Yfirheyrslan – Solla á Gló


Sollu á Gló þekkir hvert mannsbarn enda hefur hún getið sér gott orð sem heilsukokkar og eigandi veitingastaða sem leggja áherslu á hollan mat. Solla hefur staðið í ströngu undanfarin ár og eru Gló veitingastaðirnir hennar orðnir fimm. Þar að auki gefur hún sér tíma í að gefa út matreiðslubækur og halda matreiðslunámskeið. Þrátt fyrir miklir annir þá gaf Solla sér tíma í að svara nokkrum skemmtilegum spurningum um sig og sitt líf. 

Fyrstu sex í kennitölu?  
240960
Fullt nafn?
Sólveig Eiríksdóttir

Hefur þú alltaf verið kennd við veitingastaðina sem þú rekur?
Já – núna er ég kölluð Solla á Gló

Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Bý með sæta kallinum mínum honum Ella og samtals eigum við þrjár dætur og tvö barnabörn. Við eigum einn norskan skógarkött.

Hvar ertu fædd og uppalin?
Í Reykjavík

Núverandi búseta?
Reykjavík

Hefur þú allaf haft svona mikinn áhuga á heilsusamlegri matseld?
Það má segja, ég er alin upp á góðu fæði og þegar ég fór að elda sjálf þá byrjaði ég að elda linsur og adukibaunir en ekki kjötbollur eins og tíðkaðist í þá daga.

Hvaðan kemur þessi áhugi á matseldinni?
Foreldrar mínir eru mínar fyrirmyndir, þau hafa alltaf ræktað sitt grænmeti sjálf, sýrt það og eldað úr því.

Hvenær opnaðir þú fyrsta veitingastaðinn þinn?
Ég opnaði ásamt Hjördísi Gísladóttur Grænan Kost árið 1993 og síðan Gló árið 2010.

Eldur þú heima hjá þér líka?
Já ég elska að elda heima hjá mér, sérstaklega þegar við Hildur dóttir mín eldum saman.

Ertu með bakgrunn í einhverjum íþróttum?
Já ég æfði bæði frjálsar íþróttir og handbolta á mínum yngri árum.

Stundar þú einhverja líkamsrækt, og þá hverja?
Ég hef stundað jóga í yfir 30 ár.

Hversu marga facebook vini áttu?
Um 5000

Hver var síðasti facebook status þinn?
Mæðgur útbúa fermingarveislu – ég póstaði viðtalið við okkur dóttur mína sem birtist í Fermingarblaði Morgunblaðsins. Við höldum úti matarblogginu: Mæðgurnar og það má líka finna okkur á Facebook undir því nafni.

Uppáhaldsmatur?
RAW Lasagna

Uppáhaldsdrykkur?
Grænn djús

Uppáhaldslag?
I sing I swim með Seabear Íslensk hljómsveit sem er í miklu uppáhaldi

Uppáhaldsbíómynd?
Ohhhh þessi er í svo miklu uppáhaldi þótt gömul sé og hafði mikil áhrif á mig: Les Enfants du Paradis (Children of Paradise)

Frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Hmmmmm – ég hitti Þórhildi Margréti Danadrottningu í handavinnubúð í Kaupmannahöfn fyrir 35 árum. Hún er 180cm á hæð og var á háum hælum í þokkabót og mér fannst hún RISI þar sem ég stóð á flötum kínaskónum mínum og hún heilsaði mér og ég stóð bara með opinn munninn og starði á hana.

Markmið í heilsubransanum?
Gera hollan mat og lifrænar vörur aðgengilegri fyrir alla. Ásamt því að vera dugleg að koma sífellt með nýjar og góðar uppskriftir.

Markmið í lífinu?
Að halda heilsu til að geta verið til staðar fyrir foreldra, börn og barnabörn og vini.

Mottó?
Það er til lausn!

Hræðist þú eitthvað?
Að manneskjan í græðgi sinni eyðileggi Móður Jörð og komandi kynslóðir sitji uppi með afleiðingarnar.

Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Ég kenndi einn vetur handavinnu og ætlaði að hjóla í vinnuna (frá Vesturbæ upp í Breiðholt) á gamla hjólinu mínu, svitnaði svo mikið að ekki var þurr þráður á mér og einu þurru fötin sem ég fann var Jólasveinabúningur……. Svo ég kenndi allan daginn í jólasveinabúning.

Hvað er það sem fáir vita um þig?
Ég saumaði fyrstu júróvisíonbúningana þegar Gleðibankinn var okkar framlag í keppnina.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir í hollri matseld og almennt í lífinu?
Foreldrar mínir.

Hvaðan koman hugmyndir þínar að réttum þínum?
Mikið úr matarmenningu þeirra þjóða sem hafa mikla hefð fyrir hollri og bragðgóðri matargerð. Síðan elskum við Hildur dóttir mín að vera skapandi saman í eldhúsinu og það fæðast fullt af skemmtilegum uppskriftum þegar við erum í stuði.

Hvaða góða og einfalda ráð getur þú gefið fólki sem vill huga að heilsu sinni með hollri matseld?
Hafið alltaf gott salat með matnum og byrjið á að borða salatið af disknum.

Hefur þú trú á því að hollur og ferskur matur muni einhvern tíman ná að verða vinsælla en óhollu skyndibitarnir frá alþjóðlegum stórfyrirtækjum?
Já ég hef fulla trúi því.

Hvað er framundan hjá þér?
Ég er að gera tvær matreiðslubækur, ein matreiðslubók með Hildi dóttur minni fyrir Íslandsmarkað og ein matreiðslubók sem kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Eitthvað að lokum? 
Núna er góður tími til breytinga, núna, núna, núna, núna. 

Náttúrulækingafélagi Íslands þakkar Sollu alveg kærlega fyrir þessi greinargóðu og skemmtilegu svör. 

Related posts

Yfirheyrslan – Lovísa Rut

Kynning á Hildi Ómarsdóttur nýjum pistlahöfundi

Yfirheyrslan – ANDRI ICELAND