.

Þessi grein birtist í 2. tbl. Heilsuverndar 1952.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi