Fyrir nokkrum dögum síðan voru birtar niðurstöður franskrar rannsóknar á erfðabreyttum matvælum sem vakið hafa sterk viðbrögð.
Við höfum rýnt í rannsóknina, gagnrýnina á hana og vörn rannsóknaraðila og tekið saman.
Niðurstöður Seralinis
Franski vísindamaðurinn Gilles-Eric Seralini hefur undanfarin tvö ár rannsakað áhrif af erfðabreyttum maís á rottur. Var rottunum gefinn maís að borða sem hefur verið breytt til þess að standast eitrið Roundup. Roundup er illgresiseyðir sem vel er þekktur hér á landi og víða notaður í görðum. Til samanburðar var hópur af rottum sem var gefinn lífrænn maís. Alls voru 200 rottur til rannsóknar og fylgst var með yfir 100 breytum.
Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að rotturnar sem höfðu nærst á erfðabreytta maísnum voru tvöfalt til þrefalt líklegri til þess að deyja á rannsóknartímanum, þjáðust af verulegum hormónatruflunum, kvendýrin þróuðu með sér umtalsverð æxli í brjóstum og upplifðu alvarlegar truflanir á heiladingli, og nýrum og voru lífslíkur þeirra umtalsvert skemmri en hinna.
Sjá má á myndunum hve afskræmdar rotturnar voru orðnar af æxlum sem uxu í þeim. Karldýrin dóu fyrst og fremst úr lifrarbilun. Séu niðurstöðurnar réttar eru þær mjög sláandi og ættu að kalla á tafarlaust bann á erfðabreyttum matvælum án undangenginna ítarlegra rannsókna. Erfðabreytt matvæli eru leyfð eftir að hafa gengið í gegnum 90 daga rannsókn. Á þeim tíma voru fæst einkennanna komin fram og eru þær rannsóknir því marklausar að mati Seralini.
Gagnrýnin á rannsóknina
Dr. Seralini hefur verið gagnrýndur fyrir vinnubrögð sín, meðal annars fyrir að hafa ekki haft nægilega margar rottur í rannsókninni, að tölfræðin sé illrekjanleg, og að hann sé yfirlýstur andstæðingur erfðabreyttra matvæla og því ekki hlutlaus.
Dr. Seralini hefur vísað þessari gagnrýni á bug og segir hana komna frá aðilum sem ekki hafi reynslu í rannsóknum á þessu sviði. Sá eini sem hafi reynslu á þessu sviðið sé hafi unnið fjölmargar rannsóknir fyrir Monsanto, fyrirtækið sem framleiðir bæði Roundup illgresiseyðinn og erfðabreytta maísinn.
Rannsóknin uppfyllir allar vísindalegar kröfur segir Seralini og fylgir stöðum OECD. Hún sé auk þess mun ítarlegri heldur en þær rannsóknir sem gerðar hafa verið hingað til. Til að fá leyfi matvælastofnunar Bandaríkjanna fyrir hinum erfðabreytti maís til manneldis stóð Monsanto fyrir rannsóknum á áhrifum hans. Þær rannsóknir náðu hins vegar aðeins til áhrifa fyrstu 90 daganna en á þeim tíma eru æxlismyndanir komnar mjög skammt á veg. Rannsókn Seralinis er fyrsta rannsóknin sem nær til lengri tíma en 90 daga og jafnframt fyrsta rannsóknin sem ekki er fjármögnuð af þeim fyrirtækjum sem framleiða erfðabreytt matvæli. Rannsóknirnar kostuðu 3 milljónir Evra og voru fjármagnaðar af sjóði sem sækir megnið af fé sínu til tveggja stórra verslanamiðstöðva, Carrefour og Auchan.
Náttúran.is hefur birt svör Seralinis í fullri lengd hér.
Hart barist gegn merkingu matvæla
Oddný Anna Björnsdóttir bendir á í pistli sínum á Mbl.is að Monsanto hefur lagt 7,1 milljón dollara, eða 870 milljónir íslenskra króna til þess að berjast gegn því að matvæli sem innihalda erfðabreytt matvæli verði merkt í Kalíforníu. Auk Monsanto hafa fyrirtækin DuPont, BASF, Bayer, DOW, Pepsi Co., Nestlé, Coca Cola, Conagra og Syngenta lagt 1-5 milljónir dollara í baráttuna. Þetta eru ekki einu fyrirtækin því að auk þeirra hafa t.d. Kellogs og General Mills lagt tugi milljóna króna í baráttuna. (sjá nánar hér)
Viðvörunarbjöllur óma
Ýmis hættumerki ættu að kalla á frekari rannsóknir á áhrifum erfðabreyttra matvæli á heilsu og líf fólks.
Árið 2010 var unnin rannsókn í Kanada sem leiddi í ljós að umtalsvert magn af skordýraeiturs próteininu Cry1Ab fannst í blóðrás ófrískra kvenna sem og í blóðflæði til ófæddra barna þeirra.
Þetta prótein sem er afrakstur genabreytinga er hannað til þess að steindrepa skordýr. Þar sem það er hluti af plöntunni sjálfri verður það óhjákvæmilega hluti af fæðu okkar. Talið er að genabreytt hráefni sé notað í um 80% af unnum matvörum í Bandaríkjunum. Það er augljós fylgni á milli aukningar á notkun á erfðabreyttu hráefni í matvæli og ýmsum alvarlegum kvillum. Sem dæmi hefur tíðni brjóstakrabbameins varið úr 640.000 tilfellum á ári árið 1980 í 1.600.000 tilfelli árið 2010 samkvæmt rannsókn sem háskólinn í Washington stóð fyrir. Þó sterk fylgni sé þarna á milli sannar það hins vegar ekkert um tengslin og það er það sem þarf að rannsaka.
Hvað ber að gera?
Af öllu þessu er nokkuð ljóst að verulegra rannsókna er þörf á áhrifum erfðabreyttra matvæli á lífríkið og heilsu fólks. Margar spurningar hafa vaknað upp en sú sem mest liggur á að svara er kannski sú hver eigi að njóta vafans, Monsanto og erfðabreyttu matvælin eða almenningur?
Komið hafa fram kröfur um tafarlaust bann við erfðabreyttum matvælum sem og að þetta verði kosningamál. NLFÍ sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar síðasta Landsþings um erfðabreytt matvæli sem var svo hljóðandi: „Náttúrulækningafélags Íslands fordæmir það ábyrgðarleysi íslenskra stjórnvalda að heimila útiræktun á erfðabreyttum lífverum á Íslandi. Fjöldi ritrýndra vísindalegra rannsókna liggja nú fyrir sem sýna fram á að erfðabreyttar lífverur og afurðir þeirra valda óafturkræfu tjóni á umhverfi og heilbrigði dýra og manna. Landsþing NLFÍ telur að notkun erfðabreyttra lífvera skuli einvörðungu fara fram í lokuðu rými. Þingið krefst þess að þar sem leyfi til slíkrar „afmarkaðrar“ notkunar hafa verið veitt tryggi eftirlitsaðilar raunverulega afmörkun þannig að erfðabreytt efni berist ekki út í umhverfi og mengi grunnvatn og jarðveg. Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að banna með öllu útiræktun á erfðabreyttum lífverum og undirbúa að Ísland verði sem fyrst lýst „land án erfðabreyttra lífvera“.“
NLFÍ birti jafnframt niðurstöðu könnunar á vörum sem innihalda erfðabreytt matvæli og í ljós kom að merkingum var verulega ábótavant.
Það er lágmarkskrafa að lögum um merkingar á slíkum matvælum sé framfylgt, sem og að kjöt af húsdýrum sem alin hafa verið á fóðurbæti úr erfðabreyttu korni sé jafnframt merkt. Íslendingar þurfa að móta stefnu um notkun á erfðabreyttu korni, erfðabreyttum matvælum og lífrænni ræktun. Lífríkið er viðkvæmt og hætt við að ein mistök í notkun erfðabreyttra plantna geti haft varanleg áhrif á ræktun og búskap á Íslandi.