Fyrirlestur Jónasar læknis Kristjánssonar um lifnaðarhætti og heilsufar fluttur 10. mars 1923. Seinni hluti.

Fyrirlestur Jónasar læknis Kristjánssonar um lifnaðarhætti og heilsufar, fluttur 10. mars 1923 – seinni hluti.

Í norðlægum löndum, eða þar sem loftslag er kalt eins og hjer á sjer stað, er erfitt að lifa eingöngu sem jurtaætur (vegetarianer) af því að landið, sem við lifum á, getur svo fátt framleitt úr jurtaríkinu, að það verður mjög einhæf fæða.
Hjer vex aðallega grasið og fátt annað. Grasið er notað á heppilegan hátt með því að breyta því í mjólk, smjör eða skyr eða til að framleiða kjöt. Reynsla okkar Íslendinga virðist líka benda á það, að kjötneysla í hófi gjöri lítinn skaða, að minnsta kosti ef neytt er síuskyrsins jafnframt. Við Íslendingar höfum til þessa náð svipuðum eða ekki lægri aldri en nágrannaþjóðir okkar, sem eiga hægari aðstöðu með jurtafæðu en við. Það er líka nokkurnveginn víst, að sú þjóð bjargast best bæði hvað heilsufar og efnalegt sjálfstæði snertir, sem lifir mest af sínu eigin, notar sína eigin framleiðslu sjer til framfæris og kaupir sem minnst af öðrum.

Síðan vjer Íslendingar tókum þann sið upp, að flytja mest af okkar eigin framleiðslu burt úr landinu, og kaupa útlendar fæðutegundir í staðinn, hefur heilbrigðisástandinu í landinu mjög hnignað. Það er heldur ekki ólíklegt að vjer í hinu kalda landi voru þurfum kröftugri og hitameiri fæðu heldur en þeir, sem sunnar lifa á hnettinum eða í blíðara loftslagi. Það er líka skiljanlegt, að þeir menn er hafa mikið líkamlegt erfiði, þoli þyngri og kröftugri fæðu en hinir sem kyrrsetur hafa og litla líkamlega áreynslu. Þegar menn hafa kyrrsetur og lítið líkamlegt erfiði, verða efnaskiptin í líkamanum ekki eins fjörug. Þeir menn draga ekki eins djúpt andann, og líkaminn fær ekki eins mikið af súrefni og þegar erfiði er drýgt. Afleiðingin af þessu verður sú, að innisetumenn þola ekki eins þunga eða eggjahvíturíka fæðu, kjötið eða fiskurinn brennur ekki til fullnustu í líkamanum, eiturefni myndast í þörmunum í þeim leifum sem meltast ekki til fullnustu og berast með blóðinu út um líkamann, orsaka þrota í slímhúð innýflanna, kalkmyndun í æðunum, gikt og nýrnabólgu og fleiri kvilla.

Yfir höfuð mun það lítið standa mönnum fyrir þrifum á Íslandi að þeir neyti of þungrar fæðu, heldur hitt að þeir neyti ýmissrar fæðu, sem gjörð er óholl með kúnstugri matreiðslu. Rúgmjöl og rúgur hefur verið flutt hingað til lands frá byggingu þess, en fram að síðustu áratugum mjög af skornum skammti. En síðustu áratugina hefur notkun þess aukist stórkostlega. Þannig hefur verið flutt inn rúgur og rúgmjöl 1919 fyrir meir en 2 milljón kr. en kornvara fyrir meira en 7 milljónir kr. alls.
Rúgmjöl er mest notað í brauð. Eins og áður hefur verið tekið fram, eru bætiefni (vitaminefni) undir hýðinu á korntegundunum, svo rúg sem öðrum korntegundum. Enn fremur að bætiefnin þola illa mikla eða lang-varandi upphitun, þau eyðileggjast þá. Nú eru brauð einmitt bökuð með langvarandi upphitun í bökunarofnum. Er sennilegt að bætiefnin eyðileggist að miklu leyti við þessa bökun. Það er eitt víst, að börn sem borða mikið af rúgbrauði, fá snemma holar tennur. Vera má að eitthvað af þeim tannskemmdum stafi af utanaðkomandi áhrifum á tennurnar, en hitt er þó miklu líklegra, af því sem við annars vitum um bætiefnin, að fyrir skort á þeim verði kalkskortur í öllum líkamanum, þó hann komi fyrst í ljós á tönnunum, því þær eru berar og þess utan meira útsettar en önnur bein fyrir áverkum hita og kulda.

Af þessu verður það ráðið, að brauð eins og það er bakað hjá okkur sje ekki eins holl fæða eins og almennt hefur verið talið, að minnsta kosti ef þess er neytt í stórum stíl og ekki nægilega mikils af smjöri með því. Rjettast gjörðum við Íslendingar að kaupa ekkert rjúgmjöl, heldur rúginn ómalaðan og mala hann sjálfir hjer heima. Áður var þetta svo. Það var mylna á öðrum hverjum bæ, og þá miklu meira keypt af rúg en nú orðið. Á stríðsárunum 1914-1919 var mjölið sem hingað fluttist meira og minna svikið, blandað ýmsum framandi efnum, svo sem berki, hálmi o.fl. Það er auðveldara að svíkja það heldur en rúginn. Þess utan er mjög sennilegt að rúgmjöl þoli illa geymslu eða miklu lakar en rúgurinn, að það missi bætiefnin við langvinna geymslu, sjerstaklega ef það er geymt á rökum stöðum, en þessi fæðutegund verður eins og aðrar fæðutegundir ljeleg ef hún missir bætiefnin.

Annars er það næsta eftirtektarvert að flest sú vara sem vjer Íslendingar framleiðum og flytjum til útlanda er margmetin, t.d. fiskur og kjöt, og til þess varið talsverðu fje og fyrirhöfn á vorn kostnað. En þó matvörur þær sem vjer fáum frá útlöndum sjeu sviknar á margan hátt með því að blandað er saman við þær margskonar óþverra eða að þær sjeu jafnvel maðkaðar, þá er ekkert um það fengist. Íslendingum hættir við því að líta miklu stærri augum á það sem inn er flutt heldur en sína eigin vöru, það þykir flest gull sem flutt er frá útlöndum. Þjóðrækni og þjóðmetnaður vor Íslendinga situr ekki ætíð á svo háum söðli. Hafragrjón (völsuð) keyptu Íslendingar fyrir tæpa milljón árið 1919. Hafragrjón sem hingað flytjast eru vanalega ljeleg úrkastsvara, sjerstaklega reyndist svo á stríðsárunum. Hafragrjón eru í sjálfu sjer hollur og góður mat-ur af því að þau eru ekki afhýdd eins og hrísgrjónin sem hingað flytjast, en þau eru oftast skemmd með því að sjóða þau of lengi. Ljettmeltanlegust og hollust eru þau með því að sjóða þau aðeins í 8-10 mínútur, ekki lengur, annars skemmast bætiefnin í þeim og þau verða tormeltanlegri. Hafragrjón eru víða soðin í hálfan eða heilan tíma, jafnvel lengur, en það er hin mesta fásinna að sjóða þau svo lengi, vegna þess sem áður er sagt. Yfirleitt hættir fólki við því að sjóða matinn of lengi. Það er hið sama um hafragrjónin og rúgmjölið að segja, að best er að geta fengið það nýtt. Við geymsluna gengur það úr sjer og hefur minna næringargildi.

Hveiti keyptum við 1919 fyrir tæpar 2 milljónir. Það sem kallað er hveiti í daglegu máli, er kjarninn úr hveitikorninu. Hýðið er malað utan af kjarnanum og haft til að fóðra skepnur með því. Eins og á öðrum kornteg-undum eru bætiefni í ríkulegum mæli undir hýðinu, en í kjarnanum, hinum hvíta hveitikjarna, eru engin bætiefni, og er hveitikjarninn mjög snauður af þeim efnum sem oss eru nauðsynlegust, svo sem kalki, járnsamböndum og öðrum þeim efnum sem nauðsynleg eru í fæðu vorri til þess að blóðið fái eðlilega samsetningu. Víða er í Ameríku hætt því að mala hýðið utan af hveitikjarnanum, heldur er hveitikornið eins og það kemur fyrir malað líkt og rúgur er malaður. Þá lítur það út líkt og fínmalað rúgmjöl, og brauð úr því lítur líkt út og rúgbrauð. Hveitibrauð þannig gjört er miklu hollara og ríkara af næringarefnum en hið hvíta brauð úr kjarnanum, sem er snautt af kalki og járni, og þannig svift því sem gjörir það hollt til manneldis. Ef Íslendingar kaupa hveiti framvegis, þá ættu þeir að kaupa hveitikornið og mala það sjálfir heima.

Hrísgrjón eru flutt til Íslands 1919 fyrir tæpar 7 millj. króna og þekkj-ast ekki öðruvísi en að hýðið hefur verið mulið af þeim og eftir er aðeins kjarninn. Það hefur sannast á síðari árum að ef hrísgrjóna er neytt einvörðungu eða mestmegnis í því ásigkomulagi sem þau er hingað flutt, þá orsakar það sjúkdóm sem kallaður er Beri-Beri og er alþekktur í Kína, Japan og víðar. Í japansk-rússneska stríðinu fengu 50 þús. Japana þessa veiki af hrís-grjónaáti.
Ef menn borða mestmegnis hrísgrjón án hýðis fá menn þennan sjúkdóm, en borði þeir hrísgrjónin með hýðinu verður veikinnar ekki vart. Læknir einn gjörði tilraunir á mönnum á þann hátt að hann ljet nokkra menn nærast eingöngu, eða sem næst því, á hrísgrjónum án hýðis, og annan flokk manna jafnmarga ljet hann nærast eingöngu á hrísgrjónum með hýðinu. Eftir nokkurn tíma fengu allir þeir sem notið höfðu hýðislausra hrísgrjóna, Beri Beri, hinir ekki. Jafnframt ljet hann báða flokka lifa saman til þess að vita hvort um smitun gæti verið að ræða, en það varð ekki. Skipti hann þá um, ljet þá sem fengið höfðu hrísgrjón með hýðinu á fá poleruð eða hýðislaus hrísgrjón og eftir nokkurn tíma fengu þeir allir Beri Beri. Þannig er það líklega um flestar korntegundir, að ef þær eru sviftar sínum bætiefnum sem eru undir hýði þeirra, orsaka þær ef þeirra er neytt í stórum stíl, truflun á eðlilegum efnaskiptum líkamans, truflun sem getur orðið banvæn. Flestir kannast við skyrbjúginn, beinkrömina og svo má telja fleiri kvilla.
Eitt er líka athugavert við korntegundir þær sem fluttar eru inn í landið til manneldis. Vjer vitum ekkert um hve gamlar þær eru; þær geta hafa legið árum saman í vörugeymsluhúsum utanlands. Ef svo er, þá eru þær lítt hæfar til manneldis, því að við geymsluna skemmast þær, bætiefni þeirra dofna og hverfa alveg við langa geymslu, sjerstaklega hverfa þau fljótt ef þessar korntegundir eru notaðar eins og áður hefur verið getið um.

Af þessu verður skiljanlegt, að stendur ekki á sama hvað látið er í magann. Fæðan verður að hafa í sjer öll þau efni sem nauðsynleg eru líkam-anum honum til uppbyggingar, til þess að ráða bót á daglegu striti. Annars sveltur líkaminn og sálin með, þó maginn sje mettur af mat sem ekki kemur að haldi fyrir þarfirnar. Íslendingar eru illa settir að því leyti, hve fátt vex hjer annað en grasið. Káltegundir vaxa að vísu nokkrar hjer, en alltof lítil stund er lögð á að rækta þær. Jarðepli hafa nú lengi verið ræktuð hjer á landi, en það vantar mikið á að innlend jarðepli fullnægi þörfum landsmanna enda bregst uppskera á jarðeplum mörg sumur, sjerstaklega á Norðurlandi.
Víða sá jeg í Ameríku stóra vermireiti, stór hús með glerþaki, þar sem ræktaðir eru ýmsir jarðávextir, sjerstaklega þeir, sem borðaðir eru hráir, en það er orðið altítt að borða sumar káltegundir ósoðnar einmitt til þess að fá bætiefnin ekki eyðilögð við suðuna. Fyrir börn sem eru blóðlítil, er sjerlega hollt að borða hráar ýmsar káltegundir, til tyggingar af spínati o.fl. Þær eru hollar vegna þess að þær hafa í sjer svo mikið af járni, sem kemur líkamanum best að haldi sjeu þær ósoðnar. En við suðu er svo hætt við því, að bæti-efnin bíði skaða og þar með þessi umgetnu járnsambönd.

Hjer á landi eru svo afar víða heitar laugar og hverir. Vissulega mætti rækta hjer margskonar kálmeti, ef byggð væru hús með glerþaki yfir og notaður svo jarðhitinn til upphitunar. Jeg er viss um að slík fyrirtæki gætu orðið jafn arðvænleg þeim sem byrjuðu á þeim eins og þau yrðu nauðsynleg fyrir heilsu og þrif landsmanna. Flestar káltegundir eru ennþá fjölskrúðugri og ríkari af bætiefnum, járni og kalki en korntegundir og miklu ljettmeltanlegri.
Vermihús eru nauðsynleg til þess að rækta í þeim káltegundir, sem borða ætti hráar til þess að koma í veg fyrir að þær óhreinkist af ryki eða sóttnæmi, sem gæti fokið í þær ræktaðar undir beru lofti. Notkun káltegunda er nauðsynleg til þess að vega upp á móti fæðutegundum þeim sem í meðferðinni eru sneyddar öllum bætiefnum, en það eru flestar fæðutegundir nú á tímum að einhverju leyti. Má nefna sem slíkar hveiti, sykur, hrísgrjón, sagogrjón o.fl.

Hjer er ekki tími til að telja upp allar fæðutegundir, heldur aðeins þær helstu, og skal jeg þá næst minnast á nýlenduvörur og byrja á sykrinum. Jeg veit ekki hve langt er síðan byrjað var á því að flytja inn sykur, en fram til 1870 hygg jeg að lítið hafi verið flutt inn árlega. En síðan hefur innflutningur sykurs vaxið hröðum skrefum, svo að árið 1919 var flutt inn sykur, súkkulaði og brjóstsykur svo nam yfir 70 pund á hvert mannsbarn. Verð þess var næstum 4 milljón króna. Til samanburðar má geta þess, að Bandaríkjamenn í Ameríku neyttu um 1870 ca. 7 punda á mann en nú um 90 punda á mann og hefur sykurnautn þar aukist um 1% á ári hverju síðan um 1900.
Jeg gæti ímyndað mjer að líkt þessu væri það hjer síðustu 20 árin og á sama tíma hefur mannfall af völdum sykursýki tvöfaldast. Til eru margar tegundir af sykri, en sú tegund sem hjer kemur til greina er eingöngu reyrsykur. Hann er aðallega unninn úr sykurreyr og sykurrófum. Sykri hefur verið talið það til ágætis, fyrst og fremst, að hann hefði mikið næringargildi og í öðru lagi, væri einhver hin hollasta og ljettmeltanlegasta fæðutegund og þessvegna alveg ómissandi fyrir börn og eins fyrir þurrabúðarfólk, sem litla mjólk hefur.
Á síðustu árum eru farnar að heyrast raddir um það, að sykur sje ef til vill ekki svo hollur og ómissandi eins og áður var talið. Ýmsar tilraunir hafa verið gjörðar til þess að rannsaka ljettmeltanleika og hollustu sykurs. Hundum var gefin upplausn af sykri innan við 6% og hafði þessi upplausn þau áhrif á hundana að slímhúð magans soðnaði til muna. 10% af sykurupplausn hafði þau áhrif á slímhúð í maga hundanna, að hún varð dökkrauð og fylgdi því mikil erting í slímhúðinni. Af 20% upplausn urðu hundarnir veikir. Dr. Kellogg í Battle Creek segir að í mörgum tilfellum af allskonar magaveiki sje það auðsjeð og sannanlegt, að of mikil sykurnautn sje aðalorsökin, stundum vegna ofnautnar á brjóstsykri, í öðrum tilfellum sykurnautn með kaffi eða útlát á haframjölsgraut. Ennfremur hefur fundist að sykur tefur fyrir meltingunni, að hann minnkar hreyfingu magans og þarmanna að miklum mun, er tormeltanlegur etc. Það sem sykrinum er fundið til foráttu er það sem hjer segir:

1. Sykurinn ertir magann of mikið, jafnvel þó lítils sje neytt af honum, og getur framleitt sár í maganum ef mikils er neytt eða í óhófi.
2. Sykur er tormeltanlegur. Hann meltist alls ekki í munni eða maga. Eitt af magahólfum jórturdýranna hefur magavökva sem meltir reyrsykur. Í innýflum mannsins meltist hann ekki fyrr en niðri í þörmum, og til þess að meltast þar þarf hann að klofna í aðrar sykurtegundir, sem eru kallaðar Dex-trase og Levalase. Melting sykurs byrjar ekki fyrr en 3-4 tímum eftir að hans er neytt.
3. Sykur eykur saltsýruna í maganum að miklum mun. Sýra þessi stafar ekki af auknum meltingarkrafti, heldur af þrota í slímhúð magans.
4. Sykur takmarkar hreyfingu magans og þarmanna og veldur því að maginn tæmist seinna en annars, samfara því að hann ertir slímhúð magans. Hann veldur því tregum hægðum, bæði vegna þess að hann takmarkar hreyf-ingu innýflanna, og líka vegna þess að hann meltist upp, þó seint sje, en við það hafa þarmarnir of lítið innihald að velta áfram. Tregar hægðir eru mjög skaðlegar heilsu manna. Sumir læknar, t.d. Dr. Kellogg, halda því fram að manninum sje eðlilegt að hafa jafnoft hægðir á dag og hann tekur inn marg-ar máltíðir á dag.
5. Sykur er óheppileg fæða vegna þess, að hann vantar kalk, járn og önnur beinmyndandi efni, hann hefur engin bætiefni í sjer. Bein þeirra manna, sem neyta sykurs í óhófi, verða lin, vöðvar þeirra verða ekki eins stæltir, og þeir óstyrkari en ella. Þeir verða ekki eins þolgóðir til vinnu eða hverrar áreynslu sem er. Sherman prófessor við Columbia háskólann heldur því fram að of mikil sykurnautn sje aðalorsökin til kalkskorts, sem hann telur að helmingur allra Bandaríkjamanna líði af.
6. Margir læknar telja hina miklu sykurnautn orsökina til sykursýki, og færa það til að sykursýkin hefur vaxið hlutfallslega við sykurnautina.

Fleira er sykrinum fundið foráttu, sem ekki er tími til að telja hjer upp, en það sem þegar hefur verið talið er nægilegt til þess að vekja menn til umhugsunar um að hjer sjeum vjer á rangri leið. Það munu margir hafa veitt því eftirtekt, að ef þeir neyta meiri sykurs eða sætinda í eitt skifti en annað, þá missa þeir matarlyst, ennfremur að kaupstaðarbörn sem borða mikið af brjóstsykri og öðrum sætindum eru föl, veikluleg og blóðlítil. Foreldrar þeirra kvarta jafnan um að þau sjeu ónýt að borða. Blóðleysi á börnum stafar vitanlega oftast af því, að börnin fá ekki nægilega mikið af blóðmyndandi efnum í fæðunni. Þar eru nýmjólk og hrátt grænmeti bestu lyfin, betri en járnmixtúra og járnpillur, því í jurtunum er blóðefnið tilreitt frá náttúrunnar hendi í því formi sem líkaminn getur notað til uppbyggingar.
Blóð er líf. Sá sem er blóðlítill er ekki með fullu lífi, og hann nýtur ekki lífsins til fulls. Sumir sem hafa fengið sykursýki nota saccharin í sykurs stað, í kaffi og mat. Slíkt er mesta heimska. Það er að fara úr öskunni beint í eldinn. Saccharin er sterkt hjartaeitur. Það er unnið úr koltjöru, er sætt á bragðið, talið 280 sinnum sætara en reyrsykur. Professor Heitler hefur fundið með rannsóknum að saccharin hafi stórveiklandi áhrif á hjartað og því meir, sem notkunin er meiri og langvarandi. Notkun á saccharin er því hættulegri sem það er freisting til þess að spara fje með notkun þess, þar sem sykur er dýr.

Ótrúlegt er að sykurfýsnin sje orðin svo sterk hjá fólki að það fái ekki við hana ráðið. Eða ef svo er, þá er það líkt og um tóbaks- og vínlöngun, sem þó margir hafa getað vanið sig af. Eins og getið var um áður, þá eru fleiri sykurtegundir, t.d. maltsykur, hann er talinn miklu hollari en reyrsykur. Ávaxtasykur eins og hann kemur fyrir í nýjum ávöxtum er heilnæmur, ljettmeltanlegur og ertir ekki slímhúð magans og þarmanna. Sjerstaklega eru döðlur heldur heilnæmar. Í þeim er sykurinn í sambandi við eggjahvítuefnin sem eru nauðsynleg fyrir vöxt líkamans, járn sem er nauðsynlegt fyrir blóðið, og kalk sem er nauðsynlegt fyrir vöxt beinanna, og bætiefni sem eru nauðsynleg fyrir vöxt og þroska barna og unglinga. Öll þessi efni vantar algjörlega í reyrsykur (það sem við köllum sykur í daglegu máli). Samkvæmt þessu hlýtur sá maður sem neytir mikils sykurs, að líða af skorti á kalki, járni og bætiefnum. Afleiðing af því hlýtur líka að verða sú að hann verður blóðlítill, vöðvarnir verða óstyrkari en ella og ekki eins stæltir, beinin verða linari og hætt við að tennur molist og eyðileggist. Af hverju öðru skyldi svo sem hin sívaxandi hryggskekkja, hrygglos og fleiri líkir kvillar, að ógleymdri tann-veikinni, sem eru orðnir svo tíðir á börnum og unglingum, stafa?

Vjer Íslendingar ættum að takmarka sykurnotkun vora að miklum mun, helst að leggja sykurnautn alveg niður. Þeir sem mjólk hafa til matar hafa hans litla þörf en þola hann betur, en sykurnautnin bætir ekkert úr fyrir hinum, gjörir aðeins illt verra, eykur aðeins kalk- og járnskortinn í líkamanum. Truflun meltingarinnar getur orsakað magasár, undirbýr sennilega jarðveginn fyrir krabbamein, kemur af stað sykursýki og fleira mætti telja. Allt öðru máli er að gegna um nýja ávexti. Þeir eru_frelsis vínber seydd við sólar kynngi, mögnuð af bætiefnum, sem eru lífsins elixír fyrir líkama og sál.
Það mátti segja um hinn kúnstuga reyrsykur, að hann sje krækiber af þrældóms lúsalyngi. Íslendingar eru sorglega illa settir að því leyti hve fátt vex hjer annað en grasið. Það þyrfti að vaxa í okkur sjálfum næringarefni, en því fer fjarri að vjer Íslendingar sjeum nægjusamir fyrir magans hönd, þar erum vjer ein-mitt helst til kröfuharðir, en of nægjusamir með annað. Vjer erum t.d. of nægjusamir með ljeleg húsakynni. Vjer sjáum sjaldan eftir eyddum eyri ef sú eyðsla fer í magann, en hins er sjaldan spurt hvort maganum verði gott af því sem honum er veitt. Hjer vaxa líka krækiber og bláber; börn og unglingar eru ólm í berin. Öll ber hafa meira og minna af bætiefnum í sjer þegar þau eru þroskuð, og því holl.
Mjer hefur líka oft komið það til hugar, þegar jeg sje hve ólm börn eru í hráar gulrófur, að það sje eðlisávísun eftir bætiefnum hjá börnunum, því bætiefnin eru viðhald lífsins af því þau halda efnaskiftum líkamans, hinni innri meltingu, í jafnvægi.

Kaffi- og teneysla hefur stórvaxið hina síðustu áratugi. Hve langt er síðan byrjað var að flytja kaffi til landsins get jeg ekki sagt, en nú er svo komið, að líklega er hvergi drukkið meira af kaffi en á Íslandi, þegar miðað er við mannfjölda. Árið 1919 var flutt inn kaffi, te og kaffibætir fyrir meira en hálfa þriðju milljón króna, og þegar sykur og súkkulaði er tekið með, verður eyðslan á þessum tegundum á öllu landinu nær 7 milljónum kr. á árinu.
Svo mikið óhóf getur líklega engin önnur þjóð en Íslendingar leyft sér. Kaffi og te inniheldur hvort um sig eiturefni, sem að vísu eru væg eiturefni, en eiturefni engu að síður, sem veikla taugakerfið og hafa margvísleg áhrif á líkamann. Kaffið eykur blóðþrýstinginn að miklum mun og á þess reikning verður að nokkru leyti að skrifa hið mikla mannfall, sem or-sakast af sjúkdómum í hjarta og æðum, t.d. heilablóðfallið. Einkenni langvinnrar kaffieitrunar eru: lystarleysi, truflun á meltingu, hjartsláttur, höfuð-verkur. Kaffið eyðir þreytutilfinningu en það veitir enga endurnæringu eða hvíld.
Að þessu leyti svíkur kaffið og getur gjört skaða nema hófs sje gætt. Mikil kaffinautn veldur taugaveiklun, sjerstaklega á kvenfólki sem hefur miklar innisetur, og börnum. Börn eru sjerstaklega viðkvæm fyrir kaffieitri, og ætti aldrei að leyfa börnum innan við 12-14 ára aldur að drekka kaffi. Menn geta orðið kaffistar eins og alkohólistar eða morfínistar og cocainistar. Allt er þetta eitur sem menn geta vanið sig á, og geta ekki án verið, þegar þeir hafa vanið sig á það. Löngunin í kaffi getur orðið svo sterk, að mönnum líður illa ef þeir eru án þess, þeim leiðist, sækir á þá mók og magnleysi. Kaffið hressir mig meira en maturinn, segir margt roskið fólk, þó er engin næring í kaffi. Dr. Kellogg segir um kaffið meðal annars: „Reynsla mín hefur fengið mig til þess að forðast öll æsandi og svæfandi lyf, svo sem kaffi, te, tóbak og alkohól“.“

Það hlýtur að vera heilbrigð regla, að menn lifi svo náttúrlegu lífi sem unnt er, sjerstaklega þegar menn hafa mikla áreynslu eða lifa í köldu lofts-lagi. Sú hugmynd, að menn vinni við það, að erta bæði líkama og sál með æsandi lyfjum eða deyfandi, ber að mínu áliti vott um, ekki aðeins vanþekkingu á hinu einfaldasta líffræðilega lögmáli, heldur einnig skort á eftirtekt á því sem dagleg reynsla bendir á. Í kaffinu eru mörg önnur efni en kaffein, svo sem tannin eða garvesýra, ýms efni myndast í kaffinu við brennsluna sem líkjast eða eru skyld kolsýru.
Allir sem eru magaveikir verða þess varir að þeir hafa ekki gott af að drekka kaffi. Ef menn hafa magasár, er kaffið eitthvert hið versta eitur í magann, verkurinn í maganum versnar um allan helming ef kaffis er neytt undir þeim kringumstæðum. Margir lífeðlisfræðingar halda því fram að kaffi- og tenautn styðji að og ýti undir tóbaks- og vínnautn. Kaffið er óhófs vara, sem ætti að takmarka notkun á, og þar sem það er fremur skaðlegur drykkur en hitt, ætti að hækka tollinn á því hjer á landi.

Vínið hefur verið haft um hönd meðal mannkynsins líklega síðan á dögum Nóa. Flestar eða allar þjóðir hafa eitthvert áfengi. En á síðustu áratugum hafa menn komist upp á að búa það til miklu sterkara en áður og þess vegna er það miklu skaðlegra. Til er mesti fjöldi af víntegundum, en sameiginlegt fyrir allar tegundir af vínum er það að í þeim er meira eða minna af vínanda eða alkohóli.
Alkohól sýrist eða brennur í líkama mannsins, eins og á sjer stað með sterkju eða sykur, en fæða getur alkohól ekki talist, sökum þess að það er eitur. Mörg hin svo kölluðu æsandi lyf, eins og alkohól, eru í raun og veru ekki æsandi heldur svæfandi og deyfandi. Alkohól svæfir sellur líkamans, sjerstaklega heilann, og minnkar starfsþrótt þeirra og líkamans í heild sinni. Áður neyttu menn víns örsjaldan. Íslendingar í fornöld brugguðu öl aðeins við sjerstök tækifæri og gátu þá orðið góðglaðir af því, en sennilega hefur það ekki veiklað þjóðina. Nú er vínið orðið ekki aðeins okkar þjóðarböl, heldur allra þjóða. Jeg þekki ekkert eitur sem kemur meira böli til leiðar í heiminum en alkohól eða vínið. Jeg hefi getið þess áður að þeim mönnum sem væru bilaðir á geði, taugaveiklaðir eða vitskertir fjölgaði ár frá ári. Það er óhætt að fullyrða að nokkurn hluta og ekki svo alllítinn má skrifa á reikning vínnautnar. Það eru syndir forfeðranna, sem koma fram á börnunum í 3ja og 4ða lið. Grísir gjalda en gömul svín valda.

Það má segja svipað um tóbak og alkohól. Það er eitur. Það vissu menn fyrir löngu og þó hefur notkun þess vaxið hröðum skrefum. Tóbakið er sefandi líkt og alkohól og veldur nokkurskonar vellíðan hjá þeim, sem eru háðir því. Langvinn tóbaksnautn veldur skemmdum á sumum sellunum í heila manna, sem aftur orsakar sljóleik í hugsun, deyfir athygli og eftirtekt og gjörir menn mun sljórri en ella.
Mikil tóbaksnautn dregur úr vöðvastæl-ingu og krafta, tefur fyrir og hemur starf meltingarfæranna og orsakar þannig ýmsa meltingarkvilla og megurð. Tóbak eykur fyrst blóðþrýstinginn og gjör-ir æðaslögin hægari, síðar verða þau hraðari og hjá þeim sem lengi hafa not-að tóbak verður æðaslátturinn óreglulegur sökum skaðlegra áhrifa á hjartað, það safnast kalk í stærri slagæðar og hjartað. Sjerstaklega er tóbak skaðlegt fyrir börn og unglinga. Það er ekki óalgengt að sjá unglinga og jafnvel börn innan við fermingaraldur í borgum víðsvegar hálf eyðilögð af vindlingareykingum, föl, titrandi og sljó.
Ósiðirnir byrja í kaupstöðunum og færast óðfluga upp um sveitir landsins. Það er auðlærð ill danska. Vín og tóbak þyrfti að hverfa burt úr heiminum, helst ekki með nauðung, heldur á þann hátt að menn yrðu svo vitrir að snerta ekki þessi eitur. Til þess að kenna fólki þennan sannleik ætti einskis að láta ófreistað, það þyrfti að kenna börnum þetta strax þegar þau koma til vits og ára. Ef kvikmyndahús væru notuð til þessarar kennslu, gætu þau orðið eins þörf og þau vinna nú mikið óþarft með því að sýna oft og tíðum ýmislega glæpi og óknytti og hvernig þeir eru drýgðir og leiða þannig marga unglinga út á braut þeirra og mannkyninu illa og óþarfa. En þetta er ekki kvikmyndahúsunum að kenna, heldur því hvernig þau eru notuð, þetta er spegill nútíðarmenningarinnar.

Jeg hefi nú fengist við læknisstarf í 22 ár og alla jafna átt þess kost að sjá marga sjúklinga. Sömuleiðis í ferðum mínum erlendis kynnst heilsufari manna þar. Mjer dylst ekki að meltingarkvillar aukast næstum að segja með hverju ári. Flestir læknar erlendis hafa sömu söguna að segja. Það hefur tekist að stemma stigu fyrir bráðum afsýkjandi kvillum, þeim sem áður gengu eins og logi yfir akur, svo sem barnaveiki, bólusótt, svartadauða etc., en langvinnu kvillarnir, sjerstaklega meltingarkvillar af ýmsu tagi og aðrir sjúk-dómar þeim skyldir, vaxa jafnt og þjett. Þessir kvillar voru svo að segja ekki til áður.
Eftir 50-100 ár hefur næstum hver maður magasár, botnlangabólgu og líka kvilla með sama áframhaldi, ef krabbameinin hafa þá ekki ráðið nið-urlögum þeirra á barnsaldri. Margt bendir til þess að mannkynið, sjerstaklega hinn hvíti kynflokkur, sje á hraðri leið til úrkynjunar og tortímingar. Það er á leið sem Dr. Helgi [Pjeturss] kallar vítisstefnuna og það með rjettu. Ef bót á að ráðast á þessu verður mannkynið að söðla um og breyta lifnaðarháttum sínum.

Við Íslendingar verðum að kappkosta að rækta hjer margt sem áður hefur ekki verið reynt að rækta og nota til þess jarðhitann þar sem hans er kostur. Vjer verðum að hætta við að kaupa þá vöru sem svo er skaðleg, en til þess tel jeg kaffi, sykur, hveiti og hrísgrjón í þeirri mynd sem þau flytjast inn nú, og margt fleira, að ógleymdu víni og tóbaki. Reynsla okkar og vísindin eru að þessar vörur eru allt annað en heilnæmar. Ef litið er á hina efnalegu hlið þessa máls, verður útkoman hin sama. Vjer megum tæplega við því að kaupa og flytja inn fyrir margar milljónir króna árlega þá vöru sem vjer getum án verið og skaðar þar að auki heilsuna. Þegar litið er yfir kaupstaðarúttekt sumra bænda má sjá, að nær því þriðjungur ársúttektarinnar er þessi lúxusvara, eða kaffi, sykur og hveiti. Það eru ekki svo fáir dilkar sem þeir verða að snara út úr búi sínu fyrir þess-ar vörur. Bændur þurfa fyrst og fremst að leggja miklu meiri áherslu á mjólkurframleiðsluna, rækta sem mest af kálmeti og kaupa sem minnst af útlendri kornvöru.
Við verðum líka að læra að meta meira smjörið en smjörlík-ið, vegna þess sem áður er sagt um það. Það ber brýna nauðsyn til þess að gera kaupstaðarbúum sem auðveldast fyrir með að afla sjer sem mest af ódýrri mjólk, til þess að börn í kaupstöðum fái sem best uppeldi. Þjóðfélaginu er ekki að borgnara, þó að lagður sje steinn í götu þessara manna með því að gera þurrabúðarmönnum erfitt fyrir með að afla sjer heyja, eins og þingið gerði með breytingu á sveitarstjórnarlögunum 1919.
Mönnum verður að lærast að skilja það, að gengismunurinn, þ.e. munurinn á okkar íslensku krónu og útlendum peningum, stafar ekki af öðru en því, að íslenska þjóðin kaupir of mikið af útlendri vöru í samanburði við það, sem hún selur eða flytur út, þ.e. hún eyðir meiru en hún aflar. Það verður ekki minna heimtað af þeim mönnum, sem vilja gerast leiðtogar þjóðarinnar, en að þeir segi satt til um það, af hverju gengismunurinn stafar. Meðan svo er ekki, er engin von til þess, að ólaginu ljetti af. Ef hver einstaklingur þjóð-arinnar skilur þetta og lifir samkvæmt því eftir megni, þá er landinu uppreisnar von,  en fyrr ekki. Jeg þykist vita, að margir bændur munu svara því til, að ef þeir minnki kaffigjöf við fólkið, geti þeir ekki lengur fengið fólk til vinnu.
En er það rjett, að það fólk, sem aðeins hugsar um að fá munaðarvöru í magann, hversu skaðleg sem hún er og spillir heilsu þeirra,  ráði yfir efnahag þjóðarinnar? Því vissulega standa þeir menn ekki á háu menningarstigi, sem hirða lítið um heilsu sína eða afleiðingar af kröfum sínum. Bændur stæðu sig líka betur við að gjalda verkafólki sínu hærra kaup, ef þeir slepptu þessum kostnaði og hættu að fleygja peningum út úr landinu fyrir ónauðsynlega vöru og lítt heilnæma.

Í sambandi við það, sem jeg hefi hjer sagt, má minnast á klæðnað manna nokkru nánar en gjört var áður. Árið 1919 voru flutt inn í landið föt og fataefni fyrir meira en 9 millj. króna. Sama ár eru flutt út nær 3 millj. pd. af ull. Í stað þess að vinna úr ullinni skjólgóð og haldgóð föt, kaupum við skjóllítinn og ljelegan útlendan fatnað. Þetta er jafn-fráleitt bæði fyrir heils-una og efnahaginn,  bæði einstaklinganna og þjóðarinnar í heild sinni. Fólkið gengur iðjulaust mikinn tíma ársins og kaupir þá vinnu, sem það gæti innt sjálft af höndum. Er þetta menningin, sem vjer þykjumst af? Þetta má ekki svo til ganga, ef Ísland á að rjetta við efnalega. Íslendingar verða að læra að vera sjálfum sjer nógir að sem flestu leyti, en til þess að það geti orðið, þurfa allir, ungir sem gamlir, að meta vinnuna meira en nú er algengt. Allir, eða flestir, vilja eiga sem besta daga og vinna sem minnst. Hugsunarháttur manna þarf að breytast að þessu leyti. Fólk þarf að læra að elska vinnuna og meta hana að verðugleikum.

Eitt af því, sem skaðar heilsu Íslendinga og setur blett á þá í augum útlendinga sem menningarþjóð, er ljeleg húsakynni. Húsakynni alþýðu eru allvíða þannig, að þau geta tæplega talist viðunanlegir mannabústaðir. Þau eru víða köld, loftill og rök, og þessvegna gróðrarstía berklaveikinnar. Ill húsakynni stafa oftast af fátækt og fákunnáttu, en stundum líka af of mikilli nægjusemi. Menn gera ekki nógu háar kröfur til þess, að húsakynni sjeu vistleg og viðunandi.
Vissulega gætu húsakynni hjer á landi verið betri en þau eru. Til þess að ráða bót á þessu böli væri samvinna heppilegasta ráðið. Þing og stjórn hefir líka síður en svo látið þetta mál nægilega til sín taka. En um þetta mál er ekki tími til að fjölyrða hjer.

Skólafarganið hjá okkur Íslendingum eins og öðrum þjóðum á líka harðan áfellisdóm skilið. Löng skólaseta ungra og óþroskaðra barna yfir bókum er einn af svörtu blettum menningarinnar. En þetta er tíska. Ekkert er kallað menntun nema það, sem lesið er af bókum. Tískan er versti og argasti harðstjóri, sem til er í heiminum; fyrir henni beygja allir auðmjúkir knje. Hana getur ekkert hrakið úr hásæti nema sönn menntun, og hún má sín, því miður, lítils í heiminum.
Þess munu finnast mörg dæmi  einkum í kaupstöðum og bæjum,  að skólasetan geri börn að andlegum og líkamlegum krypplingum. Börn, sem eru blóðlítil og vantar merg í beinin vegna skorts á mjólk og annarri heilnæmri fæðu, verða að sitja marga tíma á dag í skólanum. Þreytan af að sitja gerir það að verkum, að þau fara að sitja skökk. Hryggurinn venst í þessar skorður, einkum þegar að vöðvarnir eru ekki nægilega styrkir eða stæltir til þess að halda líkamanum í eðlilegu jafnvægi, og þau fá hryggskekkju. Langvinnt hreyfingarleysi kemur því til leiðar, að brjóstkassinn þenst ekki nægilega út. Eðlilega brjóstþenslu getur erfiði og áreynsla í hreinu útilofti ein skapað. Við hreyfingarleysið safnast of mikið blóð fyrir í innýflunum og kemst þar í hálfgerða kyrrstöðu. Það orsakar tregar hægðir, sem aftur valda eiturframleiðslu í þörmunum, sem hefur skaðleg áhrif á öll líffæri og ekki aðeins á líkamann heldur og lamandi áhrif á sálargáfu barnanna, gerir þau sljó, kemur til leiðar holdauka í nefkoki, sem veld-ur heyrnardeyfu og þarafleiðandi sljóleika.
Það er almennt álit skólalækna erlendis, að langvinn skólaseta barna og unglinga eigi drjúgan þátt í úrkynjun, taugaveiklun og ýmiskonar geðbilun, sem svo algeng er orðin á síðustu áratugum. Jeg skal ekki fullyrða, að þetta sje svo algengt orðið hjer á landi sem annarstaðar, þar sem skólatíminn er 10-11 mánuði ársins. En við erum óðum að nálgast þetta, eins og við hermum eftir öðrum þjóðum alla ósiði og allar veiklunarstefnur menningarinnar. 7. júní síðastliðinn var jeg einn dag á British Museum í London, og var að skoða safnið frá Assýríu. Þangað kom barnakennari með eitthvað 15 drengi á aldrinum frá 11-14 ára. Mjer var sagt að allir þessir drengir væru synir aðalsmanna og annarra höfðingja í borginni. Þeir voru fölir og veiklulegir, tápminni og veiklulegri en maður sjer drengi hjer almennt á líkum aldri. En þessir drengir eiga að verða stjórnendur í hinu enska heimsveldi og þurfa því á unga aldri að læra feiknin öll. En þola líkamir þeirra þessa meðferð, og veiklast ekki sálin líka þegar líkamanum er þannig misboðið? Það er ein kórvillan að halda að ekkert sje menntun eða lærdómur annað en það, sem lært er af bókum eða í skólum.
Eins og það sje ekki líka menntun fyrir drengi og stúlkur upp til sveita að smala fje, leita að gripum í þoku, rata í þoku og misjöfnu veðri þar sem þeir verða að einbeita eftirtekt og gætni til þess að fara rjetta leið, vinna ýmisleg störf, oft vandasöm, sem þeim eru falin. Vissulega er þetta haldbetri menntun fyrir lífið, og hún þroskar í stað þess að langvinn seta yfir bókum veiklar líkamann.

Vinna, líkamleg vinna og erfiði er takmark lífsins, og þegar því er hætt, er mannkynið á leið til glötunar. Í sveita þíns andlits skaltu þíns brauðs neyta. Allir vilja ganga í skóla, ekki allir svo mjög til þess að nema fróðleik, heldur til þess að vera skólagenginn og þurfa síður að stunda líkamlegt erfiði. Þetta er ein úr-kynjunarstefnan nútímans. Skólarnir eiga nú orðið ekki svo lítinn þátt í uppeldi barna og unglinga, og ef bæta á uppeldi barna verða skólarnir að fylgjast að í því verki.
Uppeldið þarf að breytast í því, að vekja og glæða hjá börnum og unglingum virðingu fyrir starfi, fyrir líkamlegri vinnu, sjerstaklega fyrir vinnu úti undir beru lofti, því sú vinna er heilnæmust. Það þarf að minnka bóklega kennslu, sem er að verða plága bæði fyrir börn og foreldra. Alltaf næstum árlega er skift um kennslubækur og aðrar nýjar teknar í staðinn, og bækur eru dýrar; mörgum foreldrum er íþyngt um of með kaupum á skólabókum, og sennilega gætu margar skólabækur verið ódýrari en þær eru.
Jeg hefi heyrt marga foreldra kvarta undan því, hve mikið fje þeir þyrftu fyrir skólabækur. Ekki er ólíklegt að þetta mætti laga ef alvarleg tilraun væri til þess gjörð, og það ætti að vera kennurum ljúft. Enginn neitar því að bókleg menntun sje öllum nauðsynleg, en þá er of langt gengið, ef hún veiklar börn og unglinga. Hitt er og ekki síður nauðsynlegt, að haft sje eftirlit með því, hvað börn og unglingar lesa. Það er svipað með lestur bóka og matinn. Það er lítið hirt um hvað börn og unglingar lesa, hversu holl andleg fæða það er. Sauðskepnan veit vel hvaða grös henni eru hollust, en mannskepnan veit ekki hvaða andleg fæða henni er heilnæmust, skrifaði Þórhallur biskup eitt sinn í Kirkjublaðið, og þetta er alveg satt. Ljelegar bækur spilla smekk unga fólksins bæði fyrir vali bóka og máli. Engar bækur seljast eins vel og ljelega þýtt rómanarusl, þetta sýnir allvel hinn spillta aldaranda. Það er fátt sem bendir til þess, að mannkyninu sje að fara fram að gáfum eftir því sem bókleg þekking og bóklestur vex. Miklu fremur hið gagnstæða. Aftur á móti vex stöðugt með hverjum áratug tala þeirra manna, sem hafa einhverja andlega kvilla eða bilanir eða algjörða geðveilu, eins og jeg hefi áður sagt.

Á blómaárum Grikkja voru uppi, hjá svo fámennri þjóð, fleiri gáfu- og yfirburðamenn og hreystimenn en í nokkru öðru stóru þjóðfélagi síðar. Margir gáfuðustu og víðsýnustu menn heimsins nú á tímum halda því fram í fullri alvöru, að eina leiðin til viðreisnar mannkynsins, til þess að forða því frá því að verða andlegir og líkamlegir veslingar, og verða síðan aldauða, sjeu kynbætur á mannfólkinu.
Þeir halda því fram, að eins og reynslan hafi sýnt, þá hafi verið gjörðar stórfelldar kynbætur á jurtum og húsdýrum. Má því til sönnunar benda á, að fyrir 20 árum fjekkst um 600 pund af smjöri úr bestu kúnni á ári, en nú hafa kýr batnað með kynbótum svo að bestu kýrnar gefa af sjer um 1000 pund af smjöri um árið.
Hinn frægi ameríkanski kynbótafræðingur á svæði jurtaríkisins, Bushank, telur enga torveldi leika á því, það tæki aðeins lengri tíma en með jurtir eða dýr. Allir vita að margir geðveikissjúkdómar ganga í ættir, að eiginleikar forfeðranna koma fram á börnunum. Stelsýki (kleptomani) og margir slíkir leiðir kvillar ganga í ættir, gáfur og listfengi sömuleiðis.
Allir foreldrar vilja að börn sín verði sem best og fullkomnust, fegurst og sem best gefin á alla lund. Þessvegna þarf það að verða einn liðurinn, eitt fagið í allri skólakennslu, að ungir menn og konur velji sjer maka, ekki eftir eign eða aurafjölda eins og oft tíðkast, heldur eftir því, hve hraustir þeir eru, hversu gáfaðir og af góðu kyni, hve fáir andlegir annmarkar eru í ættinni. Þannig ætti að alast upp andlega og líkamlega hraust fólk, reglulegur aðall að andlegum og líkamlegum yfirburðum.

Úrkynjuðu og veikluðu veslingarnir eiga ekki að auka kyn sitt. Ísland er líklega fámennasta og fátækasta ríkið í heiminum. Landið er strjálbyggt og ófrjótt og íbúar þess eiga við marga og mikla erfiðleika að stríða, en það eru einmitt erfiðleikarnir sem skapa hrausta menn. Íslendingar eru af góðu bergi brotnir yfirleitt, og hafa til þessa þótt sæmilega gefnir. Eigum við að stuðla að því með heimskulegum lifnaðarháttum að hin falska heimsmenning gjöri Íslendinga að andlegum og líkamlegum veslingum? Jeg veit að allir svara þessu neitandi, en þá er að sýna það í verkinu.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi