Berum ábyrgð á eigin heilsu

Mikil umræða á sér stað í þjóðfélaginu um niðurskurð til heilbrigðismála hér á landi í kjölfar hins margumtalaða  bankahruns.  Þessi umræða á mikinn rétt á sér enda ætti hver einasti Íslendingur á okkar ríka landi að geta notið  góðrar heilbrigðisþjónustu þegar þess gerist þörf. Það er lágmarkskrafa í velferðarsamfélagi.  Það er staðreynd að of mikið hefur verið skorið niður í framlögum til heilbrigðismála undanfarin ár og má ekki við meiru.
Á þessum krepputímum er mikilvægt að spá í hvað við getum gert til að huga að heilsu okkar, því hún er jú það dýrmætasta sem við eigum. Því miður uppgötva of margir það ekki fyrr en of seint  (og dýrt í leiðinni)!

Það er nauðsynlegt að við veltum því fyrir okkur í dag  hvers vegna við erum að leita læknis og nýta okkur heilbrigðiskerfið. Mikið af þeim „sjúkdómum” sem eru að hrjá okkur í dag eru lífsstílssjúkdómar og fylgikvillar þeirra s.s. sykursýki, offita, hjarta- og æðasjúkdómar, ýmis krabbamein, þynglyndi og stoðkerfisvandamál.
Jónas Kristjánsson stofnandi Náttúrulækningafélagsins skrifaði í ritið Heilsuvernd árið 1947 (2.árg, 1.hefti) “ Vér eigum ekki í höggi við sjúkdóma, heldur  við rangar lífsvenjur. Útrýmið hinum röngu lífsvenjum, og sjúkdómarnir munu hverfa af sjálfu sér.”  Í sömu grein heldur hann áfram að lesa okkur pistilinn:“Heilsuleysi menningarþjóða og vaxandi hrörnun er engin tilviljun, heldur beinar afleiðingar rangra lifnaðarhátta, rangrar, ónáttúrulegrar og dauðrar fæðu, of lítillar hreyfingar og útilokunar frá hreinu lofti og sól. Allt er þetta í andstöðu við lögmál lífsins og náttúrunnar.”

Við verðum að fara að spyrja okkur spurninga um það hvernig við getum snúið við þessari þróun. Hvar liggur okkar ábyrgð í þessum lífsstílssjúkdómum? Hafa markaðsöfl óholla skyndibitans og tilbúna matarins í búðinni náð yfirhöndinni í okkar neysluvenjum? Komumst við ekki útúr vítahring óhollrar fæðu eða er framboðið ekki nógu gott af góðri og næringarríkri fæðu sem styrkir okkur í stað þess að veikja okkur? Er framboðið á afþreyingarefni í sjónvarpi og tölvum orðið þvílíkt að við komust hreinlega ekki uppúr sófanum?
Þegar við förum á bílnum út  í búð sem er 500 metra í burtu, notum aldrei stiga eða aðra nauðsynlega hreyfingu þegar hún býðst,  er okkur kannski ekki viðbjargandi.

Tökum eftir því að orð Jónasar Kristjánssonar voru skrifaður fyrir  66 árum!!! Þá voru alls engar tölvur, bílar voru ekki allra, búðarhillur voru ekki uppfullar af gervimat, sykraðir gosdrykkir voru ekki seldir í 2 lítra kippum,  skyndibitastaðir þekktust varla á Íslandi og sjónvarpið var ekki komið í loftið (gerðist ekki fyrr en árið 1966)!

Það er ekki hægt að vera vitur eftir á en núna árið 2013 verður heilsubylting að hefjast. Jónas var að biðla til okkar að huga að heilsunni fyrir 66 árum og það er fyrir löngu síðan kominn tími til að við hlustum á þessi orð! Því heilbrigðiskerfið er fjársvelt og mikið af fjármagninu fer í að ”lækna” lífsstílssjúkdóma okkar.
Hættum að nota heilbrigðiskerfið til að lækna þessa lífsstílssjúkdóma og notum það frekar til að lækna okkur af ”alvöru” sjúkdómum sem við ráðum ekki við sjálf. Þá getum við líka notað peninga sem eru afgangs í betri skóla, leikskóla og öldrunarstofnanir.

Það besta sem núverandi ríkisstjórn gæti gert til að stuðla að bættri heilsu landsmanna væri að setja meiri peninga í heilbrigðisstofnanir sem huga að forvörnum og langvarandi heilsu skjólstæðinga sinna. Ein þessara stofnana hér á landi er Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (HNLFÍ) í Hveragerði en þar fer fram mjög mikilvægt endurhæfingar- og heilsueflingarstarf.
Það er sorglegt að segja frá því að í drögum að fjárlögum fyrir árið 2014 á HNLFÍ að bera allan niðurskurð sambærilegra endurhæfingarstofnana á Íslandi, þótt þar fari fram ein ódýrasta endurhæfing landsins.
Það að spara í þessum efnum er eins og að spara 10 krónur í dag til þess eins að þurfa að borga 100 krónur að nokkrum árum liðum. Á endanum mun kostnaður heilbrigðiskerfisins bara aukast við það að ”lækna” lífsstílssjúkdóma í stað þess að kenna okkur að berjast gegn þeim.

Ríkisvaldið verður að fara að hugsa í stærra samhengi og lengra fram í tímann og sjá hversu mikilvægt starf stofnanir líkt og HNLFÍ hafa. Þar starfar öflugt teymi sérfræðinga  á borð við sjúkraþjálfara, þjálfara, nuddara, næringarfræðings, lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og margra annarra öflugra og metnaðarfullra starfsmanna.
Allir þessir starfsmenn hafa það höfuðmarkmið að skila þeim skjólstæðingum  er sækja stofnunina heim, í betra líkamlegu og/eða andlegu standi en þeir komu inn í.
Einnig er skjólstæðingum kenndar ýmsar sjálfshjálparaðferðir tengdar hreyfingu, næringu og sálinni.  En þetta nýtist skjólstæðingnum heimavið og minnkar líkurnar á því að þessi einstaklingur þurfi að leita aftur til heilbrigðiskerfisins með lífsstílssjúkdóm.

Einkunnarorð NLFÍ og HNLFÍ eiga ótrúlega vel við í lok þessa pistils, en þau eru:
”Berum ábyrgð á eigin heilsu”. Höfum þetta hugfast alla 365 daga ársins, heilsan er á okkar ábyrgð!

Margir bera hag HNLFÍ fyrir brjósti og mikið hefur verið ritað um þennan óréttláta niðurskurð, sjá má hluta þessara skrifa á  eftirtöldum netsíðum:
http://visir.is/radist-a-heilsuhaeli-segja-hvergerdingar/article/2013711169963
https://nlfi.is/node/397
http://www.akureyrivikublad.is/akvbl/umraedan/2013/11/17/draumurinn-um-heilsulind/
http://www.visir.is/vanefndir-vid-hnlfi-nema-355-milljonum/article/2013711149955
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/15/endurhaefing_skorin_nidur/
http://www.sunnlenska.is/adsent/13191.html

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjóra NLFÍ  og næringarfræðingi á HNLFÍ

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi