Draugar á leiðum heilbrigðs lífs


Það fer ekki á milli mála, að á þessari og síðustu öld hafa unnizt stórsigrar í viðureigninni við sjúkdóma. Má þar aðallega nefna hina miklu lækkun ungbarnadauða og útrýmingu mannskæðra farsótta. Eitt mesta afrekið hér á landi er hefting á útbreiðslu berklaveikinnar.

Það er eftirtektarvert, að þennan glæsilega árangur eigum við fyrst og fremst að þakka almennum þrifnaðar- og sóttvarnaráðstöfunum.
Þannig tókst t.d. að útrýma taugaveikinni hér á landi, áður en bólusetningar eða lyf við henni þekktust. Sama er að segja um baráttuna gegn berklunum, að án lyfja eða bólusetninga tókst að ráða niðurlögum þeirra að mestu. Hinsvegar er fækkun dauðsfalla úr lungnabólgu tvímælalaust mjög að þakka súlfa- og fúkalyfjum.

Framangreindir sigrar eru með öðrum orðum fólgnir í því, að fundizt hafa ráð til að varna því, að menn sýkist. Það eru yfirleitt ekki lækningalyf, sem hafa fengið þessu áorkað, því að við ýmsum smitsjúkdómum þekkjast enn engin lyf.

Á síðari áratugum hefir vígstaðan gegn óvininum, heilsuleysi og sjúkdómum, tekið miklum breytingum. Við heyjum nú styrjöld við langvinna sjúkdóma, sem margir voru áður fyrr sjaldgæfir eða lítill gaumur gefinn.

Tannáta er þjóðarsjúkdómur, sem tók fyrst að færast í vöxt á síðustu öld.
Mannskæðustu sjúkdómarnir eru nú sjúkdómar í hjarta og æðum, þar með talið heilablóðfall, sem valda um 4 af hverjum 10 mannslátum, og krabbamein veldur um það bil fimmta hverju mannsláti. Og miðað við mannfjölda hefir þessum sjúkdómum fjölgað.

Svo mun einnig vera um geð- og taugasjúkdóma, húðsjúkdóma, ofnæmissjúkdóma. Efnaskiptasjúkdómar, meltingarsjúkdómar, gigtarsjúkdómar eru ákaflega tíðir, og sama er að segja um kvefsjúkdóma, hálsbólgu og allsherjar slen og þreytu. Sjúklingar með framangreinda kvilla fylla biðstofur lækna, rannsóknarstofur og sjúkrahús og hafa í för með sér vinnutap í stórum stíl auk annars tjóns og tilkostnaðar. Við mörgum þessum sjúkdómum þekkjum við engin örugg ráð til varnar né lyf eða aðferðir til að lækna þá. Mörg lyf gera ekki annað en fela sjúkdómseinkenni eða halda sjúkdómum í skefjum án þess að lækna þá til fulls (verkjalyf, insúlín og önnur hormónalyf o.fl.). Orsakir margra þessara sjúkdóma eru lítt eða ekki þekktar. Og jafnvel þegar þær eru kunnar, látum við undir höfuð leggjast að stemma á að ósi á sama hátt og í viðureigninni við farsóttir og ungbarnasjúkdóma. Má þar nefna tannátuna, sem stafar aðallega af neyzlu sætinda og einhæfra kolvetna; lungnakrabba, sem sígarettureykingar eiga mesta sök á, og offitu, sem stafar af ofáti, þ.e. fyrst og fremst af köku- og sætindaáti. Tannlæknar og ýmsir aðrir hafa mjög varað við köku- og sykuráti og neyzlu sætra gosdrykkja, og Krabbameinsfélagið heldur uppi áróðri gegn reykingum. En engar almennar ráðstafanir eru gerðar til að draga úr sykurneyzlu, og æðsta samkunda þjóðarinnar, Alþingi, hefir hliðrað sér hjá jafnsjálfsögðum hlut og að lögbjóða bann við auglýsingum á sígarettum.

Af framansögðu er ljóst, að í stað þess að heyja sókn gegn óvininum og reka hann af höndum okkar, erum við yfirleitt í varnaraðstöðu, snúumst þá fyrst til varnar, er sjúkdómurinn hefir náð tökum á okkur og gert meiri og minni óskunda. Við eigum í skæruhernaði, reynum með misjöfnum árangri að bæta skemmdir, draga úr frekara tjóni. En um allsherjar sókn eða byggingu varnarlínu líkt og í baráttunni við farsóttir og berkla er ekki að ræða.

Enginn getur gengið þess dulinn, að þrátt fyrir þá miklu sigra, sem unnizt hafa og að framan er getið, og stöðugar framfarir í læknavísindum, stöndum við höllum fæti í viðureigninni við sjúkdómana. Þeir eru í sókn, við á undanhaldi. Okkur vantar sjúkrahús, lækna og hjúkrunarfólk til að sinna vaxandi fjölda sjúklinga. Við tökum sjúklinga til rannsóknar í lækningastofum og sjúkrahúsum, sendum þá heim með lyfseðla eða lyf við háum blóðþrýstingi, taugaveiklun, of miklum eða of litlum magasýrum o.s.frv. o.s.frv.; eða þá að sjúklingurinn hefir skilið eftir í sjúkrahúsinu botnlanga, meiri hluta magans, nýra, lunga eða eitthvert annað líffæri. En ráð til að verjast meiri usla af völdum sjúkdómsins eða annarra sjúkdóma fær sjúklingurinn engin eða af skornum skammti, oft af þeirri einföldu ástæðu, að læknirinn hefir engin slík ráð á takteinum.

Örðugleikana, sem við er að etja, má m.a. marka á því, að enda þótt sannað sé, að reykingar eiga mesta sök á lungnakrabba og Krabbameinsfélagið haldi uppi áróðri og upplýsingastarfsemi á þessu sviði, hefir ekki tekizt í fyrstu atrennu að koma á löggjöf um bann við auglýsingum á sígarettum. Til heftingar á útbreiðslu berkla var þó sett ströng löggjöf á sínum tíma, og í gildi eru lög og reglugerðir á ýmsum öðrum sviðum til varnar gegn sýkingu og heilsutjóni. Og óhætt mun að fullyrða, að ef hægt væri, t.d. með opinberum aðgerðum, að draga úr reykingum til verulegra muna, mundi það bjarga fleiri mannslífum en allar þekktar ráðstafanir til að finna og lækna sjúkdóma af völdum reykinga.

Líkt má segja um hjarta- og æðasjúkdóma. Vitað er, að ein orsök þeirra er kyrrsetur. Ef hægt væri með einhverjum ráðum að fá kyrrsetufólk almennt til að iðka morgunleikfimi reglulega, morgungöngur, sund eða fara fótgangandi til vinnu í stað þess að setjast upp í bíl, mundi draga verulega úr þessum sjúkdómum, og árangurinn gæti orðið meiri og varanlegri en af fullkomnustu rannsóknum og lækningatilraunum. En auðvitað þarf þetta tvennt að haldast í hendur, rannsóknir og lækningaaðgerðir annarsvegar og varnarráðstafnir hinsvegar, svo sem t.d. aukin hreyfing, megrun o.fl.

Þessar síðarnefndu aðgerðir og aðrar lagfæringar á skaðlegum lífsvenjum hafa það til síns ágætis, að þær útheimta engin fjárútlát, engin dýr tæki, sérstakt húsnæði eða vinnukraft. En gallinn er sá, að hér er sjaldnast unnt að beita löggjöf eða öðrum þvingunarráðstöfunum. Það er ekki hægt að banna fólki að reykja ˆ nema innan þröngra takmarka ˆ; því síður er hægt að skylda menn til að taka sér hálftíma göngu á hverjum morgni. Menn hlýða fúslega tilmælum um að koma í krabbameinsrannsókn, gegnlýsingu eða hjartarannsókn, þótt þeir hlíti engum ráðum varðandi daglegar lífsvenjur. Hér er við ramman reip að draga, og er ekki við neinn að sakast, þótt sigið hafi á ógæfuhliðina á margan hátt í heilbrigðismálum Íslendinga og annarra menningarþjóða.

Stofnuð eru félög til að vinna gegn tilteknum sjúkdómum, undir forystu lækna eða leikmanna. Þau hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna, ýmist með fjársöfnun eða markvissum aðgerðum. En hér er oft aðallega um varnaraðgerðir að ræða, m.a. leit að sjúkdómum. Sem dæmi má nefna krabbameins- og hjartasjúkdómasamtökin. Starf þeirra beinist aðallega að því að finna sjúkdóma á byrjunarstigi, og getur engum dulizt, hve mikilsvert það er. En meðan orsakir sjúkdómanna eru lítt eða ekki þekktar, getur árangurinn aldrei orðið neitt sambærilegur við t.d. hinn glæsilega sigur í viðureigninni við berklana.

Það er ömurlegt tímanna tákn, að samhliða stórfelldum og furðulegum framförum á öllum sviðum tækni og vísinda á síðustu áratugum, aukinni velmegun og lífsþægindum, hafa nýir vágestir eða draugar læðst að okkur, magnazt og vaxið okkur yfir höfuð. Á sviði heilbrigðismálanna ætla eg að nefna hér fjóra slíka óvætti, sem eg tel hafa gert mestan usla:

1. Í sambandi við mataræðið er það hvíti sykurinn og hvíta hveitið. Fyrir hundrað árum voru þetta svo til óþekkt matvæli. Nú eru þessar tvær fæðutegundir orðnar aðalfæða Íslendinga og margra annarra þjóða, hér á landi um 2/5 af fæðutekju allrar þjóðarinnar, eins og einfaldur útreikningur sýnir. Þetta eru einhæfustu og efnasnauðustu matvæli, sem á borð okkar koma, valda því skorti fjörefna og annarra nauðsynlegra næringarefna, eiga auk þess meginsök á meltingartregðu, svo og á offitu, sem leiðir m.a. til hjarta- og æðasjúkdóma.

2. Kyrrsetur. Þær eiga sinn þátt í offitu, blóðrásartruflunum, hjartasjúkdómum o.fl.

3. Reykingar. Auk lungnakrabba valda þær hjarta- og æðasjúkdómum, og margskonar vanlíðan og kvilla má rekja til þeirra.

4. Að lokum vil eg nefna hina geysilegu lyfjanotkun. Það er draugur, sem læknar hafa magnað yfir okkur í stöðugri leit að nýjum og betri lyfjum til að ráða niðurlögum sjúkdóma. Lyfjaverksmiðjur heyja harða samkeppni og senda frá sér lyf í tugþúsundatali. Tiltölulega fá þessara lyfja koma að tilætluðum notum. Flest eru þau meira og minna varhugaverð, mörg beinlínis hættuleg. Og þau eru notuð í gegndarleysi, fjárútlátin gífurleg og árangurinn margoft verri en enginn. Læknum er nokkur vorkunn, því að þeir vonast eftir betri árangri af nýjum lyfjum en hinum eldri. Mikill meiri hluti þessara lyfja er notaður af handahófi. Margir ágætir læknar hafa varað við hættunni, og læknum er hún yfirleitt ljós, enda þótt fæstir þeirra fái rönd við reist.

Það er rás viðburðanna, sem hefir vakið upp framangreinda drauga. En hver er þess umkominn að kveða þá niður? Því miður verður ekki bent á neinar einfaldar eða öruggar leiðir til þess. Það mætti hugsa sér mikla hækkun tolla á lélegum eða skaðlegum neyzluvörum, svo sem hvítum sykri og hvítu hveiti, og verðhækkun á tóbaki. Í Englandi var bannað að framleiða hvítt hveiti á stríðsárunum síðustu. Og síðasta ár fyrri heimsstyrjaldar, 1917-18, gripu Danir til strangra ráðstafana vegna yfirvofandi matarskorts, og voru þær m.a. fólgnar í því að fella að mestu niður neyzlu á hvítu hveiti og sykri, öli og brennivíni, naum kjötskömmtun var tekin upp, en neyzla á kartöflum og öðrum garðávöxtum jókst. Við þessar ráðstafanir lækkaði dánartala dönsku þjóðarinnar stórlega, og var talið, að á þessu eina ári hafi þannig sparazt um 6300 mannslíf. Eftir stríðið, þegar lifnaðarhættir færðust í sama horf og áður, hækkaði dánartalan aftur. Þessi dæmi nægja til að sýna, hvað hægt er að gera, ef neyðin ber að dyrum. Ráðstafanir dönsku ríkisstjórnarinnar voru ekki gerðar í því skyni að bæta heilsufar þjóðarinnar, heldur til að forða þjóðinni frá hungri, og hlítti hún um þetta ráðum hins heimskunna læknis og næringarfræðings Hindhedes. Enginn vissi fyrr en eftir á, hvílíkum stakkaskiptum þetta mundi valda í dánartölunni. Og því miður virðist danska þjóðin ekkert hafa lært af þessari lexíu, né neinar aðrar þjóðir. Því að hvergi hafa þessi ráð verið upp tekin síðan. Gegn slíkum ráðstöfunum vinna líka mörg öfl: Hagsmunir framleiðenda og seljenda, veitinga- og umgengnissiðir, græðgi og sælgætis- og nautnafíkn, leti og kæruleysi, oftrú á læknavísindi og lyf. T.d. hugsa margir sem svo: Eg verð ekki einn af þeim, sem fá lungnakrabba eða kransæðastíflu, þó að eg reyki og borði góðan mat; og svo finnast bráðum lyf eða önnur ráð, til þess að lækna þessa sjúkdóma. Og þannig láta menn sofandi fljóta að feigðarósi.

Enda þótt þeir draugar, sem hér hefir verið lýst, verði ekki kveðnir niður, geta flestir komizt hjá að verða á vegi þeirra. Tilgangurinn með stofnun Náttúrulækningafélags Íslands var fyrst og fremst sá að kenna fólki þá list. Jónas heitinn Kristjánsson læknir hóf þá viðleitni í læknishéraði sínu, Skagafirði, fyrir nærfellt fimmtíu árum og vann að því marki til æviloka. Og NLFÍ er eina félagið hér á landi, sem heldur uppi fræðslu á breiðum grundvelli um það, hvað einstaklingarnir geta gert á eigin spýtur heilsunni til verndar.

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 2. tbl. 1967, bls. 38-42

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi