Ávarp Gunnlaugs K. Jónssonar


ÁVARP GUNNLAUGS K. JÓNSSONAR FORSETA NLFÍ, FLUTT VIÐ UPPHAF RÁÐSTEFNU UM HEILSU OG HEILBRIGÐA LÍFSHÆTTI Á SAUÐÁRKRÓKI 12. JÚLÍ 1997

Heilbrigðisráðherra, bæjarstjóri, ágætu fyrirlesarar, góðir gestir.

Þegar ráðstefna sú sem hér er að hefjast var fyrst kynnt fjölmiðlum í síðasta mánuði, kom fram nokkur taugatitringur þar sem fjölmiðlar héldu samspili hefðbundnra og óhefðbundnra lækninga á lofti í tengslum við ráðstefnuna. 

Almenningur, eins og ýmsir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar, virðast setja samasemmerki við óhefðbundnar lækningar og vægast sagt mjög vafasamar tilraunir manna sem beita alls konar kukli og skottulækninngum án minnstu kunnáttu og oft einungis í því skyni að gera sér trúgirni og neyð almennings að féþúfu.

Þegar talað er um hefðbundnar lækningar þá er yfirleitt átt við þau fræði sem kennd eru í hefðbundnu læknanámi, en samkvæmt því eru allar leiðir eða aðferðir sem iðkaðar eru til að bæta heilsu manna og ekki eru kenndar í háskólalæknisfræðinni, óhefðbundnar. Allir hugsandi menn sjá hvað þessi skilgreining, hefðbundið og óhefðbundið, er óheppileg en hún hefur lengi haft það eitt í för með sér, að skipa mönnum í fylkingar, alið á tortryggni og fordómum, og þannig komið í veg fyrir heiðarlegar og skynsamlegar umræður um þessi mál. Á ráðstefnu sem ég sótti á síðasta ári í Bandaríkjunum, þar sem m.a. var fjallað um framtíðarsýn í heilbrigðismálum, sagði virtur prófessor frá John Hopkins háskólanum í Baltimoore, að ólíklegustu menn breyttust í hálfgerða púka þegar minnst væri á óhefðbundnar lækningar, færðu sig út í horn og berðu frá sér eins og óðir menn.

Náttúrulækningar eiga ekkert skylt við þá skoðun sem meirihluti landsmanna virðist hafa á óhefðbundnum lækningum. Náttúrulækningafélag Íslands viðurkennir fullkomlega hefðbundna læknisfræði en telur hana of einhæfa sjúkdómafræði og vill bæta við hana fyrirbyggjandi aðferðum heilbrigðra lífshátta. Félagið viðurkennir og gildi lyfja en telur heilbrigða lífshætti draga mjög úr lyfjaþörf.

Félagið hefur ætíð staðið föstum fótum í vísindum hvers tíma og aldrei mælt með neinum töfralækningum og forðast kennisetninngar sem ekki standast vísindalega gagnrýni.

Heilsa og heilbrigðir lífshættir hefur ætíð verið megininntak náttúrulækningastefnunnar og er því mjög við hæfi, þegar 60 ár eru liðin frá stofnun NLFÍ, að haldin sé vönduð og vegleg ráðstefna hér á Sauðárkróki í tengslum við afmælisár bæjarins. Viðfangsefni ráðstefnunnar er óhefðbundið, ef svo má að orði komast, þ.e. hvort þjóðin geti með heilbrigðari lífsháttum dregið úr sívaxandi kostnaði við heilbrigðiskerfi okkar, m.a. á þann hátt að höfða til ábyrgðar einstaklingsins á eigin heilsu og nauðsyn þess að heilbrigði verði ríkari þáttur í orðum og athöfnum starfsmanna heilbrigðiskerfisins og alls almennings.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka frumkvæði og framsýni Sauðárkróksbæjar og heilbrigðisráðuneytisins í tengslum við ráðstefnuna.
Þá vil ég þakka Sjúkrahúsi Skagfirðinga þeirra þáttt í undirbúningnum þ.m.t., heilsugæslunni.

Væntingar NLFÍ til þessarar ráðstefnu eru miklar og vonandi höfum við þá gæfu til að bera, að fara skynsömustu leiðina í heilbrigðismálum þjóðarinnar í framtíðinni.

Ekki verður lengur undan því vikist að taka afstöðu til heilbrigðismála á grundvelli þeirra kenninga sem Jónas Kristjánsson læknir boðaði fyrst fyrir meira en 80 árum síðan hér á Sauðárkróki þar sem NLFÍ var stofnað 5. júlí 1937 að Hótel Mælifelli. Ella stöndum við eftir sem nátttröll og nýtum ekki þá einu aðferð sem dugar til að draga úr kostnaði við heilbrigðiskerfið, þ.e. að auka heilbrigði þjóðarinnar með breyttum lífsháttum.

Af þessu tilefni vil ég flytja hér stuttan kafla úr ávarpi Jónasar sem birtist í fyrsta hefti Heilsuverndar, tímarits NLFÍ, árið 1946.

„“Meðal menningarþjóðanna er fullkomin heilbrigði sjaldgæf. Flestir þurfa á lækni að halda meira og minna, og þeir fáu, sem komast af án læknishjálpar og telja sig heilsugóða, eru í raun og veru langt frá því marki að vera alheilbrigðir…
Náttúrulækningastefnan lítur svo á, að flestir sjúkdómar stafi af því, að vér brjótum lögmál þau eða skilyrði, sem fullkomnu heilbrigði er háð. Náttúruvísindi framtíðarinnar eiga án nokkurs vafa, eftir að sýna fram á þessa staðhæfingu þegar vísindamönnum þjóðanna ber sú gæfa til, að leita orsaka sjúkdóma í stað þess að huga nær eingöngu að meinunum sjálfum.
Oss náttúrulækningamönnum er iðjulega borið það á brýn, að starf vort sé trúboð. Þetta er sannra en þeir vita, er svo mæla. Náttúrulækningastefnan, eins og ég lít á hana, boðar trú á lífið og heilbrigðina, á andlega og líkamlega heilbrigði, jafnvægi og lífsgleði, en afneitar trúnni á sjúkdómana. Og ég trúi því, að þar sem ríkir friður og samræmi og heilbrigði, þar séu guðs vegir.
Til þess að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag, þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna. Undirstaða heilbrigðinnar er réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla. En heilsurækt og heilsuvernd þarf að byrja, áður en menn verða veikir. Æsku landsins á að uppfræða um lögmál heilbrigðs lífs. Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt, allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa. Og takmark allra þarf að vera það, að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í„.” 

NLFÍ naut þess á sínum tíma að eiga sitt eigið hirðskáld, Gretar Fells, sem oft pirraði ákveðna starfstétt hér á landi í kveðskap sínum sem oft var tileinkaður Jónasi. Að lokum ætla ég að flytja hér stuttan brag sem hann orti til Jónasar á fimmta áratug aldarinnar en þá var loftið oft lævi blandið og skeytin flugu á milli manna.

ÁFRAM HALTU Í ÆSKUMÓÐ
ENN AÐ TALA OG SKRIFA.
KVEIKTU Í OKKAR KÖLDU ÞJÓÐ.
KENNDU HENNI AÐ LIFA.
MEGI RÆTAST DRAUMUR ÞINN UM FRÍSKA MENN OG FRÆKNA.
KENNDU OSS AÐ KOMAST AF,-ÁN LÆKNA

Verka Jónasar Kristjánssonar mun lengi gæta í íslensku samfélagi og virðing fyrir starfi hans vaxa. Sá tími mun koma að hans verður minnst að verðleikuum.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi