Yfirheyrslan – Felix Bergsson

Við hjá NLFÍ vorum svo heppin að fá að kynnast aðeins skemmtikraftinum, leikarnum, útvarpsmanninum og þúsundþjalasmiðnum Felixi Bergssyni í yfirheyrlsunni.

Fyrstu sex í kennitölu
010167

Fullt nafn
Felix Bergsson

Ertu með gælunafn?
Neibb

Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Ég er giftur honum Baldri mínum Þórhallssyni og við eigum tvö börn, Guðmund Felixson og Álfrúnu Perlu Baldursdóttur. Þau hafa fært okkur dásamleg tengdabörn og barnabörn. Við eigum gullfiska en lengra höfum við ekki komist í gæludýradeildinni.

Hvar ertu fæddur og uppalinn?
Ég er fæddur á Vesturgötunni í Reykjavík en ólst upp til 8 ára aldurs á Blönduósi. Síðan hef ég að langmestu leyti haldið mig í vesturbænum.

Núverandi búseta?
Á Starhaga í 107.

Menntun?
Ég er lærður leikari frá Skotlandi og London.

Atvinna?
Ja þegar stórt er spurt.. útvarpsmaður, sjónvarpsmaður, leikari, söngvari, rithöfundur, skemmtikraftur, stærri helmingurinn af Gunna og Felix, fararstjóri Íslands í Eurovision.. já og örugglega eitthvað annað sem ég man ekki eftir… Ég er freelance og elska það.

Hvenær byrjaðir þú í leiklistar- og fjölmiðlabransanum?
Ég hóf störf í leikhúsi sem barn og lék í Þjóðleikhúsinu fyrst árið 1979 í barnaleikriti sem heitir Krukkuborg. Næsta stóra skref var sjálfsagt þegar ég tók upp míkrafóninn fyrir Greifana árið 1986.

Hver voru þín fyrstu skerf í sem leikari?
Það var þarna í Þjóðleikhúsinu 1979 þegar ég lék aðalhlutverk í þessu flotta barnaleikriti eftir Odd Björnsson með mörgum ef helstu leikurum þjóðarinnar.

Hver er besti leikari allra tíma að þínu mati?
Úff það er svo afstætt. Margir frábærir. Ég er mikill aðdáandi breska leikarans Derek Jacobi. Mér finnst líka Kristbjörg Kjeld einhver magnaðasti leikari sem heimurinn hefur séð.

Hefur þú tölu á þeim leikverkum sem þú hefur tekið þátt í?
Já þau losa eitthvað um 50. En ég hef ekki verið virkur í leikhúsi síðari ár því miður. Ég sakna þess mikið.

Hefur þú tölu á fjölda útvarpsþátta sem þú sem þú hefur verið með?
Úff nei! Hef ekki hugmynd!

Hvaða íþróttir hefur þú stundað?

Ég spilaði knattspyrnu og körfubolta frá unga aldri og hætti því ekki fyrr en 17 ára. Síðan liðu nokkur ár áður en ég fór að druslast í ræktina en svo fundum við okkur Baldur mjög vel saman í CrossFit og það hefur verið okkar sport í 12 ár. Við elskum það!

Fylgir þú einhverri ákveðinni stefnu í mataræðinu s.s. paleo, ketó, whole9 eða annað? Og ef svo er þá afhverju?
Nei ég fylgi engu af þessu en reyni frekar að borða skynsamlega. Það tókst lengi vel en hefur aðeins dalað hjá mér. Mér líður best þegar ég sneiði hjá brauði, rauðu kjöti og harðri fitu. Fiskur er á okkar borðum amk 4 sinnum í viku.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir í leik og starfi?
Það eru pottþétt foreldrar mínir Bergur Felixson og Ingibjörg S Guðmundsdóttir. Mér finnst síðan mjög gott að horfa til barnanna minna, Álfrúnar Perlu og Guðmundar. Þau eru mér fyrirmyndir í því hvernig þau nálgast lífið og tilveruna.

Hversu marga facebook vini áttu?
5000. Þeir eru ekki allir vinir mínir samt.

Hver var síðasti facebook status þinn?
Elsku besta Sigga systir fagnar stórafmæli í dag. Hún er falleg og réttsýn og ljúf og ákveðin og skemmtileg framkvæmdamanneskja og jafnaðarmaður og ég er yfir mig stoltur af henni ❤️ til hamingju elsku systir ❤️.

Hversu marga fylgjendur áttu á instagram?
5106. ég fylgi þeim ekki öllum til baka.

Hverju deildir þú síðast á instagram?
Mynd af mér í Storytel með texta um að þar biðu stórar fréttir um komandi samstarf mitt og Storytel.

Ertu á tiktok?
Neibb. orðinn of gamall.

Uppáhaldsmatur?
Mér finnst geggjað að fá fisk dagsins í hádeginu hjá Þóri bróður á Snaps. Þetta er ekki auglýsing (ja eða kannski bara smá). Mér finnst þetta í alvörunni best!

Uppáhaldsdrykkur?
Sódavatn með lime.

Uppáhaldslag og tónlistarmaður (konur eru líka menn)?
Bachelorette með Björk af plötunni Homogenic sem er besta poppplata allra tíma.

Hvetur góð tónlist þig áfram á æfingum og þá hvernig tónlist?
Já fyrst og fremst skemmtilegt rokk.

Uppáhaldsbíómynd?
Úff þar fórstu með það. Þetta breytist ár frá ári og ég nenni ekki nostalgíu yfir gömlum myndum og vil helst sjá eitthvað nýtt. Nú er uppáhaldsmyndin mín dönsk mynd sem er tilnefnd til óskarsverðlauna og allir verða að sjá. Hún heitir Flugt eða Flótti.

Frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Bill Clinton. Já og Hillary líka!

Markmið í starfi?
Að standa mig vel og reyna að bæta líf fólks með einhverjum hætti. Ég vil gleðja og fræða.

Markmið í lífinu?
Að vera almennileg manneskja og njóta þess að fá að vera hér á jörðinni með fólkinu sem ég elska .

Mottó?
Það á að vera gaman – annars verður maður að breyta einhverju (Gunnar Helgason).

Hræðist þú eitthvað?
Já ýmislegt t.d einræðisherra sem láta sér þjáningar fólks í léttu rúmi liggja.

Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Þau eru nú nokkur og tengjast yfirleitt starfinu. Ég hef gleymt nöfnum fólks sem ég þekki mjög vel í beinni útsendingu og ég hef gleymt dægurlagatextum sem ég er að syngja bæði á sviði og í sjónvarpi. Það eru hræðilega neyðarlegar uppákomur og erfitt að hlæja sig út úr því…

Eitthvað sem þú sérð mikið eftir og vilt/þorir að deila með lesendum?
Já var einu sinni tekinn fyrir ölvunarakstur og skammast mín endalaust fyrir það. Missti prófið í ár.

Hvað er það sem fáir vita um þig?
Ég er hræddur við að fara á hestbak og í seinni tíð finnst mér á sama máta mjög erfitt að fara á kajak. Ég missi einhvern veginn jafnvægið, stífna upp og dett af baki eða í sjóinn.

Hvernig kom til að þú og Gunnar Helgason fóruð að vinna saman sem Gunni og Felix?
Við kynntumst við vinnu við talsetningu og urðum fljótlega perluvinir. Við fundum að hugmyndir okkar um barnaefni rímuðu mjög vel saman og þegar okkur bauðst að taka við Stundinni okkar var ekki aftur snúið.

Hvar vaknaði áhugi þinn á Eurovision söngvakeppninni?
Hann vaknaði fyrir alvöru þegar ég fór í fyrsta sinn og upplifði keppnina. Það var með Vinum Sjonna árið 2011.

Hvað er besta Eurovisionlag allra tíma og besta lag sem við Íslendingar höfum sent?
Já þú biður ekki um lítið! Ég segi bara að það sé Non ho l’età (Heyr mína bæn) frá 1964. Íslenska lagið er All out of luck (og þar með er ég búinn að móðga alla þátttakendur Íslands nema Selmu..).

Við Íslendingar eigum ótrúlegt magn af hæfileikaríku tónlistarfólki sem sum hver eru þekkt um allan heim, hvernig stendur á því að okkur tekst ekki að vinna Eurovision?
Það kemur einn góðan veðurdag. Það er meira en að segja það að vinna Eurovision. Það þarf allt að vinna saman og stundum er þetta tilviljunum háð. Við hefðum sjálfsagt unnið með Think About Things 2020 en við vitum aldrei hvort það sé rétt hjá mér.

Finnst þér að Eurovision mætti vera pólítískari og með meiri slagkraft í að mótmæla heimsmálum t.d. Úkraínustríðinu eða meðferð Ísraela á Palistínumönnum?
Eurovision hefur alltaf stefnt að því að vera ópólitískur viðburður. Þetta er friðarviðburður sem var settur á stofn til að sameina stríðshrjáða Evrópu. Ef við sleppum takinu af þessari reglu fer þetta fljótt að snúast upp í anstæðu sína og viðburðurinn hreinlega leggjast af. Ég held að það sé mikilvægt að við getum komið saman eina kvöldstund og sungið saman og reynt að einbeita okkur frekar að því sem sameinar okkur frekar en því sem sundrar.

Hvaða góðu og einföldu ráð getur þú gefið fólki sem er að byrja sinn feril í leiklistar, skemmtana- og fjölmiðlabransanum?
Að vera sannt sjálfu sér og reyna ekki að vera einhver annar en það er.

Hvað eru að þínu mati grunnþættir góðrar líkamlegrar og andlegrar heilsu?
Tími. Maður þarf að gefa sér tíma til að njóta líkamsræktar og næringar. Það veitir hugarró og hamingju.

Hvað er framundan hjá þér?
Margt skemmtilegt framundan. Ég er að fara að koma með fyrstu hljóðbókina í fjögurra bóka bálki fyrir eldri krakka um ævintýri Freyju og Frikka frá Storytel. Svo er Eurovision í Tórínó með Systrunum knáu. Það verður geggjað.

Eitthvað að lokum?
Já gleðilegt sumar! Hlaupum glöð mót rísandi sól!

Related posts

Yfirheyrslan – Lovísa Rut

Kynning á Hildi Ómarsdóttur nýjum pistlahöfundi

Yfirheyrslan – ANDRI ICELAND