Fólk fær bata það er staðreynd

Grein þessi er tekin upp úr Alþýðublaðinu með góðfúslegu leyfi höf.

I.

Ég fæ ekki betur séð, en að Heilsuhæli Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði sé ekki frábrugðið öðrum sjúkrahúsum að öðru leyti en því, að allir sjúklingar hafa fótavist, og að sérstakar reglur eru um það, hvers maður neytir við máltíðir.

Ég hef dvalið á hælinu undanfarið og segi þetta vegna þess, að ég hafði ekki hugmynd um, hvernig það væri í raun og veru rekið. Hins vegar hafði ég heyrt ýmsar sögur um það, og ekki allar góðar. Þær snerust allar um fæðið ˆ og töldu flestir það ekki gott, heldur leiðigjarnt og menn alltaf svangir. Ég skal játa, að ég er ekki mikill matmaður, yfirleitt hefur mér það alltaf fundizt tímaeyðsla að borða, enda lokið því á eins skömmum tíma og ég hef getað. Mér hefur þó alltaf fundizt sá matur beztur, sem ég ólst upp við, og ekki verið gefinn fyrir tilbreytingar. Nú hef ég þó lent í því, og ekkert smakkað af því, sem helzt tíðkaðist á borðum, meðan ég var ungur, og mestmegnis fengið það, sem ég bragðaði aldrei. Og svo furðulega hefur þetta reynzt, að mér þykir maturinn ágætur, og ég er aldrei svangur. Ég sakna einskis, og ég sé ekki betur en ég myndi vel geta lifað á þessu í framtíðinni.

Ég minnist þess, að fyrir fjöldamörgum árum hringdi Jónas Kristjánsson læknir til mín. Hann var þá nýkominn frá útlöndum. Ég þekkti hann ekki, en ég hafði viðtal við hann. Hann túlkaði hinar nýju kenningar sínar um mataræði, og ég skrifaði eitthvað um það. Ég hafði sjálfur engar skoðanir á málinu. Þá stóð læknirinn einn með kenningar sínar um einfaldari lifnaðarhætti, jurtafæði og bannsöng sinn um kjötmeti og krydd. Síðan sá ég deilt um þessar kenningar. Læknirinn var hugsjónamaður og baráttumaður, og brátt efndi hann til samtaka og síðan framkvæmda. Hann og ágætir félagar hans, þar á meðal Björn L. Jónsson, læknir, stofnuðu matstofu við Skálholtsstíg og verzlun að Týsgötu. Síðan var hafizt handa um stofnun heilsuhælis í Hveragerði, sem grundvallaði stefnu sína og starf á kenningum náttúrulækninganna, en þær miðast allar við heilbrigðari lifnaðarhætti, að fyrirbyggja sjúkdóma, eins og forstöðumaður hælisins, Árni Ásbjarnarson, sagði við mig í gær.

Ég hafði aldrei komið í þetta hæli, aðeins séð það rísa af grunni og vaxa ár frá ári, en ekki haft sagnir af því frá þeim, sem dvalið höfðu hér um sinn, en nokkrar frá fólki, sem af einhverjum ástæðum hafði ekki getað fellt sig við reglurnar ˆ og farið eftir skamma dvöl, eða þá aðeins neytt einnar máltíðar eða svo. Vitanlega er slíkt fólk ekki dómbært um árangur af dvöl eða kynningu, því að sumt fólk er svo bilað á taugum, að það getur ekki fellt sig við neinar reglur.

Ég segi þetta eingöngu vegna þess, að mig grunar, að almenningur viti í raun og veru lítið um það, hvernig hér er að vera og hvað hér fer fram.

II.

Náttúrulækningafélag Íslands er sambandsfélag og deildir þess á stærstu stöðum á landinu og jafnvel víðar. Það rekur heilsuhælið, matvöruverzlun og brauðgerðarhús í Reykjavík. Heilsuhælið er viðurkennt sem sjúkrahús, og greiða sjúkrasamlögin daggjöld fyrir gigtarsjúklinga eftir ákveðnum reglum. Karl Jónsson er trúnaðarlæknir sjúkratrygginganna, og innskrifar hann sjúklinga, ennfremur læknar í Landspítalanum. Hér eru vatnsböð, leirböð, útisundlaug, ljósböð, nudd og sjúkraleikfimi. Nú starfar við hælið Högni Björnsson, fyrrverandi læknir í Danmörku, sem flutti heim í haust eftir tuttugu og fjögurra ára dvöl ytra. Hann hefur eftirlit með sjúklingum, og sjúklingar geta leitað til hans, en Karl Jónsson, sem er sérfræðingur í gigtarsjúkdómum, kemur einu sinni í viku og ræðir við sjúklinga. Sjúklingarnir nota allir eina eða fleiri lækningaaðferðir, og flestir margar. Tvær stúlkur og einn karlmaður stunda nudd og sjúkraleikfimi, og virðist þetta fólk vera mjög hæft í sínum störfum.

Þetta snýr að beinum lækningum, en megináherzla er lögð á breytt mataræði frá því sem fólk á yfirleitt að venjast heima hjá sér. Aðeins grænmeti, ávextir, mjólkurvörur og brauð eru á borðum, en ekkert kjöt eða fiskur. Nákvæmar rannsóknir og útreikningar hafa farið fram á hitaeiningum fæðisins, og er því hagað samkvæmt þeim niðurstöðum. Fæðið er mjög vel búið til og í raun og veru undursamlegt, hvað hægt er að hafa það margbreytilegt með þeim efnum, sem í því eru. Ekki er það ódýrara fyrir seljandann en það fæði, sem almenningur á að venjast með kjöti og fiski, því að ávextir eru dýrir eins og kunnugt er, en mikið er af eplum, appelsínum, rúsínum, fíkjum, sveskjum og döðlum með því og í því ˆ og allir þekkja verðlagið á þessum ávöxtum. Þá er og vitað, að grænmeti er dýrt, en alls konar grænmeti er í fæðinu, og er það framleitt hér í gróðurhúsum. Ég get ekki vorkennt neinum að neyta þessa fæðis, það er gott, og ég get ekki fundið, að það sé leiðigjarnt. Það er heilbrigt fyrir fólk að hvílast, að minnsta kosti um stund, frá kjöti, fiski, kaffi og öðru því, sem mestan svip setur á matborð heimilanna.

Ég hef hvorki reynslu né þekkingu á því, hvort slíkt fæði og hér er, geti fyrirbyggt eða læknað sjúkdóma. Náttúrulæknar fullyrða það, og fjöldi greina í riti félagsins fjalla um slík efni. Ég sagði við þann manninn, sem næstur mér var einn daginn, Árna Ásbjarnarson forstjóra

Hver er ástæðan til þess, að þú gerðist náttúrulækningafélagsmaður?

„Hún var sú, svaraði hann, að ég hafði oft verið sjúklingur frá seytján ára aldri. Ég þjáðist af illkynjaðri gigt um allan kroppinn. Ég hafði leitað til margra lækna og ekki fengið neina bót. Ég hafði oft verið frá vinnu lengri og skemmri tíma. Mér þótti framtíðin ekki björt. En svo kynntist ég kenningum Jónasar Kristjánssonar og reyndi að afla mér allra þeirra rita, sem Náttúrulækningafélagið gaf út. Eftir að ég hafði gert það, breytti ég algerlega um mataræði og fylgdi nákvæmlega kenningunni um jurtafæði og hreinsun líkamans. Og ég fékk fulla bót. Ég byggi því fyrst og fremst á minni eigin reynslu, hún er og ólýgnust. Síðan þetta var, hef ég svo fengið staðfestingu af annarra reynslu.„

Böð, nudd, sjúkraleikfimi og sund bæta mörgum sjúkleika. ˆ Og þeir, sem af einhverjum ástæðum eru haldnir taugaslappleika, eða á ég að kalla það taugaspennu, fá mikla bót. Hér er því einnig hvíldar- og hressingarheimili. Ekki veit ég hvað það er, sem á mestan og áhrifaríkastan þátt í batanum, fæðið, böðin, nuddið, leikfimin, eða sjálf hvíldin, en fólk fær bata. Það er staðreynd, sem ekki er hægt að ganga framhjá.

III.

Ég hafði heyrt sagt, að reglurnar væru svo strangar, að varla væri hægt að sætta sig við þær. Ég sneri mér því strax að því að lesa þessar reglur, sem hanga hér á veggnum ˆ og satt bezt að segja bjóst ég við hinu versta. Hér eru reglurnar

1. Neyzla áfengis og tóbaksreykingar eru skilyrðislaust bannaðar hér.

2. Gestir eru góðfúslega beðnir að ganga hljóðlega um kl. 13 til 14 og eftir kl. 22.30, svo að þeir, sem þess óska, geti óhindrað notið næðis og hvíldar.

3. Húsinu lokað alla daga kl. 22.30, nema laugardaga kl. 23.30.

4. Máltíðir eru framreiddar á þessum tímum

Kl. 8.30 til 10 árbítur.

Kl. 12-13 hádegisverður.

Kl. 15.30 síðdegisdrykkur.

Kl. 19-19.30 kvöldverður.

5. Nauðsynlegt er að gestir tilkynni brottför sína með tveggja daga fyrirvara.

6. Gestir eru vinsamlega beðnir að greiða dvöl sína fyrirfram, nema sérstaklega sé um samið.

Þetta er allt og sumt. Ég get ekki vorkennt neinum að þurfa að hlíta þessum reglum í sjúkrahúsi. Ég dvaldi lengi í sjúkrahúsi í haust og þar var ekki leyft að reykja, og þar var slökkt ljós á slaginu. Það er þó ekki gert hér. Það getur verið, að flestir sakni þess að fá ekki kaffi. Það stendur ekki neitt um kaffi í reglunum.

Ég hef ekki skoðað öll herbergi hælisins, en þau, sem ég hef kynnzt, eru stór og björt. Nýjustu herbergin eru með innbyggðu salerni og steypibaði, tveimur rúmum, legubekk, tveimur stólum, náttborðum við hvort rúm, skrifborði og hátalara. Hvað vilja menn heimta meira? Gluggar eru miklir og hiti nægur, að minnsta kosti í mínu herbergi, en mér er sagt, að við og við komi það fyrir, að vatn renni dræmt og þá ekki aðeins hér, heldur yfirleitt í Hveragerði.

Tvær hjúkrunarkonur vinna hér og hafa eftirlit með sjúklingum, koma oft í heimsóknir og stjórna böðum. Ráðskonan virðist vera hinn mesti snillingur í eldhúsinu, eins og ég hef raunar sagt áður. Hér er yfirleitt allt eins og bezt verður á kosið. Hér er t.d. föndurstofa, þar sem vistmenn geta búið til ýmsa muni, og hér eru haldnar kvöldvökur.

IV.

Ég sagði í upphafi, að Jónas Kristjánsson læknir hafi verið hugsjónamaður. Hann hóf starf sitt með eftirfarandi ávarpsorðum

„Náttúrulækningastefnan boðar trúna á lífið, á heilbrigði, jafnvægi og lífsgleði, en afneitar trúnni á sjúkdóma. Þar sem friður ríkir, samræmi og heilbrigði, þar eru guðs vegir“

Í inngangsorðum í lögum Náttúrulækningafélags Íslands segir

Tilgangur sambandsins er:

a) að efla og útbreiða þekkingu á lögmálum heilbrigðs lífs og heilsusamlegum lifnaðarháttum.

b) að kenna mönnum að varast orsakir sjúkdóma og útrýma þeim.

c) að vinna að því, að þeir, sem veiklaðir eru orðnir eða sjúkir, geti átt kost á hjúkrun og lækningameðferð hér á landi með svipuðum aðferðum og tíðkast hjá náttúrulæknum erlendis.

d) að stuðla að stofnun náttúrulækningafélaga víðsvegar um landið.

e) að styrkja bandalagsfélögin í starfsemi þeirra og efla kynningu og samvinnu þeirra í milli„.

Þannig er grundvöllur þessara samtaka, og á þessum grunni byggist starfsemi heilsuhælisins í Hveragerði. Sögurnar um sérvizku og oftrú eru ekkert annað en vanþekking, en vanþekking leiðir menn oft til þess að amast við því og afflytja, sem þeir þekkja ekki.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi