Þjónusta Heilsustofnunar geti lagst af í núverandi mynd

www.heilsustofnun.is

„Með sama áframhaldi mun þjónusta Heilsustofnunar einfaldlega leggjast niður í núverandi mynd,“ segir Þórir Haraldsson forstjóri Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði í aðsendri grein í Morgunblaðinu 19. nóvember 2025. „Staðfest er að fjárveiting til Heilsustofnunar sé innan við helmingur af því sem aðrir fá fyrir sambærilega þjónustu“

Í grein Þóris kemur fram vegna þessa misréttis hafi sjúklingar á Heilsustofnun þurft að greiða allt að 250 milljónir króna á ári fyrir meðferðarkostnað til viðbótar við fæði og gistingu. Starfsmenn þurfi stöðugt að vinna hraðar, framþróun og nýjungar sitji á hakanum og ekki hafi verið hægt að sinna nauðsynlegu viðhaldi og endurnýjun á húsnæði.

„Á sama tíma og greiðslur hafa staðið í stað til Heilsustofnunar, reyndar dregist saman með „flötum niðurskurði“, hafa ný úrræði í endurhæfingu fengið fjárveitingar og meðal annars hafa framlög til sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara hækkað um 44% á fjórum árum á meðan sjúklingum í meðferð hjá þeim hefur fjölgað um 17,6%. Heilsustofnun fagnar því að aukinn skilningur og áhersla er á endurhæfingu, enda er hagkvæmni hennar óvíræð fyrir sjúklinga, aðstandendur og samfélagið í heild. Auknu fjármagni hefur hins vegar verið varið til annarra meðferðarúrræða en Heilsustofnun hefur setið eftir og það vekur vissulega áleitnar spurningar.

Með sama áframhaldi mun þjónusta Heilsustofnunar einfaldlega leggjast niður í núverandi mynd. Það væri mikið samfélagslegt tjón því starfsfólk Heilsustofnunar hefur skilað frábæru starfi, sjúklingar hafa náð miklum bata, Heilsustofnun hefur alltaf uppfyllt allar sínar skyldur samkvæmt samningum, skilað öllum upplýsingum og ábyrgum rekstri.“

Related posts

Innviðaskuld í endurhæfingu

Misrétti í fjármögnun staðfest

Þjónustusamningur Heilsustofnunar NLFÍ frá 1991