Yfirheyrslan – Margrét Grímsdóttir

Í yfirheyrsluna að þessu sinni valdist Margrét Grímsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsustofnun NLFÍ. Það er leitun að lífsglaðari og meira gefandi manneskju en Margréti og hér geta lesendur NLFÍ kynnst henni betur.

Fyrstu sex í kennitölu?
130471
Fullt nafn?
Margrét Grímsdóttir
Hefur þú einhver gælunöfn?
Nei

Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Einhleyp, þrjú börn, eitt barnabarn, hundur og köttur
Hvar ertu fædd og uppalin?
Fædd í Reykjavík, alin upp í Smáíbúðahverfinu og Árbænum
Hefur þú búið erlendis? Hvar?
Já, í Skotlandi sem barn og í Bandaríkjunum á fullorðinsárum
Núverandi búseta?
Setbergið í Hafnarfirðinum

Starfstitill þinn á Heilsustofnun?
Framkvæmdastjóri hjúkrunar
Hvenær vaknaði áhugi þinn á hjúkrun og heilbrigðisvísindum?
Ætli þetta hafi ekki alltaf blundað í mér. Ég ætlaði lengi vel að verða sálfræðingur en það var skyndiákvörðun að fara í hjúkrun sem ég sé alls ekki eftir.

Tókst þú hefðbundið hjúkrunarfræðinám á Íslandi og hefur þú menntað þig frekar?
Ég fór í hjúkrunarfræðinám við HÍ og lauk því 1996. Lauk meistarnámi í félagsráðgjöf í Bandaríkjunum 2001 og tók svo diplómanám í fjölskyldumeðferð við EHÍ 2011-2013

Hvað hvetur þig áfram í þínum störfum?
Þegar ég finn að ég er að gera gagn og að samstarfsfólki mínu og skjólstæðingum líður vel og eru sátt í samstarfi sínu við mig.

Hverjar eru helstu áskorarnirnar í sambandi við þín störf?
Ég þrífst svolítið á áskorunum og verð fljótt áhugalítil ef þær eru ekki til staðar.  Ég er svo ótrúlega lánsöm að ég er í starfi sem er fjölbreytt og með ýmsum áskorunum. Erfiðustu áskoranirnar tengjast því þó að starfa á frábærri stofnun sem þarf stöðugt að vera að berjast fyrir bættu fjármagni til sómasamlegs reksturs.

Ertu með bakgrunn í einhverjum íþróttum?
Nei J Ég fór á nokkrar körfuboltaæfingar sem unglingur, og hef prófað ýmislegt í gegnum árin eins og hlaup og hjólreiðar en skortir liðleika og samhæfingu til að verða íþróttakona af einhverju viti!
Stundar þú einhverja líkamsrækt, og þá hverja?
Þessa daga mæti ég reglulega í ræktina til að lyfta, fer í jóga og á Salsanámskeiði (flokkast það ekki sem líkamsrækt?)

Hversu marga facebook vini áttu?
612
Hver var síðasti facebook status þinn?
Póstaði mynd af nýja matreiðsluhefti Heilsustofnunar
Hvaða samfélagsmiðla notar þú?
Facebook og Snapchat en ekki að neinu ráði
Finnst þér fólk almennt nota þessa samfélagsmiðla of mikið?
Nei, amk ekki fólk í kringum mig. Ég held að þetta sé óhjákvæmileg þróun, við þurfum bara að finna leiðir til að nýta samfélagsmiðla skynsamlega.

Uppáhaldsmatur?
Þetta er erfitt, ég er svo mikill sælkeri…. en grillað lambafille með meðlæti eða humar steiktur í smjöri og hvítlauk klikkar aldrei
Uppáhaldsdrykkur?
Ískalt sódavatn með klaka og sítrónu. Pepsi Max er syndin mín og ekki langt þarna á eftir.

Uppáhaldslag?
„One“ með Mary J.Blige og Bono
Uppáhaldsbíómynd?
Notting Hill

Markmið í heilsubransanum?
Undanfarin ár hef ég verið mjög upptekin af streitu í lífi og starfi og áhrif á heilsu.  Mitt markmið núna er að fræða fólk um alvarlegar afleiðingar langvinnrar streitu og styðja einstaklinga sem eru að takast á við sjúklega streitu eða kulnun að ná jafnvægi og heilsu á ný.

Markmið í lífinu?
Að vera í góðu jafnvægi og njóta hamingjunnar og gleðinnar í hverjum degi, og elska sjálfa mig og aðra af öllu hjarta.

Mottó?
Hamingjan er ekki eitthvað sem finnum í framtíðinni, heldur er hún í deginum í dag.

Hræðist þú eitthvað?
Nei
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Þegar ég keyrði heim eitt kvöldið fyrir nokkrum árum og bíllinn lét eitthvað illa að stjórn, hristist allur og gekk til.  Þegar ég kom heim sá ég að stefnuljósið á öðru brettinu var laust og hékk á vírunum, og við nánari skoðun kom í ljós að ég var einungis með þrjú dekk undir bílnum…..
Hvað er það sem fáir vita um þig?
Ekkert held ég – ég tala svo mikið að það vita allir alltaf allt um mig, hvort sem þeir vilja eða ekki!

Hverjar eru þínar fyrirmyndir í lífi og starfi?
Ég get ekki nefnt neina ákveðna aðila, því ég er svo heppin að ótalmargir einstaklingar sem hafa orðið samferða mér í gegnum lífið hafa kennt mér eitthvað á hverjum tíma. Traust, heiðarleiki, jákvæðni, kærleikur og þrautseigja eru eiginleikar sem ég tek mér til fyrirmyndar í fari annarra.

Hvaða góða og einfalda ráð getur þú gefið fólki sem vill sem besta heilsu sína?
Hlusta á líkamann og líðanina og gera breytingar í litlum skrefum. Ef okkur mistekst að rífa okkur ekki niður, heldur að rétta úr okkur og reyna aftur, án þess að dæma okkur.

Hvernig getum við betur hlúð að fjölskyldum á Íslandi? Þurfum við að stytta vinnuvikuna? Stytting vinnuvikunnar myndi gera mörgum fjölskyldum mjög gott.  En, við þurfum fyrst og fremst að læra að við þurfum sjálf að setja mörk og forgangsraða í lífinu okkar. Hjón þurfa að muna að tala saman, sinna hvort öðru, á sama tíma og þau sinna börnum sínum og hlúa að þeim.  Njótum samveru, gleði og verum ekki alltaf í loftköstum að reyna að gleypa heiminn og öll tækifærin sem okkur bjóðast.  Einföldum, slökum á og njótum litlu hlutanna saman.

Hvað er framundan hjá þér?
Í vinnunni er að fara af stað 4 vikna streitunámskeið sem verður mjög spennandi og krefjandi tími. Svo er sumarið að bresta á, og markmiðið er að vera dugleg að elta sólina um landið með tjaldið mitt og hundinn og upplifa skemmtilega hluti.

Related posts

Yfirheyrslan – Lovísa Rut

Kynning á Hildi Ómarsdóttur nýjum pistlahöfundi

Yfirheyrslan – ANDRI ICELAND