Einstakt afreksverk

Björn L. Jónsson veðurfræðingur lauk kandidatsprófi við læknadeild Háskóla Íslands 30. janúar s.l. með góðri fyrstu einkunn, 53 ára gamall. Hann innritaðist í læknadeildina 1952, var hann þá 48 ára. Björn lauk námi á aðeins 5 árum eða minnsta kosti 2 ára skemmri tíma en almennt gerist. Allan námstímann vann hann fullan vinnutíma á veðurstofunni.

Björn L. Jónsson er einn af ötulustu brautryðjendum náttúrulækningastefnunnar hér á landi. Formaður stærsta félags innan vébanda N.L.F.Í., Náttúrulækningafélags Reykjavíkur, var hann í mörg ár, eða þar til hann innritaðist í háskólann. Meðritstjóri Heilsuverndar var hann frá 1946 til 1954. Þá þýddi Björn margar bækur fyrir Náttúrulækningafélagið, helztar þeirra eru Sannleikurinn um hvíta sykurinn, Matur og megin, Heilsan sigrar, Menningarplágan mikla, Mataræði og heilsufar. Auk þess skrifaði hann fjölda greina í ýmsar aðrar bækur, sem Náttúrulækningafélagið gaf út.

Margir andstæðingar náttúrulækningafélagsstefnunnar spáðu því að Björn mundi snúa bakinu við henni, þegar hann færi að læra læknisfræðina. Sem svar við þeim spám skal hér tekið orðrétt samtal Björns við blaðamann frá Morgunblaðinu 1. febrúar s.l. "Hvernig er þá með náttúrulækningarnar og læknisfræðina? Björn svarar Þú meinar, hvort námið hafi leitt í ljós að skoðanir mínar á sviði náttúrulækninga hafi orðið að þoka fyrir læknavísindunum? Því er til að svara, að svo er ekki, enn sem fyrr er áhugi minn á greinum náttúrulækninganna jafn mikill og hann var, og ég sjálfur persónulega sannfærður um grundvallarkenningar náttúrulækninganna.„

Áður en Björn hóf nám í læknisfræði við Háskólann, var hann þegar búinn að afla sér svo mikillar sjálfsmenntunar á sviði læknisfræðinnar, að margur læknakandidat hefði mátt þakka fyrir að hafa þá þekkingu, sem hann þá hafði þegar aflað sér. Það er ómetanlegur stuðningur fyrir stefnu Náttúrulækningafélagsins, að jafn greindur og menntaður maður, sem Björn er á sviði læknisfræðinnar, skuli óhikað halda því fram í ræðu og riti að grundvallarkenningar Náttúrulækningafélagsins séu réttar.

Náttúrulækningafélag Íslands stendur í mikilli þakkarskuld við Björn fyrir hans margþættu störf í þágu félagsins.

Allir vinir Björns samfagna honum og óska honum til hamingju með þetta einstaka námsafrek, sem lengi mun í minnum haft og sem fáir munu leika eftir honum.

Með elju sinni og dugnaði hefur Björn gefið ungu kynslóðinni, sem leggur út á menntabrautina, gott fordæmi með elju sinni, dugnaði og hófsemi. Megi land vort og þjóð eignast sem flesta syni og dætur eins og Björn L. Jónsson, og megi land vort og þjóð njóta sem lengst starfskrafta hans.

S. Danivalsson.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing