Breiðasta brosið – „The Biggest Smile“

Öll eigum við okkur þann draum að vera í sem bestu líkamlegu formi. Flest erum við með mismikð af aukakílóum sem við viljum missa. Við horfum agndofa á vinsælan þátt í sjónvarpinu í dag þar sem fólk hamast við að losa sig við aukakílóin.
Því miður gleymist oft í þessu stríði við aukakílóin að huga að „stjórnstöðinni“ þ.e.a.s. hausnum á okkur. Öll vitum við að til að halda kjörþyngd þurfum við hreyfa okkur meira, borða minna og hollara. Okkar versti óvinur í þessari baráttu erum við sjálf og hausinn á okkur. Förum að horfa meira inná við,  setjum okkur markmið og stefnum að  betri  og léttari andlegri heilsu.
Því þegar lundin  léttist fylgir oft þyngdin með líka. Heillavænleg þróun í þessa átt  væri að það færi af stað sjónvarpsþáttur sem heitir  Breiðasta brosið eða „The Biggest Smile“. Í þessum þætti væru þátttakendur leiddir í gegnum allskyns lífsins þrautir til að auka lífsgleði og létta sálina og mestu fýlupúkarnir yrðu sendir heim í hverri viku.

Hér fyrir neðan eru nokkur góð markmið til að létta sér lundina og bæta lífsgæði.

Ekki láta vigtina stjórna lífinu!
Þyngd okkar  er ekkert sérlega góður mælikvarði á líkamsástand og heilsu, sérstaklega þegar aukakílóin eru bara fáein. En okkar þjóðfélag er illa sýkt af þráhyggju um þyngd. Það sér maður best á því að lesa vefmiðlana þar sem mest lesnu fréttir eru oft á tíðum af ótrúlegu þyngdartapi fólks.
Það er mjög auðvelt að þyngja sig það er m.a. hægt að bæta á sig kílóum bara með því að borða saltað popp. Saltið bindur vatn í líkamanum og þyngir okkur, þó þarna sé þyngdaraukningin ekki í formi fitu. Það er ömurlegt að skemma góðan dag með því að byrja hann á að stíga á vigtina og láta þyngdina stjórna skapi okkar þann daginn.
Ef við ætlum að nota vigtina sem mælikvarða á líkamsástand má gera það við staðlaðar aðstæður  1-2 sinnum í mánuði. Það þarf að vera á sama tíma dags, helst að hafa  gert það sama daginn áður, vera í sömu fötum og búinn að létta á sér á klósettinu.
Aðrir betri mælikvarðar á líkamsástand og heilsu eru  meira þrek, meiri lífsgleði, betri svefn, meiri orka og minnkað stress. Hvenær sér maður  að mest lesna fréttin á miðlunum sé um einhvern sem að sefur miklu betur en hann gerði í fyrra?…..Aldrei!

Lifðu í núinu!
Þessari góðu speki gleyma alltof margir í erli hversdagsins og sérstaklega þegar kemur að heilsu og þyngdartapi. Of mörg okkar eru alltaf að plana næsta átak s.s. í kjólinn fyrir jólin eða árshátíðina,  í baðfötin fyrir sumarið, í brúðarkjólinn fyrir brúðkaupið o.s.frv. Á meðan maður er að plana þetta  stendur lífið yfir og er að líða, hví ekki að njóta þeirrar stundar líka eins og maður ætlar að njóta þess að vera kominn í form? Hvað gerist svo þegar brúðkaupsdegi eða jólum líkur? Ætlar maður þá að springa út aftur? Hví ekki að vera í formi allan ársins hring og hætta þessari vertíðarhugsun í sambandi við heilsu sína?
Núið er það sem við höfum, gærdagurinn er farinn og morgundagurinn kemur kannski eða kannski ekki.

Borðaðu í meðvitund!
Alltof oft erum við ekki alveg tengd meðvitund okkar þegar við borðum. Ef við erum með fulla skál af sælgæti eða snakki fyrir framan sjónvarp eða tölvu, gæti hún verið tóm innan skamms án þess að við tökum eftir því. Borðum máltíðir við matarborð og skömmtum okkur hæfilega skammta á diskana. Helst ekki að hafa borðið fullt af matarföngum því þá er hætt við að borðað sé of mikið og ekki í meðvitund.
Njótum  matarins, tyggjum hann vel og finnum virkilega bragðið og lyktina af matnum. Góð regla er að leggja frá sér hnífapörin milli munnbita. Við borðum oft það hratt og mikið að það er eins og við séum að neyta síðustu kvöldmáltíðarinnar með Jesú Kristi. Það krefst mikillar æfingar að borða í meðvitund en það er vel þess virði og getur stuðlað að þónokkru þyngdartapi.

Hlustaðu á líkamann og veittu honum: næringu/hreyfingu/slökun/svefn – í  jafnvægi
Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og á það vel við um líkamann og heilsu okkar. Næring, hreyfing, slökun og svefn eru fjögur lífsnauðsynleg atriði í heilbrigði lífi og ekkert sterkara eða veikara en annað, því þau eru öll nátengd. Ef t.d. þú nærð ekki góðum svefni þá hefur þú litla orku í hreyfingu og næringin verður oft eitthvað orkuríkt í formi skyndibita og kaffidrykkja verður óhófleg (sem veldur meira svefnleysi). Og á móti ef næringin er léleg þá náum við ekki að hvílast vel og hreyfing verður lítil sem engin.
Þannig að engum af þessum þáttum má gleyma  til þess að lifa heilbrigðu lífi og í kjörþyngd.

Nærðu sálina – mundu að brosa
Við brosum of lítið og ættum að byrja daginn á að brosa framan í spegilinn á morgnana. Einnig eigum við að brosa að þrasinu í þjóðfélaginu í stað þess að pirrast út í það. Ef einhver fer í taugarnar á þér er langbesta ráðið fyrir þig að brosa bara að því, það er betra en nokkur gleðipilla. Eiginlega er bros eitt besta ráð við öllum heimsins áhyggjum. Prófið að brosa meira að öllu og innan skamms munið þið finna mun á sálinni.

Dragðu úr sjálfsgagnrýni og dómhörku!
Hafið þið spáð í hvað við tölum illa um okkur sjálf? Aldrei dytti okkur í hug að tala svona illa um nokkurn  sem okkur þykir vænt um! Sjálfsgagnrýni og dómharka brýtur niður sjálfstraust okkar og við höfum minni trú á okkur sjálfum og getu okkar. Förum að elska okkur sjálf og þá eru meiri líkur á að lífið brosi við okkur og við náum að vera í góðu líkamlegu og andlegu formi.

Fjárfestu í þér en ekki megrunariðnaðinum
Hver á ekki rykfallinn próteindúnk uppi í skáp eða fitubrennslutöflur sem áttu að bjarga heilsunni? Megrunariðnaðurinn veltir milljörðum í að selja okkur draum í dósum eða pilluformi. Hættum að láta plata okkur og kaupum okkur t.d. frekar góða gönguskó í stað þess að kaupa nýjustu „undra“ töflunar sem eiga að gera allt í senn gera okkur grennri, fegurri, orkumeiri og ….. já 9.990 kr. fátækari!

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni ritstjóra NLFÍ, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi