Nú þegar haustið er gengið í garð er kominn sá tími að áður frjálsar tær eru veiddar í þykka sokka og geymdar í vatns-, vind-, snjó- og kuldaheldum skóbúnaði. Ræður þar eflaust mestu veðurfarið en einnig má gera ráð fyrir því að yfirborð gönguleiða að vetrarlagi sé miður heppilegt fyrir viðkvæmar íslenskar tær. Þarna fá þær að dúsa næstu mánuðina. Sumarið er hins vegar sá árstími þar sem innikróaðar og aðkrepptar tær sleppa úr þröngum skókosti vetrarins og flytja í opna sandala. Þekkt er að fjöldi landsmanna hefur flykkst til sólríkari landa að vetrarlagi og sleppt tánum lausum þar og hvort sem það hefur verið aðaltilgangur ferðarinnar eða ekki þá hafa fáir líkamshlutar Íslendinga verið jafn áberandi á samfélagsmiðlum og íslenskar tær. Mínar tær njóta sumarviðrunarinnar svo sannarlega og brosa við sólu með fagurlakkaðar neglur. Þær eiga það þó sameiginlegt með fjölda annarra táa að með lækkandi hitastigi eiga þær það til að fölna og blána og sætta sig því við vetrarbúnaðinn að mestu. Þó er ákveðinn söknuður eftir frelsi sumarsins, sérstaklega á stundum þegar skóinn kreppir að.
Mér finnst mjög gott að vera berfætt á sumrin en þó hamlar aðeins för að iljarnar eru undurviðkvæmar fyrir ójöfnum hvers konar. Síðastliðið sumar ákvað ástkær eiginmaðurinn að stíga fram í stéttabaráttunni og hellulagði af miklum móð undurfagra stétt við sumarbústaðinn okkar. Stéttinni var fagnað vel og lengi með margvíslegum hátíðahöldum en einn ókostur fylgdi þessari stéttlagningu: Pússningasandurinn. Þessum fíngerða sandi er sópað ofan í fúgurnar á milli hellnanna og ef hann héldi sig þar væri heimurinn fullkominn. Mér til ómældrar armæðu barst ótrúlegt magn af sandinum inn í hús og þá kom berlega í ljós að iljarnar á mér og pússningasandur eiga einfaldlega ekki samleið. Ég notaði því drjúgan hluta sumarfrísins í að hendast um húsið með kústinn (hefði helst viljað hendast um húsið á kústinum en hvorugt okkar hefur náð þeirri flugfærni enn sem komið er) að eltast við sand.
Af og til dúraði nú aðeins í stéttabaráttunni og við hjónin lögðum land undir fót, meðal annars gengum við í fyrsta sinn á Móskarðshnjúka, sérlega skemmtileg gönguleið með dásamlegu útsýni en á köflum fannst mér nú einstigið fullmjótt og frekar langt til jarðar og grjótið allt of laust í sér og vindhraði ofan velsæmismarka en nestið var mjög gott. Þar sem ég fikraði mig ofurhægt og varlega í traustbyggðu uppháu grófbotnuðu gönguskónum mínum eftir örmjórri gönguleiðinni, einbeitingin og núvitundin í hámarki, hrósandi happi yfir því að mæta engum á þessum stað, þá heyri ég skyndilega milda konurödd segja við mig ,,Afsakið, má ég taka fram úr?“ Mér dauðbrá og var næstum hröpuð til bana í snarbrattri skriðunni en náði jafnvægi á síðustu stundu og hallaði mér upp að fjallinu. Fram úr mér skoppaði léttfætt ung kona í fallegu göngupilsi, brosandi á vör og tindilfætt eins og fjallageit og skólaus í sokkum! Hún var á sokkaleistunum! Í stórgrýtinu! Fyrstu viðbrögð voru þau að kannski væri hún illa stödd fjárhagslega og hefði einfaldlega ekki efni á að fjárfesta í traustum gönguskóm en þegar ég fylgdist með henni feta stíginn hratt og örugglega komst ég að þeirri niðurstöðu að sennilega væri hún bara af annarri dýrategund en ég og þyrfti einfaldlega ekki á skóm að halda. Íbúarnir í gönguskónum mínum hrylltu sig við tilhugsunina um slíkt og ég sendi með hraði skilaboð niður í skóna um að hvorki tær mínar né iljar þyrftu að hafa áhyggjur af því að ég færi á sokkaleistunum í fjallgöngu.
Síðar um sumarið sigldi ég með fjölskyldunni á Hornstrandir og þá blasti við okkur enn skrýtnari sjón. Í hópi gönguferðalanga um borð var maður sem bar sig mjög mannalega, vel klæddur í góretex frá toppi til ökkla og virtist í ágætu gönguformi. Hann var berfættur. Fyrst hélt ég að hann væri bara að viðra tærnar fyrir gönguferðina um Hornstrandir enda litu fætur hans út fyrir að hafa verið geymdir í mjúku faðmlagi ortópedískra skóa frá upphafi. Smám saman rann upp fyrir samferðafólki að þarna væri eitthvað undarlegt á seyði og á endanum stóðst ég ekki mátið og spurði manninn hvort hann ætlaði í alvöru að labba berfættur um Hornstrandir. Hann horfði djúpt í augu mér og sagði á ensku með frönskum hreim (í lauslegri þýðingu pistlahöfundar): ;,Já, og hvað með það? Mínir fætur, mitt mál!“ Minnug fjallageitarinnar á sokkaleistunum áttaði ég mig á því að hver verður að kunna sínum eigin fótum forráð og óskaði manninum góðrar ferðar.
Guðríður Helgadóttir, fótfrá að vanda