Ást í teinum – Á reiðhjóli í gegnum lífið

Það jaðrar við geðbilun að vera að lýsa væntumþykju og sambandi við reiðhjól. En ég vona að þessi pistill fái lesendur til að átta sig á ástríðunni og tilfinningunum sem geta fylgt hjólreiðum miðaldra karlmanns.

Frá því að ég man eftir mér hef ég átt reiðhjól og verið hjólandi. Þau eru ófá hjólin sem ég hef átt og mörg hafa verið mér mjög kær. Ég man vel eftir DBS hjólinu mínu í gamla daga sem vinir mínir kölluðu Druslan-Bundin-Saman, Chopper hjólinu sem er flottasta hjól sem ég hef átt,  Raleigh racerinn sem var einn af fáum racerunum í Hafnarfirði, Muddy Fox hjólið sem ég flutti með til Bornemouth á Englandi þar og var stolið eftir nokkra daga þar og græna Klein hjólið sem ég flutti með mér til Danmerkur í nám og var minn aðalferðamáti á strætum Kaupmannahafnar í fjögur ár.
Ef pabbi minn hefði fengið að ráða þá hefði hann tekið af mér hjóla“skírteinið“ 6 ára því þá hjólaði ég fyrir pabba minn á fleygiferð niður brekku, en pabbi minn var skólabílstjóri í Hafnarfirði og var að keyra krakka í sund á Herjólfsgötu. Það mátti engu muna að ég hefði endað undir/á rútinni. Fyrirgefðu glannaskapinn pabbi, því ég hef aldrei viljað hugsa þá hugsun til enda að þú hefðir keyrt yfir mig þennan dag.

Chooper hjól eins og ég átti í gamla daga

Fá hjól hef ég notað jafnmikið og verið mér jafnkær og rauða Cube hjólið mitt sem ég kalla Rauðku. Þetta hjól er cyclocross (hægt að nota utanvega og einnig til að fara hratt á malbiki) og keypt árið 2016 í Þýskalandi. Rauðka er ólöglegur innflytjandi á Íslandi því vinur minn sem býr í Þýskalandi flutti það til Íslands í farangri sínum.

Fyrstu árin var notkunin og „sambandið“ lítið því ég var að nota annað hjól. En sambandið tók að þróast og er að nú á alvarlegu stigi og líður í dag varla sá dagur að við séum ekki saman í stígum Höfuðborgarsvæðisins. Þetta er minn aðalferðamáti og æfingatæki.

Vá hvað það er mikið frelsi að hjóla á Rauðku, við höfum oft skellihlegið saman að allri bílaumferðinni og þakkað okkar sæla að fá að njóta útiveru og hreyfingar í stað þess að silast áfram þreyttur og pirraður í umferðarteppu á bíldruslu.

En það er líka oft streð að hjóla á Íslandi og við höfum upplifað virkilega slæmt veður með hávaðaroki,ausandi rigningu, snjókomu og skítakulda. Vindurinn hefur stundum verið  svo mikill að við höfum varla komist áfram. Einnig er það kaldhæðið að maður hefur hlakkað til að njóta meðbyrs á leið heim úr vinnu eftir að hafa barist við mótvind til vinnu, en nei í lok dags var vindáttin kominn í andlitið aftur!
Allur snjórinn sem við höfum farið í gegnum og stundum höfum við verið svo snemma á ferðinni að hjólastígar hafa ekki verið skafnir og höfum því þurft að vaða snjóinn og þú á öxlum Rauðka. Kuldinn hefur líka oft bitið og man ég eftir 20 stiga frost í Elliðaárdal fyrir nokkrum árum, þá þurfi þrjú pör af vettlingum til að halda hita á höndum.

Barningurinn við veðrið er bara skemmtilegur þó hann taki á, það skapar bara góðar minningar. Og minningarnar á Rauðku minni eru ótrúlega margar á þessum 9 árum af sambandi okkar. Skemmtilegast er að reyna að halda í við rafmagnsreiðhjólin upp brekkur og vá hvað lungun svíða og lærin brenna eftir svoleiðis puð. Öll þessi rafmagnsreiðhjól hafa aldeilis aukið form mitt undanfarin ár, því það er ekkert grín að halda í við þau.

Við Rauðka höfum ekki farið í margar hjólreiðakeppnir en ég man vel eftir Gullhringum hjólreiðakeppninni sem haldin var á Laugarvatni fyrir nokkrum árum. Ég og Rauðka vildum frekar vera tvö saman á götum Bláskógabyggðar en í einhverju pelotoni (hóp hjólreiðamanna sem vinna saman). Þetta leit fyrst vel út þegar við rukum fram úr pelotoninu en kostaði okkur reyndar mikið puð (eins og svo oft áður, en okkur leiðist það ekki) og allt pelotonið var komið í bakið á okkur rétt við marklínuna.

Einhvers staðar segir að „lífið sé brekkur upp og niður“ og það á klárlega líka við samband mitt við Rauðku því ferðinar upp brekkurnar eru margar s.s. Vífílstaðahlíðin Nesjavallabrekkan, Vatnsskarðið, Vaðlaheiðin, Þverbrekkan, og Kambarnir þegar við hjóluðum heim úr Hveragerði. Í öllum þessum „Helvítis“brekkum hef ég oft blótað og látið öllum illum látum en Rauðka hefur fyrirgefið mér það því ég hef líka oft sungið á hjólinu á fleygiferð og í feiknastuði.

Ég og Rauðka sátt eftir að hafa hjólað til Hveragerðis frá Kópavogi

Rauðka mín, þú verður að fyrirgefa en stundum hef ég farið of geyst og ógætilega. Ég á það til að vera full fífldrafur og viðurkenni að stundum hefði mátt fara aðeins hægar yfir. Ef þú hefðir rödd Rauðka þá mundir þú segja mér að það þurfi ekki alltaf að gefa 110% í hvern snúning á hjólinu.

Hálkan hefur oft verið að stríða okkur og eitt haustið gleymdi að ég kaupa nýja skó (dekk) á þig Rauðka mín og við flugum á hausinn í hálkublett, þú rispuð og löskuð eftir misnotkunina. Við höfum flogið nokkrum sinnum á hausinn í hálku og þú Rauðka mín ert með þín ör eftir það og einnig ég og ófáar flíkur hafa orðið malbiki að bráð. Þrátt fyrir þessa misnotkun er Rauðka alltaf klár í enn einn hjólatúrinn.

Með engum hef ég upplifað mig eins nærri dauðanum eða  við alvarlega örkumlun og með þér Rauðka mín. Ég man vel eftir þremur skiptum þar sem bara hefur munað hársbreitt að við værum keyrð niður af bílnum sem sáu okkur ekki (þrátt fyrir ljós og endurskin). Svakalegast var það á gatnamótum Þverbrekku og Nýbýlavegar fyrir nokkrum árum þegar við vorum komin á mjög góðan hraða niður Þverbrekkuna og bíll svínaði á okkur og þar munaði einhverjum millmetrum að við hefðum lent á bílnum. Ég veit ekki enn hvernig við sluppum frá þessum, yfir okkur vaka líklega einhverjir verndarenglar (á hjólum). Þó er það draumur minn að látast á reiðhjóli, ekki slysi heldur bara í góðum sunnudagstúr á gamals aldri og síðasti andardrátturinn verði hjólandi, þó ekki þannig að ég skaði einhvern.

Reiðhjól eru alltaf að verða betri í hönnum og sífellt koma nýjar og endurbættar gerðir. Ég veit að Rauðka var ekki sátt við það en ég keypti mér nýtt Cube cyclocross hjól fyrir 2 árum en það er ekki sami fílingurinn á því og Rauðku minni. Það er einhvern strengur milli mín og Rauðku sem ekki er hægt að lýsa með orðum.
Þú ert farin að eldast eins og ég, Rauðka mín!  Gírarnir slappir, tannhjól að fram og aftan illa farin, legurnar í sveifunum farnar að gefa sig, vinstri bremsan orðin slöpp og teinarnir í gjörðunum farnir að gefa sig (eftir allan saltausturinn á hjólastígana). Ég hef oft hugsað það ef einhver mundi dirfast til að stela þér þá yrði sá hinn sami fljót/ur að henda þér í næstu skurð því þú er með ýmsa dynti eins og t.d. trikkið sem þarf á þig til að skipta milli litla og stóra tannhjólsins að framan og kúnstinni sem þarf að beita á bremsunar svo þær virki að viti.

Því miður veit ég að endalok sambands  okkar Rauðku eru að nálgast því kostnaðurinn við fegrunaraðgerðir hennar eru einfaldlega orðnar of miklar (ég veit að þú vilt segja það sama um mig en því miður hefur þú ekki rödd).
En því get ég lofað þér Raukða mín að þú verður alltaf í huga mér í hjólatúrunum og það mun enginn fylla þitt hjólafar. Og ég lofa þér að ég mun aldrei fá mér eitthvað „fancy“ og fulldempað rafmagnshjól.

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Hugað að heilsunni um jólin

Jólahugvekja – Kerti og spil

Gervilíf