Gönguhreyfingin og þýðing hennar fyrir líf og heilsu

Hreyfing er eitt af frumskilyrðum lífsins og hinn fyrsti vottur um líf. Þar sem engin hræring á sér stað, þar er dauði, en ekki líf. Það er því réttmætt að segja, að lífið sé hreyfing, lifandi straumur.

Lífið hefir smámsaman þróazt á jörðu vorri, allt frá einfrumungum upp til mestu fullkomnunar. Maðurinn er kominn af dýrum, sem gengu á fjórum fótum. En svo tók forfaðir mannsins upp á því að rísa upp á hinum aftari limum og nota hina fremri til annarra starfa. Þetta hefir gert framlimina að höndum, hentugum tækjum til allskonar bjargráða. Fæturnir fengu sérstaka lögun til þess að gera ganginn öruggan og hraðan. Um gönguhreyfinguna má segja, að hún hafi mótað manninn í núverandi mynd, og hún heldur áfram að þroska hann og fullkomna, ef hún er rétt iðkuð. Gangurinn er alhliða hreyfing, sem hefir örvandi, glæðandi og styrkjandi áhrif á öll líffæri mannsins yfirleitt. Hún er vöðvastarf, sem hvetur öll önnur líffæri til samstarfs og þroskar þau og styrkir.

Ef vér viljum kynna oss þroskaferil mannsins, fáum vér glögga hugmynd um hann með því að fylgjast með þroska barnsins. Myndbreytingar fóstursins í móðurlífi sýna þróun mannsins frá einfrumungi til æðri dýra. Ungbarnið skríður fyrst á fjórum fótum, eins og dýrin. Börn geta sett höfuðið aftur á herðar til þess að líta upp fyrir sig. Síðar fer barnið að beita höndunum til þess að reisa sig upp og notar þær síðan til jafnvægis, þegar það fer að bera sig yfir stuðningslaust. Þetta er starf, sem útheimtir mikla þjálfun og langa, áður en leikni er fengin, svo að gangurinn verður ósjálfráð hreyfing, sem ekki útheimtir hugsun.

Í flestum tungumálum, og þá ekki sízt í skáldskap, má sjá þess vott, að menn hafa smekk og tilfinningu fyrir fögru göngulagi, ekki síður en fögrum vexti. Skáldin tala um gangfagrar meyjar, fagurlimaða og sterklega en þó liðlega vaxna menn, íturvaxna menn, sem bera sig vel. Fagurt og mjúkt göngulag felur í sér hrynjandi, líkt og létt sönglag. Þetta finnst bezt, er margir ganga saman með samstilltum limaburði, í takt, eins og það er kallað. Og léttur, taktgóður hljóðfærasláttur eða söngur léttir gönguna, gerir hana samstillta og hressandi.

Við hraðar göngur eða hvert annað mikið vöðvastarf framleiðist hiti, en einnig ýms úrgangsefni, sem valda mikilli þreytukennd, og verða þau að hverfa sem hraðast á brott úr líkamanum. Hjartað fær skipun um að örva og auka starf sitt, en það er m.a. hlutverk þess og blóðsins að jafna hitann og þvo burt þreytuefnin. Um leið örvast hinar sjálfráðu og ósjálfráðu hreyfingar öndunarinnar. Öndunin verður dýpri, og lungun taka meira súrefni úr loftinu. Súrefnið og sú næring, sem blóðið flytur, berst hraðar en ella út um líkamann. Einnig flýtir þetta fyrir innvortis hreinsun líkamans, því að um leið og blóðið flytur frumunum næringu, tekur það upp úrgangsefni, er myndast við lífsstörfin, og flytur þau til hreinsunartækjanna: lungna, nýrna, húðar og þarma, og jafnframt örvast starf þarma og ristils og þarmatæmingarnar. Gönguhreyfingin hefir alveg sérstaklega mikilvæg áhrif á blóðið, samsetningu þess og störf í þágu líkamsheildarinnar. M.a. er það eitt aðalhlutverk blóðsins að halda jafnvægi á líkamshitanum. Blóðið má aldrei verða kyrrstætt, ella dvínar lífskrafturinn, fyrir of litla næringu og ófullkomna hreinsun og burtþvott óhreinna efna. Við langvinna kyrrstöðu eða kyrrsetur, samfara rangri næringu, fer svo, að æðaveggir missa þanþol sitt, ekki sízt í útæðum líkamans. Í fótleggjunum eru bláæðarnar búnar sérstökum lokum, til þess gerðum, að blóðið renni ekki til baka. Við kyrrstöður bila þessar lokur, og það því fremur, sem fólk nærist almennt á dauðri og ónáttúrlegri fæðu, sviptri steinefnum og fjörefnum og öðrum þeim eiginleikum, sem viðhalda þanþoli æðaveggjanna. Við hraða göngu þrýsta vöðvar fótleggjanna á útæðarnar, sem flytja blóðið upp til hjartans, og hindra of mikla þenslu æðanna. Djúp öndun stuðlar einnig að því að örva blóðrennslið eftir bláæðunum til hjartans.

Við hverja innöndun víkkar brjóstholið, þindin dregst saman og þrýstir á þau líffæri, sem neðar liggja, þannig að lifur og milti, magi og þarmar þrýstast niður á við, en kviðvöðvarnir gefa eftir í bili. Við útöndunina dragast þeir aftur saman, og innyflin færast í samt lag. Þannig örvar djúpur andardráttur starf lifrar og meltingarfæra, blóðrásina og vinnur þannig gegn myndun flestra sjúkdóma. T.d. er efsti hluti lungnanna lakar nærður en aðrir hlutar líkamans. Við hraða göngu og hlaup þenjast lungnablöðrurnar vel út og fá þá um leið aukna endurnýjun blóðsins. Þegar blóðið á þannig létt með endurnýjun næringar og brottflutning úrgangsefna, er síður hætt við sjúkdómum, svo sem berklaveiki. Eg er allt frá æskuárum minnugur þess, að unglingar, sem að vori höfðu blóðhósta og bólgna kirtla í hálsi, en sátu yfir fé um sumartímann, komu oft þreyttir og svangir heim og drukku volga sauðamjólkina á kvíaveggnum, þeim batnaði alveg yfir sumarið, ekki sízt ef þeir voru lystugir á sauðamjólkina. Þetta var ekki með ólíkindum, því að þarna hjálpuðust að til að hreinsa blóðið lífskröftug næring og hlaup fram og aftur, oft í bröttum fjallahlíðum.

Gönguhreyfingin hefir hjálpað mörgum mönnum til að endurheimta glataða heilsu. Og hin almenna læknisfræði er farin að skilja þýðingu hennar fyrir bata eftir skurðaðgerðir, eftir fæðingar og aðrar sængurlegur eða sjúkdóma. Eg heyrði eitt sinn Bircher-Benner, hinn fræga svissneska náttúrulækni, segja í fyrirlestri frá sjúkum manni, sem vitjaði hans. Maður þessi var illa haldinn af meltingaróhægð, tregum hægðum og lystarleysi. Honum varð illt af öllum mat. Hann var orðinn magur, gráfölur í andliti og leit ekki glaðan dag fyrir vanlíðan. Lifur, magi og ristill voru sigin. Hann hafði vitjað margra lækna án nokkurs árangurs. Honum leið bezt, er hann lá fyrir og hreyfði sig sem minnst. En við það ágerðust hinar sjúklegu breytingar.

Hið fyrsta, sem Bircher-Benner ráðlagði manninum, var að nærast á lifandi jurtafæðu eingöngu. Í öðru lagi brýndi hann fyrir hinum sjúka manni að tyggja matinn vel, og þriðja ráðið var aukin hreyfing, öndunaræfingar og leikfimi með sérstakri áherzlu á æfingu kviðvöðvanna, og hann ráðlagði sjúklingnum að æfa göngur hægt og hægt og lengur með hverjum deginum.

Sjúklingurinn fór sína leið, og læknirinn gleymdi honum alveg. En liðugu ári síðar kom hann dag einn inn í lækningastofu Bircher-Benners, sem þekkti hann ekki í fyrstu, svo miklum stakkaskiptum hafði hann tekið í útliti. Nú var hann útitekinn, hraustlegur og glaðlegur. Líkami hans bar vott um fullkomna heilbrigði, var stæltur og þrunginn jafnvægi og lífsþrótti, svo að læknirinn undraðist mjög. Innyflasigið var með öllu horfið, og innyflin höfðu aftur fengið eðlilegt þanþol. Hér var stálheilsa komin í stað andlegrar og líkamlegrar eyðileggingar. Hann sagði lækninum þá sögu, að hann hefði tekið göngu langa og mikla suður endilanga Ítalíu, þvert yfir Balkanskaga, norður yfir Sviss og Þýzkaland, þaðan fór hann til Svíþjóðar og gekk eftir henni endilangri, síðan um Frakkland og var nú kominn heim eftir þetta flakk. Á ferðalaginu lifði hann eingöngu á jurtafæðu, mest ósoðinni, ávöxtum, rótarávöxtum, grænmeti og korni. M.a. borðaði hann kornöx, sem hann kippti upp af ökrunum á göngu sinni. Gangan, náttúrleg, lifandi næring og hreint útiloftið höfðu komið því til leiðar, sem hvorki læknar né lyf höfðu fengið áorkað. Sálfarið hafði og komizt í lag, og hann hafði náð aftur andlegu jafnvægi og lífsgleði um leið og líkamlegri heilsu.

Það er nú svo, að einmitt á göngu, þar sem ekkert truflar hugann, getum vér gleymt mörgu, sem hefir mætt á oss, gleymt ýmsum smákrit, sem raskar oft andlegu jafnvægi. Á langri göngu getum vér ótruflaðir hlustað á hina innri rödd, sem hvíslar að mönnum ýmsum sannindum og betrar menn og bætir, svo að vér færumst nær guðdóminum. Gangi maður út úr byrjandi skarkala borgarlífsins árla morguns, eru líkami og sál sérstaklega þakklát og móttækileg, eftir næturhvíldina, fyrir hina miklu hressingu, sem aukin hreyfing blóðsins hefir í för með sér. Hún færir hverju líffæri og hverri frumu nýjar birgðir súrefnis, um leið og hún þvær burtu óhrein efni. Morgungangan er innvortis súrefnisbað, engu þýðingarminna en útvortis þvottur. Menn koma aftur heim, jafnvel eftir stuttan morgunleiðangur, hressari á sál og líkama, með vakandi hug á starfi dagsins. Fjöldi manna á erfitt með að vakna að morgni vegna þyngsla í höfði og þreytu í limum, þrátt fyrir næturlanga hvíld. Hér mundi rösk morgunganga verka sem hið bezta hressingarlyf. Í stað þess byrja flestir á því að kveikja sér í sígarettu og fá sér kaffisopa.

Það er engin tilviljun, að bilanir á hjarta og æðum eru hin langtíðasta dánarorsök, ekki aðeins á efra aldri, heldur jafnvel á yngra fólki. Það er ekki fátítt, að konur fái æðastíflur eða æðatappa að afstaðinni fæðingu. Hver er orsökin? Orsökin er fyrst og fremst ónáttúrleg næring og of lítil hreyfing. Læknar ráða mönnum með hjartasjúkdóma til þess að hreyfa sig lítið og gefa þeim lyf. Nú er það þó að byrja að verða viðurkennt, að gönguiðkun hafi hin víðtækustu áhrif til að styrkja hjartað, samfara því að breyta mataræðinu.

Í heimkynnum eiturslöngunnar kunna innfæddir menn ráð við höggormsbiti. Þeir hlaupa, stökkva eða dansa ákaflega, þar til þeir eru yfirkomnir af þreytu og falla niður meðvitundarlausir og sofna. Þeir vakna heilir eftir skemmri eða lengri svefn. Við hina áköfu hreyfingu hefir blóðstreymið um líkamann aukizt geysilega, súrefnisneyzlan margfaldazt og úthreinsun eiturefnanna orðið örari.

Það hefir oft reynzt hin öflugasta vörn gegn sjúkdómum, svo sem inflúenzu í byrjun veikinnar, að taka hraða göngu og þreyta sig og hita duglega, t.d. með því að ganga í brekkum. Enginn er heldur efi á því, að göngur flýta fyrir bata berklaveiki, ef varlega er farið, jafnvel þótt um lungnaberkla sé að ræða.

Eg hika ekki við að fullyrða, að gönguhreyfingin sé eitt hið öflugasta ráð til þess að verjast hverskonar kvillum, bæði næmum og ónæmum. Hún er hinn öflugasti hressingargjafi, sem örvar allar lífshræringar og þar með lífið sjálft, og eykur því lífskraft manna. Það er furðulegt, hve fólk er skilningssljótt á þýðingu hennar. Hún gerir menn hrausta og harðfenga. Fjallaþjóðir hafa hvarvetna þótt hraustar og harðfengar til hverskonar afreka umfram menn, sem búa á láglendi eða í þröngbýli. Engar umbætur á skipulagi borga og bæja gætu verið betri og heilsusamlegri en þær að leggja gangbrautir, þar sem menn gætu verið lausir við göturyk og benzínsvælu og ekki í sífelldri lífshættu af bílaumferð. Eins og nú er, getur gamalt fólk og lasið hvergi átt þess kost að hreyfa sig úti við og er því svipt þeirri lífsnauðsyn að taka göngu í góðu veðri. Þá á misnotkun bíla, strætisvagna og annarra farartækja, svo nauðsynleg sem þau eru, sinn þátt í því að gera menn lata og venja þá af að nota fæturna til gangs.

Ekkert starf felur í sér meiri lækningamátt en gönguhreyfing, helzt hraðar göngur, í góðu og hreinu útilofti, jafnframt heilnæmri lifandi næringu. Vélmenning nútímans leiðir af sér auknar kyrrsetur í húsum inni. Einfaldasta og bezta ráðið til að bæta það upp eru daglegar göngur, helzt að morgni dags, áður en borgarloftið mettast ryki og sóti. Iðkið daglegar morgungöngur. Þær eru ein öflugasta leiðin til heilsubóta og heilsuverndar.

Þessi grein birtist í 3. tbl. Heilsuverndar 1950.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing