Ávarp Jónasar Kristjánssonar læknis

Forráðamenn Náttúrulækningafélags Íslands hafa lengi haft í hyggju að gefa út tímarit, þótt ýmsar ástæður hafi tafið fyrir því, að úr því gæti orðið. Nauðsyn þess er brýnni nú en nokkru sinni fyrr, þar eð ókleift er að ná til félagsmanna með fundum eða strjálli bókaútgáfu.

Tímaritið HEILSUVERND, sem nú hefur göngu sína, á því að verða einskonar tengiliður á milli forráðamanna félagsins og annarra félagsmanna og á milli þeirra sjálfra innbyrðis. Og ennfremur er því ætlað að ná til sem flestra, sem utan vébanda þess standa.

Rit þetta á, eins og bækur félagsins, að fræða lesendur um það, sem vér vitum sannast og réttast í heilbrigðismálunum. Það mun skýra frá ýmsum nýjungum og niðurstöðum vísindanna, og ennfremur frá reynslu sjúklinga og annarra manna.
Það mun auk þess flytja ýmsar fréttir af starfi félagsins og úr daglegu lífi. Það mun ekki fara með ófrið á hendur neinum, en hinsvegar mun það með festu og alvöru vara við ýmsu því, sem aflaga fer eða stefnir í öfuga átt við viðleitni vora.

Meðal menningarþjóðanna er fullkomin heilbrigði sjaldgæf. Flestir þurfa á lækni að halda meira og minna, og þeir fáu, sem komast af án læknishjálpar og telja sig heilsugóða, eru í raun og veru langt frá því marki að vera alheilbrigðir, eins og bezt má verða, og njóta þeirrar vellíðanar og lífsgleði, sem fullkomin heilbrigði ein veitir.

Náttúrulækningastefnan lítur svo á, að forsjón lífsins ætlist til þess, að allir séu heilbrigðir, og að hún hafi lagt oss í hendur allt það, sem til þess þarf. Flestir sjúkdómar stafi af því, að vér brjótum lögmál þau eða skilyrði, sem fullkomin heilbrigði er háð. Öllum vel menntuðum manneldisfræðingum kemur saman um, að mesti fjöldi sjúkdóma stafi af orsökum, sem unnt væri að koma í veg fyrir og umflýja, ef að því væri gengið. Vér megum ekki gera oss ánægða með þá heilsu og heilsuvernd, sem falin er í sífelldum aðgerðum, viðgerðum á tönnum, sárum í maga, botnlangaskurðum, skjaldkirtilskurðum, insúlínsprautum við sykursýki, járnmeðulum o.s.frv.
Mönnum er í lófa lagið að lifa við fullkomna heilbrigði án lyfja eða læknisaðgerða. Náttúrulækningastefnan vill kenna mönnum þessa list, sem er ákaflega auðlærð og einföld. Oss náttúrulækningamönnum er iðulega borið það á brýn, að starf vort sé trúboð. Þetta er sannara en þeir vita, er svo mæla.

Náttúrulækningastefnan, eins og ég lít á hana, boðar trú á lífið og heilbrigðina, á andlega og líkamlega heilbrigði, jafnvægi og lífsgleði, en afneitar trúnni á sjúkdómana. Og ég trúi því, að þar sem ríkir friður og samræmi og heilbrigði, þar séu guðs vegir. Til þess að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag, þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna. Undirstaða heilbrigðinnar eru réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla. En heilsurækt og heilsuvernd þarf að byrja, áður en til sjúkdóms kemur, áður en menn verða veikir. Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt, allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa. Og takmark allra þarf að vera það, að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í.

HEILSUVERND vill eiga vinsamlegt samstarf við allar mæður og húsmæður og mun leitast við að veita þeim sem réttasta og hagnýtasta fræðslu um allt það, sem lýtur að varðveizlu heilsunnar og eflingu hennar.

HEILSUVERND óskar þess að verða góður og velkominn gestur á hverju heimili. Markmið hennar er að kenna mönnum að verða sinnar eigin heilsu og hamingju smiðir.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi