Geir Jón Þórisson þarf nú vart að kynnna fyrir landsmönnum en hann var um áratugaskeið yfirlögregluþjónn hjá embætti lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu. Fáir vita líklega að hann situr í stjórn NLFÍ ásamt mörgu öðru. Okkur hjá NLFÍ veittist sá heiður að fá að skyggnast inn í líf og störf Geirs Jóns.
Fyrstu sex í kennitölu?
240452
Fullt nafn?
Geir Jón Þórisson
Hefur þú einhver gælunöfn?
Nei
Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Ég er giftur Guðrúnu Ingveldi Traustadóttur frá Vestmannaeyjum og við eigum fjögur börn, fjögur tengdabörn og 12 barnabörn.
Hvar ertu fæddur og uppalin?
Á Leifsgötunni í Reykjavík.
Hefur þú búið erlendis?
Nei
Núverandi búseta?
Vestmannaeyjar
Hvernig vaknaði áhugi þinn á lögreglustörfum og hve lengi varstu starfandi sem lögreglumaður?
Sá áhugi vaknaði aldrei. Það var þrýst á mig að koma í sumarafleysingar 1975 og ég neitaði og svo var enn meira þrýst á mig 1976 og ég lét tilleiðast að nota sumarfríið í þessa vinu bara til að ná í aura því ég var að byggja. Mjög fljótlega féll ég algjörlega fyrir starfinu og vann í 36 ár.
Hvað var skemmtilegast við lögreglustarfið?
Samskipti við fólk og ná að leysa úr málum og sjá það sem var vonlaust snúast algjörlega við og verða til heilla.
En erfiðast?
Koma inn á heimili þar sem ástand er mjög slæmt og ung börn líða fyrir það. Eins í slysum og þá sérstaklega þegar börn koma við sögu.
Hvernig kom það til að þú hófst störf fyrir Náttúrulækningafélag Ísland (NLFÍ)?
Mikill vinur minn Gunnlaugur K. Jónsson var skólabróðir minn í Lögregluskólanum og hann spurði mig hvort ég væri til í að standa með honum í starfi NLFÍ því miklar breytingar væru í vændum vegna ýmsra aðstæðna sem komu upp. Auðvitað vildi ég standa með mínum góða vini og ekki síst vegna þess góða málefnis sem NLFÍ stendur fyrir. Ég hafði kynnst aðeins Heilsustofnun NLFÍ ungur að árum og vissi að þar færi fram frábært starf. Ég hef aldrei séð eftir að hafa hlítt kallinu.
Ertu með bakgrunn í einhverjum íþróttum?
Ég stundaði sund og var í Sundfélaginu Ægi og síðan þegar ég fór allt í einu að stækka um of fór ég að stunda körfubolta bæði í Reykjavík og í Vestmannaeyjum.
Stundar þú einhverja líkamsrækt, og þá hverja?
Fer í sund á hverjum degi og geng mikið á hverjum degi.
Hversu marga facebook vini áttu?
Hátt í fjögur þúsund.
Hver var síðasti facebook status þinn?
Það var kveðja til allra þeirra 1.300 facebook vina sem sendu mér afmæliskveðju um daginn þegar ég varð 65 ára.
Uppáhaldsmatur?
Lamb, enda bregst það aldrei.
Uppáhaldsdrykkur?
Vatnið í Vestmannaeyjum, gerist ekki betra.
Uppáhaldslag?
Þau eru svo mörg að ég get ekki gert upp á milli. Er með breiða flóru í tónlistasmekk.
Uppáhaldsbíómynd?
Er nú svo lítill bíómaður en Pasion of Christ eftir Mel Gibsson horfi ég á á föstudeginum langa á hverju ári.
Frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Ja, þær eru nú margar, vegna fyrra starfs. Gæti nefnt Hillary Clinton.
Markmið í lífinu?
Að verða betri á morgun en í gær.
Mottó?
Lifa lífinu lifandi og vera alltaf jákvæður.
Hræðist þú eitthvað?
Að bregðast trausti.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Reyni nú alltaf að gleyma slíku. En í morgun lenti ég í því að rífa eldri konu á fætur því ég fór húsavilt og mikið óskaplega skammaðist ég mín. Ég hélt að allir færu snemma á fætur eins og ég.
Hverjar eru þínar fyrirmyndir í lífi og starfi?
Móðir mín, sem var einstök kona. Þá var fyrrum kennari minn í Lögregluskólanum og mikill velgjörðarmaður, Magnús Einarsson mín fyrirmynd í starfinu.
Þú hefur setið á Alþingi Íslendinga. Hverjar eru þínar áherslur í pólitík?
Jöfnuður er algjör grunnforsenda þess að friður ríki í landinu. Að allir fái að njóta sín og hlúa vel að öldruðum og sjúkum.
Hvaða einföldu ráð getur þú gefið ungu fólki í dag sem eru að stíga sín fyrstu skerf út í lífið? Látið ykkur aldrei detta í hug að þið vitið allt. Leitið ráða hjá þeim sem þið treystið og munið að allt sem þér viljið að aðrir geri ykkur skulu þið einnig gera þeim.
Hvað er framundan hjá þér?
Að lifa sáttur við Guð og menn.
Eitthvað að lokum?
Það er afar mikilvægt að við virðum alla og leyfum öllum að njóta sín. Láta það góða sigra hið illa. Lífið er stutt og við megum ekki eyða tíma í neikvæðni og illt umtal. Byggjum hvert annað upp og njótum lífsins.