Yfirheyrslan – Ragga Nagli

Röggu Nagla þarf nú varla að kynna fyrir landsmönnum en hún hefur undanfarin ár farið mikinn í að predika heilbrigða lífshætti með heilsupistlum, matreiðslunámskeiðum og nú síðast með útgáfu heilsubókar sem kom út fyrir skömmu. Hér má kynna sér þá bók.

Okkur hjá Náttúrulækningafélagi Íslands (NLFÍ) veittist sá heiður að fá að spyrja Röggu Nagla nokkra áhugaverðra og skemmtilegra spurninga um hennar líf. Við þökkum Röggu Nagla kærlega fyrir þessi greinargóðu og hnyttnu svör. Við hlökkum til að fylgjast með henni og hennar störfum í framtíðinni.

Fyrstu sex í kennitölu?
011079
Fullt nafn?
Ragnhildur Þórðardóttir

Gælunafnið  „Nagli“ hvaðan er það komið?
Það er komið frá manninum mínum. Þegar við bjuggum í Edinborg fyrir rúmum 10 árum þá æfðum við alltaf á morgnana. Við þurftum að vakna kl. 6 til að taka strætó í ræktina og það var alltaf ég sem dreif okkur á fætur. Hann sagði oft með stírurnar í augunum: “Þú ert svo mikill nagli, það eru aldrei neinar afsakanir í boði fyrir að sleppa æfingu. Þannig að nagla nafnið hefur ekkert með líkamsburði að gera heldur óþoli fyrir hverskyns afsökunum og réttlætingum til að stunda ekki heilsuna.”

Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Gift Snorra Steini Þórðarsyni og það má segja að hann sé líka gæludýrið mitt því ég fóðra hann á hollustu og viðra hann í ræktinni.

Hvar ertu fædd og uppalin?
Reykvíkingur í húð og hár. Ólst upp í Fossvoginum og myndi aldrei flytja í póstnúmer hærra en 108 eða austur fyrir Bústaðaveg… nema auðvitað í póstnúmer 1700 á Vesterbro í Kaupmannahöfn.

Núverandi búseta?
Kaupmannahöfn þar sem ég hef búið í sex ár. Aðallega í fjölmenningarsamfélaginu á Nørrebro þar sem ég kunni ofboðslega vel við mig og eignaðist marga dásamlega vini frá öllum heimshornum sem víkkar sjóndeildarhringinn hjá manni.  Nú bý ég hinsvegar á Vesterbro og er algjör bæjarrotta enda með Hovedbanen, Tivoli og Kødbyen við þröskuldinn hjá mér.

Hefur þú alltaf verið svona meðvituð um hollstu og heilbrigði?
Ó nei… því fer fjarri. Var Ragga róni á mínum menntaskólaárum. Reykti og borðaði sukk. Hollusta fyrir mér var að fá mér grænmetislangloku. Þá var ég sko “all-in” í heilsunni.

Ertu með bakgrunn í einhverjum íþróttum?
Handbolti og hestamennska. Get nú ekki státað af glæstum ferli í hvorugu. Hætti um 14 ára aldurinn í hvoru tveggja, enda tóku hormónarnir í 14 ára unglingsstúlku öll völd og aðrir hlutir fóru að skipta meira máli eins og sætir strákar, ný föt og bæjarferðir.

Persónuleg met í líkamsræktinni (PB Personal Best):
Ég er nú ekki mikið í powerlifting, meira í blöndu af CrossFit, bodybuilding og metabólískum æfingum. Orðið ansi langt síðan ég hef tekið 1RM í nokkru því undanfarin ár hafa fókusað á líkamsbeitingu, fullan hreyfiferil vöðva, rétta tækni í æfingum og vöðvaspennu. Þar skipta númerin engu máli.
Þegar ég var þyngri og sterkari gat ég samt hamrað út 60 kg í bekknum og tosað upp 100 kg í deddinu. Einhvern tíma gat ég líka beyglað 100 kg í hnébeygjum en hvort það var rass í gras skal ósagt látið. Eins hljóp ég einu sinni 10 km í Reykjavíkur maraþoni á 45 mínútum. Var nokkuð stolt af þeim tíma.

Uppáhaldsæfing í lyftingum eða æfingasalnum?
Hnébeygjur, front beygjur og push press.               

Leiðinlegasta æfing í lyftingum eða æfingasalnum?
Það er engin æfing leiðinleg, ef hún er leiðinleg er það af því hún er erfið og þá er hún áskorun og þá gerir hún mig betri ef ég sigrast á henni. Snýst allt um hugarfar. Að því sögðu þá er dauðaganga ekki mjög skemmtileg, en hún er áskorun og ég sigra hana í hvert sinn. Eins á ég í smá ástar-haturs sambandi við swing með bjöllu.

Hversu marga facebook vini áttu?
Persónulega; rúmlega 800.
Ragga Nagli: 15.000

Hver var síðasti facebook status þinn?
Finally got my copy #jesuischarlie. Statusinn fylgir mynd af skoptímaritinu Charlie Hebdo sem var loksins til í lókal sjoppunni minni. Allir mínir prívat statusar eru á ensku svo allir skilji, bæði frá fósturjörðinni sem og útlendingarnir.

Uppáhaldsmatur?
Ég elska að borða og á allskonar uppáhalds, bæði sveittmeti og hollustusnæðinga.
– Uppáhalds sveittmeti: Hamborgari og franskar, eldbökuð pizza, sveitt sushi með tempura og mæjonesu, lasagne og hvítlauksbrauð.
– Uppáhalds hollustusnæðingar: Lax + sætar kartöflur + brokkolí.  Kjúklingur + ofnbakaðar kartöflur + maísbaunir.  Hakkgrýta + hýðisgrjón. Prótínbúðingur. Kaffibollakaka úr haframjöli og eggjahvítu. Ostakaka úr kotasælu með möndlumjölsbotni.

Uppáhaldsdrykkur?
Vatn. Kók zero. Sprite zero. Ég er ekki fanatík á sætuefni eins og aspartame en reyni samt að halda gosneyslu í hófi og einskorða það við helgarnar.

Uppáhaldslag?
Whole lotta love með Led Zeppelin.

Og hvað hlustar þú á meðan þú æfiir?
Gott gamaldags graðhestarokk. Led Zeppelin, Pearl Jam, Soundgarden, Metallica, Korn, Nirvana, Rolling Stones, Foo Fighters o.fl.

Uppáhaldsbíómynd?
Ég á alveg nokkrar. Er gríðarlegur kvikmynda og sjónvarpsunnandi og við hjónin förum mikið í bíó og horfum á þætti heima. Þær sem hafa skilið mest eftir sig eru: Secreto de sus ojos, Incendies, Jagten, The Sting, Shawshank Redemption, Todo sobre mi madre, Hable con ella, Biutiful, City of God, The lives of others, Precious.  Gæti haldið áfram í margar blaðsíður.

Frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Matthew McConaughey á gangi í hliðargötu í Róm árið 2005. Sleppti því að vera svöl og bað hann um mynd með mér.  Sú mynd er föst inni í eldgamalli tölvu sem neitar að ræsa sig. En það skiptir ekki máli því hann var svo fúll á það var eins og ætti að leiða hann til aftöku á myndinni.

Markmið í líkamsræktinni?
Að bæta tækni í stóru æfingunum: hnébeygju, deddi, bekkpressu, push press og upphífingum.

Markmið í lífinu?
Að verða betri sálfræðingur og betri dóttir, vinkona, eiginkona, frænka og systir.

Mottó?
Sá sem engu þorir öðlast ekkert. 

Hræðist þú eitthvað?
Skíthrædd við hunda og sjúklega lofthrædd.

Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Þegar ég var 16-17 ára vorum við vinkonurnar í helgarferð í London og ég ætlaði ég að bregða vinkonu minni á hótelganginum. Ég faldi mig bakvið hurð og þegar ég heyrði hana koma gangandi stökk ég fram og gargaði “bbúúú” nema það var aumingjans saklaus hótelgestur en ekki vinkonan sem varð fyrir barðinu á hrekknum. Vinkonan stóð ennþá við hurðina að læsa og áttaði sig á hvað hafði gerst og dó auðvitað úr hlátri. Við skelltum uppúr við minnsta tilefni restina af ferðinni.

Hvað er það sem fáir vita um þig?
Ég las inn á margar auglýsingar þegar ég var c.a 10 – 12 ára. Söng m.a.s inná eina auglýsingu með Eyjólfi Kristjánssyni.  Sönghæfileikarnir hafa ekki fengið að skína síðan þá, enda ekki uppá marga fiska.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir í líkamsrækt og almennt í lífinu?
Í lífinu er það systir mín fyrir metnað og dugnað í starfsframa sínum en hún er í flottri stöðu hjá BBC. Amma mín heitin er mér síðan fyrirmynd fyrir jafnlyndi sitt og húmor í mannlegum samskiptum við fólk sem er eitthvað sem ég vil gjarnan tileinka mér.
 Í líkamsrækt eru flottar konur eins og Annie Mist, Katrín Tanja, Nicole Wilkins, Erin Stern, Ásdís Hjálms og Jesse Hilgenberger sem hvetja mig áfram í átökunum við járnið.

Hvaðan koma hugmyndir þínar að heilsupistlum þínum og hefur þú alltaf verið svona orðheppin?
Ég byrjaði að tjá mig mjög ung og hef alltaf verið afar skoðanaglöð og staðið fast á mínu. Einhverra hluta vegna var ég sérstaklega orðljótt barn, og bölvaði og ragnaði. Pabbi var einvern tíma að reyna að koma mat ofan í mig og ég sagði kokhraust “ef þú hættir þessu ekki þá skýt ég af þér hausinn og sker hann í drullu.” Foreldrar mínir eru sérstök prúðmenni í orðavali svo það er á huldu hvar ég pikkaði upp sóðalega orðaforðann.
Hugmyndir að pistlum koma víðsvegar að. Það getur verið blogg hjá öðrum heilsumelum, almenn umræða, fréttir,  eða bara eigin þörf og forvitni til að fræða sjálfa mig og aðra um allskonar heilsutengt.

Hvaða góða og einfalda ráð getur þú gefið fólki sem vill huga að heilsu sinni?
Að vera meðvituð um eigið hugsanamynstur og hvernig það bæði hjálpar og skemmir fyrir okkur á heilsubrautinni.

Hefur þú trú á því að heilbrigð skynsemi og dugnaður  í heilsurækt muni einhvern tímann hafi yfir í baráttu við öfga og skyndilausnir í heilsurækt?
Já ég verð að trúa því að boðskapur minn í pistlaskrifum og Naglanöldri sé eins og dropinn sem holar steininn og að lokum verður að heimsyfirráðum.

Hvað er framundan hjá þér?
Sálfræðistörf, matreiðslunámskeiðahald, fyrirlestrar í hinum ýmsu fyrirtækjum, ferðalög, m.a til Kaliforníu og auðvitað að njóta lífsins og æfa eins og skepna.

Eitthvað að lokum?
Haldið áfram ykkar frábæra starfi hjá NLFÍ. Það er virkileg þörf fyrir svona frábæra stofnun.

Related posts

Yfirheyrslan – Lovísa Rut

Kynning á Hildi Ómarsdóttur nýjum pistlahöfundi

Yfirheyrslan – ANDRI ICELAND