Baráttan við krabbameinið

Ég fæ ekki betur séð, en að vestrænar þjóðir hafi lent í ógöngum, þar sem þær sitja fastar eins og fluga í köngulóarvef, sem bíður þess, að óvinurinn komi og bíti hana til bana. Þannig er það t.d. um marga, sem ganga með ugg og kvíða um það, að sá sjúkdómur, sem menn óttast mest, krabbameinið, hafi heltekið þá.

Forsjálir læknar og leiðandi menn þessa þjóðfélags hafa fyrir nokkru komið á fót félagsskap til þess að herja á þennan óvin. Er það vissulega góðra gjalda vert. En gallinn er sá, að svo lítur út, sem forystumenn þessa félags viti ekki, hvar óvinarins er að leita eða hvar skuli hefjast handa til sóknar og varnar. Það er skorað á menn að leggja fram fé til höfuðs þessum óvini, til þess að byggja sjúkrahús fyrir krabbameinssjúka menn. En þar er svo ekki annað gert en að eyða sjúkdómseinkennum, áorðnum sjúklegum breytingum. Hinsvegar er ekkert hirt um það, sem mestu máli skiptir, og eitt má að fullu gagni koma: það er leit að orsökum sjúkdómsins og útrýming þeirra. Skurðir og geislalækningar eru oftast aðeins bráðabirgðahjálp, ef til vill aðeins þrautafull lenging lífs. Þannig hefir þessi barátta gengið, og engin breyting sjáanleg á þeim vinnubrögðum.

Nú eru þeir læknar og fræðimenn allmargir, og þeim fer fjölgandi, sem líta svo á, að krabbamein, eins og aðrir sjúkdómar, stafi af orsökum, sem unnt sé — og auðvelt — að koma í veg fyrir og útrýma, ef rétt væri að farið og eðli sjúkdómsins rakið til rótar.

En ég hefi enga tilraun séð gerða í þessa átt eða í þessum tilgangi af Krabbameinsfélaginu, og það er ekki einu sinni minnzt á þennan meginþátt krabbameinsvarna í lögum þess.

Oft hefir verið vitnað í sígilda setningu eftir rómverska lækninn Selsus, sem uppi var fyrir meira en 1900 árum, og hljóðar hún svo á latínu: „Nec credebile est eum scire curare morbos, cui unde sint nesciat“. (Það er ekki sennilegt, að þeim takist að lækna sjúkdóma, sem veit ekki, af hverju þeir stafa).

Vér getum ekki neitað því, að því nær allt starf hins vaxandi læknaskara gengur út á það að ráða bót á sjúklegum breytingum, án þess að vita eða hirða um orsakir. Þetta hefir gert vöxt sjúkdómanna, og þá ekki sízt hinna mörgu úrkynjunar- og hrörnunarsjúkdóma, sem sækja með vaxandi þunga á vestrænar menningarþjóðir. Og þær hafa ekki látið á sér standa að breiða út sína illu og óhollu siði til frumstæðra þjóða, illu heilli. Að þessu leyti er vestræn menning skaðræðismenning. Meginorsakir þessa ástands er efalaust hin ríkjandi og ráðandi skefjalausa efnishyggja, sem snýst öll um auð og völd.

Eldri og nýrri rannsóknir hafa sýnt og sannað, að krabbamein er varla til meðal frumstæðra þjóða, sem lifa á eigin framleiðslu, eins og t.d. hinn fámenni Húnsaþjóðflokkur í Indlandi og margir þjóðflokkar á afskekktum eyjum Miklahafs. Sama er að segja um svertingja í Afríku, og þannig hefir það að öllum líkindum verið um Íslendinga, meðan þeir lifðu að mestu leyti á innlendri fæðu. Hitt er svo ekki síður staðreynd, að þegar hinar frumstæðu þjóðir hafa tekið upp menningarháttu og siðu vestrænna þjóða, þá er þeirra góðu heilsu lokið. Og því getum vér ekki heldur neitað, að þetta hefir reynzt svo um Íslendinga. Meðan vér lifðum á eigin framleiðslu, var krabbamein og aðrir hrörnunarsjúkdómar, svo sem tannveiki, skjaldkirtilbólga, magasár og botnlangabólga því nær óþekktir kvillar. Nú vita allir, að þessir sjúkdómar eru orðnir feikna algengir og hafa vaxið hræðilega á undanförnum áratugum.

Er þetta ekki nokkur bending um, hvar orsaka krabbameinsins er að leita og hvernig eigi að herja á það? Og er ekki stórfelld aukning allskonar hrörnunarsjúkdóma hér á landi, samfara gagngerðum breytingum á mataræði þjóðarinnar, fullgreinileg bending, sem stappar nærri fullri sönnun, um það að mataræðið eigi þyngstu sökina á aukningu þessara sjúkdóma?

Um þetta má segja hið fornkveðna, að sjáandi sjá menn ekki né skilja. Vér flytjum til landsins óætar og hraklegar matvörur, án þess að leggja mat á þær, en af oss er krafizt margfalds mats og vöruvöndunar. Haframjölið, sem flutt er inn til manneldis, er gömul og geymd vara og alloft fjarri því að geta talizt hæf til manneldis. Sama er að segja um flestar aðkeyptar fóðurvörur. Hænsnafóður er t.d. alloft svo hraklegt, að hænsnin þrífast varla á því, og rauðan í eggjunum verður gulbleik, sem ber vott um blóðleysi í hænunum.

Nei, endinn skyldi í upphafi skoða. Ryðjum orsökunum fyrst úr vegi, og afleiðingarnar munu hverfa af sjálfu sér.

Fyrir allmörgum árum var svo bágborið heilsufar í einu fátækrahverfi í London, að bæjarstjórninni fannst, að við svo búið mætti ekki standa. Var hafizt handa um byggingu nýrra íbúðarhúsa á sólríkum hæðum utanvert við borgina og hverfisbúar fluttir þangað. Allir urðu glaðir við umskiptin og vörðu nokkru af sínum litlu launum til þess að fá sér betri húsmuni en áður. En launin hrukku ekki fyrir útgjöldum, svo að íbúarnir neyddust til að spara við sig í matarkaupum, keyptu minna en áður af heilnæmum fæðutegundum og þeim mun meira af lélegri matvöru og ódýrri. Afleiðingin varð sú, að heilsufari fólksins hrakaði til muna, og dánartalan hækkaði. Áður hafði hún verið 20¦ (tuttugu af þúsundi), en komst nú yfir 30¦. Meðal annars óx berklaveiki og varð yfirgnæfandi. Mátti heita, að felmtri slægi yfir bæjarstjórnina, er þessi varð raunin. Læknir var fenginn til að rannsaka þetta sérstaklega. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að ástæðan fyrir hnignuninni væri sú, að fólkið hefði ekki efni á að kaupa nóg af lifandi fæðu, heldur lifði það mest á ódýrri, efnasnauðri fæðu, svo sem hvítu hveiti og hvítum sykri, sem eru góðir hitagjafar en svipt öllum fjörefnum, steinefnum, grófefnum og lífefnum.

En þetta eru einmitt þær fæðutegundir, sem einna mest eru í hávegum hafðar hér á Íslandi. Er því skiljanlegt, að ekki sé von á góðu hér um heilsufar. Má um þetta segja, að hér séu sjúkdómar ræktaðir, líkt og gert væri það vitandi vits. Neyzla hinna efnasnauðu fæðutegunda leggur grundvöllinn. Og þegar þar við bætist óhófleg neyzla eggjahvítu, svo sem í kjötmat og fiski, mikil saltneyzla, auk skaðlegra nautna og annarra óhollra lifnaðarhátta, þá er ekki ofmælt, að beinlínis sé stefnt að ræktun hrörnunarsjúkdóma, þar á meðal krabbameins.

Afleiðingin af ofangreindum lifnaðarháttum er m.a. sú, að í þörmum myndast ýlda og rotnun, sem berst með blóðinu um allan líkamann. Frumur hans geta ekki hrint frá sér úrgangsefnum, og þær gera að síðustu uppreisn, líkt og þegar kúguð stétt rís upp gegn ánauð og harðstjórn. Nokkrar þeirra tryllast, ef svo mætti segja, brjóta af sér öll bönd og taka að vaxa og skipta sér hömlulaust og mynda þannig ofvöxt þann, sem kallað er krabbamein.

Heilbrigði er samræmi og samstarf allra fruma, sem byggja líkamann. Allar frumur vinna í þágu lífheildarinnar í fullkomnu samræmi við það lögmál, sem sjálfur höfundur lífsins hefir sett. Svipað samræmi ríkir í alheimi, þar sem hnettirnir snúast hver um sína sól, sem veitir þeim ljós og yl. Guðdómurinn er það afl, sem heldur öllu í skorðum og samræmi. Hver lifandi vera er slík lífheild. Og takmark lífsins er framþróun, fullkomnun.

Sjúkdómar eru uppreisn og ósamræmi, sem endar með dauða, ef ekki er að gert. Það sem forsjón lífsins getur ekki notað í sínu framþróunarstarfi, það þurrkar hún út af taflborði lífsins. Sjúkdómar stafa af orsökum, sem unnt er að koma í veg fyrir, ef í tíma er gert og af fullum skilningi á tilveru og tilgang lífsins.

Sir Arbuthnot Lane er ekki myrkur í máli um orsakir krabbameins, sem hann telur stafa af ónáttúrlegum lífsháttum og umfram allt af ónáttúrlegri og dauðri fæðu. Skurðaðgerðir og aðrar venjulegar lækningaaðferðir geti aldrei bjargað mannkyninu frá yfirvofandi hrörnun, vegna þess að þær taki ekki til orsakanna. Auk þess dragi þær athyglina frá hinum réttu ráðum, en þau séu náttúrlegir og heilnæmir lifnaðarhættir í hvívetna. Það séu léleg vinnubrögð að gera skurði, þegar sjúkdómurinn hefir heltekið menn, eða að leita að sjúkdómi og sjúkdómseinkennum, en hirða ekki um orsakirnar. Slík leit er ráð óvitans.

Ennþá fæðumst vér óvitar og deyjum eivitar. En takmarkið á að vera að verða vitandi vits um alheim, og þó fyrst og fremst að þekkja sjálfan sig.

Þessi grein birtist í 2. tbl. Heilsuverndar 1953.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing