Frá alda öðli mun böðum og bökstrum í ýmsum myndum hafa verið beitt í lækningaskyni, bæði af læknum og leikmönnum. Gríski læknirinn Hippókrates, sem kallaður hefir verið “faðir læknisfræðinnar” og var uppi á 5. öld fyrir Krist, notaði hvorttveggja, og sama gerði Gallen, einn frægasti læknir Rómverja. Þýzku feðgarnir Hahn, sem báðir voru læknar og voru uppi á 18. öld, ráðlögðu sjúklingum með hitasótt kalda hörundsþvotta og kalda bakstra, og skyldu þeir drekka mikið vatn, og gekk það í öfuga átt við ráð annarra lækna á þeim tíma. Ennfremur beittu þeir köldum bökstrum eða böðum á einstaka líkamshluta eða líkamann allan í ýmsum öðrum sjúkdómum.
Priessnitz (1799-1851) var þýzkur bóndasonur og sjálfur bóndi. Hann veitti því eftirtekt, að dýr með lemstraða fætur, bæði tamin og villt, stóðu daglega í köldu vatni. Hann sá eldra fólk nota kalda bakstra á meidd húsdýr, og hann fékk tækifæri til að prófa þetta á sjálfum sér. Hann skýrði nágrönnum sínum og vinum frá reynslu sinni og leiðbeindi þeim, og brátt tóku fleiri að sækja til hans hjálp. Varð hann smámsaman eftirsóttur “baðlæknir”. Í fyrstu tók hann enga þóknun fyrir hjálp sína, og aldrei af fátæklingum. En brátt varð aðsókn að honum svo mikil, að hann gat ekki sinnt öðrum störfum og neyddist því til að taka á móti greiðslum í gjafaformi. Læknar litu hann óhýru auga og kærðu hann oftsinnis fyrir að stunda skottulækningar í atvinnuskyni. En með klókindum slapp hann alltaf við sektardóm, og vinsældir hans og hróður fóru sívaxandi. Hann fékk að lokum leyfi yfirvalda til að stunda baðlækningar, reisti baðstofnun og lagði þar mesta áherzlu á köld böð og bakstra.
Sebastian Kneipp (1821-1897) er sá maður, sem kunnastur hefir orðið fyrir baðlækningar. Við hann eru kennd lækningaböð, sem mjög eru útbreidd í Þýzkalandi og eiga vaxandi fylgi að fagna í nágrannalöndunum, en eru enn lítt þekkt á Norðurlöndum. Allar nuddkonur í Þýzkalandi læra þessar baðaðferðir, enda eru þær notaðar í fjölda sjúkrahúsa og hæla, m.a. í öryrkjahælum, og hvað snertir greiðslur sjúkrasamlaga eru þær jafnréttháar og nudd og önnur læknishjálp, sem heyrir undir svonefndar “orkulækningar”.
Kneipp var sonur fátæks vefara. Hugur hans stóð til æðra náms, en vegna fátæktar komst hann ekki í menntaskóla fyrr en um tvítugt. Hann var lengi heilsuveill, hafði blóðugan uppgang frá lungum árum saman og gat af þessum sökum ekki stundað námið sem skyldi. Vetur einn hugsar hann með sér, að nú verði að duga eða drepast. Hann læðist einn morgun fyrir allar aldir út úr herbergi sínu, hleypur í spretti að stórfljóti drjúgan spöl í burtu, er heitur og sveittur, er þangað kemur, kastar af sér fötum og hendir sér út í ískalt vatnið. Handklæði hafði hann ekki, heldur strýkur af sér mesta vatnið og fer þannig í fötin og tekur sprettinn heim. Þegar þangað kemur, er hann orðinn þurr og funheitur og vellíðan í hverri taug. Þessum morguniðkunum heldur hann áfram, hvernig sem viðrar og án þess nokkur viti. Smámsaman verður hann var batamerkja á heilsu sinni og þrótti. Brjóstið hvelfist, hóstinn rénar, röddin styrkist. Um vorið varð hann efstur í skólanum.
Skólafélagi Kneipps og vinur var mjög heilsuveill, eins og hann sjálfur. Kneipp trúði honum fyrir morgungöngum sínum og taldi hann á að fylgjast með sér. Árangurinn varð hinn sami, að heilsa hans tók algerum stakkaskiptum á stuttum tíma. Þeir iðkuðu böð þessi í laumi, því að þeir töldu víst, að strangt bann yrði lagt við þeim, ef upp kæmist, þetta yrði talið nálgast sjálfsmorðstilraun. Þegar Kneipp gat ekki komið því við að fá sér bað í ánni, hellti hann yfir sig ísköldu vatni úr garðkönnu úti í garði.
Í þessu sambandi mætti benda á hliðstæða reynslu, sem eg hafði spurnir af fyrir um það bil 30 árum. Ung stúlka, sem var mjög kvefsækin, tók það til bragðs einn vetur að fara út í þvottahús, sem var í úthýsi, á hverjum morgni og sprauta þar yfir sig köldu vatni úr slöngu. Hún fékk aldrei kvef þann vetur.
Kneipp las guðfræði og varð kennari við klausturskóla í Wörishofen, bæ skammt fyrir vestan München, um miðja 19. öld. Þá fór hann ekki lengur dult með árangurinn af morgunböðum sínum, og nágrannar tóku að sækja til hans ráð og koma til hans í böð. Hann gerði þvottahús klaustursins að einskonar baðhúsi og breytti böðunum á ýmsa lund eftir eðli sjúkdómsins og ástandi sjúklinganna. Aðsókn fór vaxandi ár frá ári, líkt og hjá fyrirrennara hans, Priessnitz. Árið 1880 varð Kneipp sóknarprestur í Wörishofen en stundaði eftir sem áður baðlækningar sínar. Og árið 1890 var reist þar sérstakt baðhús með fataklefum og biðstofu.
Hróður Kneipps barst víða, og komu sjúklingar til hans hvaðanæva. Læknar höfðu margir mjög horn í síðu hans og ofsóttu hann á alla lund, en gátu aldrei klekkt á honum. Og margir frjálslyndir læknar sóttu baðstofnun hans til að dvelja þar og læra aðferðir hans, sem þeir væntu sér mikils árangurs af. Og síðustu árin störfuðu lærðir læknar hjá honum sem einskonar yfirlæknar, m.a. til þess að firra hann óþægindum af hendi læknastéttarinnar.
Kneipp batt sig ekki við böðin ein í lækningastarfi sínu. Hann gerði sér ljósa grein fyrir þýðingu heilnæmra lifnaðarhátta til þess að bæta bilaða heilsu og til að vernda heilbrigðina. Sérstaka áherzlu lagði hann á heilnæmt mataræði, og gengu ráð hans þar mjög í sömu átt og náttúrulæknar kenna. M.a. brýndi hann fyrir fólki notkun heilnæmra drykkjarjurta. Þá tók hann upp notkun jurta eða jurtaseyðis saman við baðvatnið.
Kneipp flutti daglega erindi í Wörishofen fyrir sjúklinga sína og aðra áheyrendur, og fjölluðu þau aðallega um heilnæmt líferni. Hann varð einnig eftirsóttur fyrirlesari utan átthaganna, og flutti hann marga fyrirlestra víðsvegar um Þýzkaland og einnig erlendis, enda sóttu til hans margir erlendir sjúklingar.
Kneipp tók aldrei greiðslu af fátæklingum. En frá öðrum runnu til hans miklar tekjur, sem hann notaði þó ekki í auðgunarskyni, heldur gaf hann þær til mannúðarstarfsemi og dó sjálfur fátækur.
Kneipp notaði í fyrstu aðeins köld böð, eins og Priessnitz hafði gert. En eigin reynsla hafði þegar fært honum heim sanninn um, að bezt var að vera heitur eða sveittur, þegar böðin voru tekin. Og hann sannfærðist brátt um, að þetta var blátt áfram skilyrði fyrir árangri af böðunum og að jafnvel gat hlotizt af því heilsutjón að fara kaldur í kalt bað. Hann tók því upp heit böð, aðallega sem inngang að kalda baðinu, og urðu oft úr því svonefnd víxlböð.
Til þess að gefa lesandanum nokkra hugmynd um það, í hverju Kneipp-böðin eru fólgin, verður nokkrum þeirra lýst stuttlega. Böðin geta verið heit eða köld. En með því að kalt bað kemur því aðeins að tilætluðum notum, að viðkomandi líkamshluti sé heitur, er heitt bað oftast látið fara á undan því kalda.
Fótabað
Við það eru notaðar sporöskjulagaðar fötur eða stampar, sem standa á gólfi og eru fylltir með eins heitu vatni og sjúklingarnir þola með góðu móti. Sjúklingurinn sezt á stól, setur báða fætur niður í stampinn, sem er það djúpur, að vatnið nær upp undir hnésbætur. Eftir 5 mínútur flytur hann fæturna yfir í annan samskonar stamp með köldu vatni í, en staðnæmist þar aðeins 5-10 sekúndur. Venjulega fer hann aftur yfir í heita vatnið í aðrar 5 mínútur og að lokum 5 sekúndur í það kalda. Þetta er kallað víxlfótabað.
Þetta bað er talið gefa góða raun í fótkulda, höfuðverk, háum blóðþrýstingi, blóðrásartruflunum, svefnleysi o.fl.
Armbað
Þá er báðum handleggjum stungið niður í grunnan stamp, og á vatnið að ná upp á miðjan upphandlegg. Eftir 5 mínútur er farið í kalt vatn í 5-10 sekúndur. Þá er heita og kalda baðið endurtekið á sama hátt og við fótabaðið.
Þetta bað er notað m.a. í handkulda, handardofa, háum blóðþrýstingi og við verkjum í sambandi við kransæðaþrengsli.
Setbað
Við það þarf helzt að hafa sérstakt setbaðker. Sjúklingurinn situr í því, með fætur á gólfi, og vatnið nær frá miðju læri upp að nafla. Að öðru leyti er tilhögun hin sama og við fóta- og armböð.
Setböð eru talin góð við tregum hægðum, innýflasigi, uppþembu, offitu o.fl.
Kerlaugar
Þeim er hagað með ýmsu móti. Margir þola ekki að liggja með allan líkamann í volgu eða heitu vatni. Þeir fá þá “hálfa kerlaug”, sitja uppi í baðkerinu, og vatnið nær aðeins upp fyrir mitti. Vatnið er misheitt, eftir ástandi sjúklingsins, og stundum er vatnið smáhitað, meðan á baðinu stendur. Oftast lýkur baðinu með því, að sprautað er yfir sjúklinginn köldu vatni.
Volgar kerlaugar reynast vel við svefnleysi, taugaveiklun o.fl. Heitar kerlaugar eru mikið notaðar í gigtsjúkdómum, nýrnasjúkdómum, húðsjúkdómum o.fl.
Yfirhellingar
Þær eru í því fólgnar, að vatn er látið renna hægt úr slöngu yfir vissa líkamshluta, t.d. yfir fætur og fótleggi upp að hnjám, eða upp að mitti, yfir hendur og handleggi, yfir bak og brjóst, yfir andlit, augu eða eyru, fyrst venjulega eins heitt og sjúklingurinn þolir, og kalt vatn á eftir. Stundum er hinsvegar sprautað á sjúklingana sterkri vatnsbunu gegnum þröngan stút, sem fest er á enda slöngunnar, og þykir þessi meðferð sérstaklega hressandi og styrkjandi, en hana þola ekki allir.
Gufuböð eru víða notuð, ýmist á einstaka líkamshluta eða líkamann allan. Finnsk böð þekktust ekki í Þýzkalandi á dögum Kneipps en eiga þar nú vaxandi vinsældum að fagna.
Bakstrar allskonar hafa verið og eru enn mjög mikið notaðir, ýmist heitir eða kaldir vatnsbakstrar; en til bakstra eru mörg önnur efni notuð, svo sem ýmiskonar leir, hey, kartöflur o.fl.
Jurtaseyði í baðvatn
Kneipp blandaði oft seyði af jurtum saman við baðvatnið og taldi með því hægt að ná margvíslegum áhrifum á líkama og lífsstörf gegnum húð og taugakerfi. Slík seyði eða jurtaþykkni (extract), sem úr þeim eru unnin, eru nú notuð mjög í öllum baðstofnunum. Sem dæmi eru þessar jurtir: Kamilla (gott í eksemi), baldrian (róandi), furunálar (örva efnaskipti, slímlosandi), eikarbörkur (í vessandi útbrotum, kýlum), hveitihýði (eksem, psoriasis, gelgjubólur). Í heitar kerlaugar er oft blandað mómylsnu, þannig að úr verður hálfgerður grautur. Er mórinn talinn hafa læknandi eiginleika. Hveraleir er yfirleitt ekki notaður til baða, einsog gert er í Heilsuhæli NLFÍ, heldur aðallega í bakstra. Til eru og fleiri tegundir af leir, sem notaður er í kalda eða heita bakstra.
Áhrif baða
Með hverjum hætti verka böð og bakstrar á líkamann, mun nú lesandinn spyrja. Og eru áhrif þessara lækningaaðferða raunveruleg, en ekki eintóm ímyndun? Við skulum svara síðari spurningunni fyrst.
Enda þótt fá einstök dæmi séu ekki talin hafa vísindalegt sönnunargildi, vil eg nefna hér tvö slík. Kneipp sjálfur læknaði sig af langvinnum lungnasjúkdómi, sennilega berklum, með ísköldum böðum, eins og frá er skýrt í síðasta hefti. Og dr. von Weckbecker, sem undirritaður vann hjá árlangt í hæli hans í Brückenau í Þýzkalandi, var orðinn gjörbilaður á heilsu sem ungur læknir. Hann var með magasár, nýrnabólgur, nýrnasteina og nýrnablæðingar, vöðvagigt og liðagigt, var síkvefaður og að því kominn að leggja árar í bát og hætta við læknisstarfið. Að áeggjun vinar síns og stéttarbróður gekk hann í Kneipp-böð í baðstofnun einni um nokkurra vikna skeið, þótt hann hefði enga trú á þeim aðferðum og liti á þær sem hverjar aðrar skottulækningar. Fyrstu dagana leið honum verr en nokkru sinni fyrr, en það út af fyrir sig sýndi honum, að böðin höfðu einhver áhrif. En svo kom batinn smátt og smátt, án þess hann breytti í nokkru lifnaðarháttum sínum að öðru leyti, þannig að varla gat um annað verið að ræða en áhrif frá böðunum. Upp úr þessu tók hann að kynna sér náttúrulækningastefnuna, gjörbreytti mataræði sínu og lífsháttum og hefir síðan verið sem nýr maður.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 1958 2-4. tbl.