Haustrútína


Nú er kominn tími til að setja sólgleraugun á hilluna og taka fram fílófaxið. Þegar september nálgast og sumarið tekur enda eru margir að koma aftur til vinnu eftir sumarfrí og börnum í skóla. Að komast í góða rútínu eftir kærulaust sumarið getur verið heilmikil áskorun. Til þess að gera þessa breytingu sem auðveldasta datt mér í hug að taka saman nokkur góð ráð sem gætu hjálpað. Mikilvægt er svo að gera þetta skref fyrir skref. Róm var ekki byggð á einum degi.

1. Svefn

Á sumrin breytist svefnmunstrið hjá mörgum og margir leyfa sér að vaka og sofa örlítið lengur eins og ég er sjálf sek um. Ég gef mér nokkra daga í að breyta þessu munstri, fer í rúmið korteri fyrr og vakna þá fyrr sem því nemur hvern dag, þar til ég er farin að vakna nægilega snemma til að geta farið hægt og rólega inn í daginn.

2. Mataræði

Ég er með nokkur fæðuóþol og þarf því að hugsa vel um hvað ég læt ofan í mig ef mér á að líða sem best. Á sumrin er mikið um ferðalög og veislur og þá finnst mér erfitt að neita mér um alla skapaða hluti og leyfi mér að fá mér einstaka kökur og sætindi, sem getur svo vafið all verulega upp á sig. Til þess að vera með næga orku inn í veturinn er mikilvægt að snúa þessu ferli við og hreinsa það rusl út sem ég hefur fylgt mér frá sumrinu. Ég byrja á morgunmatnum og svo koll af kolli.

3. Skipulag og markmið

Að fara inn í veturinn með gott skipulag á hlutunum, getur auðveldað lífið töluvert. Þetta er hægt að gera á nokkra vegu. 1. Að skipuleggja hvern dag eins vel og hægt er ( HÉR er plagg sem hægt er að prenta út), 2. Að fara í gegnum heimilið, hreinsa skápa og skúffur og skipuleggja heimilisbókhaldið. 3. Setja markmið fyrir hvern mánuð sem þú vinnur að því að ná, eitt fyrir vinnu og eitt persónulegt. 4. Ef þú átt stóra fjölskyldu þá er gott ráð að kaupa stórt dagatal sem fer á vegginn, þar sem eru skrifaðir niður helstu viðburðir hvers fjölskyldumeðlims fyrir sig. Þá eru allir með á nótunum.

4. Hreyfing

Á hverju hausti er ástandið oftast þannig að ég hef ekki hreyft mig markvisst í mánuð þó að ég hafi mögulega nýtt góða veðrið nægilega í göngur og aðra útivist. Því er gott að setja hreyfingu aftur inn í skipulagið, í mínu tilviki er það jóga, og best finnst mér að prófa einnig eitthvað nýtt. Klifur er á dagskránni í haust.

5. Sjálfsumhyggja

Með öllu þessu svakalega skipulagi og dagskrá framundan, verður líka að koma inn slökun og tíma í einveru. Ég á það til að gleyma þessum hluta og finna mig svo brenna út þegar líður á veturinn. Þetta er því það allra mikilvægasta, hvort sem það er að fara í bað með kertaljósum á sunnudögum eða nudd einu sinni í mánuði þá þarf að gefa rólegheitum tíma.

 

Takk fyrir samfylgdina í sumar!

Dagný Gísladóttir ritstýra

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi