Áramótaheit fyrir stressaða þjóð

Þá hefur enn eitt árið kvatt okkur og nýtt ár tekið við. Í upphafi árs eru margir með fögur fyrirheit um að efla heilsu sína á nýju ári. Nú eru 12 dagar liðnir af nýja árinu og sum fyrirheitin sem voru sett fyrir nokkrum dögum eru jafnvel farin að dala aðeins.
Nútímamaðurinn lifir í mjög óheilsusamlegu borgarsamfélagi þar sem mikið er um óhollan  og mikið unninn mat, hreyfingarleysi er mikið, streita er geigvænleg og svefnleysi er algengara en lægðir að hausti.
Það sem er einnig að kála nútímamanninum er streitan vegna álags í vinnu og heimavið, sítengingar á miðlum og miklar kröfur sem nútímasamfélag leggur á okkur. Til að komast yfir allt þetta notar nútímamaðurinn mikið af koffíni/nikótíni yfir daginn, nærist á óhollri skyndifæðu og kemur ekki hreyfingu fyrir í plani dagsins.

Fyrir nokkrum árum var skrifaður hér pistill um óvenjuleg áramótaheit og þessi pistill er á svipuðum nótum og við þurfum að fara að setja okkur markmið til að minnka stressið.  Við þurfum að fara að horfa inn á við og efla hið andlega en ekki bara hið líkamlega eins og oft er gert í byrjun árs. Ef við erum sterkari andlega eru meiri líkur á því að hin markmiðin með bætta heilsu muni nást.

Leikum okkur meira
Þó að við séum  öll að eldast þurfum við ekki að hætta að leika okkur og hafa gaman. Leikirnir breytast kannski aðeins og það er aðeins farið að hægjast á okkur en það mikilvægt fyrir okkur mannverunar að leika okkur alla ævi. Förum t.d. út að búa til snjókarl, rennum okkur á snjóþotum og förum í snjókast við börnin og barnabörnin. Þetta styrkir fjölskylduböndin og bætir líkamlega og andlega heilsu þína um leið.

Kaupum minna af ónauðsynjum
Við erum að drekkja okkur í alls kyns drasli sem við teljum okkur þurfa. Allar geymslur og bílskúrar eru fullir af dóti sem við erum að safna að okkur. Eitt er víst að plássið í líkkistunni er ekki nóg til að koma öllu þessu fyrir eftir okkar daga.
Förum að endurnýta meira það sem við eigum, gerum við hluti, breytum hlutunum  s.s. með því að mála í stað þess að kaupa nýtt. Trúið mér að það mun ekki auka á hamingju ykkar að eiga nýasta Epal lampann sem allir á samfélagsmiðlum eru að auglýsa.
Kosturinn við að spara í innkaupum á allskyns dóti sem við eigum nú þegar nóg af er meira fé milli handanna, þú ert að stuðla að umhverfisvernd og getur loksins séð í gólfið á bílskúrnum.

Gerum góðverk án skilyrða
Máltækið segir „það er sælla að gefa en þyggja“ og það er mikið til í því. En gerum góðverkin  án þess að pósta því á samfélagsmiðlum eða búast við einhverju í staðinn.  Gerum þau ekki til að upphefja okkar sjálf heldur til að sýna náunganum kærleik, hjálpsemi og vinsemd.
Góðverkin þurfa ekki að vera stór, eitt lítið hrós er oft nóg til bjarga degi sumra.

Andaðu
Í stressi nútímans erum við alltof mikið að gleyma að anda „rétt“. Í streitu förum við að anda örar og grynnra. Prófaðu bara að taka 5 djúpar inn- og útandanir og finndu hvað það er stresslosandi. Þegar við finnum að streitan er að fara með okkur ættum við prófa að anda markvissara og það getur líka skilað sér almennt betri heilsu.
Buteyko öndun hefur sýnt sig virka vel til að vinna á streitu. Þú getur kynnt þér hana hér.

Minni „snjall“símanotkun
Mikið hefur verið ritað um þetta hér á vefnum hvað „snjallsímar“ eru að kála okkur líkamlega, andlega og félagslega. En það er minnka notkun símans og vera meira til staðar fyrir þig og þína er líklega eitt besta heilsumarkmið sem þú getur gert á árinu.

Finndu það sem veitir þér hamingju og stundaðu það
Leitaðu allra leiða til að finna leiðir að hamingjunni, því það er eini tilgangur þessa lífs að vera hamingjusamur/söm.  Við erum að týna hamingju okkar í endulausu lífsgæðakapphlaupi og neysluhyggju.

Minnkum koffínneyslu
Nútímamaðurinn drekkur ótæpilega í af koffíni í kaffi og orkudrykkjum. Óhófleg kaffidrykka er meira en  4 kaffibollar (200 ml með 100 mg koffín) á dag eða 400 mg af koffíni. Hættum að drekka kaffi  eftir kl.16 á daginn til þess að ná betri nætursvefni því hann er einn að grunnþáttum heilsueflingar.
Koffín er örvandi efni í líkamanum en það er ekki gott til langvarandi orku og of margir kaffibollar eða orkudrykkir í lok dags muni bara skila þér þreyttari þegar þú kemur loks heim.
Ekki þarf að taka fram hversu óholl koffínneyslu er fyrir unglinga sem eru að vaxa og þurfa góðan nætursvefn. Verum góðar fyrirmyndir fyrir börnin okkar og notum ekki orkudrykki.

Minnkaðu matarskammta og borðaðu í núvitund
Það er allt morandi í megrunarkúrum og sérstaklega núna í byrjun árs. Í stað þess að fara í strangan megrunarkúr minnkaðu matarskammtana og borðaðu líka í núvitund t.d. með því að tyggja hvern matarbita 10-15 sinnum og leggja frá þér hnífapörin milli bita. Við erum að neyta mjög margra máltíða yfir árið og ef við náum að minnka skammta í 80% tilfella þá erum við á góðri leið að breyta mataræðinu okkar.

Verum þákklát fyrir það sem við höfum
Í lok dags þegar við erum lögst til hvílu þá er gott ráð að þakka fyrir þrjá hluti í lífi okkar sem við erum stolt af eða ánægð með t.d. börnin okkar, ástríkt heimili,  góða vinnu, góða vini og heilsuna. Við erum alltof gjörn á horfa á það sem við höfum ekki í stað þess að þakka fyrir það sem við höfum.
Að enda daginn á þessari þakklætisstund aukast líkurnar á því að við fáum góðan nætursvefn og við eflum sjálfsstraust okkar og andlega heilsu.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing