Yfirheyrslan – Guðrún Bergmann


Guðrún Bergmann, framkvæmdastjóri, rithöfundur og leiðsögumaður hefur tileinkað sér heilbrigðan og grænan lífstíl sem felur í sér að hún hugsar ekki einungis um hvað hún setur ofan í sig, heldur einnig hvað hún setur út í umhverfið. Hún hefur með ástríðu frætt landann um mikilvægi heilsusamlegs- og græns lífstíls bæði með skrifum og eigin fordæmi. Við fengum hana til að svara nokkrum spurningum:

Fyrstu sex í kennitölu? – 251050

Fullt nafn? Rúna Guðrún Bergmann

Ertu með gælunafn? – Var alltaf kölluð Gunna þegar ég var yngri, en á síðari árum hefur Guðrúnarnafnið fest sig í sessi. Er ýmist kölluð Amma Gunna eða Amma Rúna af barnabörnunum.

Fjölskylduhagir og gæludýr? – Bý ein og án gæludýra.

Hvar ertu fædd og uppalin? – Í Reykjavík

Núverandi búseta ?
 – 113

Menntun? – Verslunarskólapróf og lauk svo diplómanámi í ferðamálafræðum frá HÍ árið 2001

Atvinna? – Framkvæmdastjóri ferðaskrifstofu, leiðsögumaður og dreifingaraðili Jeunesse Global bætiefna- og húðvörulínunnar, sem yngir og hressir.

Hvenær fórstu fyrst að spá í heilsu og grænum lífsstíl? 
- Heilsumálin þegar ég var rúmlega tvítug – umhverfismálin og grænni lífsstíl þegar ég var rúmlega þrítug.

Hvaðan kemur þessi áhugi? 
- Hef þurft að hafa mikið fyrir því að halda heilsu, þar sem ég er í sérstökum undirflokki blóðflokkanna, sem gerir það að verkum að ég er með mun minni ónæmisvarnir en flestir aðrir. Áhuginn hefur fyrst og fremst beinst að því að vernda eigin heilsu og halda líkamlegum styrk og lífsgæðum sem lengst – og deila svo því sem ég hef lært með öðrum.

Áhugann á umhverfismálum má sennilega rekja til uppeldisins, en ég ferðaðist mikið með foreldrum mínum um Ísland og þau kenndu mér að ganga vel um landið og skilja aldrei eftir mig sýnilegri ummerki en flatt gras undan tjaldbotninum okkar. Þegar ég varð eldri fékk ég brennandi áhuga á að leggja mitt af mörkum til að “bjarga jörðinni” og þeim áhuga hef ég deilt með öðrum í gegnum vinnu mina að vottunar- og umhverfismálum meðal annars á Snæfellsnesi og víðar – svo og í gegnum bók mína Konur geta breytt heiminum, og í mínu daglega lífi.

Hver voru þín fyrstu skerf í þessum geira? – Erfitt að segja – kannski lestur bóka og svo að fylgja áhuga mínum eftir með athöfnum.

Finnst þér gaman að elda?
 – Já, mér finnst gaman að elda ef ég er að elda fyrir fleiri en sjálfa mig. Finnst hins vegar ekki sérlega spennandi að elda bara fyrir einn.

Ertu með bakgrunn í einhverjum íþróttum? – Ég er lærður jógakennari, þótt ég hafi ekki mikið kennt. Hef látið duga að stunda jóga svona fimm daga í viku fyrir sjálfa mig.

Stundar þú einhverja líkamsrækt, og þá hverja?
– Jóga og göngur – elska að láta vindinn leika um andlit og hár og hreinsa hugann.

Hversu marga facebook vini áttu? – Rúmlega 4000.

Hver var síðasti facebook status þinn? 
- “Þetta er undrakremið sem mest er talað um þessa dagana – þetta sem sléttir húðina og dregur úr hrukkum á 2 mínútum. Áhrifin er mögnuð og endast í 8-9 tíma” – skrifaður rétt áður en ég svaraði þessum spurningum.

Uppáhaldsmatur? – Get ekki nefnt neinn sérstakan, nema mér finnst alltaf gott að fá mér annað slagið íslenskt lambakjöt, þótt almennt borði ég meira af grænmetisréttum.

Uppáhaldsdrykkur? 
- Gott og næringarríkt búst á morgnana – og stundum á kvöldin líka.

Uppáhaldslag? – Get ekki sagt að ég eigi neitt sérstakt en það snertir alltaf hjartataugarnar að hlusta á “Ísland er land þitt”

Uppáhaldsbíómynd? – Úff! Enn erfiðara að svara þessu. Finnst gaman að horfa á sögulegar myndir og myndir sem fjalla um mannleg samskipti. Horfi líka oft á barnamyndir með barnabörnunum og nýt þess vel, jafnvel að horfa á Öskubusku í fimmta sinn. Forðast að horfa á ofbeldismyndir.

Frægasta persóna sem þú hefur hitt?
- Sennilega Benedikt XVI páfi sem ég hitti í mars 2011.

Markmið í heilsubransanum/grænum lífstíl?
– Að halda áfram að efla eigin heilsu og deila þekkingu minni með öðrum, til að hvetja þá til að gæta eigin heilsu. Heilsan er svo dýrmæt.

Markmið í lífinu? 
- Að njóta hamingu og hagsældar í öllu sem ég geri.

Mottó? 
- Aldrei að gefast upp.

Hræðist þú eitthvað?
 – Stundum að mér takist ekki að gera allt sem mig langar að gera, en á sama tíma veit ég að ef ég næ ekki árangri á einhverju sviði, er það vegna þess að ég á að vera að gera eitthvað annað – og þá er gott að ég er sveigjanleg – og bjartsýn.

Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í? 
- Man ekki eftir neinu sérstöku í augnablikinu – kannski því að týnast í London þegar ég var unglingur, án peninga og muna ekki hvað hótelið hét sem ég bjó á. Fékk fljótlega aðstoð og komst á réttan stað.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir í heilsu og almennt í lífinu? – Louise L. Hay hefur verið mér sterk fyrirmynd og hana hitti ég árið 1990 og varði með henni heilli kvöldstund. Seldi mikið af bókinni hennar Hjálpaðu sjálfum þér meðan ég var með Betra líf og síðar þegar ég endurútgaf hana í gegnum fyrirtæki mitt Leiðarljós. Hef einnig litið mjög upp til Vigdísar Finnbogadóttur, sem ég tel eina bestu fyrirmynd íslenskra kvenna.

Hvaða góða og einfalda ráð getur þú gefið fólki sem vill verða grænni? – Að muna að allt sem það gerir skiptir máli fyrir umhverfið.

Hvaða góða og einfalda ráð getur þú gefið fólki sem vill huga að heilsu sinni? – Hreyfa sig, drekka meira vatn, borða hollari mat og fara að sofa vel fyrir miðnætti.

Hefur þú trú á því að við getum snúið við þeirri þróun sem hefur átt sér stað og að við förum þá að hugsa betur um okkur sjálf og náttúrunna? – Þessu er erfitt að svara í stuttu máli. Svo virðist sem fólk sé almennt svo áhugalaust um umhverfi sitt og eigi erfitt með að skilja að ALLT sem það gerir skiptir máli í þessum EINA heimi sem við búum í. Ódýrar vörur, sem framleiddar eru í fjarlægum löndum menga ALLAN heiminn, því ekkert er staðbundið í andrúmslofti okkar. Því berum við svo mikla ábyrgð þegar við kaupum inn vörur, hvort sem það er matvara eða eitthvað annað, vegna þeirra afleiðinga sem framleiðslan hefur á heiminn. Ég held okkur takist ekki að snúa við þróuninni, því við erum komin fram yfir “point of no return”, en við getum dregið úr áhrifunum. Hættan er sú að ekkert marktækt gerist fyrr en einhver stór skaði á sér stað – og þá er líklegt að flestir líti upp og segi: “Af hverju vorum við ekki vöruð við?” – þvi þeir hafa ekki hlustað á viðvaranir undanfarinna 35-40 ára.

Hvað er framundan hjá þér? – Halda áfram á sömu braut, kynna þessar frábæru heilsuvörur frá Jeunesse Global, halda fyrirlestra og námskeið og ferðast.

Eitthvað að lokum? – Lífi mínu hafa fylgt margar áskoranir, en ég hef lært og þroskast í gegnum þær. Án þeirra væri ég ekki sú sem ég er í dag – hamingjusöm og ánægð með lífið NÚNA.

Related posts

Yfirheyrslan – Lovísa Rut

Kynning á Hildi Ómarsdóttur nýjum pistlahöfundi

Yfirheyrslan – ANDRI ICELAND