Af sjónarhóli

Í bréfi, sem greininni fylgdi, segir höfundur m.a.: „Vitanlega fer ég að dauðskammast mín sjálfur, þegar ég neyðist til að horfast í augu við mína eigin vanrækslu, að ganga ekki betur fram í rækt minnar eigin heilsu og annarra. En eins og þú veizt, þá þreytir starfið við marga sjúklinga, sem sjaldnast vilja mikið á sig leggja vegna heilsunnar. Þolið og þrautseigjan bíða hnekki, þegar maður sér, að margir koma til þess að láta ganga undir sér ;ekki til þess að ganga sjálfir. Ég varaði mig lengi vel ekki á þessu og gekk undir fólki (því sjálfu til einskis gagns vitanlega), og þetta stal frá mér miklum tíma, sem betur hefði verið varið til annars. Ég er samt enginn pessímisti (bölsýnismaður), er bara að breytast í realista (raunsæismann), hef trú á, að nógu margir geti verið til með þjóðinni, til þess að lífsvenjubreyting geti orðið ekki snögglega, heldur með tímanum. Kvarnir sannleikans mala hægt“.

Tíu ár eru nú liðin, síðan ég réðist sem læknir að Heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði, þar sem ég starfaði til hausts 1960. Þá átti hælið við margskonar byrjunarörðugleika að etja, fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis, sem nú eru að baki. Síðan hefur þetta óskabarn margra, sem heilbrigði unna, vaxið og dafnað og orðið mörgum að liði.
Fróðlegt væri að staldra nú við og spyrja: Hvað líður meginmarkmiði Náttúrulækningafélags Íslands?

Já, hvað er meginmarkmið þess félagsskapar? Ætli við séum ekki flest samdóma í því efni, þ.e. að heilsurækt sé það, sem félagið var stofnað til að vinna að öðru fremur. Að vísu bendir nafnið til, að lækningar séu ríkur þáttur í starfseminni (ekki er talað um lækningar nema sjúkir eigi í hlut), en þrátt fyrir það vitum við, að það að fyrirbyggja sjúkdóma var hugsjón þeirra, sem gengu fremstir í flokki og hösluðu félaginu völl.
Við neyðumst til að viðurkenna, að við lifum á hugsjónasnauðri tíð, og kallast þó velgengnistímar með þjóðinni. Þeir sem trúðu því, að fræðsla um lögmál heilbrigðinnar nægði til að breyta lífsvenjum manna, hafa orðið að kyngja þeirri beizku vitneskju, að svo er ekki.
Dýrafræðilegt heiti mannsins er að vísu homo sapíens, sem útleggst hinn hugsandi maður. Raunin er sú, að hugsunin, sem hann er fær um, hafnar oft í háskalegri hefð og heimskulegum vana, ef tildursleg tízka nær þá ekki tökunum. Þetta er því miður svona, „og við því er ekkert að gera“!„ ˆ mundi margur bæta við.

Sem betur fer er ekki ástæða til slíkrar svartsýni. Það sem ýmsum virðist ómögulegt, hefur öðrum tekizt fyrir trú sína. Það er bara ekki nóg að vita hið rétta, það þarf líka eldlegan vilja til að vinna að framgangi þess; trú! Það er gömul vitneskja, að slík trú á oft heldur erfitt uppdráttar við kjötkatla efnislegrar velgengni, og þessvegna hættir velmeguninni til að fremja nokkurskonar sjálfsmorð. Forsjálni mannskepnunnar vill reynast mjög af skornum skammti, einkum þegar vel gengur. Faraó, sá er dreymdi draumana frægu, hlýtur að hafa verið óvenjulegur maður. Hver mundi nú nota sjö ára góðæri til að mæta sjö ára hallæri? Það dygði engin draumspeki til þess núna, varla einu sinni vísindaleg þekking á því, sem í vændum væri. Þessu til stuðnings má benda á viðbrögð manna við sönnunum fyrir því, að reykingar valda krabbameini og stuðla að sjúkdómum í hjarta og æðakerfi.

Skrítla, sem ég heyrði, fór nærri hinu sanna. Skömmu eftir að niðurstöður rannsókna á skaðsemi reykinga voru birtar, ætlaði maður nokkur, sem reykti mikið, að njóta morgunverðar síns. Kona hans var svo hugulsöm að leggja Morgunblaðið á matborðið. Þar voru á fremstu síðu birtar þessar ömurlegu niðurstöður, sem urðu til þess, að veslings maðurinn naut ekki matar síns og skundaði með þungar áhyggjur á rakarastofu. Rabbið í rakaranum var vant að vera svo róandi. En nú gat sá góði maður ekki fundið neitt til að tala um annað en niðurstöður þessarar nefndar. Ekki leið viðskiptavininum betur eftir þann lestur, og illa á sig kominn fór hann til skrifstofu sinnar. Það var eins og atvikin legðu hann í einelti. Lá þá ekki fjárans blaðið þar líka!
„Ég verð að taka þetta föstum tökum“! sagði hann einbeittur, þreif blaðið og rauk með það til forstjórans. „Hafið þér lesið þetta? Þetta blasir við manni, hvar sem maður fer! Það verður að gera eitthvað! Ég verð að gera eitthvað! sagði hann æstur“.

„Hvað ætlið þér að gera“?“ sagði forstjórinn.
– Það er augljóst, ég verð bara að hætta! Já, ég neyðist bara til að steinhætta!“
Nú?
– Já, sjáið þér ekki, þessi fjandi neyðir mann til að steinhætta að lesa blöðin!

Það er ónáttúra mannskepnunnar, sem er versta óargadýrið á leiðinni til betra lífs. Þekking er góð, en kemur ekki að liði, fyrr en óargadýr þetta hefur verið að velli lagt. Það geta þeir einir gert, sem hafa ekki aðeins þekkingu, heldur og kjark trúarinnar á það, að sannleikurinn hlýtur að sigra. Þörf nútímans er slíkir menn.

Við vitum orðið heilmikið um lögmál heilbrigðs lífs, og við vitum líka, að tækniþróunin veldur breytingum á lifnaðarháttum, sem líklegar eru til að valda versnandi heilsufari, ef ekki er markvisst að því unnið, að aðlaga menninguna, fella hana að kröfum náttúrunnar. Þó að maðurinn hafi undraverða hæfileika til aðlögunar að breyttum skilyrðum, vitum við nú, að sá hæfileiki er takmörkum háður. Það ástand nútímamanns, sem stress nefnist, er einmitt fólgið í því, að aðlögunarhæfni mannsins er ofboðið. Líkaminn gefst upp og veikist af ýmiskonar sjúkdómum, sem geta verið hvar sem er í honum. Eðlilegt viðnám brotnar niður, svo að allt, sem veldur sjúkdómi, á greiðan aðgang, þar sem náttúran hefur varnir fyrir, þegar allt er með felldu.

Það er hlutverk Náttúrulækningafélags Íslands að kynna þjóðinni þessar staðreyndir, og ekki aðeins að kynna þær, heldur og að vinna þeim fylgi. Slíkt verður ekki gert án áhuga félagsmanna sjálfra, sem helzt þurfa að vera lifandi dæmi um heilbrigði þess lífs, sem þeir lifa.  Verst, að áhugi manna á heilsunni vaknar oft ekki, fyrr en í óefni er komið!

Það er skoðun mín, að e.t.v. hafi félagsskapurinn einblínt um of á mikilvægi fæðunnar. Með þessu vil ég þó ekki kasta rýrð á neitt, sem sagt hefur verið um gildi lifandi fæðu. Ég held, að flest standist, sem sagt hefur verið í því efni, og vísindin eru nær að viðurkenna það nú en fyrir 10 árum. Betur fæ ég ekki séð. En það verður að varast að hampa einu atriði á kostnað hinna. Hlutverkið er að vinna að vaxandi heilbrigði þjóðarinnar, er það ekki? Þá skulum við gera það, og varast allt óþarfakarp um kenningar. Það ætti að vera okkur öllum deginum ljósara, hvar skórinn kreppist mest, hvar okkur eins og öðrum hættir mest til að bregðast. Okkur hættir nefnilega til að bregða við á sama hátt og maðurinn í skrítlunni. Við lokum augunum fyrir afleiðingum hins óheilnæma lífs, hættum að vilja sjá eða nennum því ekki lengur, í stað þess að hætta að lifa óheilnæmu lífi (að svo miklu leyti sem okkur er í sjálfsvald sett). Það er engin leið fyrir letingja til heilbrigðs lífs í nútíma þjóðfélagi.

Víða þarf að breyta gegn ríkjandi venjum og skapa nýjar, og það er vandi að gera, svo að vel fari. Sá sem í daglegu starfi horfist í augu við sjúkt fólk, sér margt, sem vafalaust hefur átt þátt í að brjóta niður eðlilegan viðnámsþrótt og opna sjúkdóminum leið:

1. Fæðinu er oftast mjög ábótavant.
2. Skortur á nægilegri hreyfingu í útilofti er geigvænlega almennur.
3. Óhæfilegar vökur eru algengar.  Fjöldi fólks kemur sér ekki í háttinn á sómasamlegum tíma.
4. Neyzla heilsuspillandi efna er algeng.
5. Röskun hefur orðið á eðlilegri skiptingu tímans milli þróttmikils starfs og hæfilegrar slökunar. Hvorugt er hollt: að væflast eins og marglitta allan daginn eða vinna eins og skepna án afláts (dýrin eru yfirleitt skynsamari en svo).
6. Síðast en ekki sízt: Rangar hugsanavenjur raska hæfni taugakerfisins til að stjórna starfsemi líffæranna með eðlilegum hætti. Slíkar vandræðavenjur skapast helzt hjá þeim, sem rækja engin áhugamál utan og ofan við sjálfa sig.

Þetta er það, sem í hugann kemur í fljótu bragði, ekki tæmandi skýrsla. Þó ekki væri fleira til tínt, væri íslenzkri heilsurækt ærið verkefni að ráða bót á þessu vandræðaástandi, sem ríkir í okkar eigin landi,  já, í okkar eigin lífi.

Maður, líttu þér nær!

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi