Eru sjúkdómar óumflýjanlegir?

Ég svara fyrir mitt leyti algjörlega neitandi. Það er sannfæring mín, að sigrast megi á flestum þeim sjúkdómum, sem þjá hinar vestrænu þjóðir, beiti læknar sér gegn orsökum þeirra. Hrörnunarsjúkdómar eru jafnalgengir, eins og raun ber vitni um, vegna þess, að sáralítið er gert til að byggja fyrir þá. Jafnvíst er hitt, að sumir hinna næmu sjúkdóma eins og berklar, mænuveiki, inflúensa o.fl., eru öðrum þræði manneldissjúkdómar og stafa að nokkru af því, að daglegri fæðu er áfátt um hollustu.

Það er sannfæring mín, að heilsurækt sé ekki nægur gaumur gefinn, að of lítið sé gert til að varðveita fullkomna heilbrigði.

Einn af spekingum fornaldarinnar sagði „Vísindi og listir hjálpa ekki, afl og orka koma ekki að gagni, auður fjár kemur ekki að notum, mælskulistin er fánýt, ef heilsuna vantar.„

Náttúrulækningastefnan heldur því fram, að hrörnunarsjúkdómar stafi af orsökum, sem unnt sé að koma í veg fyrir, og með heilnæmum lifnaðarháttum megi til mikilla muna auka mótstöðuafl líkamans gegn smitsjúkdómum.

Háskólalæknisfræðin hefur á reiðum höndum sýklaeyðandi lyf penisillin, súlfalyf og strephtomycin, sem öll eru eiturlyf, er drepa í bili sýkla í líkamanum, en draga jafnframt allmikið úr lífstápi manna, enda eru menn oft lengi að ná sér eftir notkun þeirra og eftirköstin stundum óbætanleg.

Enginn hugsandi maður kemst hjá því að spyrja, hvernig á því stendur, að vestrænar þjóðir, sem eru allra þjóða bezt menntaðar, skuli jafnframt vera allra þjóða kvillasamastar, og það svo, að erfitt er að finna fullkomlega heilbrigða menn þeirra á meðal. Vísindalegar rannsóknir, hinar svokölluðu „Porham„-rannsóknir, hafa sýnt, að 91 af hverju hundraði manna eru sjúkir, þótt margir geri sér ekki grein fyrir því. Sjúkdómseinkennin er helzt að finna í sjúklegum breytingum í háræðum.

Þegar farsóttir ganga, ræður fæðan miklu um, hve þungt þær leggjast á menn. Inflúensan mikla 1917-18 lagðist afarþungt á menn hér í Reykjavík. En á þeim stöðum, þar sem fólk hafði heldur krappan kost, lagðist hún létt á menn og sérstaklega þá, sem voru algjörlega jurtaneytendur. Hinn kunni danski læknir, Hindhede, hafði þá á hendi matvælaskömmtun í Danmörku. Lét hann slátra Š af svínastofni landsins og 1/3 af nautpeningi. Kjötið var að mestu sent til Þýzkalands, svo að kjötneyzla Dana var mjög lítil. En kornið, sem þessum búpeningi var ætlað, var notað til manneldis. Var jafnvel búizt við, að kornmatur yrði ónógur í landinu og fæðuskortur, og var kornið því drýgt með berki.

Inflúensufaraldurinn gekk þá yfir Danmörku, en margfalt vægari en hér á Íslandi. Jurtaneytendur sluppu yfirleitt við sjúkdóminn, og dánartala var lægri en nokkru sinni fyrr eða síðar, einmitt þetta ár.

Fyrir 75-80 árum voru þeir sjúkdómar, sem þrengja nú hvað mest að þjóðinni, afarfágætir og jafnvel fyrirfundust ekki. Þeirra verður fyrst vart, er menn höfðu neytt hvíta hveitisins og hvíta sykursins um allmörg ár og lagt niður neyzlu sauðamjólkur og afurða hennar.

Það eru um 60 ár síðan ég komst í kynni við læknisfræðina. Og þegar ég útskrifaðist um aldamótin, hafði ég aldrei séð botnlangabólgu. Og Guðmundur próf. Magnússon fullyrti, að sykursýki væri ekki til meðal Íslendinga, sem hér hefðu fæðzt og uppalizt. Nú er sykursýkin orðin talsvert algengur sjúkdómur og fer vaxandi. Magasár var fátítt fyrir aldamót. Nú er það orðið hræðilegur kvilli og fer hratt vaxandi. Sama er að segja um tannveikina. Nú er það orðið fágætt að hitta mann með heilar tennur, og þannig er það um hrörnunarsjúkdóma. Orsakirnar eru ekki tvíræðar. Hvíta hveitið, hvíti sykurinn og hvítu hrísgrjónin hafa undanfarna áratugi verið stór og vaxandi liður í fæði almennings. Og þessar fæðutegundir hafa án efa valdið ægilegu heilsutjóni og eru sennilega helztu orsakavaldar krabbameins vegna kyrrstöðu í þörmunum, en hún veldur rotnun, sem berst með blóðinu um allan líkamann. En krabbameinið er fyrst og fremst blóðsjúkdómur.

Þessar fæðutegundir eru gjörsneyddar lifandi fæðuefnum, fjörefnum, steinefnum og grófefnum, sem líkamanum eru nauðsynleg. Það er því engin furða, þótt þessi dauða fæða valdi veiklun og ýmiss konar truflunum í líkamanum. Hitt væri furðulegt, ef hún gerði það ekki, þar sem hana skortir þau efni, sem líkamanum eru nauðsynleg til heilbrigði og hreysti. Það þarf ekki læknislærða menn til að skilja þetta. Þetta skilur og veit hver hugsandi maður.

Orku sólar, sem viðheldur öllu lífi, þarf að gæta í fæðunni. Þegar við neytum lifandi jurta, draga meltingarfærin geislamagn sólarinnar úr fæðunni, og með blóðinu flytzt það til hverrar frumu líkamans, eykur lífmagn hverrar frumu og mótstöðuafl gegn sjúkdómum og veitir okkur vellíðan og fyllir okkur starfsorku og starfslöngun um langan aldur.

Öll heilbrigði er undir því komin, að blóðið sé hreint. En hreint blóð er undir því komið, að neytt sé réttrar fæðu. Óhætt er að fullyrða, að dauð fæða skapar ekki hreint blóð og þar af leiðandi ekki heilbrigði. Í dauðri fæðu er enginn lífsmáttur. Þetta er svo augljóst, að ekki þarf um að deila eða rökræða. Þetta skilja í raun og veru allir. En samt er það hin dauða fæða, sem skipar veglegan sess á flestra borðum. Og það er þessi dauða fæða, sem smám saman grefur undan heilbrigði, lífsþrótti og lífshamingju. Það er hin dauða fæða, sem er orðin ein af höfuðplágum hins vestræna heims.

Mannlífið hefur þroskazt á óralöngu tímabili frá einfrumungs ástandi til samofinnar lífsheildar óteljandi fruma með einum vilja og einni stefnu í starfi og hugsun þroskaðs manns, er lifir í samræmi við það lögmál, sem allt líf er háð.

Engin lífvera jarðarinnar hefur fundið upp á því að sjóða fæðu sína ˆ nema maðurinn. Það er því engin tilviljun, að hann er kvillasamasta lífvera jarðarinnar. Fyrsta syndafall mannsins á sviði heilbrigðismálanna verður, er hann fer að deyða fæðuna með eldhitun. Annað syndafallið, þegar farið er að fremja það glapræði að svipta kornið hýðinu, blíkja það og sneyða öllum lífefnum, steinefnum og grófefnum. Á líkan hátt er farið með sykurefni í reyr og rófum, rísgrjón og fleiri tegundir kostaríkrar fæðu, sem af misvitrum eða óprúttnum efnishyggjumönnum er breytt í skaðvæna fæðu.

Af þessu höfum við Íslendingar, sem aðrar vestrænar þjóðir, fengið að súpa beiskt seyði ˆ og höldum áfram að súpa, þar til við hverfum af þessari villubraut.

Til viðbótar þeim heilsuspillandi matvælum, sem mokað er inn í landið, flytjum við inn gamalt og skemmt korn, sem misst hefur lífskosti sína og má því líka telja til dauðrar fæðu.

Ekkert dýr jarðarinnar mundi þola þessa lífefnasviptingu fæðunnar. Og eins og komið hefur í ljós, er maðurinn þar engin undantekning. Og hér dugar ekkert annað en fullkomið afturhvarf, „remaking of the man„, eins og hinn kunni manneldisfræðingur, Alexis Carrel, komst að orði.

Þar sem hollir lifnaðarhættir eru í heiðri hafðir, eru sjúkdómar nærri óþekkt fyrirbrigði. Sjúkdómar eru því ekki óumflýjanlegir.

Þessi grein birtist í 3. tbl. Heilsuverndar 1954.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi