Yfirheyrslan – María Ögn hjóladrottning

Það er okkur hjá NLFÍ heiður að fá að spyrja hjóladrottninguna Maríu Ögn spjörunum úr í yfirheyrslunni þennan mánuðinn.  María Ögn hefur borið höfuð og herðar yfir aðrar hjólreiðakonur á Íslandi undanfarin ár og hún er hvatning fyrir mörg okkar að hreyfa okkur meira.

Fyrstu sex í kennitölu?
210580
Fullt nafn?
María Ögn Guðmundsdóttir

Ertu með gælunafn?
Neibb ég er ýmist María Ögn, María, Ögn eða Ögnin, fer allt eftir félagsskapnum sem ég er í og hef aldrei verið kölluð Mæja.

Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Á þennan líka fína kærasta sem heitir Hafsteinn Ægir, 8 ára yndis dótturina Kötlu Björt og síðan sakna ég alveg agalega mikið Siberian Husky tíkanna minna Nótt og Uglu sem eru nýfarnar frá mér og ég átti í tæp 12 ár.

Hvar ertu fædd og uppalin?
Á Ísafirði og ég er alveg voðalega þakklát fyrir að hafa alist þar upp, átti frábæra æsku.

Núverandi búseta?
Grafarholt með Reynisvatn og náttúruna í bakgarðinum hjá mér.

Menntun?
BS í Sálfræði frá HÍ, IAK Einkaþjálfari og svo ansi gott dass af námskeiðum á sviði sálfræði og þjálfunar.

Atvinna?
Ætli ég sé ekki bara atvinnumanneskja í hjólreiðum, starfa sem Hjólaþjálfari með hjolathjalfun.is og svo í hjólreiðaversluninni Erninum.

Hver var fyrsta hjólreiðakeppni þín?
Bláa lónsþrautin 2008, glæný búin að kaupa mér fjallahjól og elskaði þetta alla leið.

Hver eða/og hvað vakti áhuga þinn á hjólreiðum?
Upphaflega var það þríþrautin sem fór svo út í það að vera alfarið í hjólreiðunum. Fjölbreytni, adrenalín og fyrst og fremst útisport, ég elska að leika mér úti. 

Hefur þú æft aðrar íþróttir en hjólreiðar og þá hverjar?
Ójá, ég hef alla tíð æft einhverjar íþróttir og finnst rosalega gaman að prófa og kynnast allskonar íþróttum. Ég er skíðastelpa og æfði skíði í 14 ár þar til ég fór að þjálfa skíði. Hef líka verið í körfubolta, frjálsum, golfi, boot camp, þríþraut ofl.

Persónuleg met í íþróttum:
Tími í WOW keppninni (hringvegurinn): Með HFR stelpum 2015, sigur á 42:45:36
Bláa Lónsþrautin: Náði mínum besta tíma í ár, 1:55:43 sem er brautarmet kvenna
Gullhringurinn: Hef unnið öll árin og besti tíminn minn var í ár á 2:59:08
10 km hlaup: Humm man það ekki alveg en í kring um 44mín
Tími upp að Steini á Esju (mín:sek): Nákvæmlega 33:35 mín á Boot Camp árum mínum
Bekkpressa (kg): Brjóstkassinn hefur aldrei verið stór, í kring um 75kg
Hnébeyjga (kg): Skíðastelpan María Ögn beygði 138,2kg hérna denn
Réttstöðulyfta (kg): Man það ekki nákvæmlega en um 100kg

Hversu marga km ertu að hjóla á viku þegar þú ert að æfa fyrir hjólreiðakeppnir?
Ég horfi frekar á fjölda klukkustunda sem ég æfi á viku en ekki kílómetra. Á keppnistímabilinu er alfarið gæði umfram magn og maður er alltaf að hvíla, en lengd æfinganna ráðast mikið af því hvers konar keppni er framundan. Vikan getur verið frá 6klst-12klst.   

Hver er lengsta vegalengd sem þú hefur hjólað í einu?
161km í keppninni Jökulmílan, hef nokkrum sinnum hjólað um 150km og þá oftast á æfingum erlendis.

Snúast æfingar þínar bara um hjólreiðar eða leggur þú áherslu á eitthvað annað t.d styrktarþjálfun?
Árið skiptist í ákveðin tímabil og frá sept-mars þá er margt annað en hjólreiðar í æfingunum hjá mér, td þungar lyftingar, styrktaræfingar, jóga, róður, sund, gönguskíði. Stundum geri ég alveg allt annað í einhvern tíma og fer í Taekwondo eða dansa í Kramhúsinu.

Hverjir eru þínir styrkleikar sem hjólreiðamaður?
Þorið, hjólafærnin og tæknin á hjólinu.

En veikleikar?
Brekkurnar sem þarf að hjóla upp.

Hversu marga facebook vini áttu?
1,059

Hver var síðasti facebook status þinn?
Ef maður hefur bara gott fólk í kring um sig þá verður lífið svo best! Ég vil hafa lífið mitt best og þess vegna fór ég upp á fjöll og hálendi um helgina með virkilega frábærum 36 stelpukonum sem eru hver annarri magnaðari! #‎HeppinÉg #‎FjallahjolaRokk

Uppáhaldsmatur?
Matur sem er eldaður fyrir mig, elska Gló alveg voðalega rosalega mikið.

Uppáhaldsdrykkur?
Toppur með hvítum tappa.

Hvað drekkur þú eða borðar á meðan þú ert í löngum hjólatúrum?
Aldrei bara vatn, alltaf drykk frá Hreysti sem hjálpar mér að endurheimta það sem sem líkaminn tapar við átök, svo gel, stykki eða banana.

Uppáhaldslag?
Á svo mörg jafn uppáhalds en GusGus, Mugison og Emiliana Torrini eru alltaf með mér og ég get ekki annað en dansað ef ég hlusta á Dj Yamaho eða Dj Margeir.

Hlustar þú á tónlist þegar þú ert að hjóla?
Nei, en segi ekki aldrei, kannski 4 sinnum á ári, ég vill hlusta á hljóðið í hjólinu og útiveruna þegar ég er á hjólinu.  

Uppáhaldsbíómynd?
The Hurricane frá 1999 með Denzel Washington er kannski ekki uppáhalds en mér fannst hún mögnuð.

Frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Örninn fékk Katie Compton bestu hjólreiðakonu Bandaríkjanna og eina bestu hjólreiðakonu heims til landsins í sumar og við héngum saman í fjóra daga. Magnað að fá að kynnast henni svona persónulega og tala um allt og ekkert við manneskju sem lifir og hrærist í innsta hring hjólreiðanna í heiminum.  

Markmið í hjólasportinu?
Að vera til fyrirmyndar, vinna keppnir, kynna aðra fyrir þessarri hjólagleði sem hentar fólki á allan en ólíkan hátt og gera það sem mér þykir skemmtilegt.

Markmið í lífinu?
Að taka þátt í lífinu, að viðvera mín hafi áhrif á aðra.

Mottó?
Life begins at the end of your comfort zone.

Hræðist þú eitthvað?
Ég byrjaði að vera bílhrædd í ákveðnum aðstæðum eftir að ég lenti í bílslysi 2004 og ég get sagt að ég hræðist að hafa óheiðarlegt fólk í kring um mig því þá finnst mér umhverfi mitt óstöðugt og óþægilegt.

Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Ég er í hópi þeirra sem hafa sakað stórann maga á konu um að vera með barn innanborðs en svo var ekki. Ég reyndi að bæta fyrir þetta með því að halda áfram að tala, sem ég hefði alveg mátt sleppa því að gera því ég bætti engu viturlegu við það samtal. Annars er það sem er neyðarlegt líka svo skemmtilega fyndið.

Hvað er það sem fáir vita um þig?
Ég hef frá því ég var unglingur skrifað ljóð og limrur og á þau öll í einni bók og svo get ég blásið lofti út um bæði augun á mér.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir í hjólreiðum og almennt í lífinu?
Ég hef í raun aldrei átt mér einhverja eina fyrirmynd. Heldur vill ég eiga margar fyrirmyndir á ólíkum sviðum því það eru allir fyrirmyndir á einhvern hátt og enginn án galla sinna. En sá sem hafði mest áhrif á mig sem íþróttamannsekju og þjálfara er Hafsteinn Sigurðsson skíðaþjálfarinn minn á Ísafirði.

Hvaða góðu og einföldu ráð getur þú gefið fólki sem vill ná langt í hjólreiðum eða er að byrja í þessu sporti?
Notaðu hjólaskó með festingu við pedala og passaðu að hjólið sé rétt stillt fyrir þig. Skráðu niður tímann sem þú æfir, lærðu að njóta þess að taka hvíldir og taktu tillit til þess álags sem daglega lífið getur stundum verið og minnkaðu þá æfingarnar eða álag þeirra samhliða því.

Hvað er framundan hjá þér?
Núna er það haustið, ég er búin að vera að hvíla allar æfingar síðustu vikur því ég lenti í miklum veikindum í sumar sem ég náði mér aldrei af og endaði á því að krassa algjörlega í lok sumars og því endaði tímabilið frekar ömurlega hjá mér. Núna er planið að fara rólega af stað í æfingarnar og ég ætla að byrja á jóga, sundi og lyftingum, ásamt því að hjóla aðeins og síðan er mjög skemmtilegur vetur framundan fyrir næsta tímabil.

Eitthvað að lokum?
Verið kurteis á hjólinu í umferðinni og með því hjálpa til við jákvæða ýmynd hjólreiðafólks. Það er hollt af fara reglulega út fyrir þægindahringinn sinn, sama á hvaða sviði það er. Kíkið á hjolathjalfun.is og komið á námskeið hjá mér.

Related posts

Yfirheyrslan – Lovísa Rut

Kynning á Hildi Ómarsdóttur nýjum pistlahöfundi

Yfirheyrslan – ANDRI ICELAND